Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 júlí 2003

Olíumálið - valdakreppa í borginni - málefni LA
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég um niðurstöður frumskýrslu Samkeppnisstofnunar um starfsemi Olíufélaganna - fer yfir málið og tjái mig um niðurstöðurnar, fjalla um þátt borgarstjóra í málinu en hann hefur verið bendlaður við málið af fjölmiðlum - undrast á að hann geri ekki hreint fyrir sínum dyrum og tjái sig um sín afskipti af málinu ef einhver eru og fjalla um möguleg áhrif þessa máls á stöðu hans sem borgarstjóra í Reykjavík og hvort borgarfulltrúar R-listans muni taka ábyrgð á honum en hann situr á stóli borgarstjóra í þeirra umboði, og að lokum fjalla ég um málefni Leikfélags Akureyrar - en óvissu um starfsemi þess hefur verið eytt eftir að bæjarráð Akureyrar samþykkti í vikunni tillögur vinnuhóps um framtíð LA.


Leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com - John Schlesinger
Í dag birtist þriðja leikstjóraumfjöllun mín á kvikmyndir.com. Í þessari leikstjóraumfjöllun hef ég tekið saman ítarlega umfjöllun um leikstjórann John Schlesinger og helstu verk hans. Á leikstjóraferli sínum setti Schlesinger mikið mark á kvikmyndasögu seinni hluta 20. aldarinnar, hann starfaði sem leikstjóri í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum og leikstýrði mörgum af eftirminnilegustu kvikmyndum síns tíma.

26 júlí 2003

Mál varnarliðsmannsins - lífróður Blair - ríkið og fjölmiðlar
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni bandaríska varnarliðsmannsins - en mikið hefur verið rætt um þau í fréttum seinustu vikur og deilt um lögsögu í málinu og hvort réttað skyldi yfir honum fyrir íslenskum dómstólum eða bandarískum herdómstól, um pólitíska erfiðleika Tony Blair forsætisráðherra Bretlands - sem sífellt virðast vera að magnast og greinilegt að sjálfsmorð dr. David Kelly hefur orðið til að veikja til muna stöðu hans innan Verkamannaflokksins og sem leiðtoga bresku þjóðarinnar, og að lokum um ríkið og fjölmiðla - fjalla ég áfram um framtíð RÚV og velti fyrir mér þeirri spurningu hvort ríkið eigi yfir höfuð að reka fjölmiðla í upphafi 21. aldarinnar, tæpum 20 árum eftir að einokun ríkisins á ljósvakamarkaði leið undir lok.

Lögin hans Valda - minningardiskur um Valda frænda
10. júlí sl. hefði móðurbróðir minn, Þorvaldur Friðriksson á Eskifirði orðið áttræður. Þorvaldur eða Valdi eins og hann var reyndar ávallt kallaður var alla tíð mjög virkur í félagsmálum staðarins og einkum þeim þáttum sem tengdust tónlistinni. 13 ára gamall fór hann að leika á harmonikku og gerði það til æviloka, en hann lést í október 1996. Hann spilaði mjög oft á dansleikjum víða um Austurland, allt frá Álftafirði til Norðfjarðar. Hann var alltaf tilbúinn að leggja lið og draga fram nikkuna þegar á þurfti að halda, hvort sem var á böllum eða við önnur tækifæri. Valdi var einnig góður söngmaður, hann samdi fjölmörg lög, bæði dans- og sönglög og var í tilefni 80 ára afmælis hans gefinn út geisladiskur með lögum hans. Mikilvægt þótti að gefa út diskinn, bæði til að skemmta fólki með góðum lögum Valda og eins til að varðveita þau með þessum hætti. Ellert Borgar Þorvaldsson skólastjóri í Reykjavík og sonur Valda, syngur öll lögin á disknum. Diskurinn er þó fyrst og fremst gefinn út til að minnast heiðursmannsins Valda á Eskifirði.

16 júlí 2003

Sameining við Eyjafjörð - valdatafl í Bretlandi - samgöngumál
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um málefni Héðinsfjarðarganga, ennfremur um hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði við Siglufjörð samhliða göngunum, valdatafl innan breska Verkamannaflokksins í kjölfar þess að flokkurinn tapar fylgi og forsætisráðherrann verður veikari sem forystumaður hans og að lokum um samgöngumál og framtíð í þeim efnum í kjölfar 5 ára afmælis Hvalfjarðarganganna í vikunni.

Leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com - John Ford
Í vikunni birtist önnur leikstjóraumfjöllun mín á kvikmyndir.com. Í þessari leikstjóraumfjöllun hef ég tekið saman ítarlega umfjöllun um leikstjórann John Ford og helstu verk hans. Á ferli sínum leikstýrði hann yfir 130 kvikmyndum og hlaut óskarinn fyrir leikstjórn oftar en nokkur maður, fjórum sinnum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð - hann var einn af þeim sem gerði Hollywood að því kvikmyndastórveldi sem það er í dag. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

06 júlí 2003

Varnarmálin - biturð á vinstrivængnum - undrun og vonbrigði
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com er fjallað á ítarlegan hátt um varnarmálin. Þar fer ég yfir nýjustu atburði í málinu, fréttir af einhliða ákvörðunum Bandaríkjamanna sem leiddu til þess að viðræður um varnarsamninginn hófust eftir að áhrifamenn beittu sér fyrir lausn málsins, viðbrögðum forsætisráðherra og ummælum hans í vikunni, óábyrgum og ómarkvissum málflutningi Samfylkingarinnar og spái í framtíð viðræðnanna og hvað taki við. Ennfremur fjalla ég um biturð á vinstrivæng íslenskra stjórnmála eftir úrslit þingkosninganna og lýsi að lokum yfir undrun minni og vonbrigðum vegna frestunar á Héðinsfjarðargöngum. Þessi ákvörðun er reiðarslag fyrir íbúa á mínu heimasvæði og íbúa Norðurlands almennt.

03 júlí 2003

Leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com
Hef ég hafið skrif á kvikmyndavefinn kvikmyndir.com um leikstjóra. Held áfram fyrri umfjöllun sem áður var á öðrum vefum, mun taka fyrir meistara kvikmyndasögunnar og fjalla um feril þeirra og verkin sem eftir standa, meistaraverk þeirra - gullmola kvikmyndasögunnar. Í fyrsta pistlinum á nýjum vettvangi hef ég tekið saman ítarlega umfjöllun um leikstjórann Martin Scorsese og helstu verk hans. Hann er hiklaust einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldarinnar, sannkallaður meistari í að tjá mannlíf og koma með raunsanna úttekt á mafíuheiminum. Fáum hefur tekist betur að fanga athygli kvikmyndaunnenda og jafnframt að ná fram því allra besta frá leikurum sínum.