Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 september 2003

Hugsjónir og reynsla – vaknað af ESB-blundi – sameiningarumræða
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com fjalla ég um kosningar í Heimdalli sem verða næstkomandi miðvikudag – verður þar kosið milli tveggja lista. Hefur kosningabaráttan tekið á sig athyglisverðar myndir seinustu daga og ljóst að framundan er harður slagur um völd í stærsta ungliðafélagi Sjálfstæðisflokksins. Greinilegt er að Samfylkingin er að vakna af Evrópublundi sínum eftir að hafa lagst til svefns þegar ljóst var að kjósendur hefðu engan áhuga á Evrópumálunum fyrir seinustu alþingiskosningar, ég fjalla um Evrópumálin og skemmtilegar u-beygjur Samfylkingarmanna í málinu. Að lokum fjalla ég stuttlega um sameiningarmál sveitarfélaga við Eyjafjörð, enginn vafi er á því í mínum huga að eitt sveitarfélag í Eyjafirði er glæst framtíðarsýn.

27 september 2003

Hugsjónir skipta máli!
Kosningabaráttan fyrir Heimdallarkosningar á miðvikudag er komin á fullt. Framboðin keppast þessa dagana við að kynna sig og stefnu sína fyrir þeim sem í félaginu eru. Framboð Atla Rafns Björnssonar og stuðningsmanna hans hefur sett fram ítarleg og greinargóð málefni til að vinna eftir ef Atli nær kjöri, og kynnir þau vel á vef sínum, hugsjonir.is. Annað er hinsvegar hægt að segja um mótframboðið sem hefur veika og efnislitla stefnu og virðist ætla að stunda eitthvað annað en pólitísk skoðanaskipti og beitta umræðu á öllum sviðum. Svo virðist vera að þar skipti eitthvað allt annað máli en hugsjónir og reynsla. Hinsvegar er framboð Atla Rafns með gríðarmikla áherslu á reynslumikið fólk og góð málefni. Það er engin spurning að Heimdalli er best borgið undir stjórn þeirra sem þar fara. Heimdallur á gott skilið - hugsjónir og reynsla eiga að vera aðalsmerki félagsins í heild á næsta starfsári.

25 september 2003

Leikstjóraumfjöllun - Woody Allen
Í vikunni birtist leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com um leikstjórann Woody Allen. Woody Allen er hiklaust einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna. Hann hefur gert heimaborg sína, New York, að umgjörð bestu kvikmynda sinna og sýnir henni mikla tryggð. Allen stendur framarlega í flokki helstu snillinga kvikmyndaheimsins á seinustu áratugum. Engum hefur sennilega tekist öðrum fremur að fanga athygli kvikmyndaunnenda, annaðhvort með því að heilla þá eða valda hneykslan þeirra og ná ennfremur fram því allra besta frá leikurum sínum.

24 september 2003

Heimdallarkosning
Framundan er baráttan um Heimdall. Þar verða í framboði tveir listar, rétt eins og seinustu tvö ár. Það verður án efa áhugaverð og skemmtileg barátta. Frændi minn, Atli Rafn Björnsson, er í framboði til formennsku í Heimdalli. Hann hefur seinustu tvö ár verið gjaldkeri stjórnar Heimdallar. Hann er rétti maðurinn til að fylgja eftir því sem stjórnir Björgvins Guðmundssonar og Magnúsar Þórs Gylfasonar, hafa unnið að seinustu árin. Með honum í framboði er traust og gott fólk sem ég treysti betur en nokkrum öðrum til að leiða Heimdall á komandi árum. Ég hvet alla félaga mína í Reykjavík til að fylkja sér um Atla Rafn og þá sem með honum eru í framboði.

Málefnasnautt framboð
Við sem viljum Heimdalli vel og teljum að þar hafi verið vel haldið á málum, bíðum enn eftir því að mótframboðið undir forystu Bolla Thoroddsen og annarra Deigluliða, komi fram með málefni sín og útlisti hvernig þau telji best að ná fram þeim "breytingum" sem þau telja nauðsynlegar. Það skyldi þó ekki vera að eina breytingin sem þau telji nauðsynleg sé að víkja frá sannri hægristefnu og feta mörg ár til baka og fara að innprenta einhverja misgáfulega vinstristefnu inn í Heimdall og það sem hann á að standa fyrir. Okkur sem viljum halda áfram á sannri ferð til hægri mislíkar aðfarir þessa framboðs og viljum að þau komi hreint fram og segi hvað þau vilji gera. Orðið breytingar er þreytt orð og margt betra hægt að bjóða Heimdellingum heldur en svo þreyttan frasa.

Pétur tekur Ögmund í gegn
Gaman var að fylgjast með Kastljósinu í kvöld og sjá Pétur Blöndal alþingismann, taka Ögmund Jónasson alþingismann, í gegn í umræðum um tillögur VG um að setja hömlur á eign manna í fyrirtækjum og tillögur um viðskiptafrelsi. Þegar verið var að ræða um hlutabréfakaup sneri Pétur vel á hann þegar hann benti á að ÖJ væri sem nefndarmaður í stjórn lífeyrissjóða, mikið í verðbréfabraski og viðskiptum almennt og hagnaðist vel á þessu sjálfur. Ögmundur hefur sjaldan orðið rauðari í framan en í kvöld.

21 september 2003

SUS þing - nýr formaður - stjórnarseta í SUS - Heimdallur
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com, fjalla ég um þing Sambands ungra sjálfstæðismanna í Borgarnesi, helgina 12. – 14. september sl. Ég fer yfir það markverðasta sem gerðist á þinginu. Ennfremur fjalla ég um nýja forystu SUS en Hafsteinn Þór Hauksson var kjörinn formaður og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir varaformaður. Ég var kjörinn í stjórn SUS fyrir Norðausturkjördæmi og fjalla ég um mín markmið í starfinu í stjórninni. Mikilvægast þar er að mínu mati að efla vefsíðu SUS og félagsstarfið um allt land. Að lokum fjalla ég um stjórnarkjör í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem framundan er.

Anna Lindh kvödd
Um helgina var Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, jarðsungin í Stokkhólmi. Var athöfnin einungis fyrir nánustu ættingja, pólitíska samherja og vini hennar. Á föstudag var minningarathöfn um hana í Ráðhúsinu í Stokkhólmi. Um 1.300 gestir voru viðstaddir athöfnina sem stóð í hálfa aðra klukkustund. Fluttar voru mjög hjartnæmar ræður um framlag hennar til stjórnmála, ekki bara í Svíþjóð heldur á alþjóðavísu. Meðal þeirra sem flutti ræðu var Göran Persson forsætisráðherra, sem kvaddi þarmeð einn sinn nánasta pólitíska samherja. Ræða hans sem snertir viðkvæma strengi, er skyldulesning fyrir alla þá sem vilja minnast eins af kraftmestu stjórnmálaleiðtogum Svíþjóðar seinustu áratugina.

18 september 2003

Leikstjóraumfjöllun - Elia Kazan
Í vikunni birtist leikstjóraumfjöllun á kvikmyndir.com um leikstjórann Elia Kazan. Elia Kazan fæddist 7. september 1909 í Constantinople í Grikklandi. Hann er einn af áhrifamestu leikstjórum Bandaríkjanna á 20. öld. Án vafa meistari í góðri kvikmyndagerð og náði einkar vel að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Fáir leikstjórar hafa í raun sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð og kvikmyndaveldið Hollywood. Þrátt fyrir allt er hann einn meistaranna í kvikmyndaheiminum, einn þeirra sem gerðu Hollywood að stórveldi.

Borgarnesræða Davíðs Oddssonar
Á föstudagskvöld ávarpaði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, gesti á þingi SUS í Borgarnesi, og sátu fjórir af sex ráðherrum flokksins fyrir svörum eftir það. Nokkur svör forsætisráðherra, við spurningum um grundvallarréttindi og skyldur íslenskra borgara, vekja sérstakan fögnuð. Í umræðum um skattamál sagðist Davíð, meðal annars, eiga von á því að hátekjuskattur yrði afnuminn á kjörtímabilinu. Davíð var einnig spurður hvort hann myndi styðja lagabreytingar sem fælu í sér að opinberri birtingu álagninga- og skattskráa yrði hætt. Davíð svaraði því til að hann teldi birtingu slíkra gagna bæði óþarfa og ónauðsynlega. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir slíkum lagabreytingum og voru þingmönnum send bréf í ágúst síðastliðnum og þeir hvattir til þess að gera sitt til að málið næði fram að ganga.

Ályktanir SUS komnar á netið
Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna var eins og kunnugt er haldið í Borgarnesi um seinustu helgi. Yfirskrift þess var Frelsi til að velja. Fram kemur í stjórnmálaályktun þingsins að ungir sjálfstæðismenn trúa umfram allt á frelsi mannsins og mannsandans. Það er skoðun okkar að frjálst val einstaklinga sé grundvöllur viðvarandi hagsældar á Íslandi og forsenda efnahagslegra framfara. Ríkisvaldið eigi að lágmarka afskipti sín af einstaklingum og fyrirtækjum. Á þinginu var mótuð stefna ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins til næstu tveggja ára og hvet ég alla sem þetta lesa að kynna sér ályktanir þingsins.

16 september 2003

Hafsteinn Þór kjörinn formaður SUS
Hafsteinn Þór Hauksson var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á 37. þingi SUS á Borgarnesi á sunnudag. Hafsteinn Þór fékk 95 atkvæði af 122 gildum atkvæðum eða 78%, auð og ógild atkvæði voru 16, Hafsteinn var sá eini sem hafði opinberlega gefið kost á sér í embættið. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var kjörin 1. varaformaður sambandsins, en hún hafði einnig ein gefið opinberlega kost á sér til þess embættis. Hafsteinn er fæddur 11. ágúst 1978 og býr í Garðabæ. Hann er sonur Hauks R. Haukssonar og Rannveigar K. Hafsteinsdóttur. Systkini Hafsteins eru Haukur Þór, fjármálaráðgjafi og varabæjarfulltrúi, og Guðný Kristín, tannsmiður. Kærasta Hafsteins er Hrefna Ástmarsdóttir, nemi í stjórnmálafræði. Ég óska Hafsteini félaga mínum og fjölskyldu hans, innilega til hamingju með kjörið.

Kjörinn í stjórn SUS
Ég hef á seinustu árum reynt af fremsta megni að tjá mig um hitamál samtímans og taka þátt af krafti í stjórnmálum. Á þingi SUS var ég kjörinn í stjórnina fyrir Norðausturkjördæmi. Ég mun í stjórninni verða málsvari aðildarfélaga ungliðanna fyrir kjördæmið og mun kappkosta að tala máli ungra sjálfstæðismanna hér. Ég er ávallt til umræðu um málin og þeir ungliðar í kjördæminu sem vilja ræða við mig um pólitík hvet ég til að senda mér tölvupóst eða hringja í mig. Framundan eru spennandi tímar hjá Sjálfstæðisflokknum og ég vil vinna af krafti fyrir kjördæmið í starfinu innan SUS.

11 september 2003

11. september minnst - morðið á Önnu Lindh
Í pistli á vefsíðu minni í dag, fjalla ég um árásirnar á New York og Washington, 11. september 2001, en í dag eru tvö ár liðin frá þeim. Fer ég yfir það sem gerst hefur í alþjóðamálum frá þeim tíma og hvernig staða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, hefur breyst á þessum tíma. Ennfremur fjalla ég um sorglegt fráfall Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem lést í nótt af sárum sínum, eftir að henni var ráðist með hnífi í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi. Morðið á Önnu Lindh er sorgleg aðför að lýðræðinu og áminning um að bæta öryggisgæslu stjórnmálamanna á Norðurlöndum.

Tvö ár frá hryðjuverkum
Í dag, 11. september, er þess minnst að tvö eru liðin frá hryðjuverkaárásunum grimmdarlegu á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið, árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center í rjúkandi rúst og svo hinni táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar á sinn hátt um allan heim. Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðar minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Á þessum tveim árum hefur mannlífið í Bandaríkjunum verið að taka á sig sömu mynd og áður en andrúmsloftið verður aldrei samt eftir það mikla rothögg sem þessi árás var fyrir allt vestrænt samfélag og Bandaríkjamenn. Þjóðerniskennd hefur sennilega aldrei verið meiri en nú á þessum 24 mánuðum sem liðnir eru, og hetjanna sem létust í árásinni verður minnst um allan heim í dag.

Þjóðarsorg í Svíþjóð
Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, lést á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í nótt af völdum innvortis blæðinga í kjölfar þess að ráðist var á hana með hnífi í verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms í gær. Hún hlaut sár á bringu, handlegg og maga. Í kjölfar árásarinnar fór hún í aðgerð sem stóð fram eftir nóttu. Almenningur í Svíþjóð er felmtri sleginn vegna morðsins á Önnu Lindh, þjóðarsorg er í landinu. Morðið á henni minnir óneitanlega á morðið á Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, 28. febrúar 1986 en hann var skotinn til bana á götuhorni í miðborg Stokkhólms þar sem hann var að koma úr kvikmyndahúsi. Er ekki óeðlilegt að upp komi nú umræða þess efnis hvort sænskir stjórnmálamenn njóti nægrar verndar. Utanríkisráðherrann var í einkaerindum án lífvarða að versla þegar að henni var ráðist, og spurning hvort efla verður öryggisgæslu. Ákveðið hefur verið að fresta ekki kosningu um Evruna sem fram átti að fara um helgina, þrátt fyrir morðið á Önnu Lindh. Anna Lindh er harmdauði, það er sorglegt að ráðist sé að stjórnmálamanni á Norðurlöndum með svo skelfilegum hætti. Morðið á henni er aðför að lýðræðinu.

05 september 2003

Vandræðaleg eyðimerkurganga - pólitík í Bandaríkjunum og Bretlandi
Í sunnudagspistli vikunnar fjalla ég um vandræðalega pólitíska eyðimerkurgöngu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem virðist vart vita í hvern fótinn stíga skal á næstunni – spunameistarar hennar í pólitík hafa leitt hana út í eyðimörkina og erfiðara að komast úr henni en henni hefur eflaust þótt áður og ennfremur er greinilegt að öllum lygabrögðum er beitt til að ata andstæðingana auri eins og sannaðist á borgarstjórnarfundi í vikunni, og lítum á pólitíkina í Bandaríkjunum þar sem forsetaframbjóðendur demókrata reyna að vekja á sér athygli með litlum sýnilegum árangri enn sem komið og í Bretlandi þar sem Tony Blair reynir enn að komast úr eigin spunavef lyga og blekkinga og að flýja skugga Davids Kellys sem virðist ætla að hafa varanleg áhrif á pólitískan feril hans úr þessu.

Biðleikur - formannsstóll pantaður
Í vikunni birtist pistill minn á frelsi.is um valdabaráttuna innan Samfylkingarinnar og nýjustu fréttir af þeim. Framundan er biðleikur innan flokksins eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem tilkynnti í síðustu viku um formannsframboð sitt eftir tvö ár, sem er einsdæmi í stjórnmálasögu landsins, enda ekki á hverjum degi sem formannsstóll er pantaður með svo löngum fyrirvara. Það er ljóst að varaþingmaðurinn ætlar að vera vakandi yfir flokknum heima sem erlendis á vegferð sinni til formennskunnar. Hennar persónulegi metnaður gengur fyrir sem ávallt fyrr. Hún treystir sér ekki til að fara í formannsslag heldur vinnur bak við tjöldin að því að veikja formanninn kerfisbundið. Tilkynning um formannsframboð að tveim árum liðnum er einsdæmi hérlendis og vandræðagangurinn í kringum þetta talsverður.

Háskólinn í Reykjavík 5 ára
Í gær fagnaði Háskólinn í Reykjavík 5 ára afmæli sínu. 4. september 1998 var skólinn settur í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn. Í gær kl. 16:00 var svo haldin afmælishátíð skólans í Salnum í Kópavogi. Þar var m.a. kynnt ný Rannsóknarmiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum við viðskiptadeild og Rannsóknarstofnun í auðlindarétti við lagadeild sem stofnaðar eru í tilefni dagsins. Í tilefni dagsins flutti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ávarp. Enginn maður á meiri heiður skilið fyrir að koma skólanum á fót en hann. Hann breytti lögum um háskóla í menntamálaráðherratíð sinni 1995-2002 og kom nauðsynlegum breytingum í gegn og fer yfir sögu skólans og marga þætti tengda einkaskólum í þessari ræðu sinni.

Góðir pistlar Kristins Más
Í vikunni hafa birst tveir góðir pistlar á frelsi.is eftir félaga minn, Kristinn Má Ársælsson. Þar fjallar hann um vinstrivillur í landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins, í mars 2003. Sú fyrri er um skóla- og menntamál en hin um málefni eldri borgara. Vöktu þessar greinar mikla athygli mína, finnst gott að einhver í ungliðahreyfingunni tjái skoðanir sínar á landsfundarsamþykktunum og fari yfir það sem betur megi fara. Er að flestu leyti sammála Kristni og hvet hann til að halda áfram og fjalla um alla málaflokka. Er viss um að hann muni gera það. Mjög gott hjá honum.