Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 nóvember 2003

Frú Vigdís Finnbogadóttir forsetiHeitast í umræðunni
Norðurbryggja - menningar- og rannsóknarmiðstöð, var opnuð almenningi í Kaupmannahöfn í dag. Við Norðurbryggju munu ennfremur verða sendiskrifstofur Færeyja og Grænlands og sendiráð Íslands. Miðstöðin er staðsett í gömlu pakkhúsi frá árinu 1767, sem hefur verið gert upp til þess að hýsa starfsemi sem í því verður. Í tengslum við opnun Norðurbryggju var ráðstefna um norræn tungumál haldin. Norðurbryggja var opnuð formlega á fimmtudag. Viðstödd opnunina voru Margrét Þórhildur Danadrottning, Vigdís Finnbogadóttir formaður stjórnar menningarmiðstöðvarinnar og fyrrverandi forseti Íslands, Davíð Oddsson forsætisráðherra, Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Anfinn Kallsberg lögmaður Færeyja, Høgni Hoydal varalögmaður Færeyja, og Josef Motzfeldt varaformaður grænlensku landsstjórnarinnar. Sama dag undirrituðu Tómas Ingi, Høgni og Josef samstarfssamning um menningar-, mennta- og rannsóknarstarf. Markmiðið með samningnum er að miðla í auknum mæli þekkingu og reynslu á milli landanna og skapa grundvöll fyrir samstarfsverkefni sem þjóna sameiginlegum hagsmunum. Í gær var Vigdís Finnbogadóttir gerð að heiðursfélaga Dansk íslenska verslunarráðsins.

ESBFram kemur í athyglisverðri frétt á Heimssýn að samkvæmt fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins muni aðildarríki sambandsins ekki geta rekið sjálfstæða utanríkisstefnu. Um verði einungis að ræða sameiginlega utanríkisstefnu sambandsins. Í stjórnarskrá ESB er kveðið á um að sett verði á laggirnar embætti utanríkisráðherra Evrópusambandsins sem muni verða eins konar talsmaður sambandsins, og ennfremur framkvæmdaaðili fyrir þess hönd, í samskiptum við aðila utan sambandsins. Fram kemur í fréttinni að sum aðildarríki Evrópusambandsins hafi lýst sig alfarið andvíg þessum hugmyndum. Aðallega er þar um að ræða ýmis minni ríki sambandsins sem óttast að slík sameiginleg utanríkisstefna muni að mestu leyti mótast af hagsmunum stóru ríkjanna. Stóru ríkin séu hinsvegar mjög hlynnt því að komið verði á sameiginlegri utanríkisstefnu fyrir Evrópusambandið, að undanskyldu Bretlandi. Þarlend stjórnvöld hafa lýst sig andsnúin sameiginlegri utanríkisstefnu. Samfylkingin hefur ein íslenskra stjórnmálaflokka, lýst því formlega yfir að hún vilji ESB-aðild Íslendinga. Undarlegt mjög er að flokkur sá skuli gagnrýna íslensk stjórnvöld fyrir að reka ekki sjálfstæða utanríkisstefnu, t.a.m. í tengslum við stríðið í Írak, á sama tíma og flokkurinn vill að landið gangi í ESB þar sem fyrir liggur að sjálfstæð utanríkisstefna verður ekki rekin að nokkru leyti.

Drífa HjartardóttirSvona er frelsið í dag
Í athyglisverðu netviðtali við Drífu Hjartardóttur á frelsinu í dag kemur fram að hún hefði fremur viljað gera samning við sauðfjárbændur undir merkjum frjálsra viðskipta. Er það mat hennar að aukin ríkisafskipti séu ekki rétta leiðin til að bjarga sauðfjárbændum. Orðrétt segir hún: "Vandi sauðfjárbænda og tekjumissir þeirra núna síðustu ár á sér ákveðnar skýringar. Of margir eru að framleiða fyrir of lítinn markað. Hvíta kjötið hefur skekkt samkeppnisstöðuna vegna þess að það hefur verið selt langt undir framleiðslukostnaði í tvö ár með lánsfé frá bönkunum. Slíkt er hægt að réttlæta í söluátaki um stuttan tíma. Gjaldþrot Goða og Ferskra afurða hafa einnig haft sitt að segja.”

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjallið
Í Íslandi í dag í gærkvöldi voru Hallur Hallsson og Stefán Jón Hafstein gestir Jóhönnu og Þórhalls, er farið var yfir fréttir vikunnar. Rætt var um kaupréttarsamningsmálið og málefni RÚV í kjölfar frumvarps þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins þess efnis að einkavæða stofnunina. Var mikið rætt um málefni Spegilsins og það hvernig fréttamenn sem vinna við þann þátt hafa komið fram í fjölmiðlum. Var Hallur ekki sáttur við það og sagðist aldrei þrátt fyrir að hafa verið sakaður um ýmislegt í sinni tíð svarað slíku í fjölmiðlum. Hann hafi ekki fyrr en eftir að hafa hætt störfum við fjölmiðla rætt þau mál opinberlega, t.d. í blaðagreinum. Sömu umræðuefni voru aðalefni í Kastljósinu, en þar voru Siggi Kári, Margrét Sverrisdóttir og Guðmundur Steingrímsson, gestir Kristjáns og Svansíar. Skemmtilegt spjall og farið víða við að ræða málin. Skemmtilegast var þegar Siggi og Margrét (form. hollvinasamtaka RÚV) ræddu frumvarp um breytingar á RÚV.

Þorvaldur, Sigga og BubbiSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Fór seinnipartinn til Hönnu systur þar sem var létt og góð stemmning og skemmtilegur hópur samankominn. Fengum við okkur að borða og röbbuðum vel saman málin. Eftir það var horft á Idol. Alltaf gaman að líta á þennan fína þátt. Nú er vika í að úrslitakeppnin byrji og var gaman að horfa á svona samantekt þess sem gerst hefur frá í september er þættirnir hófu göngu sína. Eftir þáttinn var skemmtilegt spjall um pólitík á fullu. Horfðum við saman á hina mögnuðu úrvalsmynd Með allt á hreinu. Hefur sú mynd lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Horfi reglulega á hana. Sannkölluð háklassík. Fór að því loknu heim, en horfði þá á stórmynd Wilders, Sunset Boulevard. Hiklaust eftirminnilegasta og beittasta mynd leikstjórans. Mögnuð svört kómedía um leikkonuna Normu Desmond sem muna má sinn fífil fegurri frá tímum þöglu myndanna þegar hún var nafli alheimsins í bransanum. Nú er hún aðeins skugginn af sjálfri sér, alein og bitur og lifir í blekkingu um forna frægð sem er ekki lengur til staðar. Þegar hún kynnist ungum handritshöfundi sér hún í hillingum að hennar tími geti komið aftur, en er allt sem sýnist hjá leikkonunni? Ein eftirminnilega kvikmynd seinustu aldar. Alltaf gaman að horfa á hana.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vefsíðu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Daglega skrifar hún á vefinn hvað hún gerir í starfi og einkalífi. Ennfremur skreytir hún vefinn með myndum af því sem hún gerir og af fjölskyldu sinni. Litríkur og góður vefur stjórnmálamanns í fremstu víglínu stjórnmála.

Snjallyrði dagsins
Heimspeki er heilbrigð skynsemi í sparifötunum.
Óþekktur höfundur

28 nóvember 2003

Bush forseti í BagdadHeitast í umræðunni
Þakkargjörðadagurinn var í Bandaríkjunum í gær. Tilkynnt hafði verið að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, myndi dvelja á búgarði sínum í Texas í gær og yfir helgina. Óvænt hélt hann í gærmorgun áleiðis til Íraks. Dvaldi forsetinn í rúmlega 2 klukkustundir á flugvellinum í Bagdad og snæddi kvöldmat með bandarískum hermönnum sem þar eru. Þetta er í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna heimsækir Írak, tilgangur heimsóknarinnar var að efla baráttuanda bandarískra hermanna. Skv. fréttum vissu aðeins fáir aðstoðarmenn Bush að þessi ferð væri á dagskrá. Blaðamenn sem meðferðis þurftu að skrifa undir samkomulag þess efnis að segja ekki frá henni fyrr en forsetinn væri farinn frá Írak. Forsetafrúin Laura, og foreldrar forsetans, Barbara og George Bush, eldri vissu ekki af för hans til Íraks fyrr en í gærmorgun. Bush var klæddur herjakka þegar hann birtist í herskálanum. Eftir að hafa verið hylltur af hermönnunum ávarpaði hann þá. Hann fór í röðina með hermönnum til að sækja sér mat og lét taka af sér mynd með kalkún á diski en kalkúnn er hefðbundinn þakkargjörðarréttur í Bandaríkjunum. Þetta var söguleg heimsókn, vissulega í anda heimsóknar George Bush eldri til hermanna í Saudi Arabíu á þakkargjörðardaginn 1990, skömmu fyrir upphaf Persaflóastríðsins.

AlþingiHart var tekist á í umræðum á Alþingi í gær um ofurlaun stjórnenda fyrirtækja. Jóhanna Sigurðardóttir fór fram á þessa umræðu utan dagskrár og talaði í ræðu sinni meðal annars um neðanjarðalaunakerfi stjórnenda fyrirtækja þar sem geðþóttaákvarðanir og græðgi réðu för. Sagði hún í ræðu sinni við upphaf umræðunnar að kaupréttarsamningsmálið í heild sinni sýndi alvarlegar gloppur í löggjöf um verðbréfamarkaðinn og alvarlega siðferðisbresti. Hart var sótt að viðskiptaráðherra í þessari umræðu og reyndar af fleirum en Jóhönnu. Kom Steingrímur J. Sigfússon flutti eldmessu yfir þessum vinnubrögðum og fordæmdi að ekki væru lög í þessum efnum og fór mikinn og las t.d. upp úr Lúkasarguðspjalli. Ennfremur kom Álfheiður Ingadóttir varaþingmaður VG, í pontu og réðist að ráðherranum harkalega. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, svaraði fyrir sig með krafti. Sagðist hún telja að umræðan í kjölfar kaupréttarsamningsins væri til góða fyrir þjóðfélagið. Sagði hún að markaðurinn ætti ekki að vera tómarúm án alls samhengis við það samfélag sem skóp hann. Fyrirtæki á markaði bæri í raun ekki aðeins ábyrgð gagnvart fjárfestum heldur einnig gagnvart samfélaginu. Valgerður sagðist telja óhjákvæmilegt að löggjafinn taki þetta mál upp og slík vinna sé þegar hafin í viðskiptaráðuneytinu. Hún væri þó ekki hlynnt því að banna kaupréttarsamninga, tók hún þar undir með Pétri Blöndal. Var gaman að fylgjast með umræðunum, enda hart tekist á.

Michael HowardNý skoðanakönnun dagblaðsins Daily Telegraph á fylgi bresku stjórnmálaflokkanna sýnir Íhaldsflokkurinn mælast ívið stærri en Verkamannaflokkinn. Fylgisaukning íhaldsmanna er að mestu leyti á kostnað Frjálslyndra demókrata. Þessi könnun telst vera mikill sigur fyrir Michael Howard leiðtoga flokksins. Hann tók við stjórn flokksins, 6. nóvember sl. eftir að Iain Duncan Smith hafði verið ýtt til hliðar með vantraustskosningu. Í könnunni hefur Íhaldsflokkurinn 38% fylgi, hefur bætt sig um rúm 4%. Verkamannaflokkurinn hefur 36% og frjálslyndir demókratar 19%. Frá því Howard tók við leiðtogastarfinu hefur flokkurinn vaxið mjög. Telja flestir það vera vegna skörulegrar framgöngu hans en hann hefur óhikað ráðist og það af krafti að ríkisstjórn Blairs forsætisráðherra. Þótti hann tjá sig af krafti um stefnuræðu ríkisstjórnarinnar í vikunni.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Alltaf er mikið um að vera á frelsinu, skemmtilegir pistlar og fróðlegar fréttir. Í gær birtist þar góður pistill Helgu um málefni opinberra starfsmanna, sem var gaman að lesa. Segir hún að opinberir starfsmenn sem standi sig illa í vinnunni séu ekki reknir. Þrátt fyrir að þeir sýni af sér óstundvísi, óhlýðni við lög eða yfirmann, vankunnáttu í starfi, ósæmilega hegðun eða jafnvel mæta ölvaðir til vinnu. Ekki nema þá að yfirmaðurinn gangi í gegnum langt ferli og óþarfa skriffinsku. Segir hún að til að byrja með beri yfirmanni skylda til að reyna tala við starfsmanninn fyrst og reyna fá hann til að bæta um betur. Verði því ekki komið við skuli yfirmaðurinn senda skriflega áminningu. Eftir það eigi hinn opinberi starfsmaður lögbundinn rétt á að fá tækifæri til að bæta ráð sitt. Skemmtilegt ferli sem þarna kemur fram, tek undir með Helgu að þetta fyrirkomulag er stórundarlegt. Í dag birtist svo fínn pistill Steina þar sem hann fjallar um fiskveiðistjórnunarkerfið. Telur hann nauðsynlegt að gera bragarbót á lögum um fiskveiðistjórnun og fer vel yfir málið í pistlinum.

Fjalar og Inga LindDægurmálaspjallið
Mikið hefur verið af fréttaefni til að ræða um í dægurmálaspjallþáttum seinustu daga. Á miðvikudagskvöld ræddu Siggi Kári og Mörður Árnason um málefni RÚV og voru ekki alveg sammála um frumvarp þriggja sjálfstæðismanna um stofnunina sem nú liggur fyrir þinginu. Seinna sama kvöld var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gestur í Pressukvöldi RÚV. Þar var rætt um undarlega stöðu hennar sem varaformanns flokks sem hefur lýst yfir formannsframboði eftir tvö ár og ennfremur sem varaþingmanns í Reykjavík norður, en eins og allir vita náði hún ekki kjöri á þing í vor. Í gærkvöldi komu Pétur Blöndal og Jóhanna í Ísland í dag til að ræða umræðu dagsins á þinginu um laun stjórnenda fyrirtækja og ekki sammála í því máli eins og við mátti búast. Sýnt var frá hlægilegri ræðu landbúnaðarráðherra er hann tók við fyrsta eintaki Hundabókarinnar. Í morgun var Eiríkur Jónsson blaðamaður á DV, gestur Fjalars og Ingu Lindar í Íslandi í bítið. Farið var yfir fréttir vikunnar og barst talið að málum RÚV. Sagði hann að RÚV yrði ekki til í þessari mynd eftir 5-7 ár. Þetta er búið sagði hann um RÚV. Alltaf gott að eignast nýja bandamenn í baráttunni gegn ríkisfjölmiðlinum.

Some Like It HotKvikmyndir - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á hina ógleymanlegu kvikmynd Billy Wilder, Some Like It Hot. Það var árið 1959 sem Wilder og handritshöfundurinn I.A.L Diamond gerðu handritið að þessari mögnuðu mynd, sem telst ein eftirminnilegasta gamanmynd 20. aldarinnar. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem fyrr í hlutverki Sugar Kane í myndinni. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, hiklaust eitt af allra bestu verkum Billy Wilders. Eftir myndina hélt ég áfram að lesa um Jónas frá Hriflu, er langt kominn með annað bindið af þrem um þennan einn af eftirminnilegustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar. Mögnuð bók eftir Guðjón Friðriksson.

SUSHuginn 30 ára
Í dag fagnar Huginn, félag ungra sjálfstæðismanna, í Garðabæ 30 ára afmæli sínu. Milli kl. 18.00 og 20.00 mun félagið bjóða velunnurum sínum til fagnaðar í húsi Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ að Garðatorgi 7. Því miður kemst ég ekki í afmælið. Vil ég senda öllum félögum mínum í félaginu bestu kveðjur og hamingjuóskir með þessi merku tímamót. Vona ég að félaginu gangi vel á komandi árum.

Vefur dagsins
Á hverjum degi lít ég á vef Steingríms Ólafssonar, Fréttir. Þar er hann með nýjustu fréttirnar af gangi mála í pólitík og fjölmiðlum t.d. og þær kjaftasögur sem ganga og erindi eiga á netið. Góður vefur.

Snjallyrði dagsins
Enginn er annars bróðir í leik.
Máltæki

26 nóvember 2003

Elísabet II EnglandsdrottningHeitast í umræðunni
Breska þingið var sett í dag við viðhöfn í þinghúsinu við Westminster. Samkvæmt venju flutti Elísabet Englandsdrottning, stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Það er gömul hefð að þjóðhöfðinginn flytji ræðu samda af forsætisráðherranum í þingbyrjun þar sem stefna ríkisstjórnarinnar er kynnt ítarlega. Þingsetningin fer öll fram eftir gömlum hefðum og venjum og hefur lítið breyst seinustu aldir. Í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar kemur fram hvað ríkisstjórn Tony Blairs hyggst fyrir á næstu mánuðum. Eftir 6 og hálft ár við völd vekur athygli að enn er rætt um helstu stefnumál Verkamannaflokksins 1997 í stefnumótuninni. Þegar Michael Howard svaraði stefnuræðunni voru viðbrögð hans þessi: "Þeir eru á vegferð án hugmynda, peninga og eru að renna út á tíma. Eftir 6 og hálft ár hefur Blair misst tökin og stjórn hans vita ekki hver stefnan er. Hún er brunnin upp hugmyndalega séð, þetta vita þeir sjálfir best." Framundan er erfitt ár fyrir forsætisráðherrann.

RÚVÁ fundi útvarpsráðs í gær var tillaga sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í ráðinu þess efnis að færa allt fréttatengt efni á dagskrá RÚV undir fréttasvið. Með því færist ritstjórnarleg ábyrgð alls þessa efnis undir Boga Ágústsson yfirmann fréttasviðs RÚV. Í samþykkt útvarpsráðs kemur fram að með þessu verði allt efni sem kynnt sé og borið fram til landsmanna sem fréttir, fréttaþættir eða fréttaskýringar unnið af starfsfólki fréttasviðs og samkvæmt starfsreglum RÚV um fréttaflutning. Mun þetta gilda jafnt um útvarp sem sjónvarp af hálfu RÚV. Kom þessi tillaga fram í ráðinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, lýsti fréttaskýringaþættinum Speglinum á Rás 1 í innanhússtölvupósti sem "Hljóðviljanum" og lýsti þeirri vinstri slagsíðu sem þar væri að hans mati. Stjórnendur Spegilsins lýsa yfir óánægju sinni með þessa samþykkt og telja verið að ritskoða þáttinn á óeðlilegan hátt.

Gamla gufanTalandi um RÚV. Athyglisvert er að ríkisfjölmiðillinn hefur nú í samstarfi við einkaaðila boðað útgáfu á efni í safni sínu, útvarps- og sjónvarpsefni, gamalt sem nýtt. Hefur RÚV í því skyni samið við fyrirtækið Sonet, ákveðið að gefa út DVD disk með efni Ómars Ragnarssonar, lög úr Stundinni okkar og fleira er í bígerð. Mun tilgangurinn vera að sögn forsvarsmanna RÚV að varðveita gamalt efni og gera það enn aðgengilegra þeim sem það vilja eiga. Tilganurinn er ennfremur að auka tekjur RÚV að einhverju marki. Þetta er allt svosem gott og blessað, en með þessu má eflaust eiga von á lægri afnotagjöldum. Það verður sífellt minni þörf á þeim með auknum sértekjum. Líst mér vel á frumvarp þingmanna úr Sjálfstæðisflokknum um RÚV, það er kominn tími til að stokka þetta dæmi allt upp.

María MargrétSvona er frelsið í dag
Í dag birtust á frelsinu tveir mjög góðir pistlar. Sá fyrri er eftir félaga minn, Stefán Einar. Í pistli sínum fjallar hann um ýmsar athyglisverðar staðreyndir um Ísland í samanburði við aðrar þjóðir. Fátt finnst okkur Íslendingum nefnilega skemmtilegra en að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Fjallar Stefán Einar ennfremur um bókina "The top 10 of everything 2004" sem hann las nýverið. Að hans mati gefur sú bók harðsoðnar og auðmeltar upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Birti Stefán í pistlinum nokkrar mjög skemmtilegar staðreyndir sem þar koma fram. Hvetur hann alla til að lesa bókina. Mun ég lesa hana við tækifæri, enda forvitinn mjög um hana eftir þennan fína pistil. Í dag fjallar María Margrét í pistli sínum um erindi Petru Östergren nýlega, en hún kom hingað til lands til að fjalla um reynslu Svía af lagasetningu um vændi, en svipaðar hugmyndir og þar eru staðreynd koma fyrir í lagafrumvarpi þingkvenna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum, sem liggur fyrir þinginu. Að mati hennar er þörf á mun meiri umræðu og að gera fleiri rannsóknir áður en farið er í að innleiða lög sem geta haft hræðilegar afleiðingar. Tek ég undir með henni.

A Streetcar Named DesireSett upp ljós - MSN spjall - kvikmyndir
Eftir kvöldfréttirnar fór ég í það verkefni að setja upp ljós í íbúðinni við Þórunnarstræti. Hafði lengi staðið til að skipta út nokkrum ljósum og það var kominn tími á það. Fór fyrr um daginn í BYKO og keypti ljós. Ýmislegt dútl hefur staðið yfir á heimavelli seinustu daga við að fínisera. Eftir þetta fór ég á MSN og átti gott spjall við Kidda og Helgu, vantaði ekki umræðuefnin í það spjall. Að þessu loknu tók við kvikmyndagláp með tilheyrandi poppi og kóki. Horfði ég á hina sígildu stórmynd Elia Kazan, A Streetcar Named Desire. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkunum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando. Hann átti leiksigur í hlutverki Stanley og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Mögnuð mynd.

Lína amma - 1929Skemmtilegar myndir á netinu
Eins og um hefur verið fjallað hér fyrir skömmu fór stjórn SUS í heimsókn á Alþingi um miðjan nóvember. Var það mjög skemmtilegt og tókst mjög vel upp og allir höfðu gaman af. Á sus.is eru nú komnar inn myndir úr heimsókninni. Lýsa þær vel þessari skemmtilegu og fræðandi heimsókn í löggjafarþingið. Hvet alla til að líta á myndirnar. Eftir ábendingar frá mömmu og fleirum ættingjum fór ég á góðan ljósmyndavef Helga Garðarssonar á Eskifirði. Þar eru myndir frá Eskifirði af heimafólki og frá staðnum. Mamma er frá Eskifirði og þarna fjöldi mynda af ættingjum. Þarna er mynd af Línu ömmu, en amma fæddist í Eyjafirði 1. október 1913 og fluttist austur árið 1923 og bjó til 1974 á Eskifirði. Það ár fluttist hún ásamt mömmu og fjölskyldu minni til Akureyrar (en pabbi er Akureyringur). Hún lést 17. janúar 2000. Einnig er þarna mynd af Friðriki afa. Svo rakst ég á skemmtilega mynd af mömmu, sem tekin var árið 1947, af henni þá ársgamalli. Skemmtilegar myndir, gaman að líta á þennan góða vef.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á kvikmyndavefinn kvikmyndir.com. Þar er fersk kvikmyndagagnrýni, skrif um kvikmyndir frá ýmsum hliðum og margvíslegur fróðleikur. Reglulega skrifa ég þar umfjallanir um meistara kvikmyndasögunnar í leikstjórn.

Snjallyrði dagsins
Til sannrar þekkingar er gott hjartalag nauðsynlegt.
Sveinbjörn Egilsson rektor

25 nóvember 2003

Karl og EddaHeitast í umræðunni
Í gær var birt fjölmiðlakönnun Gallups, fyrir októbermánuð. Þar kemur margt athyglisvert fram. Helst vekur athygli að áhorf á kvöldfréttatíma Stöðvar 2 hefur minnkað verulega frá því hann var fluttur frá 18:30 til kl. 19:00. Á þeim tveim mánuðum sem liðnir eru frá breytingunum hefur áhorfið dregist saman mjög mikið. Persónulega fannst mér fyrra fyrirkomulag betra, alltsvo að fréttir Stöðvar 2 væru hálfsjö og svo væri hægt að horfa á hinar kl. sjö. Hjá mér er oftast horft á fréttir Sjónvarpsins en stundum er skipt á milli. Athygli vekur ennfremur í þessari könnun að lestur Fréttablaðsins hefur minnkað milli kannana, og Morgunblaðið sækir nokkuð á. Spaugstofan og Gísli Marteinn eru með langvinsælustu sjónvarpsþættina ef marka má könnunina, enda pottþéttir saman á laugardagskvöldum. Idol-stjörnuleit kemur svo sterkt inn með rúmlega 40% áhorf. En það vekur mesta athygli að Sirrý á Skjá einum hefur meira áhorf en fréttatími Stöðvar 2. Það er greinilegt að fréttir á Stöð mega muna sinn fífil fegurri.

Geir H. Haarde fjármálaráðherraÍ netviðtali á frelsi.is við Geir H. Haarde fjármálaráðherra, kemur fram að hann telji mikilvægt að minnka hlutdeild hins opinbera í efnahagslífinu. Með þessu tekur fjármálaráðherra undir skoðanir ungra sjálfstæðismanna í SUS þessa efnis. Lengi hefur þetta verið baráttumál ungliða, allt að því þeirra hjartans mál. Ítrekar Geir í viðtalinu að Sjálfstæðisflokkurinn muni lækka skatta á kjörtímabilinu, rétt eins og lofað var í kosningabaráttunni fyrr á árinu. Mikilvægt er að heyra þetta hjá ráðherranum. Fyrir ráðherrann voru lagðar fjórar krefjandi spurningar, hann svarar nokkuð ágætlega þeim. Segir ráðherra hafa verið unnið að því minnka hlutdeild hins opinbera, t.d. með einkavæðingu ríkisfyrirtækja og stórfelldum skattalækkunum á fyrirtækin í landinu. Segir hann að stefna flokksins sé skýr, framundan sé að lækka skatta á almenning.

NorðurljósAthyglisvert er að eftir fréttaumfjöllun fyrir rúmri viku um Jón Ólafsson sé sú staða komin upp að ekkert sé vitað hver keypti af honum eignir hans eða hvort kaup á þeim séu yfir höfuð frágengnar. Í spjallþætti um helgina við Jón kom skýrt fram að hann hefur sagt skilið við íslenskt viðskiptalíf, en enn er ekki endanlega ljóst hvernig fer með eignir hans. Er sagt ítarlega frá þessu í dag á fréttum. Samkvæmt því sem þar stendur mun Jón hafa komið fram með eftirákröfur um eignirnar og hvernig farið verður með þær eftir söluna. Semsagt ekki hefur verið gengið frá neinu endanlega og eftir er að staðfesta einhverjar breytingar með hluthafafundi í Norðurljósum. Þetta er greinilega mjög flókinn kapall og vesin að klára málið ef marka má það sem sagt er frá á fréttum.

Ragnar JónassonGestapistillinn
Í gestapistli vikunnar á vefsíðunni skrifar Ragnar Jónasson varaformaður Heimdallar, um málefni Kvikmyndaeftirlits ríkisins. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi verið þeirrar skoðunar að leggja beri niður kvikmyndaeftirlit ríkisins og lagði menntamálaráðherra fram frumvarp þess efnis í fyrra. En hver urðu afdrif frumvarpsins spyr Ragnar í pistlinum? Hann minnir á að kvikmyndaskoðun lifi enn góðu lífi, vegna þess að frumvarp ráðherrans hafi ekki náð fram að ganga. Lítið hafi spurst til frumvarpsins síðan og því full ástæða að mati Ragnars til þess að hvetja ráðherrann til að leggja það fram aftur áður en hann lætur af störfum. Minnir hann á að ritskoðun sé ennþá ritskoðun. Mikilvægt sé að klára málið og leggja frumvarpið fram og leggja niður kvikmyndaskoðun í landinu, enda slík forsjárhyggja með öllu óþörf.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu athyglisverður pistill Atla frænda um mál málanna seinustu daga: kaupréttarsamninginn í Kaupþingi Búnaðarbanka og fleira sem því tengist. Einkum fjallar hann þó um það hvort setji eigi lög til að taka á slíkum málum. Segir hann að Heimdellingar hafi lengi barist fyrir þeirri skoðun sinni að ríkið eigi ekki að reka banka. Að hans mati væri fráleitt að halda því fram, sem nú heyrist, að þingmenn og pólitískir fylgismenn þeirra væru betur til þess fallnir að reka slík fyrirtæki en einkaaðilar. Að mati Atla er umræða um að breyta þurfi reglum um kaupréttarsamninga á villigötum. Það er að hans mati eðlilegt að stjórn fyrirtækis og hluthafar ráði hvernig launa eigi stjórnendum fyrirtækja. Er ég sammála Atla að mestu leyti. Mér þótti samningurinn um daginn siðlaus og gagnrýni hann harðlega en vil ekki sérstaklega setja reglur um þetta. Von mín er sú að menn hafi dómgreind til að vega og meta hlutina rétt, án þess að hafa lög yfir sér.

Stjórnendur KastljóssDægurmálaspjall gærkvöldsins
Líflegt spjall var í báðum dægurmálaspjallþáttum gærkvöldsins. Í Íslandi í dag hjá Jóhönnu og Þórhalli voru gestir þeirra, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður. Þau tókust þar á af talsverðum krafti á um kaupréttarsamningsmálin. Ekki voru þau alveg sammála eins og við var að búast. Gekk Einari vel að snúa upp á hana og koma sínum áherslum að meðan varaþingmaðurinn hjakkaði í sama hjólfarinu. Ekki var síður skemmtilegt að fylgjast með rimmu Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Lúðvíks Bergvinssonar í Kastljósinu. Tókust þeir á um sama mál. Eins og við var að búast eru Samfylkingarmenn skjálfandi yfir því að forsætisráðherra hafi sömu mannréttindi og aðrir í landinu og hafi eigin skoðanir. Það er alltaf jafn undarlegt að sjá geðveikisleg viðbrögð þeirra þegar hann tjáir sig um málin. Í báðum þáttum náðu Einar Oddur og Jón Steinar lykilstöðu gegn Samfylkingartalsmönnum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum sem hér koma í heimsókn á að líta á heimasíðu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Þar birtast greinar hans og ennfremur fréttir úr starfi hans sem ráðherra og þingmanns í Norðvesturkjördæmi.

Snjallyrði dagsins
Sitt er hvað, gæfa eða gjörvuleiki.
Grettis saga

24 nóvember 2003

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Fréttir af kaupréttarmálinu í Kaupþingi Búnaðarbanka er enn aðalfréttin hérlendis. Einnig er fjallað um málið erlendis. Breska blaðið Financial Times fjallar um kaupréttarmálið og úttekt Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, á innistæðu hans úr bankanum. Segir blaðið frá því að úttektin og alda mótmæla hérlendis hafi leitt til þess að stjórnendur bankans hafi ákveðið að draga í land og hætt við kaupréttarsamninginn. Í dag kemur svo fram að Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallar Íslands, hafi óskað eftir því að farið verði yfir hvort munnlegur kaupréttarsamningur við forstjóra og stjórnendur bankans hafi verið tilkynningaskyldur til Kauphallarinnar er hann var gerður í sumar. Tel ég ákvörðun þeirra sem að samningnum komu hafa verið rétta. Þeir skynjuðu gríðarlega mikla óánægju viðskiptavina sinna og landsmanna almennt og tóku þá einu ákvörðun sem fær var í stöðunni. En hvort það dugar til að styrkja bankann mun svo aftur á móti ráðast.

ESSOÍ fréttum í dag er sagt frá því að stjórn ESSÓ hafi ákveðið á sínum tíma að sýna samstarfsvilja, semsagt vinna með Samkeppnisstofnun við að upplýsa meint brot félagsins. Vekur þetta mikla athygli. Það á að hafa verið gert í ljósi þess að félagið taldi sig ekki þurfa að leyna neinu í málinu. Í samkeppnislögum er kveðið á um að fyrirtæki sem sýni samstarfsvilja með þeim hætti sem um ræðir fái afslátt af hugsanlegum stjórnvaldssektum. Um miðjan febrúar á þessum ári eiga skv. fréttum í dag þrír fulltrúar Olíufélagsins og tveir frá Samkeppnisstofnun að hafa hist á Grand Hóteli. Fundurinn á að hafa verið svokallaður Non meeting, semsagt fundur sem ekki er haldinn opinberlega og þar sem ekkert sé skrifað niður. Þar munu Olíufélagsmenn hafa sett fram skilyrði og fengið þau samþykkt, í kjölfar þess hafi ESSÓ upplýst um samráðið og sinn þátt í því. Eftir atburði sumarsins telur ESSÓ sig hafa verið svikið af Samkeppnisstofnun. Undarlegt mál.

LaxnessVæntanlegar eru tvær ævisögur um Halldór Kiljan Laxness rithöfund. Hefur einkum ævisaga sem rituð mun vera af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni verið umdeild. Hefur skáldið alltaf verið umdeilt og við því að búast að margt fróðlegt komi fram um fortíð hans í bókunum. Sérstaklega hlakkar mér til að lesa bók Hannesar, sem kemur út í vikunni. Í gær las ég athyglisverða grein á frelsi.is eftir Ásgeir Jóhannesson laganema, um gagnrýni Halldórs Kiljans Laxness á séreignarrétt og markaðsbúskap í Alþýðubók sinni. Skemmtileg lesning.

frelsi.isSvona er frelsið í dag
Í dag fjallar Bjarki um frumvarp um styrktarsjóð námsmanna í athyglisverðum pistli. Fram kemur í skrifum hans að fyrir liggi á Alþingi fyrrnefnt frumvarp. Flutningsmenn þess séu framsóknarþingmennirnir Hjálmar Árnason, Dagný Jónsdóttir og Magnús Stefánsson. Það sé nú lagt fram þriðja sinni, en hafi ekki náð fram að ganga áður á þingi. Í 1. grein frumvarpsins sé fjallað um tilgang sjóðsins. Þar segi að sjóðnum væri ætlað að styrkja efnilega nemendur til náms í framhaldsskóla. Markmið sjóðsins er að mati Bjarka göfugt en þegar lesið sé í gegnum frumvarpið, sé auðvelt að komast að því að sjóðurinn eigi eftir að verða dýr í rekstri og margar aðrar einfaldari og ódýrari leiðir færar til að ná sama tilgangi, og það án beinna afskipta hins opinbera. Bendir Bjarki á margar athyglisverðar tillögur í þá átt. Á frelsinu er ennfremur birt yfirlýsing stjórnar Heimdallar í kjölfar ákvörðunar miðstjórnar um Heimdallarmál.

Í brennidepliDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gær var Sverrir Hermannsson fyrsti gestur, en hann gaf í seinustu viku út ævisögu sína. Kjaftaði á honum hver tuska eins og venjulega. Var hann jafniðinn og fyrr við að gagnrýna forystu Sjálfstæðisflokksins nú og frjálshyggjumenn innan sama flokks. Er ekki hægt annað að heyra á honum en hann sé enn bitur út í fyrrum samstarfsmenn í þeim flokki. Sigurður Einarsson stjórnarformaður KB var ennfremur gestur Egils og spurði hann Sigurð margra athyglisverðra spurninga. Í Kastljósi rúmum hálftíma síðar var Sigurður ennfremur gestur. Þar tók Sigmar Guðmundsson hann í ítarlega yfirheyrslu og þjarmaði allverulega að honum svo stjórnarformaðurinn var farinn að svitna undir þungum spurningum Sigmars. Fær Sigmar prik hjá mér fyrir gott viðtal og að hafa tekið gest sinn traustum tökum. Fréttaskýringaþátturinn Í brennidepli var að þessu loknu. Þar var litið á Kárahnjúka þar sem framkvæmdir eru komnar á fullt, var skemmtilegt að kynna sér mannlífið þarna og aðstöðu þeirra sem þarna vinna. Fjallað var ennfremur um djarfa barna- og unglingatísku og búðarhnupl sem er mun algengara en ég hafði gert mér í hugarlund. Góður þáttur hjá Páli Benediktssyni, verst að þeir eru bara mánaðarlega á dagskrá.

Annie HallKvikmyndir - bókalestur - MSN spjall
Í gærkvöldi horfði ég í enn eitt skiptið á magnaða úrvalsmynd Woody Allen, Annie Hall. Hún er hiklaust þekktasta og eftirminnilegasta mynd leikstjórans. Er óhætt að segja að hún hafi verið tímamótaverk á ferli hans, einkum vegna þess að þrátt fyrir að í henni séu kómískir þættir má finna fyrir alvarlegum undirtón og í henni má finna skemmtilega sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Kvikmyndin sló í gegn og vann til fjölda óskarsverðlauna sama ár, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir frábæran leik Diane Keaton á hinni kostulegu Annie, handrit Allens og Marshall Brickman og leikstjórn meistarans. Ennfremur var Allen tilnefndur fyrir leik sinn. Festi myndin Allen enn betur í sessi sem einn af áhrifamestu kvikmyndaleikstjórunum í bransanum. Hef alltaf haft gaman af þessari fínu mynd og horfi reglulega á hana. Eftir það fór ég að líta á bækur sem ég hef verið að lesa. Fór svo að lokum á Netið og átti gott spjall á MSN við marga vini. Líst vel á nefndapælingar okkar Kristins, en við erum að vinna að greinum um þetta og höfum nú dælt inn á frelsið nöfnum margra fáránlegustu nefndanna í kerfinu.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á heimasíðu Einars Kristins Guðfinnssonar þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur átt sæti á þingi frá 1991 og er á vef sínum með skemmtilega pistla og ýmislegt athyglisvert.

Snjallyrði dagsins
Að missa óvin er mikið tap.
Kristina drottning

23 nóvember 2003

Eduard ShevardnadzeHeitast í umræðunni - pistill Björns
Eduard Shevardnadze forseti Georgíu, sagði í dag af sér embætti í kjölfar öldu mótmæla í landinu eftir að ótrúverðug úrslit þingkosninga þann 2. nóvember sl, voru tilkynnt. Blasti við að stjórnarandstaðan hefði í raun náð völdum í landinu. Tilkynnt var seinnipartinn að Nino Burdzhanadze forseti þingsins yrði forseti þar til eftir forsetakosningar í landinu. Áætlað er að þær verði innan næstu 45 daga. Kom Ígor Ívanov utanríkisráðherra Rússlands, til Georgíu til að miðla málum og eftir fundi með bæði forsetanum og stjórnarandstöðuleiðtogum varð þetta niðurstaðan. Eduard Shevardnadze, sem er 75 ára að aldri, er þekktur stjórnmálamaður. Hann átti stóran þátt í að binda endi á kalda stríðið sem utanríkisráðherra Sovétríkjanna 1985-1990 í valdatíð Mikhail Gorbatsjov. Hann sagði af sér í desember 1990 í kjölfar þess að harðlínuöfl í landinu létu meira til sín taka. Eftir misheppnaða valdaránstilraun í Sovétríkjunum í ágúst 1991 varð hann aftur utanríkisráðherra og sat á þeim stóli þar til Sovét leið undir lok í desember 1991. Hann varð leiðtogi Georgíu 1992 og var forseti landsins frá 1995.

Björn BjarnasonÍ pistli sínum á heimasíðu sinni fjallar Björn um mál málanna: kaupréttarsamninginn í Kaupþingi Búnaðarbanka og viðbrögð við honum í samfélaginu. Ennfremur um málefni Fréttablaðsins og Gunnars Smára ritstjóra þess, Borgarnesræðuna frægu sem hljómar nú sem hjóm hið mesta eftir atburði seinustu mánuða eftir að talsmaður Samfylkingarinnar skundaði í reiði sinni til Borgarness. Orðrétt segir Björn: "Fyrir þá sem muna ekki lengur eftir efni Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur má rifja upp, að þar dró hún taum þriggja fyrirtækja Baugs, Norðurljósa og Kaupþings, af því að á þau væri hallað af Davíð Oddssyni forsætisráðherra og mátti auðveldlega draga þá ályktun, að hún teldi Davíð koma ómaklega fram við fyrirtækin." Vart þarf að taka fram að þessi talsmaður tjáir sig ekkert um fyrirtæki þessi núna. Eins og venjulega er Björn óhræddur við að segja sínar skoðanir og fjallar um hitamál samtímans með kraftmiklum hætti.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um siðlausa ákvörðun forystumanna Kaupþings Búnaðarbanka fólgin í kaupréttarsamningi við stjórnendur hans og fjalla um viðbrögð forystufólks ríkisstjórnarinnar í kjölfar hennar sem leiddu til þess að stjórnendur bankans drógu samninginn til baka, fjalla ennfremur um styrk Davíðs Oddssonar sem stjórnmálamanns í gegnum tíðina en hann á að baki þriggja áratuga langan og farsælan stjórnmálaferil. Að lokum fjalla ég um hvaða kostum sá þarf að vera búinn sem vill ná árangri í stjórnmálum, semsagt hver er að mínu mati listin að vera leiðtogi í stjórnmálum. Vil ég að lokum þakka góð viðbrögð við breytingum á bloggvefnum sem hafa verið seinustu vikur og bið þá sem nýlega eru farnir að líta á bloggið velkomna í hóp margra sem líta á vefinn. Ég sé á heimsóknartölum að margir nýjir áhorfendur eru komnir hingað.

Egill HelgasonDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var athyglisvert spjall um pólitík í Silfrinu hjá Agli Helgasyni. Í upphafi komu t.d. Jakob F. Ásgeirsson og Gunnar Smári Egilsson og ræddu fréttir vikunnar. Bar þar auðvitað hæst mál málanna sem fyrr hefur verið nefnt á þessum vef og sýndist sitt hverjum eins og við var að búast. Helsta snerran var þó í seinni hlutanum þegar Gunnar Smári, Birgir Ármannsson og Helgi Hjörvar ræddu þessi mál. Var mikil orrahríð milli þeirra þingfélaga Birgis og Helga og deildar meiningar á þessu kaupréttarsamningsmáli. Fór reyndar svo að Helgi kom enn og aftur fram með skæting eins og hann er þekktur fyrir. Birgir svaraði honum vel og tæklaði vel hans málflutning. Gaman að fylgjast með Silfrinu á Stöð 2, fínn þáttur, nauðsynlegur fyrir stjórnmálaumræðuna.

Gísli MarteinnGott laugardagskvöld
Átti gott laugardagskvöld. Var boðinn í kvöldmat til góðra vina og þar voru líflegar umræður yfir góðum mat. Var þarna um að ræða ekta þríréttaða máltíð eins og við var að búast af þessum vinahjónum mínum. Endaði borðhaldið með virkilega góðum desert og skemmtilegt að upplýsa að umræðuefnið yfir honum var jólavenjur og jólahefðir, en eins og allir vita er mánuður til jóla. Horfðum við á sjónvarpið eftir matinn. Að sjálfsögðu var horft á Laugardagskvöld með félaga mínum, Gísla Marteini. Þar var létt spjall og gestir Hallgrímur Helgason, Hjálmar Hjálmarsson og Leoncie. Gaman af þessum þætti eins og venjulega. Á eftir var horft á Spaugstofuna og hlegið dátt, enda góður þáttur hjá þeim núna, 200. þátturinn, en þeir grínfélagar byrjuðu með skemmtiþátt sinn í janúar 1989 og verið saman síðan með hléum. Þegar leið á kvöldið (eftir gott spjall og hressilegt) var haldið út á lífið og skemmt sér vel.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Reuters. Alveg magnaður fréttavefur fyrir þá sem fylgjast vel með fréttum líðandi stundar, jafnt á sunnudögum sem aðra daga.

Snjallyrði dagsins
You turn if you want to. The Lady's not for turning!
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1979-1990)

22 nóvember 2003

John F. KennedyHeitast í umræðunni
Í dag eru fjórir áratugir liðnir frá því að John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum.

HeimdallurÍ gær kom miðstjórn saman vegna málefna Heimdallar í kjölfar þess að fólk í framboði til stjórnar félagsins fyrr á árinu skaut máli sínu til miðstjórnar. Í úrskurði miðstjórnar segir orðrétt: "er það niðurstaða miðstjórnarinnar að engin efni séu til þess að úrskurða aðalfund Heimdallar 1. október sl. ólöglegan né heldur að draga í efa heimild þáverandi stjórnar Heimdallar til að fresta því að afgreiða þær inntökubeiðnir sem borist höfðu síðustu tvo sólarhringana fyrir aðalfund félagsins." Ennfremur: "felur miðstjórn Sjálfstæðisflokksins framkvæmdastjóra flokksins að semja almennar leiðbeiningar um framkvæmd aðalfunda í félögum Sjálfstæðisflokksins þar sem settar verði fram almennar viðmiðunar- og starfsreglur fyrir fráfarandi stjórnir félaga sem ábyrgð bera á aðalfundi hverju sinni. Jafnframt er framkvæmdastjóranum falið að semja sérstakar reglur um meðferð á inntökubeiðnum í félög Sjálfstæðisflokksins þar sem leitast verði við að koma í veg fyrir að mögulegt sé að skrá fólk í félög Sjálfstæðisflokksins án þess að óumdeildur og afdráttarlaus vilji viðkomandi standi til þess." Er gott að miðstjórn hafi farið yfir þetta mál og niðurstaða í því liggi nú fyrir.

StjórnarráðiðÍ gær ákváðu þeir Sigurður Einarsson stjórnarformaður og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings Búnaðarbanka, að falla frá samningi sem greint var frá í gær eftir hörð mótmæli forsætis- og viðskiptaráðherra. Sagði Sigurður að þeir hættu við samning um kaup á hlutabréfum í bankanum til þess að reyna að skapa einingu um starfsemi hans. Þetta var tilkynnt í kjölfar þess að forsætisráðherra tilkynnti að hann væri hættur viðskiptum við Búnaðarbankann. Hann fór seinnipartinn í gær í aðalútibú bankans í Austurstræti og tók þar út þær 400.000 krónur sem hann átti inni á bankabók. Voru bæði hann og viðskiptaráðherra mjög harðorð vegna þessa í gær eins og ég hef áður bent á hér á vefnum. Sagði hann orðrétt í gær að þeir væru að koma óorði á frelsi í viðskiptum og ögra fólkinu í landinu. Ég tel að þetta sé rétta leiðin til að sýna óánægju sína vegna þessa. Tel ég forsætisráðherra hafa sýnt gott fordæmi með sínum táknrænu mótmælum. Góð umfjöllun er um þetta mál á fréttum í gær.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi Johns Fitzgerald Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, en eins og fyrr segir eru fjórir áratugir liðnir í dag frá því að hann var myrtur. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard M. Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli í rúmlega 1000 daga, var myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas í Texas, skömmu eftir að hann kom þangað en hann hafði dagana á undan verið á ferðalagi um fylkið. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington, 25. nóvember 1963.

Karl og EddaDægurmálaspjall gærkvöldsins
Var athyglisvert viðtal við forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld um mál málanna í gær. Í gærkvöldi voru Gunnar Smári Egilsson ritstjóri og Andrés Magnússon blaðamaður, gestir Jóhönnu og Þórhalls. Aðalumræðuefnið frétt gærdagsins um Kaupþing Búnaðarbanka. Kom verulega á óvart að heyra Gunnar Smára allt að því verja þessa ákvörðun stjórnenda bankans sem um ræðir. Mér fannst undarlegt að fólk reyni að verja þetta, þetta er í senn bæði siðlaust og óverjandi enda hafa stjórnendur bankans dregið ákvörðunina til baka eftir framvindu málsins. Athyglisvert spjall þeirra á milli. Stuðmenn fluttu tvö hressileg lög í þættinum af nýjum diski þeirra, Stuðmenn á Hlíðarenda. Sumarsmellur þeirra, Halló, halló, halló.. var algjört dúndur og þessi fylgja vel á eftir á góðum diski. Er mikill aðdáandi Stuðmanna, alltaf magnað að fara á gott ball með þessari góðu hljómsveit.

JFKSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir fréttir og dægurmálaþætti hélt ég til vinkonu minnar í gott Idol partý, var gott spjall þar og farið yfir mörg hitamál vikunnar og horft auðvitað á Idol-stjörnuleit. Virkilega fínn og góður þáttur. Eftir þáttinn hélt ég heim og skellti mér í það verkefni að horfa á umdeilda stórmynd leikstjórans Oliver Stone, JFK. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, 22. nóvember 1963. Hann ákvað að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Hef oft horft á myndina en ákvað í tilefni þess að fjórir áratugir eru liðnir frá morðinu að horfa á myndina.

Vefur dagsins
Bendi öllum í dag á að líta á vandaðan fréttavef New York Times. Ferskar og góðar fréttir þar alla daga.

Snjallyrði dagsins
Spyrjið ekki hvað land þitt geti gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir landið þitt.
John Fitzgerald Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

21 nóvember 2003

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Aðalfrétt gærkvöldsins í fréttatímum var sú að um 60 lykilstarfsmenn í Kaupþingi-Búnaðarbanka hefðu gert samning við félagið um kaup á 23 miljónum hluta í bankanum. Forstjóri Kaupþings-Búnaðarbanka og starfandi stjórnarformaður keyptu hvor um sig um 6 milljónir hluta á genginu 156 á rúmlega 900 miljónir króna. Varð mörgum brugðið við þessi tíðindi. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, sagðist í morgun vera undrandi á þeim samningum sem bankinn gerði við stjórnendur sína um kaup á hlutabréfum í bankanum. Hún hefur sagt að það að gera svona samning aftur í tímann og velja sér dag þegar gengi bréfanna er langt undir markaðsgengi sýni að þeir sem taki svona ákvarðanir séu ekki í tengslum við raunveruleikann. Eftir ríkisstjórnarfund í morgun tjáði forsætisráðherra sig um málið. Hann sagði í yfirlýsingu að stjórnendur bankans væru að koma skömm á frelsið með þessum samningi. Sagði Davíð þetta vera ögrun við fólkið í landinu og tilkynnti að hann myndi taka inneign sína í bankanum út. Mun ríkisstjórnin leita allra leiða til að koma í veg fyrir samninga af þessu tagi í framtíðinni. Tek ég undir með forsætisráðherra, þessi vinnubrögð eru óverjandi og á þessum vinnubrögðum verður að taka.

Bush og BlairÍ dag mun opinberri heimsókn Bush forseta til Bretlands ljúka formlega. Í gær héldu hann og Blair forsætisráðherra, blaðamannafund þar sem margt athyglisvert kom fram. Einnig áttu þeir einkafund í bústað forsætisráðherrans, Downingstræti 10. Margt fleira var á dagskrá gærdagsins. Forsetinn flaug frá London í morgun til Sedgefield. Kvaddi hann gestgjafa sína, drottninguna og hertogann við Buckinghamhöll. Sedgefield verður lokapunktur heimsóknarinnar. Það er kjördæmi Blairs forsætisráðherra. Er á dagskránni kynnisferð um bæinn, teboð á heimili Blair hjónanna í bænum og að lokum málsverður á krá í Sedgefield. Gríðarleg öryggisgæsla verður meðan á heimsókn forsetans til Sedgefield stendur. Leiðtogarnir munu kveðjast í Sedgefield að því loknu. Heimsókn forsetans til Bretlands lýkur seinnipartinn og að því loknu halda forsetahjónin til Bandaríkjanna. Söguleg heimsókn forsetans hefur verið aðalfréttaefni seinustu daga, enda ekki gerst fyrr að forseti Bandaríkjanna fari til Bretlands í konunglega heimsókn.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriÁ bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag var fjárlagafrumvarp Akureyrarbæjar ársins 2004 til fyrri umræðu. Tekjur bæjarins fyrir næsta rekstrarár eru áætlaðar rúmlega 8,8 milljarðar en rekstarútgjöld Akureyrarbæjar án fjármagnsliða hinsvegar 8 og hálfur milljarður. Skv. fjárhagsáætlunni taka fræðslu- og uppeldismál mest til sín eða alls 2,2 milljarða, félagsþjónustan hálfan milljarð og íþrótta- og tómstundamál tæplega hálfan milljarð. Seinni umræða um fjárlagafrumvarp bæjarins verður eftir tæpan mánuð, þann 16. desember. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, flutti ávarp á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag og kynnti þar frumvarpið og fór yfir ýmis fleiri mál. Fram kom í hans máli að íbúum bæjarins hefði fjölgað um rúmlega 1000 á seinustu 5 árum, eða frá því hann tók við embætti bæjarstjóra, sumarið 1998. Að hans mati er staða bæjarins björt og óhætt að horfa jákvæð fram á veginn. Til marks um það fór Kristján í morgun suður með jólabjórinn til sendiherra okkar sunnan heiða, Sigmundar Ernis. Skemmtilegt þetta!

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag skrifar Ósk mjög góða grein á frelsið. Þar fjallar hún um afskiptasemi ríkisins í daglegt líf tengt helgidögum. Orðrétt segir hún: "Nú 18 árum seinna þá er ennþá einhver að reyna að stjórna því hvort ég sit eða stend, en nú er það á helgidögum kristinna manna. Hver er þessi forsjárhyggjufóstra minna seinni ára? Jú, ríkisvaldið. Flestir vita að á ákveðnum dögum ársins er velflest starfsemi óheimil, er þá um að ræða skemmtanir (s.s. dansleiki eða einkasamkvæmi) á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Jafnframt eru markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi með öllu óheimil. Um bönn þessi greinir í lögum sem sett voru krafti kristinnar trúar, í boði ríkisins. Þau ólög eru efniviður þessa pistils, og bera heitið lög um helgidagafrið (nr. 32/1997)." Ósk með allt sitt á hreinu. Ennfremur birtist góð grein Maríu Margrétar um ályktun landssambands sjálfstæðiskvenna um vændi á dögunum. Hún er ekki sátt við hana og fer vel yfir málið í grein sinni.

Jóhanna og ÞórhallurDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi voru Pétur Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon gestir Jóhönnu og Þórhalls. Í upphafi ræddu þau tíðindi dagsins um hlutabréfakaup stjórnenda í Kaupþingi-Búnaðarbanka. Fordæmdu báðir það og fóru vel yfir málið. Að því loknu ræddu þeir um fjölmiðlun í ljósi þess að Pétur hefur lagt fram á þingi ásamt fleirum frumvarp þess efnis að einkavæða skuli RÚV. Eins og við mátti búast voru þeir ekki sammála í þessu máli, enda vill Steingrímur sem minnstu greinilega breyta hjá RÚV. Sagði hann að ef það yrði selt yrði umfjöllun fábrotnari og hættara við einokun nokkurra aðila. Það er fjarstæða, enda benti Pétur á að umræða um stjórnmál og fleira blómstraði nú á Netinu. Nefndi hann sérstaklega að vefur á borð við frelsi.is væri öflugur vettvangur skoðana og ungt hægrifólk þar alveg óhrætt við að segja sína skoðun. Gott var að heyra þetta hrós Péturs um vefinn. Er ég alveg sammála honum um RÚV.

Mr. Deeds goes to TownKvikmyndir - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á hina klassísku kvikmynd Frank Capra, Mr. Deeds goes to Town. Þar segir frá einfeldningnum Longfellow Deeds sem erfir öll auðæfi ríks frænda síns eftir dauða hans og neyðist til að skipta um lífsstíl á einu augabragði. Hann bjó í smábæ og lifði fábrotnu lífi en kynnist því fljótt þegar til stórborgarinnar kemur að það er enginn leikur að lifa með auðæfunum og hann verður skotmark óprúttinna aðila. Hann grípur til sinna ráða, útkoman óborganleg gamanmynd. Gary Cooper fór á kostum í hlutverki Deeds og var tilefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Jean Arthur fer á kostum í hlutverki hinnar litríku Bebe Bennett. Frank Capra hlaut sinn annan leikstjóraóskar fyrir myndina og hún var ennfremur tilnefnd sem kvikmynd ársins. Að þessu loknu fór ég að lesa í ævisögu Jónasar frá Hriflu, mögnuð lesning um einstakan mann.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á fréttavef CBS. Þar eru góðar fréttir og öflug fréttaþjónusta. Sérstaka athygli vek ég á fréttaumfjöllun í tilefni þess að fjórir áratugir eru frá morðinu á Kennedy forseta.

Snjallyrði dagsins
Lífið er gáta. Lausnin er á öftustu síðu.
Storm Petersen

20 nóvember 2003

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, sagði á Alþingi í gær að hann teldi alla stærstu banka landsins vera komna út á hála braut með afskiptum sínum og beinum inngripum í íslenskt atvinnulíf. Að hans mati væru bankarnir komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir ættu að sinna og í raun út fyrir skyldur sínar gagnvart almenningi. Að mati forsætisráðherra ber bönkunum að halda sér að sínum verkefnum. Einkum var Davíð harðorður í garð Kaupþings - búnaðarbanka, sem hann sagði hafa tekið þátt í viðskiptabrellum í kringum eigendaskipti á Stöð 2 fyrir tæpri viku. Hann sagði að frumskilyrði væri að eignarhald á fjölmiðlum væri ljóst. Stundum væri látið í veðri vaka Kaupþing - búnaðarbanki ætti sjónvarpsstöðina en ennfremur látið í veðri vaka að tiltekinn nafngreindur einstaklingur í kaupsýslu ætti stöðina. Var það mat forsætisráðherra að bæði væri óboðlegt að slíkt ástand væri uppi og það að einn stærsti banki þjóðarinnar tæki þátt í slíkum viðskiptabrellum af þessu tagi.

Bush forseti og Elísabet EnglandsdrottningOpinber heimsókn Bush forseta, til Bretlands stendur nú sem hæst. Í dag hitti forsetinn Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, á fundi í London, þar sem aðalumræðuefnið var framtíðarstaða mála í Írak, staða kjarnorkumála, fátækt í heiminum, alþjóðaviðskipti og ástandið í Norður Kóreu. Að fundinum loknum var haldinn ítarlegur blaðamannafundur leiðtoganna sem ég fylgdist með á fréttavef BBC. Í dag munu mótmæli friðarsinna og andstæðinga Bandaríkjanna ná hámarki. Samkvæmt fréttum frá London er reiknað með því að allt að 100.000 mótmælendur muni mótmæla Bush í ferð hans til Bretlands. Í gærkvöldi var haldinn formlegur kvöldverður í höllu drottningar og þar flutti forsetinn athyglisverða ræðu. Á morgun mun forsetinn heimsækja Sedgefield, kjördæmi forsætisráðherrans og að því loknu halda aftur til Bandaríkjanna.

Sigurður Kári KristjánssonLagt verður fram á Alþingi frumvarp um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Mun það koma úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru þingmenn sem vilja að RÚV verði einkavætt og leggja mikla áherslu á þá skoðun sína. Breytir engu um þó formaður flokksins hafi sagt á þingi að ekki komi til greina að einkavæða RÚV. Öllum er frjálst innan Sjálfstæðisflokksins að tjá sínar skoðanir og leggja áherslu á sín mál. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, sem er meðflutningsmaður að frumvarpinu með Pétri H. Blöndal, segir sviptingar á fjölmiðlamarkaðnum nú í raun engu breyta og tjáði sig um málið í ræðustól þingsins nú í hádeginu. Er ég hlynntur þessu frumvarpi og hef reyndar mikið tjáð mig um málefni RÚV og lagt áherslu á þessa hlið málsins.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í góðri grein á frelsinu fjallar Ragnar um RÚV mál í kjölfar RÚV-viku Heimdallar fyrir nokkrum vikum. Segir hann þar að til standi að stofna fleiri rásir á vegum Ríkisútvarpsins. Frá því hafi verið greint í fréttum að RÚV og verkfræðideild HÍ ætli að gera tilraunir með stafrænar útsendingar sjónvarps og útvarps á höfuðborgarsvæðinu. Liður í því væru útvarpssendingar á FM 87,7 þar sem klassískri tónlist verði aðallega útvarpað. Klassísk tónlist á vegum hins opinbera. Segir Ragnar að RÚV ætli ekki að láta þar við sitja, heldur hafi útvarpsstjóri sagt í fréttum RÚV frá hugmyndum um enn fleiri ríkissjónvarpsstöðvar, t.d. fyrir íþróttir, íslenskt barnaefni og fleira. Það harmar Ragnar enda þetta allt verkefni sem einkaaðilar geta sinnt og það mun betur en ríkið. Er ég alveg sammála orðum Ragnars. Það er tímaskekkja að ríkið reki fjölmiðla og enn meiri tímaskekkja að þeim eigi að fjölga með þessum hætti. Algjörlega óviðunandi. Ennfremur birtist á frelsinu, snubbótt svar formanns útvarpsráðs við spurningum og ennfremur sagt frá athyglisverðri grein um Evrópumál.

PressukvöldDægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var athyglisvert viðtal í Kastljósinu við Flosa Arnórsson stýrimann, sem sat eins og margir muna lengi ársins í fangelsi í Dubai fyrir vopnaeign. Kom margt fróðlegt fram í viðtali Sigmars við Flosa. Seinna um kvöldið var Sigurður G. Guðjónsson forstjóri Norðurljósa, gestur þriggja fréttamanna í Pressukvöldi Sjónvarpsins. Þar var hann spurður margra krefjandi spurninga um stöðu fyrirtækisins, eigendaskipti á því og mörgu fleiru sem hefur verið í umræðunni. Pressukvöld er góð viðbót við spjallþætti um það sem hæst ber á líðandi stundu. Mætti þátturinn þó vera lengri og ítarlegri en nú er.

Bonnie og ClydeKvikmyndir - pistlaskrif - MSN spjall
Í gærkvöldi horfði ég á hina klassísku kvikmynd Bonnie and Clyde með Faye Dunaway og Warren Beatty. Eru um 12 ár síðan ég sá þessa mynd fyrst og nokkur ár síðan ég keypti mér hana, horfi reglulega á hana. Ein af bestu kvikmyndum sjöunda áratugarins. Segir frá frægasta glæpapari seinustu aldar. Um hríð komust þau Bonnie og Clyde upp með að ræna hvern bankann á eftir öðrum. Leikstjórinn Arthur Penn er hér í sínu besta formi og er myndin skemmtilega hröð og grimm. Þó er hún merkilega fyndin í öllum óhugnaðinum. En hún er óvægin, aldrei höfðu afbrotamenn fengið aðra eins útreið og söguhetjurnar fengu í sögulok. Hreint sígild mynd sem verðskuldar einungis það besta, ég mæli eindregið með henni við þá sem ekki hafa séð hana. Eftir myndina fór ég að undirbúa pistil sem ég er að vinna að um JFK, en á laugardag eru fjórir áratugir frá því að hann var myrtur. Átti ég svo ennfremur gott spjall á MSN við vini.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Morgunblaðsins, besta íslenska fréttavefinn. Þar eru á hverjum degi góðar og ferskar fréttir og kraftmikil umfjöllun um málefni dagsins í dag.

Snjallyrði dagsins
Við getum ekki unnið nein stórvirki, heldur eingöngu smáverk með mikilli ást.
Móðir Teresa (1910-1997)