Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 maí 2004

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Mikil óánægja er innan Sjálfstæðisflokksins vegna þess að ekki náðist samkomulag við samstarfsflokk okkar í ríkisstjórn um að leggja fram skattatillögur stjórnarinnar, sem lofað var fyrir seinustu kosningar og sagt var í stjórnarsáttmálanum að yrðu kynntar eftir að samið hefði verið við verkalýðshreyfinguna. Er framkoma samstarfsflokks okkar með öllu óásættanleg. Í pistli dagsins á frelsinu fjalla ég um þetta mál. Pistillinn endar með þessum orðum: "Styttist nú óðum í að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, taki við af Davíð Oddssyni sem forsætisráðherra. Það skyldi þó ekki vera að Halldór vilji tefja málið sem mest einmitt á þeim forsendum. Þessi töf er með öllu óásættanleg og mun veikja stjórnarsamstarfið, enda er ólíðandi að framsóknarmenn gangi á bak loforða sinna og komi í veg fyrir að skattatillögur beggja stjórnarflokkanna séu kynntar. Framsóknarflokkurinn ber því alla ábyrgð á stöðu mála og verður að axla ábyrgðina á því að þetta kosningaloforð sé ekki efnt á tilsettum tíma. Framkoma forystumanna Framsóknarflokksins eru hrein og klár svik við kjósendur Sjálfstæðisflokksins og verður vart liðin. Ólíklegt er að samstarf flokkanna verði jafn traust framvegis og verið hefur ef framhald verður á svona vinnubrögðum af hálfu framsóknarmanna." Ef efndir koma ekki fram á þessu kosningaloforði í sumar og staðið að fullu við þau fyrir forsætisráðherraskipti í haust, tel ég útilokað að stjórnarsamstarfið geti gengið lengur, en það er framsóknarmanna að ráða hvort þeir standa við loforðin eður ei. Sjálfstæðismenn geta ekki með góðu unnið með þessum flokki áfram ef þetta loforð verður ekki efnt fljótlega.

Dagurinn í dag
1884 John Harvey Kellogg kynnir kornflögur - varð vinsælasti morgunmatur sögunnar
1952 Dwight D. Eisenhower lætur af störfum í hernum - varð forseti landsins ári síðar
1973 Richard M. Nixon forseti Bandaríkjanna, og Georges Pompidou forseti Frakklands, hittust á leiðtogafundi í Reykjavík og ræddu heimsmálin á Kjarvalsstöðum. Báðir voru komnir að lokum valdaferils síns, Pompidou lést úr krabbameini 2. apríl 1974 og Nixon varð að segja af sér embætti, fyrstur forseta Bandaríkjanna, 9. ágúst 1974 vegna Watergate-hneykslisins
1991 Alþingi kom saman í fyrsta skipti eftir að deildaskipting hafði verið afnumin - starfaði í tveim málstofum, efri og neðri í 116 ár. Fyrsti forseti Alþingis varð Salome Þorkelsdóttir
1997 Ísland lenti í fimmta sæti á HM í handbolta í Japan - besti árangur okkar á HM
2003 Seinasta flug Concorde þotu - söguleg stund í sögu flugsins

Snjallyrði dagsins
Only those who dare to fail greatly can ever achieve greatly.
Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður (1925-1968)

Breytingar verða á blogginu frá morgundeginum, færslurnar verða styttri í sumar en verið hefur í vetur og smá breytingar verða á föstum flokkum. Í dag birtist flokkurinn "Svona er frelsið í dag" í síðasta sinn. Hér eftir munu pistlar af frelsinu verða efst í nýjum flokki sem hefst á morgun og inniheldur 15-20 tengla, sem ég vil benda á í færslunum. Bloggfærslur verða ekki á laugardögum í sumar og á sunnudögum verður einungis fjallað um sunnudagspistil minn auk sögu dagsins og snjallyrðisins, sem er fastur endir á hverri færslu. Þessar breytingar koma vel fram á næstu dögum.

30 maí 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ársafmæli sunnudagspistlanna og heimasíðu minnar, en 1. júní nk. er ár liðið frá því vefurinn opnaði á léninu stebbifr.com. Ennfremur fjalla ég um ýmis álitamál tengd fjölmiðlalögunum, en bráðlega mun ráðast hvort forseti muni staðfesta þau, minni ég á það hvernig forsetaembættið hefur þróast í 60 ára sögu lýðveldisins og mikilvægi þess að forseti gangi ekki gegn meirihluta þingmanna. Að lokum fjalla ég um eldhúsdagsumræðurnar og framkomu stjórnarandstöðunnar á þingi að undanförnu, en þinghaldi lauk á föstudag. Biturð og gremja einkenndi allan málflutning stjórnarandstöðuþingmanna seinustu vikur þinghaldsins og birtist það best í beinni sjónvarpsútsendingu frá eldhúsdagsumræðunum. Er það svosem ekki óeðlilegt þegar litið er til þeirrar staðreyndar að þarna koma saman fulltrúar þeirra látnu vinstriflokka sem hafa verið að mestu leyti valdalausir í landsmálunum undanfarinn áratug. Litlar horfur eru á því að breyting verði á stöðu þeirra, nema höggva að formönnum stjórnarflokkanna og sérstaklega að Davíð Oddssyni forsætisráðherra. Hefur fjölmiðlum verið markvisst beitt pólitískt gegn persónu Davíðs og vinstriflokkarnir fylgja þeirri umfjöllun eftir í þingsölum, eina frumkvæði þingmanna að umræðum virðast koma úr slúðurfréttum DV. Gremja vinstrimanna með aumt hlutskipti sitt í eyðimerkurgöngu undanfarinna ára birtist best í því að einu valdastólarnir sem þeir geta fengið með góðu til að sitja í utan þingsætanna eru stólar ráðherra ríkisstjórnarinnar í mötuneyti þingsins.

Dagurinn í dag
1431 Jóhanna af Örk brennd á báli, var þá 19 ára gömul - var gerð að dýrlingi 16. maí 1920
1768 Eggert Ólafsson lögmaður og skáld, drukknaði á Breiðafirði, 42 ára að aldri
1851 Jón Sigurðsson var kosinn forseti Kaupmannahafnardeildar Hins Íslenska bókmenntafélags - gegndi Jón embættinu til dauðadags í desember 1879
1984 Sett voru stjórnskipunarlög sem kváðu á um fjölgun alþingismanna úr 60 í 63
2001 Roland Dumas fyrrum utanríkisráðherra Frakklands og einn helsti samstarfsmaður Mitterrands fyrrum forseta Frakklands, dæmdur til fangavistar vegna spillingar

Snjallyrði dagsins
A pessimist sees the difficulty in every opportunity; an optimist sees the opportunity in every difficulty.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)

29 maí 2004

Alþingi ÍslendingaHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, las upp forsetabréf um frestun funda Alþingis á níunda tímanum í gærkvöldi. Með því lauk störfum þingsins á þessu starfstímabili, og mun þingið koma aftur saman að öllu óbreyttu, föstudaginn 1. október nk. Starfaði þingið þrem vikum lengur en áður var áætlað. Fram kom í ræðu Sólveigar Pétursdóttur starfandi forseta Alþingis, við þingslitin í gærkvöldi, að á þessu þingi hefðu verið samþykkt alls 123 lög og 29 þingsályktunartillögur. Þingskjöl voru fleiri en nokkru sinni í sögu þingsins, alls 1890. Á seinasta starfsdeginum voru samþykkt á sjötta tug laga, í kjölfar samkomulags milli stjórnar og stjórnarandstöðu um fjölda mála. Gengu þingstörf hratt fyrir sig eftir að þingið hafði samþykkt smábátafrumvarp sjávarútvegsráðherra. Ekki kom fram frumvarp um skattatillögur ríkisstjórnarinnar, eins og gefið hafði verið í skyn í eldhúsdagsumræðum fyrr í vikunni. Er það algjörlega óásættanlegt að framsóknarmenn tefji málið með þeim hætti sem verið hefur og er hvorugum stjórnarflokknum til framdráttar, það eina sem gæti bætt stöðu mála er að útfærslur tillagnanna verði kynntar í sumar, fyrir forsætisráðherraskipti í september að minnsta kosti. En framsóknarmenn klikka algjörlega í þessu máli og bera alla ábyrgð á frestun málsins.

Fantasia Barrino - poppstjarna Bandaríkjanna 2004Fantasia Barrino fór með sigur af hólmi í bandarísku stjörnuleitinni og var því kjörin poppstjarna Bandaríkjanna árið 2004. Fantasia er 19 ára gömul einstæð móðir og kemur frá smábænum High Point í Norður-Karólínu. Hún bar sigurorð af keppinaut sínum í úrslitaþættinum, Diönu DeGarmo, en hún er 16 ára gömul og kom frá smábænum Snellville í Georgíu. Sigur Fantasiu var þó naumur, aðeins munaði rúmu prósenti á þeim. 65 milljón manns greiddi atkvæði í símakosningunni, fleiri en nokkru sinni fyrr. Fyrirfram þóttu þær báðar standa mjög sterkt og eiga góðar sigurlíkur. Báðar höfðu vaxið mjög sem söngkonur á því rúma hálfa ári sem keppnin stóð. Það er enginn vafi á því að þátttaka í svona keppni jafnast á við margra ára söngnám og þjálfun í sviðsframkomu. Fyrir sigur í keppninni fær Fantasia plötusamning, líkt og fyrri sigurvegarar keppninnar, þau Kelly Clarkson og Ruben Studdard. Fyrsta smáskífa hennar verður með laginu I Believe, sem Tamyra Gray, ein af efstu keppendum árið 2002, samdi fyrir sigurvegara keppninnar. Bæði Fantasia og Diana eiga farsælan feril framundan, báðar eru gríðarlega mikið efni í stórstjörnu og hefur þeim verið líkt við Tinu Turner og Patsy Cline af upptökustjóranum Clive Davis, sem veitti plötusamninginn sem fyrstu verðlaun. Framtíð þeirra á tónlistarbrautinni er björt.

The Lord of the Rings: The Return of the KingHringadróttinssaga
Keypti mér í vikunni kvikmyndina The Lord of the Rings: The Return of the King, en hún er nú komin út á DVD. Þessi stórfenglega mynd er endapunkturinn á hina mögnuðu Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien og hlaut fyrr á þessu ári 11 óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2003. Hef ég lengi haft mikinn áhuga á bókunum og er mikill unnandi myndanna. Í desember skrifaði ég kvikmyndagagnrýni um þriðju myndina og þar kom eftirfarandi fram: "Hvert smáatriði er úthugsað, hér er um að ræða meistaraverk í kvikmyndagerð. Meistarinn og sá sem stjórnar þessu vel unna verki er Peter Jackson. Hann hefur skapað eftirminnilegustu trílógíu kvikmyndasögunnar. The Return of the King er besta mynd trílógíunnar, betri en hinar tvær fyrri til samans. Hérna birtast eftirminnilegustu bardagasenur í kvikmynd, baráttan við Mínas Tírith er svo undursamlega kvikmynduð að leitun er að betri bardagsenu í kvikmynd til þessa. Hér eru allir lausir endar fyrri myndanna bundnir saman. Útkoman er mynd sem stendur uppúr í kvikmyndagerð seinustu áratuga. Besta kvikmynd ársins 2003 - en jafnframt svo miklu meira en það. Meistarasmíð í kvikmyndagerð eins og þær gerast allra bestar." Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien er sennilega einhver rómaðasta skáldsaga allra tíma, og kvikmyndirnar munu halda uppi merki þeirra um ókomna tíð. Seinasta myndin er skyldueign fyrir alla kvikmyndaunnendur.
stjörnugjöf

The Day after TomorrowKvikmyndaumfjöllun - The Day After Tomorrow
Hver myndu örlög mannkyns verða ef verstu spár rættust varðandi gróðurhúsaáhrif og hlýrri loftvinda um allan heim? Þetta er umfjöllunarefni nýjustu kvikmyndar leikstjórans Rolands Emmerich sem gerði tæknibrellumeistaraverkið The Independence Day árið 1996. Sú mynd fjallaði um árás geimvera að jarðarbúum er ætluðu sér heimsyfirráð. Rétt eins og hún er The Day After Tomorrow sannkallað tæknibrellumeistaraverk og er mjög líklegt að myndin fái óskarinn að ári fyrir tæknibrellurnar, svo gríðarlega vel eru þær gerðar og fléttaðar inn í söguna að ekkert annað orð en stórfenglegt á við. Hörmungum jarðarbúa samhliða náttúruhamförum vegna loftslagsbreytinga sem vísindamenn spáðu árið 2000 að gætu gerst seinnipart 21. aldarinnar, er lýst með meistaralegum hætti. Gallarnir við þessa mynd eru hinsvegar nokkrir og áþreifanlegir, handritið er veikt og ennfremur leikurinn að miklu leyti. Það hefði mátt standa betur að vali á sumum leikurunum, en uppúr leikarahópnum standa þó þeir Jake Gyllenhaal og Dennis Quaid auk Ian Holm sem stelur senunni í litlu hlutverki. Tónlistin er áhrifamikil og passar vel inn í myndina þegar spennan eykst. Fyrir þá sem vilja sjá áhrifamikið tæknibrellumeistaraverk er The Day After Tomorrow rétta myndin í bíó um þessar mundir.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1886 Lyfjafræðingurinn John Pemberton kynnir fyrsta sinni nýjan svaladrykk undir nafninu Coca Cola sem slær í gegn í fyllingu tímans og verður vinsælasti gosdrykkur sögunnar
1917 John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, fæðist í Brookline - var kjörinn forseti árið 1960 og sat í embætti allt til dauðadags 22. nóvember 1963 er hann féll fyrir byssukúlu tilræðismanns
1947 Flugvél á leið frá Reykjavík til Akureyrar ferst við Hestfjall í Héðinsfirði - 25 manns fórust, þ.á.m. Garðar Þorsteinsson alþingismaður. Mesta flugslys Íslandssögunnar
1953 Edmund Hillary og Tenzing Norgay ná fyrstir manna í sögunni á tind Mount Everest
1999 Selma Björnsdóttir varð í öðru sæti í Eurovision söngvakeppninni með lagið All Out of Luck - hlaut 146 stig, 17 stigum færra en framlag Svía. Besti árangur Íslands í keppninni til þessa

Snjallyrði dagsins
Look at a day when you are supremely satisfied at the end. It's not a day when you lounge around doing nothing; its when you had everything to do, and you've done it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1979-1990)

28 maí 2004

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, stefnir að því að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum á næsta þingi og ætlar að vinna að því í sumar að ná endanlegu samkomulagi milli stjórnarflokkanna um breytingar á Ríkisútvarpinu. Undirbúningsvinna er þegar hafin og nefnd sem mun vinna að þessu mun taka til starfa innan skamms og skila af sér skýrslu og tillögum að frumvarpi í lok sumarsins. Ráðherra stefnir að því að ná einkum samkomulagi um að leggja niður afnotagjöldin og gjörbreyta hlutverki útvarpsráðs, til greina kemur að afnuma pólitíska stjórnun á því. Vill ráðherra að í stað afnotagjaldanna verði tekinn upp nefskattur eða jafnvel gjöld tengd fasteignagrunni. Jafnframt breytingunum yrði stjórnskipulag RÚV stokkað upp. Tillögur ráðherra sem fyrr eru nefndar eru ágætis byrjun á allsherjarbreytingum á rekstrinum. Það er undarlegt að ekki eru nefndar tillögur sem leiða að breytingum á sjálfu rekstrarfyrirkomulaginu, þannig að líklegt er að ráðherra ætli ekki einu sinni að vinna að breytingum í þá átt. Það er alveg lágmark í stöðunni að rekstur RÚV verði hlutafélagavæddur, allt annað er tímaskekkja. Helst ætti reyndar að selja stofnunina. Löngu er kominn tími til að afnema afnotagjöldin, en hafna ber annarskonar skattheimtu. Þeir sem vilja borga áskrift sjálfviljugir eiga að halda uppi rekstrinum, ekki á að halda áfram á sömu braut og verið hefur. Þessar tillögur eru fín byrjun, en ganga alltof skammt til raunverulegra breytinga.

ÞingsalurSamkomulag hefur náðst milli þingflokkanna að ljúka þingstörfum í kvöld. Með því samkomulagi náðist sameiginleg niðurstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að fresta tveimur stjórnarfrumvörpum, annarsvegar frumvarpi um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hinsvegar frumvarpi um breytingar á einkamála- og þjóðlendulögum. Þingmál er lúta að rjúpnaveiðum, vændi og áfengiskaupaaldri falla líka út af dagskránni og verður frestað til hausts. Mjög slæmt er að ekki hafi náðst að klára að samþykkja frumvarp um áfengiskaupaaldurinn, enda er það stórt skref fram á við og mikilvægt að fá það í gegn. Væntanlega verður það mál klárað síðar á árinu, eftir að þing kemur saman í haust. Það sem þó verra er á þessari stundu er að allt stefnir í það að tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum verði ekki lagðar fram fyrir lok vorþingsins. Í upphafi vikunnar sagði fjármálaráðherra að tillögurnar yrðu kynntar fyrir lok þingsins, en það virðist ekki ætla að ganga eftir vegna mikillar andstöðu framsóknarmanna. Það er ekki bara nauðsynlegt að leggja tillögurnar fram nú, heldur mikilvægt til að standa við gefin loforð til kjósenda í þingkosningunum fyrir rúmu ári. En það er greinilegt að framsóknarmenn vilja ganga á bak orða sinna.

George W. Bush og John KerryGreinilegt er á öllu að John Kerry forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, er orðinn margsaga í Íraksmálinu eins og flestum öðrum stefnumálum. Í gær hélt hann ræðu í Seattle, við upphaf 11 daga kosningaferðar sinnar um Bandaríkin, og gagnrýndi þar harðlega George W. Bush forseta, og utanríkisstefnu stjórnar hans. Reynir Kerry að fjarlægjast stefnu forsetans sem mest, í kjölfar ræðu forsetans um framtíðarskipun mála í Írak. Kerry hefur rekið sig á hvern vegginn eftir öðrum í kosningabaráttunni, trúverðugleiki hans jafnvel meðal skráðra demókratakjósenda hefur minnkað, einkum í ljósi auglýsingaherferðar Bush sem sýnir svo ekki verður um villst að Kerry er orðinn margsaga í afstöðu sinni til Íraks á rúmu ári, eða eftir að hann hóf kosningabaráttu sína á fullu. Kerry er því vandi á höndum og rær nú róður sem mest frá fyrri orðum sínum um málið. Rúmir fimm mánuðir eru til forsetakosninganna, 2. nóvember nk.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Tveir virkilega góðir pistlar á frelsinu í dag. Annarsvegar er pistill eftir Jón Elvar um skattamál. Þar segir orðrétt: "Sú stefna sem verið hefur í skattamálum hér á landi og hefur leitt til verulegrar lækkunar á tekjuskattshlutfalli félaga, eignarskatti, fjármagnstekjuskatti, erfðafjárskatti o.fl. verður að telja mjög til bóta frá því ástandi sem áður ríkti. Jafnframt verður að telja að boðaðar breytingar til lækkunar á tekjuskattshlutfalli einstaklinga og afnám eignarskatts verði til að bæta ástandið hér í skattamálum enn frekar þó auðvitað megi gera enn betur." Einnig er pistill eftir Helgu um jafnréttismál. Þar segir orðrétt: "Jafn réttur einstaklinga fyrir lögum og gegn ómálefnanlegri mismunun á ekkert skylt við jöfnun hlutfalla milli einstakra hópa samfélagsins. Slíkar jöfnunaraðgerðir geta þvert á móti brotið gegn jafnrétti með því að draga inn (kven)kyn sem sérstakan verðleika í stjórnun fyrirtækja. Jafnréttisbarátta fyrri alda snerist að miklu leyti um að litið væri á konur sem hæfa starfskrafta þrátt fyrir kyn þeirra. Hún snerist um að uppræta allar þær forneskjulegu hugmyndir um konur sem leiddu til þess að lítið var gert úr verðleikum þeirra. Í dag eru slík viðhorf úreld og ekki nema einstaka flón sem heldur því fram að konur geti ekki sinnt störfum jafn vel og karlar sökum þess að þær séu svo miklar tilfinningaverur eða kunni ekki rökhugsun." Góðir pistlar, sem ég hvet lesendur þessa vefs til að kynna sér.

SólVeðurblíða
Mikil veðurblíða hefur verið hér seinustu daga á Norðurlandi, sannkölluð hitabylgja. Það er freistandi að álykta sem svo að sumarið sé komið, allavega hefur fólk verið alsælt yfir veðrinu. Á miðvikudag fékk ég í heimsókn gesti sem verða hér fram að helgi, hefur verið gott að geta notað tímann seinnipartana til að sýna þeim bæinn og svona kynna þeim það helsta, sem þau vilja skoða. Það er svo margt sem stendur upp úr sem hægt er að sýna ferðafólki hér, það eru auðvitað öll söfnin, fórum t.d. í gær að sjá listsýninguna í Listasafninu þar sem eru myndir Goya. Í gærkvöldi fórum við út í Hrísey, alltaf gaman að koma þangað. Bráðum verða Akureyri og Hrísey eitt sveitarfélag, sem er mjög gott. Fengum okkur að borða á veitingastaðnum Brekku, útsýnið er alltaf unaðslegt frá veitingastaðnum yfir í land. Fórum svo á eftir smá göngutúr um eyjuna en tókum svo ferjuna til baka. Er aftur kom heim til Akureyrar fórum við í bíó og á eftir á kaffihús. Í dag er enn sama einstaka veðurblíðan og nú er bara að vona að hitabylgjan verði hjá okkur yfir helgina.

Dagurinn í dag
1972 Edward VIII deyr í Frakklandi, 77 ára að aldri. Hann varð konungur Englands í janúar 1936, en varð að segja af sér krúnunni í desember sama ár til að geta gifst unnustu sinni, Wallis Warfield Simpson. Hún var tvífráskilin og þingið og þjóðkirkjan sættu sig ekki við ráðahaginn. Frá afsögn sinni til dauðadags bjó Edward í útlegð í Frakklandi og sleit nær öllu sambandi við fjölskyldu sína, en hafði undir lok ævi sinnar mikil samskipti við Karl ríkisarfa, frænda sinn
1978 Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn fellur - vinstriflokkar ná meirihluta
1983 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, það stóð einungis í nokkra daga
1994 R-listinn vinnur kosningasigur í borgarstjórnarkosningum - hefur setið við völd síðan
1999 Þriðja ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 2003

Snjallyrði dagsins
Í 26. grein stjórnarskrár er forseta veitt heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, þar eð enginn forseti hefur beitt þessu ákvæði er það í reynd dauður bókstafur.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands (um 26. grein stjórnarskrár - 1977)

27 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Líkur eru á því að þingstörfum ljúki fyrir hvítasunnu og sumarfrí þingmanna geti því hafist um mánaðarmótin. Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því áætlað var að þinglok yrðu upphaflega. Deilt hefur verið á þingi seinustu daga um smábátafrumvarp sjávarútvegsráðherra. Samkvæmt tillögum sjávarútvegsnefndar verður sóknardagakerfinu lokað og skulu sóknardagabátar stunda veiðar með krókaaflamarki frá upphafi næsta fiskveiðiárs. Hart hefur verið deilt um frumvarpið en líkur eru þó á því að það verði að lögum fyrir þinglok. Deilt var á þingi í morgun um fjölmiðlalögin, en þau hafa ekki enn verið sent forseta Íslands til staðfestingar. Sagði forsætisráðherra í umræðu í morgun að lögin færu með venjulegum hætti til forsetaembættisins, yrði meðhöndlað eins og önnur lög, þau myndu ekki lúta öðrum lögmálum. Þingmenn stjórnarandstöðu ítrekuðu að mikilvægt væri að forseti fengi málið sem fyrst á sitt borð. Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsætisráðherra allt að 14 daga til að afhenda forseta lög eftir samþykki á þingi. Taugaveiklun í stjórnarandstöðunni kemur mjög á óvart, þegar svo skýrt kemur fram að hér er ekkert óeðlilegt um að vera, og eðlilegt ferli í gangi varðandi staðfestingu forseta og hann fái lög í hendur innan þess tíma sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Ennfremur í ljósi þess að forseti hefur ekki sjálfur gefið til kynna að hann velti því fyrir sér að neita að staðfesta lögin.

PersónuverndÞað er kunnara en frá þurfi að segja að undirskriftasöfnun andstæðinga fjölmiðlalaganna hefur verið mjög umdeild og margt flókið við hana sem þyrfti að kanna betur. Á skömmum tíma hefur þar verið safnað rúmlega 30.000 undirskriftum, bæði á netinu og með skriflegum undirskriftum. Mikill meirihluti hefur þó safnast á netinu. Merkilegt er að allir fjölmiðlar hafa fjallað lítið um bakgrunn þessarar söfnunar eða spurt einfaldra spurninga eða kannað hlutina beint. Engin gagnrýnin rannsókn virðist eiga sér þar stað á söfnuninni. Á þessu vefsvæði sem vísað er til er hægt með auðveldum hætti að skrá kennitölu fólks án sérstaks eftirlits og engan veginn er hægt að fylgjast með því hvort kennitala fólks hafi verið skráð að því forspurðu. Lítið mál er að fara í þjóðskrá í gegnum heimabanka sinn og fá kennitölur og skrá eftir það fólk inn. Það þarf kannski að kæra þessa undirskriftasöfnun til að fá slíkt fram með óyggjandi hætti. Fram kom í fjölmiðlum í dag að margir hafa leitað til Persónuverndar í ljósi þess að einstaklingar sem vildu skrá upplýsingar um sig á vefsíðuna, komust að því að nafn þeirra og kennitala hafði þegar verið skráð. Þetta er slæmt mál, sem þarf að kanna nánar og kæra nefnda söfnun ef framhald verður á slíkum vinnubrögðum. Þetta er algjörlega óviðunandi.

Ríkisútvarpið við EfstaleitiFram kom í fréttum í dag að Eftirlitsstofnun EFTA, væri nú að rannsaka hvort rekstur Ríkisútvarpsins standist samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Í ítarlegri frétt í hádeginu á Bylgjunni kom fram að eftirlitsstofnun EFTA hafi nýlega tekið upp nýjar leiðbeinandi reglur um ríkisstyrki til opinberra ljósvakafjölmiðla í takti við samsvarandi reglur ESB frá árinu 2001. Samkvæmt þeim þarf að skilgreina almannaþjónustu fjölmiðilsins og þarf skilgreiningin að vera nákvæm og skýr. Þá þarf opinber fjölmiðill að starfa samkvæmt lögum. Ennfremur á opinbert fé sem rennur til opinbers fjölmiðils að vera bundið við almannahlutverk fjölmiðilsins. Eftirlitsstofnunin ætlar með athugun sinni að sjá til þess að opinberir styrkir verði ekki meiri en tilefni er til. Ástæða er til að fagna þessari rannsókn eftirlitsnefndarinnar, það er fyrir löngu orðin þörf á að kanna stöðu RÚV á markaðnum hér, í ljósi þess að afnotagjöldin fela í sér ólöglegan ríkisstyrk þar sem viðkomandi aðili er líka á auglýsingamarkaði.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsi.is fjallar Kári um frelsið. Orðrétt segir: "Þó að á undanförnum árum hafi náðst mikill árangur, með auknu frelsi, sem meðal annars hefur veitt okkur svigrúm til eigin ákvörðunartöku, án afskipta ríkisvaldsins, þá er þó en mjög langt í land í vissum málefnum. Einna helst er það stefna ríkisins hvað varðar vörur á borð við tóbak og áfengi. Sumir stjórnmálamenn telja það nefnilega í sínum verkahring að stýra neyslu fólks á þessum vörum. Forræðishyggjan hjá þessum stjórnmálamönnum fer langt útfyrir öll mörk, ekki ætla ég að taka fyrir neina ákveðna þingmenn í þessum máli en ljóst er að þeir koma bæði úr stjórnarandstöðu en einnig úr röðum stjórnarþingmanna. Efni þessara stuttu greinar er fremur að varpa fram ýmsum hugmyndum um þetta efni heldur en að agnúast út í einstaka óvita. Árum saman máttu íslendingar ekki framleiða eða neyta áfengis því að stjórnmálamenn höfðu einfaldlega bannað alla framleiðslu á öllum drykkjum sem innihélt alkahól 1914. Þessi lög ollu þó ekki almennri hugarfarsbreytingu almennings til áfengis, þvert á móti. Þeim sem höfðu áhuga á að eignast slíka bannvöru útveguðu sér hana þó að verðið hafi sennilega verið dálítið hærra en ella, ástandið varð þó ekki eins slæmt eins og þegar áfengisbann gekk í gildi í Bandaríkjunum, sem gerði mönnum á borð við Al Capone ríkan, á örskotsstundu."

BloggBloggið
Rúmt hálft ár er nú liðið síðan ég ákvað að efla bloggið með markvissum hætti, og hætta skrifum á spjallvefi að mestu og tjá mig hér í staðinn daglega og taka saman ítarlegar færslur um fréttir dagsins og fleiri þætti sem ég vildi fjalla um. Hef ég því hér næstum því daglega allt frá októbermánuði birt daglega helstu pælingar mínir, tengdar helstu fréttunum, greinaskrifum og því sem um er að vera sem ég tel viðeigandi að fjalla um. Breytti ég einnig forminu á blogginu, hafði fasta þætti hér á hverjum degi og fjallaði um það út frá því og bætti við myndum. Tel ég að það hafi gengið vel, teljarinn sýnir fram á að vel er fylgst með skrifunum og þau eru rædd víða. Markmiðið sem ég setti þegar ég ákvað að breyta blogginu og efla það, hefur því náðst og vel það. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og greinar sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Hef ég engan sérstakan hug á að gera bloggið mjög persónulegt, nema að því leyti að tjá skoðanir mínar á stjórnmálum og samtímaviðburðum. Bloggið hér hefur lengst af verið mjög pólitísks eðlis og byggt á áhuga mínum á stjórnmálum og öðrum þáttum sem hér koma fyrir. Áfram verður haldið á sömu braut, þó eitthvað verði um breytingar á færslukerfinu í sumar, með hækkandi sól. En þeim sem vilja hafa samband bendi ég á netfangið mitt.

Dagurinn í dag
1883 Alexander III krýndur keisari Rússlands - sat á valdastóli allt til dauðadags árið 1894. Sonur hans, Nikulás (sem tók við af honum) og fjölskylda hans voru drepin í byltingunni 1917
1937 Golden Gate-brúin í San Francisco vígð - eitt af helstu táknum San Francisco borgar
1964 Jawaharlal Nehru fyrsti forsætisráðherra Indlands, deyr í Nýju Delhi, 74 ára að aldri - dóttir hans, Indira Gandhi, og dóttursonur, Rajiv Gandhi, urðu bæði forsætisráðherrar landsins
1983 Hús verslunarinnar vígt - var reist til að efla íslenska verslun og einingu samtaka þeirra
1999 Slobodan Milosevic og fleiri forystumenn Serbíu ákærðir fyrir stríðsglæpi í Haag - Milosevic missti völdin árið 2001 og var framseldur til Haag síðar sama ár og bíður dóms fyrir glæpi sína

Snjallyrði dagsins
The artist doesn't have time to listen to the critics. The ones who want to be writers read the reviews, the ones who want to write don't have the time to read reviews.
William Faulkner (1897-1962)

26 maí 2004

SjálfstæðisflokkurinnHeitast í umræðunni
Sjálfstæðisflokkurinn fagnaði í gær 75 ára afmæli sínu við hátíðlega athöfn í Hótel Nordica. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti við það tilefni ítarlega hátíðarræðu. Þar sagði hann m.a. að keppikefli flokksins væri frelsi allra en ekki ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka sem notuðu afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum. Fram kom í máli hans að framtíð þjóðarinnar væri björt og útlit væri fyrir góðæri að minnsta kosti til ársins 2010 ef vel væri haldið á. Sagði Davíð að sjálfstæðismenn vildu að þess yrði minnst sem góðæris sem gekk til allra en ekki fárra. Hann sagði að Ísland væri komið í allra fremstu röð en verkinu lyki aldrei. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ætíð sagt og myndi ætíð segja, að í hans stefnu væri frelsið ætíð í fyrirrúmi. Fram kom í ræðu Davíðs að það væri sjálfstætt markmið í sjálfu sér að gera hvern mann sjálfstæðan með trú á framtíðina svo hann geti fengið að njóta alls þess sem aðrir þeir, sem betur mættu sín, nytu. Orðrétt sagði Davíð: "Ef Sjálfstæðisflokkurinn tryði ekki þessu, um leið og hann trúir á frelsið og kraft einstaklinganna, þá væri hann ekki samur flokkur, þá væri hann ekki fjöldaflokkur, þá væri hann ekki flokkur sem fólkið í þessu herbergi styður". Er ástæða til að taka undir þau orð.

Ítarlegt viðtal við Davíð Oddsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins

BessastaðirForseti Íslands mun á næstu dögum fá í hendur lög um eignarhald á fjölmiðlum, sem þingið samþykkti í byrjun vikunnar. Í kjölfar þess mun koma í ljós hvort hann staðfestir þau eða synjar þeim um samþykki. Það hefur aldrei gerst í 60 ára sögu lýðveldisins að forseti gangi gegn vilja meirihluta þingsins, og myndi sú staða ef upp kæmi leiða til stjórnlagakreppu án fyrirsjáanlegra endaloka. Rúm 30.000 manns hafa nú skorað á forsetann að neita að skrifa undir lögin. Var þeim fjölda safnað í skriflegri söfnun og ennfremur á netinu, mikill meirihluti undirskriftanna kom til með síðarnefnda hættinum. Enginn vafi leikur á að slíkt fyrirkomulag er mjög umdeilt og vart við því að búast eftir stórundarlega framgöngu formanns Blaðamannafélags Íslands, að mark sé tekið á lista þar sem hver sem er getur skráð nöfn annars fólks. Formaðurinn hvatti alla til að reyna að fá sem flesta til að skrifa undir og jafnvel reyna að fá þá sem væru hlynntir til að gera það líka, semsagt beita öllum brögðum. Liggur við að blaðamenn sem svo koma fram missi allan trúverðugleika sinn sem von er, bendi ég á líflega umræðu blaðamanna á vef þeirra, þar sem tekist er á um þetta mál. Eftir stendur að forseti á að skrifa undir lögin og allar tiktúrur í þá átt að fara af þeirri braut sem mörkuð hefur verið mun leiða til harðvítugra pólitískra átaka sem forsetinn færi ósjálfrátt í sem þátttakandi. Reyndar hefur forsætisráðherra í ítarlegu viðtali við RÚV gefið sterklega í skyn að neitun forseta muni leiða til langra deilna, semsagt stjórnlagakreppu sem við höfum aldrei kynnst áður.

DalvíkTilkynnt var um það í gær að starfsfólki hjá kjúklingabúinu Íslandsfugli í Dalvíkurbyggð, alls um 30 manns, verði sagt upp störfum frá og með mánaðarmótum. Sundagarðar hf., sem eiga kjúklingafyrirtækið Matfugl hafa nú keypt allt hlutafé í Marvali ehf. sem rekur kjúklingabú Íslandsfugls og stefnir að breytingum á rekstrinum á Dalvík. Ár er liðið frá því Marval tók við rekstrinum af þrotabúi fyrirtækisins, en reksturinn hafði gengið brösuglega allt frá upphafi. Þessar breytingar hafa slæm áhrif á staðinn og þá sem þarna vinna, allt frá upphafi hefur mikil óvissa verið um reksturinn og endalausar breytingar á honum og eigendaskipti hafa haft slæm áhrif. Tek ég undir með Valdimar Bragasyni bæjarstjóra í Dalvíkurbyggð, að slæmt er að þessi rekstur hafi ekki gengið upp, enda voru miklar væntingar uppi um hann í upphafi þessarar tilraunar. Vona ég að áhrif þessa verði ekki eins slæm fyrir staðinn og nú lítur út fyrir.

María Margrét JóhannesdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsi.is fjallar Mæja um réttindi fólks almennt. Orðrétt segir: "Það virðist ekki skipta máli hvað rætt er um hverju sinni, í öllum málaflokkum er sífellt talað um rétt fólks til eins eða annars - til dæmis er því haldið fram að það sé réttur fólks að fá námið sitt greitt að fullu af samborgurum sínum, það sé réttur fólks að fá borgað fyrir að vera heima með nýfæddum börnum sínum í marga mánuði og það sé jafnvel réttur fólks að vera ráðið í starf fyrir það eitt að vera af réttu kyni. Umræðan er komin á villigötur því það þykir sjálfsagt að öðlast rétt á kostnað annarra. Slík umræða getur ekki verið af hinu góða. Réttindi eru óháð staðbundnum kringumstæðum, svo sem samfélagsgerð eða efnahag. Ayn Rand nefnir í bók sinni The Virtue of Selfishness: A New Concept of Egoism að það sé aðeins einn grundvallarréttur og það sé rétturinn til lífs. Rétturinn til lífs felur í sér athafnafrelsi, þ.e. frelsi til að þurfa ekki að sæta kúgun annarra. Einstaklingar hafa frelsi til að velja sér markmið og reyna að ná þeim fram og hegða sér í samræmi við eigin dómgreind. Réttur einstaklingsins hvílir þó ekki á herðum náungans nema að því leyti að menn verða að halda sér frá því að traðka á réttindum annarra. Réttur eins getur ekki brotið í bága við rétt annars." Bendi ennfremur á góðan pistil Kidda um hagvaxtarspána, sem birtist í gær. Hvet alla til að lesa þessa ítarlegu pistla.

Vef-ÞjóðviljinnPistlaskrif
Það er mjög freistandi að benda fólki enn einu sinni á skrif á Vef-Þjóðviljanum. Að mínu mati ber sú síða af öllum öðrum sem eru með dagleg skrif um þjóðmál, enda greinahöfundar þar með ferska sýn á þjóðmálin og málefni samtímans. Í dag er fjallað um skýrslu sem fréttastofa Stöðvar 2 pantaði vegna fréttaumfjöllunar um fjölmiðlafrumvarpið. Orðrétt segir: "En þegar skýrslan er lesin, í stað þess að líta aðeins á niðurstöðukaflann, má sjá að þessi samantekt höfundar skýrslunnar er hæpin í meira lagi og gefur alls ekki rétta mynd af þeim gögnum sem skýrslan hefur að geyma um umfjöllun fréttastofanna tveggja. Sem dæmi má nefna að í skýrslunni er sagt frá því hversu mikil umfjöllun fréttastofanna tveggja um fjölmiðlafrumvarpið hafi verið. Þar kemur fram að fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um frumvarpið 37 sinnum á tímabilinu sem rannsóknin náði til, 20. apríl til 7. maí, en fréttastofa Ríkissjónvarpsins aðeins 25 sinnum í aðalfréttatímanum og að auki 6 sinnum í seinni fréttatíma. Ef miðað er við þann fréttatíma sem langmest er horft á fjallaði Stöð 2 þess vegna nær 50% oftar um frumvarpið en Ríkissjónvarpið. Og jafnvel þótt seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins sé bætt við fjallaði Stöð 2 nær 20% oftar um frumvarpið." Grein, sem mælt er með að allir lesi.

Dagurinn í dag
1056 Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, var vígður biskup að Skálholti
1845 Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur, deyr í Kaupmannahöfn, 37 ára að aldri
1968 Hægri umferð tekin upp á Íslandi - vinstri umferð hafði áður verið í tæpa sex áratugi
1983 Fyrsta ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 1987
2002 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist eftir kosningasigur R-lista ekki stefna á þingframboð í kosningunum 2003 - ákvað þó þingframboð síðar sama ár og varð að segja af sér í kjölfarið

Snjallyrði dagsins
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)

Að lokum skal bent á að allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa orðið forsætisráðherrar, ekki bara 6 af 7 eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Fyrsti formaður flokksins, Jón Þorláksson, var forsætisráðherra, 1926-1927, en það var vissulega í tíð Íhaldsflokksins. En allir formenn flokksins hafa orðið forsætisráðherrar.

25 maí 2004

SjálfstæðisflokkurinnSjálfstæðisflokkurinn 75 ára
Í dag eru 75 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins. 25. maí 1929 sameinuðust þingflokkar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Við stofnun voru tvö mál tilgreind sem aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins. Hið fyrra var að vinna að því og undirbúa, að Ísland myndi taka að fullu í sínar hendur eigin mál, samhliða því að 25 ára samningstímabili sambandslaganna væri á enda. Hið seinna var að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Með þessu voru markaðir tveir höfuðþættir sjálfstæðisstefnunnar: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi staðið vörð um einkaframtakið og hefur frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn, er hafa leitt flokkinn farsæla leið. Það er mikil ástæða til að fagna á þeim miklu tímamótum er flokkurinn fagnar 75 ára afmæli sínu. Forysta flokksins í landsmálum hefur verið traust og leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Sjálfstæðisstefnan er nú rétt eins og 1929 sú stefna sem mun reynast íslensku þjóðinni farsælust.

75 ára afmæli - umfjöllun mín um afmæli flokksins

AlþingiEldhúsdagsumræður á Alþingi
Senn líður að lokum þingstarfa á vorþinginu, mörg hitamál hafa verið rædd í þingsölum á þessu starfstímabili og mikið tekist á um helstu málin. Í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi litu þingmenn allra flokka yfir sviðið og fóru yfir veturinn í stjórnmálunum og starfstíma þingsins. Stjórnarandstöðuþingmenn voru hvassir í orðavali og notuðu gífuryrði til að ráðast að stjórnarþingmönnum, má fullyrða að eldhúsdagsumræður hafi aldrei verið jafn hvassbeittar og nú. Fyrstur stjórnarþingmanna í umræðunni talaði Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Í ræðu sinni sagði hann að ríkisstjórnarflokkarnir ynnu að lokafrágangi á tillögum um skattalækkanir og búast mætti við að þær yrðu kynntar á þingi á næstu dögum. Fram kom í ræðu hans að Ísland hefði að undanförnu fest sig í sessi sem fyrirmyndarríki á mörgum sviðum en það ástand og málþóf sem stjórnarandstaðan hefði haldið uppi vegna andstöðu sinnar við fjölmiðlafrumvarpið hefði sett mikinn blett á virðingu Alþingis bæði hér á landi og út á við. Tók Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, undir að tillögur um skattalækkanir kæmu fram á næstunni í ræðu sinni. Ber að fagna því mjög að þetta baráttumál okkar ungra sjálfstæðismanna og eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í fyrra verði efnt nú á vorþinginu, enda var áríðandi að koma þessu máli á hreint fyrir sumarfrí þingmanna.

ReyðarfjörðurForystumönnum Vinstri grænna á þingi varð tíðrætt í ræðum sínum í eldhúsdagsumræðunni um þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á öllum sviðum í Fjarðabyggð og um allt Austurland og birst hefur okkur í vönduðum fréttaskýringum Björns Malmquist fréttamanns á Egilsstöðum. En því fór hinsvegar víðsfjarri að þar væri heimamönnum og íbúum Austurlands og Norðausturkjördæmis samfagnað með góða stöðu mála og þá miklu framför sem orðið hefur. Þeir kepptust þess í stað við að níða niður allt það góða sem komið hefur með væntanlegum virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka með endalausu svartagallsrausi. Forystumaður VG í Reykjavík sá reyndar ástæðu til að hvetja fólk til að reisa álverinu og virkjuninni níðstangir sem víðast og herða á neikvæðum ummælum gegn framkvæmdunum og uppbyggingunni fyrir austan. Það er merkilegt að annar þingmaðurinn er málsvari kjördæmis Austfirðinga, en málflutningurinn kemur ekki á óvart. Hann hefur oft heyrst vel en undarlegt er að hert sé á honum þegar jákvæð staða mála blasir við. Einu lífslexíur vinstri grænna eru úr sér gengnar kommaþulur sem engir aðrir vilja kannast við í dag. Það er kannski spurning hvort ekki væri rétt fyrir þessa menn að horfa til nútímans og fagna því sem vel gengur í stað þess að níða það niður.

ÞingsalurFormaður Vinstri grænna fór mikinn í ræðu sinni í þingumræðunum, venju samkvæmt og fúkyrðin flugu í allar áttir. Hann vandaði stjórnarflokkunum ekki kveðjurnar og var auk þingflokksformanns sama flokks í ótrúlegu svartagallsrausi eins og fyrr er nefnt t.d. varðandi stöðu mála fyrir austan. Sagði formaðurinn að hér væri allt að fara fjandans til og sagði réttast að henda ríkisstjórninni á haugana sem fyrst. Var hann svo hvassur og uppstökkur að hann minnti einna helst á predikara í sértrúarsöfnuði að tala um myrkravættina sem allsstaðar væru. Gleymdi hann sér það mjög í formælingunum að er kom að lokum ræðunnar, gargaði hann sumarkveðju sína til landsmanna. Uppskar hann að vonum hlátur úr salnum, enda ekki furða að menn hlæji að því hversu illa maðurinn hefur stjórn á sér, hefur það reyndar birst oft að undanförnu. Eins og fram kom í ræðum fjármála- og utanríkisráðherra ríkir hér stöðugleiki á flestum sviðum. Samfellt hagvaxtarskeið hérlendis hefur komið til vegna ábyrgrar efnahagsstjórnar og uppbyggingar. Þeir sem andmæla framkvæmdum og uppbyggingu á Austurlandi með öllum kröftum eru hinsvegar ekki trúverðugir þegar kemur að því að gagnrýna stjórnvöld við það hvernig haldið er á stjórn landsmála að öðru leyti. Þar fara vinstri grænir framarlega og hafa alla tíð verið, en Samfylkingarmenn skiptu um skoðun eftir að fram hafði komið að meirihluti þjóðarinnar væri hlynntur framkvæmdunum, eins og kunnugt er.

ÞingsalurLög um eignarhald á fjölmiðlum er samþykkt voru á þingi í gær, var rauður þráður í gegnum allar ræður kvöldsins í eldhúsdagsumræðunum. Stjórnarandstæðingar fóru mikinn í að endurtaka alla frasana er heyrðust í þingumræðum seinustu vikna en stjórnarsinnar minntu á mikilvægi laganna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, minntist á í ítarlegri ræðu sinni að stjórnarandstaðan hefði forðast það eins og heitan eldinn í umræðunum að koma sjálf með tillögur að lögum um eignarhaldið á fjölmiðlum og Samfylkingin vakið sérstaka athygli fyrir stefnuleysi sitt. Undir þessi ummæli tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sem benti á mörg ummæli stjórnarandstöðunnar um málið frá fyrri tíð. Kristján Möller svaraði í ræðu sinni fyrir Samfylkinguna og sagði flokkinn hafa komið með margar tillögur um málið. Engar nefndi hann þó beint í ræðu sinni, enda eru þær allt annars eðlis en taka beint á sjálfu eignarhaldinu á fjölmiðlunum. Það blasir við öllum að Samfylkingin er bara flokkur sem eltir vindinn og dansar eins og vindhani eftir könnunum og hefur engar skoðanir nema taka púlsinn, sannfæringarnar eru engar og tillögurnar allar byggðar á vinsældamati. Það hefur sannast vel seinustu vikur.

ÞingsalurÍ ræðum sínum við eldhúsdagsumræðurnar fjölluðu bæði Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, um málskotsrétt forseta Íslands, og sögðu að það væri atlaga að þingræðinu og óeðlilegt inngrip hjá forseta í málefni þingsins, ef hann staðfesti ekki lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ef hann færi þá leið myndi hann stíga af friðarstóli og valda stjórnlagakreppu án fyrirsjáanlegra endaloka. Sú umræða er nú uppi að hann eigi ekki að skrifa undir og hann meira að segja hvattur beint með útifundi við forsetaskrifstofuna við Sóleyjargötu í gærkvöldi. Fólk hlýtur að gera sér grein fyrir því að forseti er í erfiðri aðstöðu, en hann hefur í hendi sér hvort hann fer eftir vilja meirihluta þingsins eða fær það upp á móti sér með inngripum í störf þess. Það er mikið umhugsunarefni að almenningur telji forsetann eiga frekar að beita þessu valdi nú en t.d. í málum tengdum EES og gagnagrunni á heilbrigðissviði. En umræður gærkvöldsins voru líflegar og mörg orð féllu þar og beitt skoðanaskipti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég mun fjalla meira um umræðurnar í sunnudagspistli á heimasíðu minni um næstu helgi.

Dagurinn í dag
1787 Stjórnarskrárráðstefna haldin í Philadelphiu í Bandaríkjunum
1929 Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður - Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinast
1958 Steinn Steinarr, eitt merkasta ljóðskáld 20. aldarinnar, deyr í Reykjavík, 49 ára að aldri
1961 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, kynnir geimferðaráætlun stjórnar sinnar
1997 Strom Thurmond verður sá þingmaður Bandaríkjanna er lengst hefur setið, þá alls í 47 ár og 10 mánuði - hann sat á þingi til janúarmánaðar 2003. Hann lést í júní 2003, þá aldargamall

Snjallyrði dagsins
Sjálfstæðisstefnan hafnar kreddum og kyrrstöðu niðurrifsafla og afturhaldsafla, í hvaða mynd sem þær birtast og hvaða nafni sem þær nefnast. Hún er umfram allt stefna markvissrar jákvæðrar þróunar til betri lífskjara og lífsfyllingar. Trúin á manninn er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar.
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (Sjálfstæðisstefnan - 1981)

24 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt á Alþingi, laust eftir hádegið í dag. Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum en 30 greiddu atkvæði gegn því, einn sat hjá. Breytingartillögur við frumvarpið voru samþykktar með 33 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn 24 atkvæðum þingmanna Samfylkingar og Frjálslynda flokksins. Sex þingmenn sátu hjá, þingmenn VG og Kristinn H. Gunnarsson, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Jónína Bjartmarz alþingismaður Framsóknarflokks, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Aðrir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu. Nú þegar frumvarpið hefur verið samþykkt sem lög frá þinginu, fer málið á borð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, mun þá koma í ljós hvort hann noti 26. grein stjórnarskrárinnar og vísi málinu til þjóðarinnar eða samþykki lögin. Að mínu mati á forseti ekki að synja lögunum um samþykki, það á að vera þingsins að taka ákvarðanir um lagasetningar. Sú staða sem upp kæmi ef forseti neitar lögunum um samþykki mun verða erfið að öllu leyti fyrir stjórnkerfið og stjórnlagakreppa sem við höfum ekki kynnst í 60 ára sögu lýðveldisins skella á, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir forsetaembættið og stjórnkerfið allt.

Paul MartinPaul Martin forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins, tilkynnti í gær um þá ákvörðun sína að rjúfa þing og boða til þingkosninga í landinu, 28. júní nk. Gekk hann á fund Adrienne Clarkson landstjóra í Kanada í gær og tilkynnti um ákvörðun sína, fer Clarkson með vald Elísabetar Englandsdrottningar, í landinu. Kosningarnar fara fram tveim árum áður en kjörtímabil ríkisstjórnarinnar rennur út. Martin tók við embætti forsætisráðherra, 12. desember 2003 af Jean Chretien sem leitt hafði Frjálslynda flokkinn til sigurs í þrennum kosningum og setið á valdastóli í rúman áratug. Ástæður þess að Martin boðar til kosninga, er að hann vill eigið umboð til forystu, en ekki leiða þjóðina í umboði sem veitt var Chretien. Var Chretien lengi vel óskoraður leiðtogi frjálslyndra en á seinni árum höfðu óvinsældir hans aukist innan eigin flokks. Martin og Chretien háðu lengi valdastríð saman innan flokksins sem lauk því með að Chretien sparkaði honum úr stjórn sinni sumarið 2002. Chretien vék svo fyrir Martin í lok seinasta árs, en í millitíðinni var Martin utan stjórnar. Skv. skoðanakönnunum getur verið að Martin muni eiga við ramman reip að draga, óvinsældir flokksins hafa aukist á meðan hans persónulegu vinsældir haldast.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaðurÞað hefur ekki farið framhjá neinum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, hefur setið á þingi seinustu vikur fyrir Guðrúnu Ögmundsdóttur. Er Ingibjörg eins og kunnugt er fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Jafnskjótt og farið var að ræða fjölmiðlamálið á þingi birtist Ingibjörg þar inni og eftirtektarvert að um leið og umræðunni lauk á laugardag hvarf hún og Guðrún mætti aftur til starfa. Er merkilegt að Ingibjörg Sólrún birtist þarna einvörðungu þegar mikilvægustu málin eru til umræðu og alltaf hverfur Guðrún af vettvangi til að hliðra til fyrir Ingibjörgu. Er engin furða sennilega að Samfylkingarfólk reyni að lappa upp á Ingibjörgu og koma henni í sviðsljósið. Hefur ásýnd hennar ryðgað nokkuð eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna þingframboðs fyrir einu og hálfu ári og náði ekki kjöri í kosningunum. Hefur hún verið lítt sýnileg á pólitískum vettvangi síðan þá, ja nema ef vera skyldi innan Samfylkingarinnar, þar sem hún er nú varaformaður að baki Össurar Skarphéðinssonar, félaga síns og væntanlega keppinautar um formennsku flokksins á næsta ári.

ÞingsalurPistlaskrif
Að venju eru mögnuð skrif á Vef-Þjóðviljanum. Í dag fjallar pistlahöfundur á vefnum um fjölmiðlafrumvarpið og segir orðrétt svo: "Í dag verður margrætt frumvarp til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum afgreitt á alþingi, væntanlega sem ný lög. Þá þurfa þingmenn að velja á milli annars vegar þess frumvarps og hins vegar óbreyttra laga. Þegar það frumvarp er skoðað, þá eru tvenns konar athugasemdir sem koma til greina - að mati Vefþjóðviljans - ef menn vilja finna að frumvarpinu. Í fyrsta lagi er hægt að vera á móti frumvarpinu af princip-ástæðum, það er að segja, menn geta sagt að þeir séu einfaldlega á móti samkeppnisreglum og hafni því frumvarpinu enda er það í eðli sínu frumvarp um sérstakar samkeppnisreglur á tilteknu sviði. Hinn kosturinn til að finna að frumvarpinu, er að segjast að vísu vera hlynntur samkeppnisreglum en vilji bara ekki akkúrat þessar samkeppnisreglur á fjölmiðlamarkaði. Vilji kannski ekki að eignarhlutur takmarkist við 35 % eign heldur eigi hann fremur að takmarkast við 25 %, eða kannski 40 %, og svo framvegis. Slík atriði verða hins vegar afgreidd með breytingartillögum." Hvet alla til að lesa þennan pistil á vefnum og önnur skrif andríkisfólks þar, alltaf gaman að líta á skrif þeirra.

SjálfstæðisflokkurinnÍ vikunni birtist á Íslendingi góður pistill eftir Gísla Aðalsteinsson, sem hann kallar Ákvarðanir um staðsetningu og rekstrarform opinberra stofnana. Orðrétt segir: "Ef stjórnvöld telja nauðsynlegt að ríkið veiti einhverja tiltekna þjónustu eða styðji við framleiðslu á einhverjum ákveðnum vörum þá ætti að bjóða þann rekstur út nema ef stjórnvöld geta sýnt fram á það með gildum rökum að það sé nauðsynlegt að þau sjái sjálf um þennan rekstur. Heppilegast væri að skilgreina í lögum við hvaða þröngu aðstæður er réttlætanlegt að ríkið standi sjálft í rekstri. Ef einhverjir aðilar vildu fá úr því skorið hvort að réttlæting stjórnvalda fyrir því að reka sjálf eitthvert ákveðið fyrirtæki sé nægjanleg þá ættu þeir að geta borið ákvörðunina undir dómstóla. Þegar ákvörðun er tekin um staðsetningu á fyrirtækjum þar sem nauðsynlegt er að ríkið sjái sjálft um reksturinn þá ætti að taka tillit til þess hvar hagkvæmast er að reka slíka þjónustu en ekki síður hvar er sanngjarnast að staðsetja slíka þjónustu með tilliti til þess að skattgreiðendur njóti með sem jöfnustum hætti ávinnings af nábýlinu við umrædd fyrirtæki." Hvet alla til að lesa þennan góða pistil.

Dagurinn í dag
1153 Malcolm IV verður konungur Skotlands - ríkti til dauðadags árið 1165
1626 Peter Minuit kaupir Manhattan eyjuna í New York - sem nú er stór hluti borgarinnar
1883 Brooklyn-brúin vígð formlega - tengir saman Manhattan og Brooklyn
1941 Hood, stærsta herskip heims, sekkur um 250 sjómílum vestur af Reykjanesi
1973 Einn fjölmennasti mótmælafundur aldarinnar í Reykjavík - 30.000 manns mótmæla formlega flotaíhlutun Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögu Íslendinga í 200 mílur, árið 1972

Snjallyrði dagsins
An eye for eye only ends up making the whole world blind.
Mahatma Gandhi (1869-1948)

23 maí 2004

Felipe Spánarprins og eiginkona hans Leticia prinsessaHeitast í umræðunni
Konunglegt brúðkaup var á Spáni í gær þegar Felipe krónprins Spánar, gekk að eiga spænsku sjónvarpskonuna Leticiu Ortiz í dómkirkju Madridar. Það var Rouco kardínáli, erkibiskup Madridar, sem gaf þau saman. Felipe er 36 ára gamall, yngstur barna Juan Carlos Spánarkonungs og Sofíu Spánardrottningar. Systur hans eru eldri, en hann er eini sonur konungshjónanna og erfir ríkið, enda aðeins gert ráð fyrir karlkyns þjóðhöfðingja. Um er að ræða fyrsta konunglega brúðkaupið í Madrid í rúma öld, en konungshjónin giftust í Aþenu árið 1962, enda er drottningin grísk prinsessa, og systur prinsins giftust í Sevilla og Barcelona. Letizia prinsessa, er 31 árs gömul. Hún var þekkt fréttakona hjá spænska ríkissjónvarpinu þar til í haust er þau Felipe opinberuðu öllum að óvörum, trúlofun sína. Leticia er fráskilin og verður fyrsta fráskilda drottning seinni tíma, er Felipe tekur við völdum. Spænska þjóðkirkjan sættir sig við makavalið, enda giftist prinsessan áður borgaralega og tekur kirkjan slík hjónabönd ekki gild. Prinsessan var því heppin þar. Um er að ræða sögulegt brúðkaup, og þrátt fyrir rigningu í Madrid var athöfnin stórfengleg að öllu leyti.

Horst Köhler verðandi forseti ÞýskalandsHorst Köhler fyrrum yfirmaður Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (International Monetary Fund), var í dag kjörinn forseti Þýskalands. Hann sigraði í kosningu á þýska þinginu háskólaprófessorinn Gesine Schwan, sem hefði orðið fyrsti kvenkyns forseti Þýskalands ef hún hefði náð kjöri. Köhler hlaut 604 atkvæði og var studdur til embættisins af kristilegum demókrötum og frjálslyndum demókrötum en Schwan hlaut 589 atkvæði og var studd af ríkisstjórnarflokkunum. Úrslitin eru því nokkuð áfall fyrir ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja undir forsæti Gerhard Schröder sem setið hefur við völd frá 1998, en hefur frá kosningunum 2002 veikst sífellt. Úrslitin eru að sama skapi mikið ánægjuefni fyrir hægriblokkina og forystumenn hennar, þau Edmund Stoiber og Angelu Merkel. Þó þýska forsetaembættið sé einungis táknræn tignarstaða, getur forsetinn haft áhrif á gang mála og er talið að Köhler muni í embætti þrýsta á efnahagsumbætur í landinu og ekki beint auðvelda vinstristjórninni lífið. Köhler tekur við embætti 1. júlí nk. af jafnaðarmanninum Johannes Rau sem setið hefur á forsetastóli frá 1999.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um 75 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins þann 25. maí nk., og fer samhliða því yfir nokkra þætti þess af hverju flokkurinn hefur allt frá stofnun verið stærsti flokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Íhaldsflokkurinn sem stofnaður var 24. febrúar 1924 naut frá upphafi meira kjörfylgis en aðrir flokkar og varð undirstaðan að Sjálfstæðisflokknum. Jón Þorláksson var fyrsti og eini formaður flokksins og meðal annarra forystumanna hans voru Magnús Guðmundsson og Jón Magnússon. Jón var fyrsti forsætisráðherra Íslands og mikill forystumaður hægrimanna í landinu allt til andláts síns árið 1926, Jón Þorláksson tók þá við embætti forsætisráðherra og sat í tæpt ár, allt þar til vinstristjórnin tók við völdum eftir þingkosningarnar 1927, þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hlyti þá 42,5% atkvæða. Frjálslyndi flokkurinn varð upphaflega til árið 1926 sem félag frjálslyndra manna og bauð fram sem flokkur í kosningunum 1927 og náði aðeins einum manni á þing, Sigurði Eggerz fyrrum ráðherra. Það var því rökrétt framhald að sameina flokkana. Fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður að öllum líkindum samþykkt á þingi eftir helgina og í tilefni að því fer ég yfir hvernig málið hefur verið seinustu vikuna og vík að málskotsrétti forsetans, en forseti hefur verið hvattur til að synja frumvarpinu um samþykki. Að lokum fjalla ég um væntanlegar forsetakosningar en framboðsfrestur rann út um helgina.

Björn BjarnasonPistill Björns
Björn fjallar í helgarpistli sínum um lögfræði, stjórnmál, fjölmiðla og málþóf. Orðrétt segir: "Umræður vegna álits umboðsmanns alþingis eru að verulegu leyti um lögfræðileg álitaefni, þar sem þessi þríhyrningur milli stjórnarmeirihluta, lögspekinga og stjórnarandstöðu birtist að nýju. Stjórnmálamenn verða einnig í þeim umræðum að huga að svigrúmi sínu, jafnvel þótt þeir séu í stjórnarandstöðu. Að nota ræðustól alþingis til að kenna varðstöðu um þetta svigrúm við valdhroka einkennist af mikilli skammsýni. Núna eru um tvær vikur, frá því að umboðsmaður alþingis birti álit sitt um skipan mína á hæstaréttardómara. Ég hef rætt málið á alþingi, fjallað um það hér á síðunni, birt ræður um það og rætt við fjölmiðla – alls staðar hef ég tekið fram, að ég muni skoða þetta álit af alvöru, engu að síður sé ég að jafnvel vandaðir blaðamenn slíta orð mín úr samhengi og telja mig hafa sýnt umboðsmanni óvirðingu! Ég skil ekki, hverjum blaðamenn eru að þjóna með þessu frekar en að ég skilji gildi daglegra frétta í DV um símtal Davíðs Oddssonar og Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis. Ég tel, að í hvorugu tilviki sé um sérstaka umhyggju fyrir embætti umboðsmanns að ræða."

Dagurinn í dag
1555 Páll páfi VI kjörinn páfi - sat á páfastóli í fjögur ár, lést 1559
1934 Bankaræningjarnir Clyde Barrow og Bonnie Parker drepin í Louisiana - þekkt útlagapar
1949 Lýðveldi formlega stofnað í Þýskalandi - endalok endurreisnar landsins eftir seinna stríð
1998 Friðarsamkomulag kennt við föstudaginn langa, samþykkt á N-Írlandi
2003 Fjórða ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum á Bessastöðum - Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vinna saman þriðja kjörtímabilið í röð, hafa starfað saman frá apríl 1995

Snjallyrði dagsins
In the future everyone will be world-famous for fifteen minutes.
Andy Warhol (1928-1987)

Að lokum bendi ég á vefinn Bowling for Truth

22 maí 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Framboðsfrestur til embættis forseta Íslenska lýðveldisins rann út á miðnætti. Þá höfðu þrír einstaklingar tilkynnt um framboð til embættisins: Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson og Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands. Fjórði aðilinn er tilkynnt hafði um framboð, Snorri Ásmundsson, hætti við framboð sitt í vikunni. Farið var yfir framboðin á fundi í dómsmálaráðuneytinu í morgun og staðfest þar formlega að þessir þrír frambjóðendur hefðu skilað inn gildum fjölda meðmælenda til að vera kjörgengir. Forsetakosningar munu fara fram laugardaginn 26. júní nk. Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að forsetaembættið sé með öllu óþarft, minnti ég á þá afstöðu mína í tveim pistlum í febrúar sl, annarsvegar á frelsi.is og heimasíðu minni, samhliða umræðunni um heimastjórnarafmælið og ákvörðun forseta að vera í Aspen á þeim tímamótum í sögu þjóðarinnar. Að mínu mati á að leggja niður forsetaembættið, enda eru raunverulegar embættisskyldur forsetans einkum formlegs eðlis og gætu í raun verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Að því sögðu tel ég rétt að taka afstöðu til forsetaefnanna núna. Ég tel á þessum tímapunkti, engan þeirra vera þess verðan að gegna þessu tilgangslausa embætti og mun skila auðu í kosningunum 26. júní, að öllu óbreyttu. Ég mun þar kjósa með því að þessi stóll sé óþarfur eins og komið er málum.

FréttablaðiðEngum hefur dulist seinustu vikur hvernig fréttamiðlum Norðurljósa hefur skefjalaust verið beitt í þeim tilgangi einum að hafa áhrif á almenningsálitið vegna eins máls, þess máls sem mest hefur verið rætt í samfélaginu. Eitt besta dæmi þessarar áróðursmennsku fjölmiðlanna birtist í Fréttablaðinu í morgun í skoðanakönnun þar sem stendur stórum stöfum á forsíðu: "Stjórnin aldrei óvinsælli". Er þar vísað til skoðanakönnunar sem Fréttablaðið mun hafa staðið fyrir á undanförnum dögum. Kemur þar fram að stjórnarflokkarnir njóta minna fylgis til samans en Samfylkingin ein. Þegar rýnt er í tölur um úrtak könnunarinnar og fleira því tengt kemur fram að 800 manns hafi verið í úrtakinu um fylgi flokkanna en 51,5% þeirra hafi tekið afstöðu. Semsagt hafi annarhver aðili í úrtakinu ekki gefið upp afstöðu sína, þarna er því byggt á skoðun 400 einstaklinga. Mjög merkilegt. En hvað varðar almennt niðurstöður kannana Fréttablaðsins, þá kemur ekkert á óvart með þær, enda hafa fjórir fjölmiðlar verið með mjög einhliða umfjöllun um þetta mál og allt að því áróður sem á ekkert skylt við málefnalega umfjöllun. Það sannast þarna hvernig þrjár fréttastofur undir einni stjórn hafa áhrif á almenningsálitið og geta komið skoðunum eigenda sinna á framfæri. Frjáls og óháð fjölmiðlun, sem þau hafa haft að leiðarljósi, hefur vikið á undanförnum vikum fyrir einkahagsmunum eigenda Norðurljósa og starfsmanna fyrirtækisins. Spyrja mætti, er það virkilega rétt og ásættanlegt? Nauðsyn laga um eignarhald fjölmiðla verður sífellt ljósara.

Vef-ÞjóðviljinnGreinaskrif
Að venju eru alltaf góð skrif í Vef-Þjóðviljanum. Í fyrradag fjalla þeir um nýlegan dóm Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu og flétta það við önnur mál og færir svo rök fyrir afhverju fjallað er svo um málið. Orðrétt segir: "Jú það er nú vegna þess að til er fólk sem telur að nýlega hafi verið sýnt fram á að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ þar sem umboðsmanni alþingis þyki sem hann hefði átt að kanna tiltekið atriði - kunnáttu annarra umsækjenda á tilteknu réttarsviði og mat dómara hæstaréttar á henni - áður en hann skipaði mann í starf. Þetta álit umboðsmanns þykir einhverjum sýna að ráðherrann hafi hvorki meira né minna en „brotið lög“ en því fer hins vegar fjarri. Það væri engu fráleitara að heimta afsagnir héraðsdómaranna sem „dæmdu menn í fangelsi eftir ónothæfum gögnum“ en að æpa það að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ við það að eftir á þyki umboðsmanni alþingis að henn hefði átt að ganga ýtarlegar úr skugga um tiltekið atriði. Í raun liggur nær að taka dómarana og ríkissaksóknara fyrir - þar er þó hæstaréttardómur sem liggur fyrir, hvað sem mönnum finnst um hann, en ekki aðeins álit eins manns eða einnar stjórnsýslunefndar. Og ef einhver heldur að skoðanir Vefþjóðviljans á gildi álita umboðsmanns alþingis tengist á nokkurn hátt nýlegum álitum hans, svo sem í "Falun Gong málinu" eða áliti hans um nýlega skipun hæstaréttardómara, þá er það misskilningur."

American IdolIdol
Vika er þangað til næsta poppstjarna Bandaríkjanna verður valin í símakosningu í American Idol. Í þættinum í gær voru aðeins eftir þrír þátttakendur: Diana DeGarmo, Fantasia Barrino og Jasmine Trias. Greinilegt er á öllu að gríðarlegur skóli er að taka þátt í þessari keppni, jafnast á við margra ára söngnám, enda reynir hálfsárs þátttaka í slíkum þáttum mjög á keppendur. Um þær þrjár sem sungu í gærkvöldi er hægt að segja að allar hafa bætt sig verulega á þessu tímabili. Stóðu sig allar vel í gærkvöldi, enda kemst enginn svona langt í slíkri keppni nema hafa eitthvað gott fram að færa. Það þótti sýnt frá upphafi að Jasmine myndi falla úr keppni og fór það svo. Þrátt fyrir góða frammistöðu stenst hún ekki hinum tveim snúninginn. Það verða því Diana og Fantasia sem keppa til úrslita að viku liðinni í Kodak leikhúsinu í Hollywood.

Dagurinn í dag
1133 Sæmundur fróði lést, 77 ára gamall - hann bjó í Odda á Rangárvöllum
1339 Mikill jarðskjálfti á Suðurlandi - eignatjón varð mikið og nokkrir létust í kjölfarið
1921 Fyrstu hljómsveitartónleikarnir haldnir hérlendis - tímamót í íslensku tónlistarlífi
1982 Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur eftir fjögur ár í minnihluta - Davíð Oddsson varð borgarstjóri og sat til 1991 - misstu meirihlutann árið 1994
2004 Felipe krónprins Spánar, giftist sjónvarpskonunni Leticiu Ortiz í Madrid

Snjallyrði dagsins
Never tell people how to do things. Tell them what to do, and they will surprise you with their ingenuity.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)

21 maí 2004

Silvio Berlusconi og George W. Bush á leiðtogafundi sumarið 2003Heitast í umræðunni
Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, og George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hittust á fundi í Hvíta húsinu í gær, til að ræða stöðu mála í Írak, nú þegar styttist í að bandalagsþjóðirnar, sem hafa stjórnað landinu frá apríl 2003, færi heimamönnum völdin þar. Að fundinum loknum lýsti Berlusconi því yfir að ítalskt herlið verði áfram í Írak eftir valdaskiptin 30. júní nk. og gagnrýndi jafnframt harðlega stjórnarandstöðuna á Ítalíu fyrir afstöðu sína til Íraksmálsins. Sakaði hann þá um að þjóna hagsmunum óvina lýðveldisins. Sagði hann að það væri skylda Ítalíu að taka þátt í ferlinu í átt að lýðræði í Írak og það væri heiður að taka þátt í því. Norðurbandalagið, sem er stuðningsflokkur Berlusconis í ríkisstjórn landsins, er setið hefur í tæp þrjú ár, hefur þegar lýst yfir efasemdum um að rétt sé að framlengja dvöl Ítala í Írak fram yfir valdaskiptin. Óróleiki heldur áfram í Írak, heittrúaðir sækja fram gegn bandalagshernum og úlfúð er í garð Bandaríkjamanna í landinu. Í gær réðust bandarískir hermenn og íraskir lögreglumenn inn í höfuðstöðvar Ahmed Chalabi félaga í framkvæmdaráði Íraks. Virðist hann nú fallinn í ónáð hjá Bandaríkjamönnum, en um tíma þótti hann líklegastur sem leiðtogi landsins eftir valdaskiptin. Í gær ávarpaði Bush forseti, fund repúblikana og ítrekaði að valdaskiptin færu fram 30. júní og óróleikinn í Írak breytti engu þar um.

AkureyriUndanfarna mánuði hafa átt sér stað viðræður milli bæjaryfirvalda á Akureyri og Hríseyjarhrepps, um sameiningu sveitarfélaganna. Samkomulag náðist í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna í byrjun vikunnar um fyrirkomulag sameiningar og mun verða kosið um að sameina sveitarfélögin samhliða forsetakosningum þann 26. júní nk. Fjallað var um málið á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag og þar kom fram að allir listar sem náðu kjöri í bæjarstjórn við seinustu kosningar styðja sameininguna. Gert er ráð fyrir að sameiningin taki gildi 1. ágúst og að bæjarstjórn Akureyrar muni fara með stjórn hins sameinaða sveitarfélags fram að næstu sveitarstjórnarkosningum árið 2006. Það skref sem stigið verður með sameiningunni er tímabært og vonandi upphaf að lengra ferli sameiningar sveitarfélaga í firðinum. Í hugum flestra Eyfirðinga er svæðið allt að verða ein heild í hugum fólks hér, og ennfremur hætt að hugsa í gömlum hrepparíg um að þetta og eitt sé málefni eins svæðis og þetta komi afmörkuðum parti einungis við. Fólk er hætt að horfa til fortíðar, það horfir þess í stað fram á veginn og hugsar til framtíðar. Hef ég alla tíð verið mikill áhugamaður um sameiningu sveitarfélaga í firðinum og bendi á pistil minn um þetta efni, er birtist í febrúar sl.

AlþingiNú styttist óðum í sumarleyfi þingmanna og að venju er fjöldi mála til umræðu í þinginu og þau misgóð frumvörpin sem renna í gegn. Það er slæmt til þess að vita að þingmenn og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki haft kjark í sér til að nota tækifærið samhliða því að setja reglur um fjölmiðlamarkaðinn og reyna á það að koma í leið í gegnum þingið tillögum að breyttu rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það er greinilega ekki forgangsmál að hálfu forsætisráðherra og menntamálaráðherra að taka fyrir RÚV. Hefur reyndar komið oft í ljós að forsætisráðherrann vill ekki neinar breytingar sýnilegar á rekstri ríkisfjölmiðilsins og menntamálaráðherra er ekki áfjáð í þær heldur. Hef ég oft gagnrýnt harkalega þau bæði fyrir sofandaháttinn í þessum efnum, sérstaklega er slæmt að formaður flokksins beiti sér ekkert í því að stokka upp rekstur RÚV og er ég lítt sáttur við hvernig hann hefur hummað þetta fram af sér. Og svo eru það skattalækkanirnar, hvað varð um þær? Sofna þær kannski fram á haustið til að Framsóknarflokkurinn hirði heiðurinn af þeim? Ætlar flokkurinn ekki að berja skattatillögurnar í gegn fyrir vorið? Hvaða ládeyða er þetta með alvörumálin sem þarf að afgreiða?

Bjarki Már BaxterSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Bjarki um málefni RÚV, tekur þar undir sjónarmið okkar Heiðrúnar er fram hafa komið á vefnum og bætist í stóran hóp okkar ungliða í SUS sem blöskrar aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar og þá einkum ráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að RÚV, en það virðist skorta allan vilja þar til að taka til hendinni og stokka upp reksturinn. Er mjög ámælisvert hvernig ráðherrar og forystumenn flokksins halda á þessum málum. Í pistlinum segir Bjarki orðrétt: "Afnotagjöld RÚV ætti í raun ekki að skilgreinda sem gjöld, heldur sem skatt fyrir þá sem eiga sjónvarpstæki, enda er skylda fyrir alla sem slíkt tæki eiga að inna gjöldin af hendi. Í umræðunni undanfarnar vikur, sem að mestu hefur snúist um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða, hafa bæði Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gert því skóna að breyta þurfi afnotagjalda fyrirkomulaginu, en þeir hafa ekki enn skýrt nánar hvernig þær breytingar eigi að vera. Það verður að teljast mikið og stórt skref aftur á bak ef stofnunin verður sett á fjárlög. Það skiptir í raun engu máli hvernig skattar sem fara í rekstur RÚV eru innheimtir, þeir koma frá skattgreiðendum. Það eina sem hefst með því að afnema afnotagjöldin er að þá verða skattgreiðendur ónæmari fyrir því hversu mikill hluti af sköttum þeirra fer til RÚV." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

The Butterfly EffectKvikmyndaumfjöllun - The Butterfly Effect
Vönduð og vel leikin spennumynd með hörkugóðu handriti. Segir frá Evan er býr einn með mömmu sinni, en faðir hans er á geðveikrahæli. Í æsku lendir Evan ásamt vinum sínum, þeim Lenny, Keyleigh og Tommy, í erfiðri lífsreynslu sem hefur mikil áhrif á líf þeirra. Hann á mjög erfitt með að horfast í augu við ákveðna hluti og þjáist af minnisleysi. Evan kemst að því að hann býr yfir þeim eiginleika að geta farið aftur í tímann og getur með því haft áhrif á marga hluti í lífi sínu og vina sinna. Að því kemur þó að hann hafi ófyrirséð áhrif á þá hluti sem best væri að hrófla sem minnst við. Góð mynd sem skartar Ashton Kutcher í aðalhlutverki, hann birtist hér í óvenjulegu hlutverki. Hann hefur hingað til verið þekktastur fyrir gamansamar myndir og sýnir hér á sér nýjar hliðar sem leikari og stendur sig vel. Að auki eiga Jesse James, Eric Stoltz, Melora Walters og Amy Smart góðan leik í sínum hlutverkum. Handritið er gríðarvel unnið og skemmtilega útfært. Útkoman er góð spennumynd sem óhætt er að mæla með. Það lærist þó af þessari mynd að aldrei ætti að reyna að storka örlögunum um of. Hvet alla til að sjá The Butterfly Effect, mynd sem kemur á óvart og allir sannir kvikmyndaáhugamenn ættu að njóta.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1991 Rajiv Gandhi fyrrum forsætisráðherra Indlands, myrtur í sprengjutilræði Tamíl tígra, á kosningaferðalagi í Tamil Nadu héraðinu - hann sat á forsætisráðherrastóli 1984-1989
1997 Þrír Íslendingar komust á tind Mount Everest, hæsta fjalls heims sem er 8.848 m. á hæð
2000 Björk Guðmundsdóttir valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes
2000 Óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Gielgud deyr í London, 96 ára að aldri
2003 Davíð Oddsson tilkynnir að hann muni láta af embætti forsætisráðherra, þann 15. september 2004 - hann hefur setið á þeim stóli frá 1991 og var borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991

Snjallyrði dagsins
My grandfather once told me that there are two kinds of people: those who work and those who take the credit. He told me to try to be in the first group; there was less competition there.
Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands (1917-1984)

19 maí 2004

Dufti kastað í Tony BlairHeitast í umræðunni
Það efast enginn um það lengur að pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur veikst mjög að undanförnu. Fréttaflutningur seinustu daga af innanflokkserjum innan Verkamannaflokksins hefur staðfest að mikil undiralda er að myndast innan flokksins um að leiðtogaskipti verði að eiga sér stað fyrir kosningar. Það blasir hinsvegar við að eins og staðan er núna getur forsætisráðherrann ekki farið frá með góðu, það séu of mörg verk eftir óunnin eða í flækju til að hann geti farið frá völdum á þessum tímapunkti. Í athyglisverðu viðtali í Today Programme á BBC við John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands, tjáir hann sig um pólitíska stöðu Blairs og ástandið í Írak. Sagði hann útilokað að forsætisráðherrann myndi víkja sjálfviljugur á þessum tímapunkti, enda hafi hann ekki náð að ljúka mikilvægum málum til að tryggja arfleifð sína í embætti, en hann hefur setið á forsætisráðherrastóli í sjö ár, eða frá kosningasigrinum yfir Major og Íhaldsflokknum árið 1997. Í dag var breska þingið rýmt í kjölfar þess að maður á áhorfendabekkjum þingsins kastaði purpurarauðu dufti í Blair, lenti það aftan á forsætisráðherranum eins og sést á meðfylgjandi mynd. Öryggisverðir handtóku manninn og forseti þingsins, Michael Martin, sleit þingfundi. Mun atvikið leiða til uppstokkunar á öryggismálum í þinginu.

Manmohan Singh verðandi forsætisráðherra IndlandsMikill órói hefur verið innan indverska Kongressflokksins í kjölfar þess að Sonia Gandhi leiðtogi flokksins, tilkynnti um þá ákvörðun sína að sækjast ekki eftir embætti forsætisráðherra landsins. Á þingi var hún hvött af þingmönnum flokksins að endurskoða ákvörðun sína, en hún hefur nú tilkynnt að ákvörðun sín sé endanleg í stöðunni og hefur minnt á að hún hafi alla tíð aldrei viljað gegna opinberu embætti. Hefur Kongressflokkurinn, að tillögu frú Gandhi, tilnefnt Manmohan Singh til að taka við forsætisráðherraembættinu. Tók hann við stjórnarmyndunarumboði í dag frá Abdul Kalam forseta landsins. Singh er 71 árs gamall hagfræðingur frá Oxford-háskóla. Hann verður fyrsti forsætisráðherra landsins sem ekki er hindúi. Singh starfaði um tíma hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og var fjármálaráðherra Indlands í valdatíð Kongressflokksins 1991-1996. Hann hefur til margra áratuga verið náinn samstarfsmaður Gandhi hjónanna og hefur verið áhrifamikill innan flokksins eftir fráfall Rajivs árið 1991, og aðstoðað frú Gandhi í stefnumótun flokksins eftir að hún varð leiðtogi hans 1998. Þrátt fyrir að Sonia Gandhi verði ekki forsætisráðherra, leikur enginn vafi á að hún muni leiða landið bak við tjöldin. Singh og stjórn hans tekur við völdum á laugardag.

AlþingiÞriðja umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi í morgun. Allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi frumvarpið í gærkvöldi með þeim tveim breytingartillögum er kynntar voru á mánudag. Meirihluti nefndarinnar stendur heill að afgreiðslu málsins. Allt bendir því til þess að fjölmiðlafrumvarpið verði að lögum á næstu dögum. Öruggur meirihluti er fyrir því á þingi. Óljóst er hvort sama andrúmsloft verður uppi við þriðju umræðu en var í seinustu viku er önnur umræða fór fram. Þá beitti stjórnarandstaða sér með því að halda uppi málþófi og hver þeirra talaði vel á aðra klukkustund í minnsta lagi. Nú skiptast þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu á skoðunum á þingi, en við blasir að það styttist í afgreiðslu málsins. Við samþykkt málsins þar fara þau sem lög á borð forseta Íslands sem annað hvort samþykkir þau eða synjar þeim um samþykki sem leiðir til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fróðlegt að sjá svo ályktun R-listans um frumvarpið, sem er hönnuð til að beina umræðunni frá fjármálaklúðri þeirra í aðrar áttir.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Helga um störf jafnréttisnefndar Heimdallar sem nýlega var stofnuð. Orðrétt segir í pistlinum: "Í dag snýst jafnréttisbaráttan að miklu leyti um jöfnun milli ólíkra hópa samfélagsins. Hin svokölluðu jafnréttislög nr. 96 frá árinu 2000 heita í raun lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og fela meðal annars í sér jöfnun milli þessara tveggja hópa samfélagsins. Samkvæmt 22. grein er meginreglan sú að hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó eru á því tvær undantekningar: 1. Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ganga ekki gegn lögunum. 2. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu. Þannig brýtur það ekki gegn lögunum að ráða karlkyns baðvörð í sturtuklefa karla í sundlaugum. Þá telst það ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar." Ennfremur kemur fram: "Nokkrir ungir Heimdellingar tóku sig saman í kjölfar þeirrar umræðu sem þá skapaðist og stofnuðu sérstaka Jafnréttisdeild Heimdallar. Deildin er sammála þeirri ályktun stjórnar Heimdallar að afnema beri jafnstöðulögin á þann hátt að þær greinar sem miða að því að tryggja jafnrétti færist til innan lagabálka, en hinum sem miða að jafnri stöðu kynjanna sé eytt." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

TroyKvikmyndaumfjöllun - Troy
Magnþrungin saga Tróju hefur lengi verið vinsælt umfjöllunarefni, Ílýonskviður Hómers er endalaus uppspretta vangaveltna og pælinga. Saga Tróju hefur nú verið færð í glæsilegan kvikmyndabúning af leikstjóranum Wolfgang Petersen sem á að baki meistaraverk á borð við Das Boot, In the Line of Fire og The Perfect Storm. Segir frá valdaátökum milli Grikkja og Trójumanna sem skapast er Paris, yngri sonur konungins af Tróju, hefur ástarsamband við Helenu hina fögru. Leiðir sambandið til þess að Grikkir vígbúast og ætla sér að taka yfir Tróju með góðu eða illu, en það er eini staðurinn sem þeir ráða ekki yfir í Eyjahafinu. Í fremstu víglínu Grikkja stendur hinn dularfulli Akkiles sem telst án vafa einn mesti bardagakappi fyrr og síðar. En það er ekkert sjálfgefið í átökum, eins og sannast hér. Gríðarlega sterk og vönduð mynd sem skartar glæsilegum bardagaatriðum sem ættu að heilla alla kvikmyndaunnendur. Leikurinn er virkilega góður: Brad Pitt hefur sjaldan verið betri en sem hinn einbeitti Akkiles, Orlando Bloom er glæsilegur sem Paris, Eric Bana mjög traustur í hlutverki Hector og Diane Kruger á sterka innkomu sem Helena hin fagra, ekki má svo gleyma Brian Cox sem er magnaður í hlutverki Agamemnon konungs. Allt fer saman til að skapa glæsilega mynd: leikur, tónlist, tæknibrellur, klipping og handritið renna vel saman. Eini mínusinn (ef mínus skyldi kalla) er lengdin, en hún hafði ekki mikil áhrif á mig. Helsti aðall myndarinnar er þó traust leikstjórn meistarans Petersen, sem enn og aftur sannar hversu snjall leikstjóri hann er. Undir hans stjórn verður Troy (Trója) ein mikilfenglegasta mynd ársins og ein helsta sumarmyndin þetta árið. Hvet alla til að líta á þessa í bíó.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1536 Anne Boleyn, önnur eiginkona Henry VIII afhöfðuð, var dæmd til dauða fyrir framhjáhald
1950 Farþegaskipið Gullfoss kom til landsins - var notað í siglingum til landsins til 1973
1974 Valéry Giscard d'Estaing kjörinn forseti Frakklands - sat í embætti til ársins 1981
1990 Húsdýragarðurinn í Laugardal í Reykjavík, opnaður af Davíð Oddssyni þáv. borgarstjóra
1994 Jacqueline Bouvier Kennedy Onassis fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, deyr í New York, 64 ára gömul - fyrri eiginmaður hennar, John F. Kennedy, var forseti Bandaríkjanna 1961-1963

Snjallyrði dagsins
A man is a success if he gets up in the morning and gets to bed at night, and in between he does what he wants to do.
Bob Dylan