Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 desember 2004

ÁramótÁramótauppgjör 2004
Árið 2004 líður senn í aldanna skaut. Að baki er eftirminnilegt ár fyrir margra hluta sakir. Þess verður í framtíðinni eflaust minnst sem ársins er forseti Íslands hafnaði í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að staðfesta lagafrumvarp sem meirihluti þingmanna hafði samþykkt, Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra eftir 13 ára samfellda setu, George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, Yasser Arafat lést, haldið var upp á 100 ára afmæli heimastjórnar að fjarstöddum forseta Íslands sem var á skíðum í Aspen, deilt var um eignarhald á fjölmiðlum, Þórólfur Árnason varð að víkja sem borgarstjóri vegna hneykslismáls og Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við, 20% kjósenda skilaði auðu í forsetakosningum og sitjandi forseti hlaut atkvæði 42% kjósenda á kjörskrá, Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra, rúmlega 100.000 manns fórust í náttúruhamförum í Asíu, tæplega 200 manns fórust í hryðjuverkaárás á Spáni, Saddam Hussein kom fyrir dómara, Alþingi samþykkti að lækka skatta, tekist var á um stjórnarskrána við undarlegar aðstæður, grunnskólakennarar fóru í langt verkfall og komið var á fót umdeildri Þjóðarhreyfingu svo fátt eitt sé nefnt. Að baki er svo sannarlega merkilegt ár. Í tilefni áramótanna er svo sannarlega tilefni til að líta yfir nokkra hápunkta ársins 2004.

Í ítarlegum pistli mínum, sennilega einum þeim lengsta og ítarlegasta sem ég hef ritað á löngum pistlaferli mínum, sem birtist í dag á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna fer ég yfir árið með mínum hætti og það sem ég tel standa helst eftir þegar litið er yfir árið. Á innlendum vettvangi ber að sjálfsögðu hæst fjölmiðlamálið allt og ferill þess. Í pistlinum rek ég málið allt frá byrjun er nefnd um eignarhald á fjölmiðlum var skipuð í desember 2003 allt til þess að hætt var við fjölmiðlalögin sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2004 og forseti Íslands synjaði um samþykki sitt og varð með því fyrsti forsetinn í lýðveldissögunni til að hafna lagafrumvarpi sem meirihluti þingmanna hafði samþykkt. Allt þetta mál var sögulegt og nauðsynlegt að fara yfir það ítarlega og rekja feril þess frá byrjun til enda. Þegar ég settist niður til að skrifa þennan pistil var þetta mál frá upphafi það sem ég taldi nauðsynlegt að rekja ítarlega og fara vel yfir. Vel má vera að frásögnin af þessu eina máli sé löng og yfirskyggi annað í pistlinum, en það er ómögulegt að ég tel að skrifa með krafti um árið 2004 stjórnmálalega séð hérlendis nema taka þetta vel fyrir. Erlendis stendur hæst án nokkurs vafa atburðir seinustu daga í Asíu, en nú hafa rúmlega 130.000 látist vegna náttúruhamfaranna þar á öðrum degi jóla. Þessar hörmungar yfirskyggja allt annað við árslok, hugur allra er hjá fólkinu í Asíu og þeirra sem hafa misst allt sitt og syrgja aðstandendur sína sem hafa farist í þessum hörmungum. Einnig stendur ofarlega að George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, eftir harðvítuga kosningabaráttu. Var mjög að honum sótt í kosningabaráttunni og margt reynt í þeirri orrahríð. Fylgdist ég mjög mikið með kosningaslagnum og fór til Washington í október, en við í utanríkismálanefnd SUS fórum þá ferð til að kynna okkur bandaríska pólitík og fara á sögufræga staði. Þar kynntumst við öll vel hörkunni sem var í baráttunni að þessu sinni. Hvað mig persónulega varðar var sú ferð hápunktur ársins og tókst hún mjög vel upp og var mjög gagnleg.

Maður ársins 2004 - Davíð OddssonMaður ársins 2004
Við áramót er litið yfir sviðið og spurt hver sé maður ársins, hver skaraði framúr og stendur hæst þegar nýtt ár tekur við. Það er enginn vafi í mínum huga að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sé sá sem þann heiður eigi að hljóta að þessu sinni. Á þessu ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins. Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum.

Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega og var fluttur á spítala. Við rannsókn kom í ljós staðbundið æxli sem fjarlægt var í skurðaðgerð, varð hann að fara svo á ný í aðgerð í byrjun ágúst. Fréttir af veikindum Davíðs komu mjög óvænt enda hafði hann haft fullt starfsþrek og haft í mörgu að snúast samhliða umræðu um fjölmiðlamálið og var t.d. í viðtölum við fréttamenn vegna þess degi fyrir veikindi sín. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans í sumar. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst og tilkynnti að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn ef honum entust kraftar til eftir veikindin. 15. september lét Davíð svo formlega af embætti forsætisráðherra, eins og um hafði verið samið þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur framlengdu samstarf sitt í ríkisstjórn vorið 2003. Hafði Davíð þá setið lengur í forsæti ríkisstjórnar Íslands en nokkur annar; frá 30. apríl 1991, eða í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Davíð er án vafa maður ársins, hann er sá stjórnmálamaður sem bæði er elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi. Árið var hans, þrátt fyrir mótvind og að honum væri sótt og hann veiktist alvarlega stendur hann enn sem risi yfir íslenskum stjórnmálum í árslok, sterkur og öflugur.

Táknrænar svipmyndir ársins 2004 - áramótauppgjör 2004
Oft eru merkustu svipmyndir ársins og atburðir best tjáðar með táknrænum myndum sem einhvernveginn segja allt sem segja þarf um atburðinn. Ekki ætla ég að draga upp margar myndir af árinu, tel mig hafa gert upp árið allavega pólitískt með mínum hætti í löngum pistli sem ég vona að einhverjir hafi jafngaman af og ég hafði af að skrifa hann og gera upp atburði, sem standa merkast pólitískt. Tvær myndir eru að mínu mati lýsandi sem myndir ársins þegar það kveður. Tvær táknrænar myndir. Sú fyrri sýnir einn af kraftmestu leiðtogum Mið-Austurlanda, mann sem hafði ríkt yfir þjóð sinni og verið áberandi til margra áratuga kveðja hinstu kveðju, með táknrænum hætti. Hin seinni lýsir í hnotskurn því mikla afreki sem unnið var í mars með björgun Baldvins Þorsteinssonar, frá Akureyri, sem strandaði í Meðallandsfjöru. Neðar bendi ég á nokkra tengla þar sem farið er yfir 2004 með glæsilegum hætti, svo ómögulegt er að bæta um betur í myndum og máli.

Yasser Arafat kveður hinsta sinni

Björgunarafrek í Meðallandsfjöru

Árið 2004 gert upp
Umfjöllun BBC um 2004
Árið 2004 í máli og myndum
Merkilegar svipmyndir frá árinu 2004
Farið í merkilegri tímalínu yfir merkilegt ár
Kostulegt áramótauppgjör Vef-Þjóðviljans
In memoriam - í minningu eftirminnilegs fólks



Dagurinn í dag
1791 Skólapiltar í Hólavallaskóla í Reykjavík héldu áramótabrennu, þá fyrstu sem fram fór hérlendis
1935 Vilhjálmur Þ. Gíslason síðar útvarpsstjóri, flutti annál ársins í fyrsta skipti í Ríkisútvarpinu að kvöldi gamlársdags. Hann flutti slíkt áramótaávarp til starfsloka hjá RÚV 1967. Allt frá starfslokum Vilhjálms hafa eftirmenn hans í embætti haldið þessari hefð að flytja ávarp að kvöldi gamlársdags
1956 Styrkir úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins voru veittir í fyrsta skipti - þá voru heiðraðir þeir Snorri Hjartarson og Guðmundur Frímann. Margir helstu rithöfundar okkar hafa hlotið viðurkenningu
1964 Ólafur Thors fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést, 72 ára að aldri. Ólafur sat á Alþingi í 38 ár, allt frá 1926 til dauðadags. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, lengst allra í sögu hans, eða í 27 ár, 1934-1961. Ólafur Thors myndaði ráðuneyti alls fimm sinnum á löngum stjórnmálaferli, oftar en aðrir. Ólafur var frábær ræðumaður og gleymist seint ræðusnilld hans
1999 Boris Yeltsin forseti Rússlands, segir af sér embætti í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml. Kom afsögn hans mjög óvænt, enda hafði verið talið að hann myndi sitja í embætti þar til kjörtímabili hans lyki í júní 2000. Eftirmaður hans í embætti varð Vladimir Putin forsætisráðherra. Var Putin svo kjörinn forseti í mars 2000 og endurkjörinn með yfirburðum í mars 2004 og situr í embætti til 2008

Snjallyrði dagsins
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem (1848-1930) (Nú árið er liðið)


Ég sendi mínar bestu óskir um gleðilegt og farsælt ár til lesenda vefsins!

30 desember 2004

Skelfilegt ástand í AsíuHörmungar í Asíu
Staðfest hefur nú verið að rúmlega 120.000 manns hafi farist í náttúruhamförunum í Asíu. Óttast er nú að sú tala muni allt að tvöfaldast, vegna hættu á farsóttum. Talið er að aðeins í Indónesíu einni hafi allt að 100.000 manns látið lífið. Ömurlegar afleiðingar hamfaraflóðanna blasa alls staðar við í suðurhluta Asíu og skelfilegt er að sjá myndir af flóðunum sem hafa verið sýndar í fréttatímum seinustu daga. Öldurnar hrifsa þar með sér fólk og hluti eins og ekkert sé, rústa heilu bæjunum og þorpunum og eyðileggur líf fjölda fólks. Afleiðingarnar eru skelfilegar, mannfall er alveg gríðarlegt, milljónir manna hafa glatað lífsviðurværi sínu og heimili og standa eftir slyppir og snauðir, misst ættingja sína og allt annað sem það á. Nú þegar hafa rúm 80.000 lík fundist í Indónesíu, enn eru lík að reka á land og að finnast við strendur landsins og óttast er að mun fleiri séu látnir þar. Ljóst er eins og fyrr segir að ekki færri en 120.000 hafi látið lífið. Ekki hafa færri en 27.000 manns látist á Sri Lanka Tugmilljónir eiga því við sárt að binda við Indlandshaf og vofir þar hungursneyð og farsóttir yfir. Ljóst er að mun fleiri Svíar hafa farist en fyrst var talið, munu þeir vart vera færri en 1500, ef marka má yfirlýsingu Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar. Deilt hefur verið á stjórnvöld í Svíþjóð fyrir að bregðast seint við stöðu mála. 10 Íslendinga er enn saknað.

Um heim allan er fólki brugðið vegna þessara hörmunga og um allan heim er safnað til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf í landinu. Alls hafa nú rúmar 50 milljónir króna safnast í söfnun Rauða kross Íslands fyrir fórnarlömb hamfaranna. Aldrei hefur áður safnast svo há upphæð hér á landi til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins á svo skömmum tíma. Nú hafa rúmlega 20.000 manns hringt í söfnunarsímann 907 2020 og gefið þannig eitt þúsund krónur. Er ástæða til að hvetja alla til að hringja í símann og gefa í söfnunina með þeim eða öðrum hætti. Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fram eina milljón króna til fjársöfnunarinnar. Athygli hefur vakið að ríkisstjórn Íslands hefur aðeins veitt vilyrði fyrir styrk til þessa máls að upphæð 5 milljónir. Að mínu mati þarf sú upphæð að verða mun hærri. Hefur það vakið undrun margra að ekki sé veitt hærri upphæð af hálfu Íslands í þetta mál. Eflaust mun hún verða hækkuð á næstu dögum og væntanlega verður tilkynnt um það fljótlega. Vart getur annað verið en að hærri upphæð verði veitt til þessa máls. Forsætisráðherra átti í dag samtöl við forsætisráðherra Svíþjóðar og Noregs vegna þessa máls. Vottaði hann með því persónulega samúð sína til forsætisráðherranna vegna þeirra Norðmanna og Svía sem látist hafa í Asíu og kom á framfæri samúðarkveðjum frá íslensku þjóðinni, ef marka má fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag. Skýrði Halldór forsætisráðherrunum frá því að hugur Íslendinga væri hjá frændum vorum á stundu sem þessari. Báru forsætisráðherrarnir þrír saman bækur sínar um ástandið á hamfaraslóðum. Ennfremur bauð forsætisráðherra fram aðstoð Íslendinga til hjálpar slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi.

Þorvaldur IngvarssonÁramótapistill Þorvaldar Ingvarssonar
Þorvaldur Ingvarsson læknir og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, ritar í dag áramótahugleiðingar á Íslending, vef sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Þar fer hann yfir pólitíkina og það sem uppúr stendur í lok ársins. Orðrétt segir Þorvaldur í athyglisverðum pistli: "Engar skýringar höfum við sjálfstæðimenn í grasrótinni fengið á því hvers vegna þurfti að setja (fjölmiðla)lög með þessum flýti né hvað olli því að ekki var tekið á málefnum Ríkisútvarpsins í frumvarpinu. Á þessu kunna að vera eðlilegar skýringar en þær hafa ekki náð eyrum okkar. Ekki lagaðist málið við það að forseti Íslands synjaði lögunum. Upphófst þá ferli sem var gjörsamlega óskiljanlegt. Skyndilega var allt það sem okkur hafði verið kennt um synjunarvald forsetans óljóst og menn lögðu mismunandi skilning í það atriði stjórnarskrárinnar. Ekki var hægt að túlka þetta á annan hátt en þann svo að mönnum hugnaðist ekki að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Það er næsta öruggt að allt þetta á sér skýringar og að vafi getur leikið á öllum hlutum ef það hentar. Málið hefur þó fengið farsæla lausn (í bili a.m.k) með því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur skipað þverpólitíska nefnd um fjölmiðlalög. Við hljótum að gera þá kröfu til forseta lýðveldisins, ráðherra og þingmanna að þeir leysi sín persónulegu ágreinismál utan þings og utan opinberra starfa. Ef þeir treysta sér ekki til þess þá eiga þeir að víkja. Hitt er svo annað að framkoma stjórnarandstæðinga var með ólíkindum í þessu máli sem og öðrum og eina skýringin sem manni dettur í hug er málefnafátækt."

Ennfremur segir Þorvaldur: "Frjálsræði í viðskiptum og almennt í þjóðfélaginu hefur aukist og höft í viðskiptum heyra sögunni til. Einkavæðing ríkisfyrirtækja gekk hratt og vel fyrir sig og virðist þar hafa skipt sköpum að ríkisbankarnir voru báðir seldir. Sóknarfæri einkafyrirtækja hafa verið nýtt til hins ýtrasta og nú er svo komið að markaðurinn á Íslandi dugar ekki til, íslensk fyrirtæki eru farin að leita á erlenda markaði hvert á fætur öðru. Hagvöxtur er með ágætum, fjárlög ríkisins eru gerð upp ár eftir ár með afgangi og erlendar skuldir greiddar niður. Seinasta útspil hins frjálsa markaðar var vaxtarlækkun til íbúðarkaupanda sem gerir íbúðarlánasjóð í raun óþarfan. Aðeins spurning um tíma hvenær hans skeið rennur til enda. Atvinnuleysi er lítið, verðbólgan sömuleiðis. En samt svífur óróleiki yfir vötnunum sem birtist í málefnafátækt stjórnarandstöðunnar. Viku eftir viku storma þingmenn stjórnarandstæðunnar í ræðustól Alþingis og ausa auri í allar áttir ýmist vegna þess að ekki er rétt að lækka skatta núna heldur seinna, minntir á sín eigin kosningarloforð þá er dregið í land og sagt að það eigi að lækka skatta öðruvísi! Áfram er haldið og sá furðulegi málatilbúnaður er uppi að nú sé tími til kominn að draga í land í Írakstríðinu? Sú skoðun kann að vera eðlileg að Ísland hafi ekki átt að vera á lista hinna "staðföstu þjóða" en bakka nú þegar Íslendingar geta sjálfir lagt sitt að mörkum orkar tvímælis. Nú við áramót erum við enn minnt á hversu náttúruöflin geta leikið okkur grátt og hversu lítið maðurinn getur spyrnt við fótum þegar þau láta á sér kræla. Hér á ég við jarðskjálftana í Asíu og afleiðinga þeirra en þegar þetta er skrifað eru afleiðingar flóðanna að koma í ljós og virðast geigvænlegar. Hugur okkar verður hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara náttúruhamfara nú um áramótin." Ég hvet alla til að lesa þennan athyglisverða pistil Þorvaldar.

Eiður Smári GuðjohnsenEiður Smári valinn íþróttamaður ársins 2004
Eiður Smári Guðjohnsen knattspyrnumaður hjá Chelsea, var í gær valinn íþróttamaður ársins 2004 í árlegu vali íþróttafréttamanna. Þórey Edda Elísdóttir varð í öðru sæti og Rúnar Alexandersson í því þriðja. Tilkynnt var um valið í hófi á Grand hótel, þar sem einnig var tilkynnt um val á íþróttafólki ársins í öllum greinum. Enginn vafi leikur á því að Eiður Smári verðskuldar mjög þennan titil. Hann náði hápunkti á sínum ferli á árinu. Hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur titilinn í 17 ár, eða frá því að faðir hans, Arnór Guðjohnsen hlaut þennan titil. Eiður átti mjög gott ár með Chelsea og mörk hans áttu þátt í því að liðið hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni og að það komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Hann var yfirburðamaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins í undankeppni EM. Eiður Smári verður fimmti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur þennan titil en áður höfðu auk Arnórs og Eiðs hlotið titilinn þeir Ásgeir Sigurvinsson (tvisvar), Guðni Kjartansson og Jóhannes Eðvaldsson.

Eiður Smári gat ekki verið viðstaddur athöfnina í gær, en hann fékk ekki leyfi til heimfarar frá Jose Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea, enda eru margir leikir í ensku deildinni þessa dagana og mikið álag á leikmönnum. Þetta var í fyrsta skipti frá 1984 sem íþróttamaður árins er ekki viðstaddur kjörið. Eiður og Arnór eru aðrir feðgarnir sem hljóta þessi verðlaun en áður höfðu þeir Vilhjálmur Einarsson og Einar Vilhjálmsson fengið þau, Vilhjálmur vann reyndar fimm sinnum og Einar þrisvar. Þórey Edda og Rúnar verðskulda svo sannarlega sínar viðurkenningar enda verið áberandi í íþrótt sinni á árinu og gekk vel á Ólympíuleikunum í Aþenu í haust. Mikla athygli vekur þó vissulega að Kristín Rós Hákonardóttir hljóti ekki verðlaunin eða sé ekki einu sinni meðal þriggja efstu. Náði hún toppnum á sínum ferli á árinu, setti hvert heimsmetið á eftir öðru á ólympíuleikum fatlaðra í haust og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir glæsilegan árangur sinn. Það vekur athygli og undrun að hennar framlag sé ekki meira metið þegar íþróttaárið er gert upp með þessum hætti. En eftir stendur að Eiður verðskuldar sigurinn, en fjarvera Kristínar frá topp þrjú listanum er alveg æpandi áberandi.

Dagurinn í dag
1887 Bríet Bjarnhéðinsdóttir, er þá var 31 árs gömul, flutti fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík um kjör og réttindi kvenna. Þetta var í fyrsta skipti sem kona hérlendis flutti opinberlega fyrirlestur. Bríet varð forystukona kvenréttindasinna og leiddi baráttu þeirra í nokkra áratugi
1935 Níu manns fórust er eldur kom upp á jólatrésskemmtun í samkomuhúsi ungmennafélagsins í Keflavík. Húsið brann allt á innan við klukkustund. Um 190 manns náði að komast naumlega út áður
1947 Michael Rúmeníukonungur, sagði af sér - konungdæmi var þar lagt niður og það varð lýðveldi
1958 Uppreisn stjórnarandstöðunnar á Kúbu styrkist og nær hámarki - andspyrnan færist sífellt nær borginni. Kommúnistar náðu yfirráðum í Havana á nýársdag og tóku við völdum. Fidel Castro varð forseti Kúbu og hefur setið á þeim stóli síðan og er orðinn einn þaulsetnasti leiðtogi sögunnar
1965 Ferdinand Marcos verður forseti Filippseyja - hann sat við völd í tæp 20 ár og stjórnaði þar með harðri hendi, eða þar til stjórn hans var felld í uppreisn almennings í landinu snemma árs 1986

Snjallyrði dagsins
Stóð ég úti í tungsljósi, stóð ég út við skóg,
stórir komu skarar, af álfum var þar nóg.
Blésu þeir á sönglúðra, og bar þá að mér fljótt,
og bjöllurnar gullu á heiðskírri nótt.

Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund,
hornin jóa gullroðnu blika við lund,
eins og þegar álftir af ísa grárri spöng
fljúga suður heiði með fjaðraþyt og söng.

Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,
hló að mér og hleypti hestinum á skeið.
Var það út af ástinni ungu, sem ég ber?
Eða var það feigðin, sem kallaði að mér?
Jónas Hallgrímsson (1807-1845) (Álfareiðin)

29 desember 2004

SkjaldarmerkiForsætisráðherrabókin
Seinustu daga hef ég verið að lesa Forsætisráðherrabókina, æviágrip ráðherra og forsætisráðherra Íslands í 100 ára sögu heimastjórnar á Íslandi, 1904-2004. Eru þar margir mjög áhugaverðir kaflar og fróðlegir til lestrar, áhugaverðir öllum þeim sem áhuga hafa á sagnfræðilegu efni: sögu landsins og þeirra sem gegnt hafa þessu valdamikla embætti. Hefst bókin á ítarlegum inngang eftir Ólaf Teit Guðnason ritstjóra bókarinnar. Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ritar mjög áhugaverðan kafla um Hannes Hafstein, er hann leiftrandi af skemmtilegum upplýsingum og góðri frásögn um ævi þessa merka manns, sem fyrstur Íslendinga settist á ráðherrastól 1. febrúar 1904. Persónulega séð hafði ég mest gaman af lestri þessa kafla, en það er flestum mjög vel kunnugt að Davíð er leiftrandi og skemmtilegur penni. Kaflinn er því virkilega vel úr garði gerður. Kaflinn um Jón Magnússon eftir Sigurð Líndal fyrrum prófessor, er vel skrifaður og margt sem þar vekur athygli sagnfræðispekinga. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, skrifar um ævi Jóns Þorlákssonar og kemur margt mjög athyglisvert fram í skrifum Björns. Hvet ég annars alla til að lesa ítarlega ævisögu Jóns eftir Hannes Hólmstein, en Björn vitnar oft í hana í góðri grein sinni. Gunnar Helgi Kristinsson fer yfir ævi Tryggva Þórhallssonar, en hann var áhrifamikill stjórnmálamaður og átti þátt í einum umdeildasta atburði stjórnmálasögu aldarinnar, þingrofinu 1931 sem hafði mikil áhrif á atburði áranna sem á eftir fylgdu í stjórnmálasögunni og lengra ef út í það er farið.

Skrif Önnu Ólafsdóttur Björnsson um Ásgeir Ásgeirsson forseta, voru einnig mjög fróðleg. Mjög gagnlegt var að lesa ítarlegan kafla Tryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara MA, um Hermann Jónasson, einn öflugasta stjórnmálamann aldarinnar, sem sat í embætti framanaf stríðsárunum og var áberandi í embættisverkum sínum. Jakob F. Ásgeirsson skrifaði mjög heilsteyptan og áhugaverðan kafla um Ólaf Thors, manninn sem leiddi Sjálfstæðisflokkinn í 27 ár og leiddi fleiri ríkisstjórnir í sögu landsins en nokkur annar, fimm talsins. Kaflinn er lifandi og heillandi, sem er vart óeðlilegt þegar sögð er saga jafnmerks manns og áhrifamikils á sögu landsins og samtíð sína og hann var. Ingólfur Margeirsson skrifar góðan kafla um Stefán Jóhann Stefánsson sem leiddi ríkisstjórn 1947-1949, fyrstur Alþýðuflokksmanna. Helgi Skúli Kjartansson ritar um Emil Jónsson sem var forsætisráðherra minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í tæpt ár, en mjög áhrifamikill í stjórnmálasögu viðreisnartímans og einn arkitekta hennar. Guðni Th. Jóhannesson skrifar um dr. Bjarna Benediktsson, þann mann sem ég tel að hafi haft mest áhrif á stjórnmálasögu 20. aldarinnar, manninn sem mótaði utanríkisstefnu landsins og var einn af helstu arkitektunum að viðreisn og síðast en ekki síst stefnu Sjálfstæðisflokksins í utanríkis- og varnarmálum á fyrstu árum flokksins á mótunarárum lýðveldisins. Bjarni var kraftmikill stjórnmálamaður og einkennist kaflinn vel af stöðu hans þegar öldin er gerð upp. Hann er vel skrifaður og áhugaverður eins og sá sem um er ritað. Birgir Ísleifur Gunnarsson skrifar um stjórnmálaferil og ævi Jóhanns Hafstein sem var áberandi í stjórnmálastörfum en þurfti að taka við forsætisráðherraembætti við erfiðar aðstæður: í skugga fráfalls Bjarna, sem lést langt um aldur fram. Jóhann sannaði á stuttum forsætisráðherraferli hversu heilsteyptur hann var og öflugur í sínum stjórnmálastörfum.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar um Ólaf Jóhannesson sem var forsætisráðherra tvívegis á áttunda áratugnum og áberandi í stjórnmálalífi landsins um langt skeið og ennfremur sem helsti lagasérfræðingur landsins og prófessor í þeim fræðum. Fróðlegt er að lesa umfjöllun Hannesar um stormasama forsætisráðherratíð Ólafs í vinstristjórn 1978-1979, en það er jafnan mjög athyglisvert, fyrir okkur sem höfum lesið stjórnmálasöguna og þekkjum í okkar samtíð ekki nema stjórnmálalegan stöðugleika í seinni tíð, að lesa um lætin sem áttu sér stað innan þeirrar stjórnar Ólafs. Jónína Michaelsdóttir skrifar um Geir Hallgrímsson. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma og lesið mér mikið til um feril hans og stjórnmálaverk. Ferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins. Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Hinsvegar var mjög leitt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skyldu ekki bera gæfu til þess að kjósa Geir sem forsætisráðherra að loknum kosningunum, en taka þess í stað þann kost að hljóta fleiri ráðherrastóla til að sinna eigin metnaði. En það er það merkilegasta við arfleifð Geirs að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika og var heill í verkum sínum. Hann var heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin hagsmuni og stöðu stjórnmálalega séð. Þeim sem vilja kynna sér ævi Geirs betur, bendi ég á rit Andvara 1994, en þá ritaði Davíð Oddsson, ítarlega grein um Geir og ævi hans.

Guðmundur Árni Stefánsson ritar athyglisverða grein um Benedikt Gröndal, sem setið hefur styst allra forsætisráðherra í embættinu, en var engu að síður mjög áberandi í stjórnmálastörfum sínum. Dregur Guðmundur Árni margt fróðlegt fram í umfjöllun sinni. Jón Ormur Halldórsson prófessor, skrifar mjög fróðlega og athyglisverða grein um dr. Gunnar Thoroddsen sem varð forsætisráðherra í lok stjórnmálaferils síns árið 1980, þá sjötugur að aldri. Hann varð þingmaður yngstur allra árið 1934, var borgarstjóri 1947-1959 og sat í nokkur ár sem fjármálaráðherra. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum 1965 og varð sendiherra í Danmörku og gaf kost á sér til embættis forseta Íslands árið 1968, en tapaði fyrir dr. Kristjáni Eldjárn og varð hæstaréttardómari 1970. Hann stoppaði þar stutt, ákvað að taka á ný þátt í stjórnmálum sama ár eftir lát dr. Bjarna og fór á ný í innsta hring stjórnmála. Gunnar varð varaformaður flokksins eins og hann hafði verið áður og varð forsætisráðherra 1980 eftir umdeildustu stjórnarmyndun lýðveldissögunnar sem klauf Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat í embætti þar til örfáum mánuðum fyrir lát sitt 1983. Einstakur maður, einstakur ferill, einstök umfjöllun um þennan merka mann í stjórnmálasögunni, rituð af þeim manni sem Gunnar valdi sem aðstoðarmann sinn í forsætisráðuneytinu. Sigurður Eyþórsson ritar um Steingrím Hermannsson og kemur þar margt mjög athyglisvert fram. Steinar J. Lúðvíksson skrifar um Þorstein Pálsson og kemur með fróðlega lýsingu á forsætisráðherratíð Þorsteins sem var stormasöm. Í bókarlok ritar Styrmir Gunnarsson svo fróðlega grein um Davíð Oddsson sem sat í embætti lengur en nokkur annar, rúm 13 ár og hafði mikil áhrif á stjórnmálasögu landsins.

Hef ég mikinn áhuga á stjórnmálum almennt og segja má því með sanni að þessi bók hafi heillað mig og fangað athygli mína mjög, enda paradís í orðsins fyllstu merkingu fyrir stjórnmálaáhugafólk. Ég hvet alla til að lesa bókina, ef þeir hafi ekki gert það nú þegar. Um er að ræða mjög merka bók, fróðlega samantekt á ævi þeirra sem setið hafa í forystu íslenskra stjórnmála við borðsendann á ríkisstjórnarborðinu, staðið í stafni stjórnarskútunnar og stjórnað för. Starf forsætisráðherra er stórt og mikið og reynir fljótt á stjórnmálamenn þegar þeir taka við embættinu, hvort þeir standi undir byrðinni og þeirri stjórnmálaforystu sem nauðsynleg er þeim sem tekur við því. Embættið er krefjandi og mikið fyrir hvern þann sem er áberandi í stjórnmálastörfum en jafnframt rétti vettvangurinn fyrir sannan leiðtoga til að reyna á hæfileika sína til forystu. Tel ég eftir lestur bókarinnar og að hafa lesið samantektina að flestir forsætisráðherrarnir hafi sinnt starfi sínu með miklum ágætum, sumir standa meira upp úr sögulega séð en aðrir, en það er eins og gengur vissulega. Margir kraftmiklir stjórnmálamenn ná aldrei svo langt að komast í þetta mikla embætti, en hafa engu að síður sannað kraft sinn sem stjórnmálamanns með verkum sínum á öðrum vettvangi. Um marga þeirra stjórnmálamanna sem hér er fjallað um, hafa verið ritaðar ævisögur í ítarlegra formi eða skrifað um þá í Andvara. Það er nauðsynlegt öllum sönnum stjórnmálaáhugamönnum að setjast niður, með þessa bók eða aðra og kynna sér ævi þessara stjórnmálaleiðtoga og jafnframt kynnast sögunni í návígi. Það er öllum hollt.

ÓliverÓliver
Einn vinsælasti söngleikur sögunnar, Óliver, eftir Lionel Bart, byggður á samnefndri skáldsögu Charles Dickens, var frumsýndur hjá Leikfélagi Akureyrar í gærkvöldi. Var ég viðstaddur frumsýninguna og hafði mjög gaman af. Söguna um Oliver Twist þekkja auðvitað allir, enda verk Dickens löngu orðið sígilt. Hún er allt í senn spennandi, falleg og átakanleg. Söngleikurinn hefur verið með vinsælustu söngleikjum heims frá því um 1960 þegar hann var frumsýndur og kvikmyndaútgáfan er löngu orðin sígild. Dickens samdi söguna um munaðarleysingjann Óliver um miðja 19. öldina og naut sagan þegar mikilla vinsælda. Þar birtast átök hins góða og illa og vakti Dickens sérstaklega athygli á kjörum þeirra sem minna mega sín. Persónurnar eru fjölbreyttar og litríkar og bófaforinginn Fagin er löngu kominn í hóp sígildra bókmenntapersóna. Í tilefni uppsetningar LA á Óliver endurútgaf JPV útgáfa sögu Dickens nú í haust.

Um er að ræða eina stærstu uppsetningu í sögu Leikfélagsins. Um 60 manns koma að sýningunni, t.d. fjöldi leikara og 15 manna hljómsveit Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þegar mest lætur eru 47 manns á sviðinu. Gísli Rúnar Jónsson leikari og leikstjóri, á heiðurinn af nýrri þýðingu söngleiksins en leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri. Guðmundur Óli Gunnarsson er hljómsveitarstjóri og Sigurjón Jóhannsson hannar leikmynd og búninga. Í helstu hlutverkum eru Ólafur Egill Egilsson, Þórunn Erna Clausen, Jón Páll Eyjólfsson, Margrét Eir Hjartardóttir, Ólafur Rúnarsson, Esther Talía Casey, Skúli Gautason, Þorsteinn Bachmann og Saga Jónsdóttir. Óliver er leikinn af Gunnari Erni Steffensen, 10 ára dreng úr Eyjafirði. Alls taka 18 börn þátt í uppsetningunni og sex manna kór. Þetta er því mikil og öflug sýning. Ólafur Egill er að öllum ólöstuðum senuþjófur sýningarinnar og fer á kostum í hlutverki Fagin og glæðir persónuna miklu lífi. Gunnar Örn er frábær í hlutverki Ólivers og á stórleik. Óhætt er að hvetja alla Eyfirðinga og nærsveitamenn til að líta á sýninguna, enda við allra hæfi og einstaklega vel úr garði gerð. Þetta var góð kvöldstund í gamla góða leikhúsinu.

Dagurinn í dag
1984 Rajiv Gandhi og Kongress-flokkurinn vinnur mikinn sigur í indversku þingkosningunum, sem haldnar voru nokkrum vikum eftir að móðir hans, Indira Gandhi sem verið hafði forsætisráðherra nær samfellt í 20 ár, var myrt. Rajiv sat í embætti til ársins 1989, en féll fyrir morðingjahendi í maí 1991
1986 Harold Macmillan fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést, 92 ára að aldri - hann sat í embætti sem forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1957-1963 og hlaut viðurnefnið Super Mac og Mac the Knife í breskum stjórnmálum. Hann hætti afskiptum af stjórnmálum vegna heilsubrests 1963
1989 Vaclav Havel kjörinn forseti Tékkóslóvakíu - hann sat í embætti þar til landinu var skipt í tvennt árið 1993. Varð þá forseti Tékklands og sat í embætti í tvö 5 ára kjörtímabil og lét af embætti 2003
1992 Fernando Collor de Mellor forseti Brasilíu, segir af sér embætti vegna hneykslismála - Mellor var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins í 29 ár og sigraði naumlega í forsetakosningum árið 1990
1995 Ríkisstjórnin samþykkti að banna umsækjendum um opinberar stöður að njóta nafnleyndar

Snjallyrði dagsins
Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár.
Líf og tími líður og liðið er nú ár.
Bregðum blysum á loft bleik þau lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt, horfið kveðjum ár.
Dátt hér dansinn stígum dunar ísinn grár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.

Komi hver sem koma vill! Komdu nýja ár.
Dönsum dátt á svelli, dunar ísinn blár.
Bregðum blysum á loft bleik lýsa um grund.
Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.
Jón Ólafsson (Álfadans)

28 desember 2004

Viktor YushchenkoHeitast í umræðunni
Viktor Yushchenko var kjörinn forseti Úkraínu, í forsetakosningunum í landinu á annan dag jóla. Talningu lauk í landinu í dag og varð þá ljóst að Yushchenko hlaut 51,9% atkvæða en Viktor Yanukovych forsætisráðherra, hlaut 44,1% atkvæða. Alls hlaut Yushchenko 2,2 milljónum fleiri atkvæði en Yanukovych. Miklar deilur hafa staðið vegna forsetakjörs í landinu seinustu vikur vegna kosninganna sem haldnar voru þar 21. nóvember sl. Yushchenko vann sigur í fyrri umferðinni í byrjun nóvember og var spáð sigri í seinni umferðinni. Útgönguspár gáfu þá til kynna um að hann myndi sigra með 7-8% mun. Raunin varð sú að Yanukovych vann nauman sigur og hlaut 2% meira eftir að talningu lauk. Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans um kosningasvik í austur- og norðurhéruðum landsins. Efndu stjórnarandstæðingar til fjöldamótmæla sem leiddu til þess að hæstiréttur tók málið fyrir og ógilti úrslit kosninganna og ákvað að endurtaka seinni umferðina. Sannað var enda að stórfelld kosningasvik áttu sér stað. Vestræn kosningaeftirlit höfðu t.d. sagt að kosningatölur hafi ekki passað við kjörskrár enda fleiri atkvæði en kjósendur sem greiddu atkvæði.

Yushchenko lýsti formlega yfir sigri í gærmorgun á útifundi með stuðningsmönnum sem hafa fylgt honum í gegnum þykkt og þunnt í baráttu seinustu vikna og mánaða. Sagði hann í sigurræðu sinni að um 14 ára skeið hafi Úkraína verið sjálfstætt ríki en nú væri hún loks frjálst ríki. Sigur sinn væri þó umfram allt sigur úkraínsku þjóðarinnar og landsins. Yanukovych neitar að viðurkenna ósigur sinn og sigur Yushchenko. Hann hefur lýst því yfir nú að hann muni leita til hæstaréttar Úkraínu til þess að fá úrslitunum hnekkt, eins og mótherji hans gerði eftir seinustu kosningar fyrir rúmum mánuði. Hefur forsætisráðherrann lagt fram á fimmta þúsund kvartana yfir því hvernig staðið var að talningu atkvæða. Er varla hægt að segja annað en að það sé skondið í ljósi þess að hann vann kosningar fyrir rúmum mánuði með kosningasvikum og neitaði að viðurkenna að illa hafi verið á haldið þar til ríkisstjórn Kuchma forseta, neyddist til að viðurkenna stöðu mála. Ljóst er að kosningarnar núna fóru vel fram, enda 12.000 erlendir embættismenn að fylgjast með og er það samdóma álit þeirra að þær hafi að mestu farið vel fram. Hins nýja forseta bíður mikið og stórt verkefni. Úkraínska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til hans og stefnumála stjórnarandstöðunnar sem nú tekur við völdum. Efnahagur Úkraínu er sterkur en við blasir að fáeinir auðkýfingar hafi þar tögl og hagldir, sem studdu forsætisráðherrann og fráfarandi stjórn. Eitt af fyrstu verkefnum nýs forseta verður væntanlega að reyna að styrkja samskipti Úkraínu og Rússlands og sameina þjóðina að baki sér eftir mikil átök, enda hætt við því að íbúar austurhluta landsins fari fram á aukið sjálfstæði.

Jarðskjálfi í AsíuMikill harmur er kveðinn yfir heimsbyggðinni eftir hina skelfilegu jarðskjálfta sem gengu yfir Asíu á öðrum degi jóla. Skjálftinn, sem varð um klukkan átta að morgni þess dags er einn sá öflugasti sem orðið hefur vart á jörðinni í yfir fjörutíu ár og sá fimmti öflugasti síðan á aldamótunum 1900. Upptök skjálftans, sem mældist 9 á Richter-skala, voru nálægt eyjunni Súmötru á Indónesíu. Hann varð neðan sjávar og minnst sex eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þar af einn sem mældist yfir 7 á Richter. Á eftir fylgdu gríðarlegar flóðbylgjur, sem líklega náðu yfir 10 metra hæð. Flóðbylgjurnar hafa skollið á ströndum Indlands, Indónesíu og Sri Lanka og valdið þar gríðarlegri eyðileggingu. Hugsanlegt er að rúmlega 100.000 manns hafi farist af völdum flóðbylgjunnar. Það eitt er ljóst að fjöldi látinna hefur aukist mjög seinustu daga, fyrst var talað um 10.000, svo um tæp 30.000 og hefur nú tala látinna hækkað hratt í 60.000 og hækkar sífellt. Sorglegust er þó sú staðreynd að aldrei verði hægt með vissu að staðfesta endanlegar tölur, enda eru engar mannfjöldaskrár til staðar yfir fjölda þeirra svæða sem um ræðir. Liggur fyrir að flest fórnarlömb náttúruhamfaranna voru í Indónesíu og á Sri Lanka.

Óumdeilt er ef marka má fréttir að Indónesía og Sri Lanka hafi farið verst út úr hamförunum. Flóðbylgjur skullu þar eftir endilangri strandlengju landsins. Ekki hafa færri en 20.000 manns farist í hvoru landi. Ef marka má fréttir CNN af hamförunum misstu allt að milljón íbúa í hvoru af löndunum t.d. heimili sitt, austurströnd landsins varð sérstaklega mjög illa úti og ástand þar mjög dapurt. Hafa landsmenn ekki séð það verra þó þeir hafi átt í stríði og átökum í nokkra áratugi. Talið er að allt að 12.000 Indverjar hafi farist. Mikið var af ferðamönnum í Asíu um jólin og sérstaklega bendir margt til þess að margir norðurlandabúar hafi beðið þar bana. Um 1.500 Svía er enn saknað og ekki er vitað um afdrif 600 Norðmanna. Talið er að a.m.k. 700 erlendir ferðamenn séu meðal þeirra 60.000 sem þegar hefur verið staðfest að létust í hamförunum. Virðist vera að stór hluti þeirra komi frá Svíþjóð. Á blaðamannafundi í dag sagði Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, að líklega hefðu ekki jafnmargir Svíar farist síðan farþegaskipið Estonia sökk haustið 1994 með þeim afleiðingum að 500 létust. 200 Finna og 16 Dana er enn saknað. Ekki hefur enn heyrst frá 12 Íslendingum sem voru staddir á þessum slóðum. Þessar hörmungar eru skelfilegar og setur mann hljóðan við þessi tíðindi sem þarna hafa átt sér stað. Hvet ég alla til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins, 907 2020, og láta með því renna 1000 krónur til hjálparstarfsins. Margt smátt gerir eitt stórt!

Í takt við tímannÍ takt við tímann
Á öðrum degi jóla fór ég í bíó og sá kvikmyndina, Í takt við tímann. Hún er sjálfstætt framhald vinsælustu og eftirminnilegustu kvikmyndar íslenskrar kvikmyndasögu, Með allt á hreinu. Hún sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó, 1982 og 1983. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar, sem börðust af krafti til að tryggja stöðu sína á ballmarkaðnum og beittu til þess öllum mögulegum brögðum. Nú, 22 árum síðar er Ágúst mættur aftur til sögunnar og færir okkur ásamt Stuðmönnum, sögu þeirra sem við fylgdumst með fyrir tveim áratugum og hvað á daga þeirra hafi drifið á þeim árum sem liðin hafa verið. Óhætt er að fullyrða að margt hafi breyst og líf söguhetjanna okkar tekið stakkaskiptum. Aðalsögupersónurnar eru nú sem áður söngvararnir Kristinn Styrkársson Proppé og Harpa Sjöfn Hermundardóttir, en örlögin réðu því að leiðir þeirra skildu á þjóðhátíð í Herjólfsdal.

Í upphafi myndarinnar eru Stuðmenn aðeins lítið tríó á hótelbar á Spáni, þó að hljómsveitarstjórinn Frímann eigi sér enn drauma um litríkan frama á tónlistarbrautinni. Stuðmenn vita líka að Ísland er land tækifæranna, þar sem nýsköpunarverkefnin bjóðast hvert sem litið er. Dúddi er löngu hættur að róta og leggur nú stund á öllu andlegri störf og virðist sá eini sem hefur slegið almennilega í gegn, ótrúlegt en satt. Merkilegar aðstæður verða til þess að leiðir Stinna og Hörpu liggja saman að nýju. En sjón er sögu ríkari. Egill Ólafsson, Ragnhildur Gísladóttir, Eggert Þorleifsson, Jakob Frímann Magnússon, Ásgeir Óskarsson, Tómas M. Tómasson og Þórður Árnason eru í aðalhlutverkum sem fyrr. Handritið er eftir Ágúst Guðmundsson, Eggert Þorleifsson og Stuðmenn. Öll höfum við beðið í fjölda ára eftir að sjá hvað hefur gerst hjá þessum kunningjum okkar, sem gerð voru okkur ódauðleg í fyrri myndinni. Við þessu fáum við svör í kvikmyndinni Í takt við tímann. Hafði ég gaman af myndinni, hef svo sem alla tíð verið mikill aðdáandi Stuðmanna og haft gaman af húmor þeirra í fyrri myndinni. Ómögulegt er þó að bera saman fyrri myndina og þessa. Sú fyrri er slíkt meistaraverk að það er bara þannig. En þeir sem fara á myndina til að hafa gaman af henni og búast ekki við mynd sem toppar þá fyrri munu skemmta sér vel. Allavega hlæja mikið, ég allavega hló mestallan tímann og hafði gaman af myndinni.

Dagurinn í dag
1832 John C. Calhoun verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna, sem segir af sér embætti í sögu þess
1871 Leikritið Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrst sýnt - varð opnunarverk Þjóðleikhússins 1950
1897 Leikritið Cyrano de Bergerac, frumsýnt í París - er eitt af frægustu leikverkum í sögu Frakklands
1908 Jarðskjálfti í Messina á Sikiley verður 75.000 manns að bana - skjálftinn í Messina varð einn af stærstu jarðskjálftum aldarinnar og telst hiklaust einn af fimm stærstu og mannskæðustu á öldinni
1967 Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun - hann varð hluti af Landsspítalanum árið 1999

Snjallyrði dagsins
Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
við sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við guð um þúsund ár.

Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?
Hve öll sú gleði er fyrr naut hugur minn,
er orði hljómlaus utangátta og tóm,
hjá undrinu að heyra þennan róm,

Hjá undri því, að líta lítinn fót,
í litlum skóm, og vita að heimsins grjót,
svo hart og sárt er honum fjarri enn,
og heimsins ráð sem brugga vondir menn,

Já vita eitthvað anda hér á jörð,
er ofan standi minni þakkargjörð,
í stundareilífð eina sumarnótt.
Ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt
Halldór Kiljan Laxness skáld (1902-1998) (Hvert örstutt spor)

27 desember 2004

Jólakveðja 2004Jólahugleiðingar
Ég vona að lesendur vefsins hafi haft það gott yfir jólin og hafi notið hátíðarinnar. Jólin hjá mér voru mjög hefðbundin og að mestu mjög lík því sem hefur verið í gegnum árin. Eins og vel hefur komið fram í fréttum var stórhríð og gekk á með miklum snjóbyl á aðfangadag og jóladag hér norðanlands, og því var lítið ferðaveður þessa daga og mikil ófærð eftir því sem leið á, áður en veðrinu slotaði hér í gær. Þrátt fyrir þennan veðurofsa og kuldann í veðrinu var haldið í fastar hefðir aðfangadagsins hjá minni fjölskyldu. Á aðfangadag var þrátt fyrir leiðindaveður farið í kirkjugarðinn til að vitja leiða látinna ættingja og ástvina og farið á eftir í kaffi til ömmu minnar. Þetta er hefð sem hefur verið í minni föðurfjölskyldu til fjölda ára og er fastur partur af aðfangadeginum. Kuldatíð og vont veður geta ekki komið í veg fyrir að farið sé í kirkjugarðinn til að vitja leiða þeirra sem hafa kvatt þessa jarðvist, enda mikilvægt að helga þeim hluta af hugsunum sínum. Þetta hefur alla tíð verið mikilvægt hjá okkur í fjölskyldunni. Ég get ekki haldið gleðileg jól nema að hafa sinnt þessu.

Um kvöldið eftir að hafa borðan góðan mat og tekið upp pakka og lesið þau fjölmörgu jólakort sem mér bárust var farið í miðnæturmessu í Akureyrarkirkju, kirkjuna mína. Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir predikaði. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar organista. Ég hef ávallt farið í kirkju á jólum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að fara í messu og eiga þar notalega stund. Aðfangadagskvöld og upphaf jólanætur er sú stund um jól sem ég tel helgasta. Því er réttast að fara í messu þá. Vetrarveðrið breytti ekki heldur þessari hefð og þrátt fyrir kuldann og vont veður mætti nokkur fjöldi í kirkjuna og átti þar góða stund. Eftir athöfnina var haldið heim í Þórunnarstræti og var þá færð um bæinn tekin nokkuð að þyngjast. Að morgni jóladags var að mestu orðið ófært í bænum eftir vont veður um nóttina. Ekki var þó mikill snjór í bænum, en veðurhæðin var mikil og það rak því í skafla og safnaðist í snjóakistur. Aflýsa þurfti hátíðarmessum í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju á jóladag. Stórhríðinni slotaði eftir hádegið á jóladag og fallegt jólaveður tók loks við. Mokaðar voru þá helstu umferðargötur bæjarins. Þessa daga var því bara haft það rólegt, notið kyrrðar hátíðarinnar og slappað af.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í síðasta sunnudagspistli ársins 2004 sem birtist á vef mínum í gær, annan dag jóla, fjallaði ég um jólahátíðina, hér á Akureyri, og fór ennfremur yfir þær bækur sem ég hef litið í yfir hátíðirnar. Hef ég gegnum tíðina haft mikla ánægju af lestri góðra bóka. Fékk ég fjölmargar góðar bækur í jólagjöf, bæði ævisögur og skáldsögur. Söluhæsta bókin fyrir þessi jól var Kleifarvatn, eftir meistara íslenskra spennusagna, Arnald Indriðason. Seldist hún í metupplagi en rúmlega 23.000 eintök höfðu selst af bókinni skömmu fyrir jól. Las ég bókina nokkru fyrir jól og varð heillaður af henni. Þetta er svo sannarlega spennusagnabók á heimsmælikvarða, að mínu mati er þetta besta bók Arnaldar. Ánægjulegt er að Arnaldur hefur nú loks hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hefur hann verið sniðgenginn seinustu ár, þrátt fyrir hvert meistaraverkið á eftir öðru. Nú er loks komið að því að hann fái tilnefningu og vona ég að hann fái verðlaunin, enda hiklaust um að ræða skáldsögu ársins. Í jólagjöf fékk ég tvær stórar og miklar ævisögur nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness. Eru bæði ritin einkar vönduð og vel úr garði gerð og mikil vinna greinilega verið lögð í þær.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Halldór Guðmundsson eiga mikið hrós skilið fyrir góð efnistök og áhugaverð í bókum sínum um skáldið. Kiljan, bók Hannesar Hólmsteins, er virkilega skemmtileg lesning og var mjög gaman að sökkva sér í hana að morgni jóladags og lesa hana að mestu leyti á jóladeginum. Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Bókin er heilsteyptari og ítarlegri en fyrsta bókin, sem fjallaði um bernskuár skáldsins og mótunarár hans, en hún var vissulega einnig mjög vönduð og umfangsmikil. Er það helst vegna þess að fjallað er um mikil hitamál á ferli skáldsins og mikinn umbrotatíma stjórnmálalega sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Bókin spannar 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn.

Allt rennur þetta ljúflega saman og fullyrði ég að þetta er ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur næstu jóla og útgáfu þriðja og seinasta hlutans sem mun fjalla um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998. Hef ég nú hafið lestur á riti Halldórs Guðmundssonar um skáldið. Er frásögn hans mjög skemmtileg og farið á heillandi hátt yfir æviferil Halldórs, hefur bókin hlotið verðskuldaða tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna og mun að öllum líkindum hljóta verðlaunin í sínum flokki. Halldór hefur í gegnum tíðina stúderað mjög ritferil og ævi nafna síns og gerði um hann þrjá vandaða heimildarþætti fyrir Ríkissjónvarpið sem sýndir voru í kjölfar andláts skáldsins í febrúar 1998 og fór þar vel yfir æviferil hans. Er frásögn Halldórs mjög fróðleg og umfjöllun hans mjög áhugaverð. Í samanburði við rit Hannesar, er þó athyglisvert að Halldór fer mun hraðar yfir, skautar yfir mikilvæga þætti sem Hannes víkur að og tekur mjög ítarlega fyrir og tengjast óbeinni þátttöku Halldórs í stjórnmálum. Af því leiðir að bók Halldórs er mun minna pólitísks eðlis og fjallar meira um rithöfundinn Laxness og áhrif hans á íslenskt skáldsagnarlíf á 20. öld og áhrif hans hér innanlands á samtíð sína og komandi kynslóðir.

Eru báðar bækurnar mjög áhugaverðar og er óhætt að fullyrða að ég hafi orðið margs vísari um feril Laxness eftir að hafa lesið bók Hannesar og lesið hluta bókar Halldórs og held áfram að lesa hana af miklum áhuga. Framundan er lestur fleiri bóka sem ég fékk í gjöf og eru í senn bæði áhugaverðar og spennandi. Fyrsta ber að telja forsætisráðherrabókina, æviágrip ráðherra og forsætisráðherra Íslands í 100 ára sögu heimastjórnar á Íslandi, 1904-2004. Endar bókin á ítarlegum kafla Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, um Davíð Oddsson forsætisráðherra, 1991-2004. Hef ég aðeins lesið þann kafla núna og hlakka til að kynna mér betur aðra hluta bókarinnar. Við tekur svo lestur á vandaðri bók Matthíasar Johannessen, Málsvörn og minningar. Fékk ég nokkrar skáldsögur í gjöf, t.d. Sakleysingjana eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur, 11 mínútur eftir Paulo Coelho, Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn, Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson og Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson. Ekki veit ég hvenær ég kemst yfir allar þessar bækur til fulls, en ljóst er að mikill lestur er framundan og áhugaverður. Nú um helstu jóladagana hef ég helgað mig lestri á ævisögunum um Halldór Laxness, en það er ljóst að góð bókajól verða á mínu heimili.

Dagurinn í dag
1977 Breski leikarinn Sir Charles Chaplin jarðsunginn í Sviss - hann lést á jóladag, 88 ára að aldri
1979 Sovétríkin ná völdum í Afganistan og stjórnvöldum landsins var steypt af stóli. Leiddi það til blóðugra átaka, hörmunga og borgarastyrjaldar sem stóðu í landinu í rúma tvo áratugi með hléum
1985 Lík bandaríska náttúrufræðingsins Dian Fossey, finnst í Rwanda. Dian sem var 53 ára, var myrt
1986 Snorri Hjartarson skáld og bókavörður, lést, áttræður að aldri. Snorri var eitt lisfengasta skáld landsins og hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981, fyrir bókina Hauströkkrið yfir mér
1988 Fyrsta bílnúmerið í nýju fastnúmerakerfi landsins, HP 741, var sett á bifreið dómsmálaráðherra

Snjallyrði dagsins
Ef ég sé þig
- þá er það ímyndun
Ef ég heyri í þér
- þá er það draumur
Ef ég hugsa um þig
- verður það minning

Þú kveiktir í mér, en vaktir tilfinningatár,
er þú kvaddir mig á fögrum sumardegi.
Sársaukinn verður alltaf nístingssár
en minningin fylgir mér á dimmri nóttu sem björtum degi.
Stefán Friðrik Stefánsson (Minningin) 1999

24 desember 2004

Jólakveðja 2004

23 desember 2004

Jólatréð á Ráðhústorgi 2004Jólahugleiðingar
Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. Skammdegið er lýst upp með fallegum ljósum og skreytingum í tilefni hátíðarinnar. Jólin eru kjörið tækifæri til að slappa af; lesa góðar bækur, borða góðan mat og njóta lífsins. Jólin eru ánægjulegasti tími ársins. En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt.

Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með. Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Ég er ekki sammála því. Mér finnst ekki óeðlilegt að jólatíminn lengist og verði áberandi þegar í nóvember sem dæmi. Einnig þykir mér gott að skreyta snemma og njóta jólaskrautsins lengur en einungis örfáa daga. Ég man að á mínum bernskuárum var jafnan skreytt á mínu heimili tveim eða þrem dögum fyrir jól, mér þótti það alltof seint og skreyti nú alltaf í byrjun desember, enda þykir mér gott að njóta þess að hafa jólalegt allan desembermánuð og lýsa upp svartasta skammdegið.

JólasveinnEinnig er mikið rætt um hvenær eigi að byrja að spila jólalögin. Mörgum finnst of snemmt að fara að spila þau í nóvember, aðrir fara að spila þau þá. Ég er svolítið íhaldssamur þegar kemur að jólalögunum, finnst réttast að byrja að spila þau í byrjun desember, ekki fyrr. Mér finnst t.d. svolítið stingandi þegar farið er spila heilögustu jólalögin, t.d. Ó helga nótt og Heims um ból, í lok nóvember eða byrjun desember. Mér finnst það alls ekki viðeigandi og tel að eitthvað verði að vera mönnum heilagt. Það að spila hátíðlegustu jólalögin á þeim tíma sem aðventan er að hefjast finnst mér nálgast við að mega kallast guðlast, verð bara hreinlega að segja það.

Á aðventunni og jólunum er mikilvægt að minnast ástvina og ættingja sem hafa kvatt þessa jarðvist og helga þeim hluta af hugsunum sínum, hvort sem um er að ræða ástvini sem hafa kvatt á árinu eða á seinustu árum. Ég fer alltaf fyrir jólin í garðinn hér og hugsa um leiðin sem tengjast mér eða minni fjölskyldu. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Kærleikur er ekki mældur í peningum, hann er ómetanlegur. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta. Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.

JólatréJólaundirbúningurinn
Í dag hef ég verið á fullu við að klára jólaundirbúninginn. Jólalegt er orðið hér í bænum og mikil jólastemmning. Veðrið hér norðan heiða hefur verið svosem ágætt síðasta sólarhringinn. Ljóst er að það verða hvít jól. Það er þónokkur kuldahrollur og hefur snjóað seinustu daga. Sýnist á nýjustu veðurspánum að það verði kuldatíð næstu daga. Gæti reyndar orðið frekar slæmt, ef allt rætist. Það er því þess eðlis veðrið að best sé að vera inni og hafa það notalegt, í jólaboðum, eða þá að lesa jólabækurnar, borða góðan mat eða þá horfa á sjónvarpið. Fór í dag í búðir við að klára að kaupa það sem eftir er. Að mestu var ég þó búinn að því sem gera þurfti fyrir jólin í byrjun mánaðarins. Jólaundirbúningurinn hefst venju samkvæmt hjá okkur mánuði fyrir jól með laufabrauðsgerð. Um mánaðarmótin er húsið alveg skreytt og skrifað á jólakort. Að því loknu keyptar gjafir. Í gær var farið að kaupa jólamat og klára tvær gjafir sem ég vildi bæta við. Var gríðarlegur fjöldi að versla í gær og nóg um að vera. Hitti maður mikinn fjölda fólks sem maður þekkir og átti gott spjall. Fórum við nokkur í tilefni afmælis míns í gær á Greifann og fengum okkur að borða. Þetta var annasamur en góður dagur. Ekkert jafnast annars á við að fá sér að borða á Greifanum, frábær veitingastaður sem ég fer oftast á þegar ég fer út að borða hér.

Húmorinn
As you know, Time magazine has named President Bush 'Person of the Year' -- quite an honor. Although I'm not sure Bush understands it. Like he said today, he can't decide if he wants the free travel alarm clock or the tote bag.

You know who else was being considered -- this is absolutely true -- Michael Moore, guy who did 'Fahrenheit 9/11.' Michael Moore was also being considered Time's 'Person of the Year.' Unfortunately, he couldn't fit on the cover.
Jay Leno

President Bush got an early Christmas gift. This week, President Bush was chosen as 'Person of the Year' by Time magazine. Not only that, Martha Stewart was chosen as person of the year by Doing Time magazine.

Today's USA Today features an editorial by Secretary of Defense Donald Rumsfeld defending the war in Iraq. You can tell it was written by Rumsfeld because the opening line of the editorial is 'shut your pie hole and listen.
Conan O'Brien

President Bush said that he is standing by Rumsfeld. And you know what that means, he'll be gone in a week.

President Bush began making cuts in the federal budget. And to help out, the Bush twins are switching to Rite Aid vodka.

The international space station is running low on food. They asked Defense Secretary Donald Rumsfeld about this. And Rumsfeld said, you go to space with the food you've got, not the food you want.
David Letterman

Dagurinn í dag
1193 Þorlákur Þórhallsson biskup í Skálholti, lést, sextugur að aldri. Helgi Þorláks var lögtekin á Alþingi 29. júní 1198 og ári síðar var messudagur hans ákveðinn 23. desember. Önnur messa hans er á fæðingardegi Þorláks, 20. júlí. Jóhannes Páll páfi II, staðfesti helgi Þorláks, þann 14. janúar 1984
1905 Páll Ólafsson skáld, lést, 78 ára að aldri. Páll var meðal allra bestu alþýðuskálda Íslendinga. Meðal þekktustu ljóða Páls voru t.d. Sumarkveðja (Ó blessuð vertu sumarsól) og Sólskríkjan
1936 Lestur á jólakveðjum hófst á Þorláksmessu í Ríkisútvarpinu. Frá 1933 hafði lesturinn farið fram á aðfangadag, en hefur allt frá 1936 verið á Þorláksmessu. Ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum er að hlusta á lestur jólakveðjanna, sem berast af öllu landinu og erlendis og skreyttar með jólalögum
1958 Ríkisstjórn Emils Jónssonar tók við völdum - hún var minnihlutastjórn Alþýðuflokksins og sat að völdum í tæpt ár. Var undanfari að viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat í 12 ár
1968 Til mikilla átaka kom í Reykjavík milli lögreglu og fólks sem hafði mótmælt Víetnamsstríðinu

Snjallyrði dagsins
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
konungur lífs vors og ljóss.

Heyra má himnum í frá
englasöng: "Allelújá".
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
samastað syninum hjá.
Sveinbjörn Egilsson rektor (1791-1852) (Heims um ból)


Ég sendi mínar bestu óskir um gleðilega jólahátíð til lesenda vefsins!

22 desember 2004

Akureyri á vetrarkvöldiHeitast í umræðunni
Eyfirðingar virðast hafa vaxandi áhuga fyrir samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við fjörðinn, ef marka má niðurstöður könnunar sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hefur gert. Reikna má með því að það verði lagt í dóm kjósenda á næsta ári hvort rétt sé að sameina sveitarfélögin 10 við fjörðinn í eitt öflugt og kraftmikið sveitarfélag. Yrði slík sameining að veruleika yrði til eitt stærsta sveitarfélag landsins, með tæplega 22.000 íbúa. Líst mér mjög vel á niðurstöður rannsóknarstofnunar Háskólans, hef ég kynnt mér helstu atriði hennar og farið yfir. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur því að sveitarfélög í Eyjafirði myndu sameinast í eitt og verið þeirrar skoðunar í tæpan áratug að það væri skynsamasta skrefið að stefna að því. Hefur ferlið gengið mun hraðar fyrir sig en ég þorði í upphafi að vona og mikið gleðiefni ef kosið verður um sameiningu allra sveitarfélaganna strax á næsta ári og sameining í firðinum því jafnvel orðin að veruleika fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Í júní samþykktu Akureyringar og Hríseyingar að sameinast. Er að mínu mati um að ræða fyrsta skrefið á þeirri vegferð að Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag og mikilvægt að hefja ferlið með þeim hætti að Hrísey og Akureyri yrðu eitt sveitarfélag.

Í hugum flestra Eyfirðinga er svæðið allt að verða ein heild, og ennfremur hætt að hugsa í gömlum hrepparíg um að þetta og eitt sé málefni eins svæðis og þetta komi afmörkuðum parti einungis við. Ég finn það á fólki sem býr út með firði og ég hef þekkt til fjölda ára að sameining sveitarfélaga á sér sífellt fleiri stuðningsmenn en verið hefur. Andstaðan hefur verið mikil við sameiningu í vissum sveitarfélögum út með firði, en hlutirnir eru að breytast, sem betur fer. Fólk er hætt að horfa til fortíðar, það horfir þess í stað fram á veginn og hugsar til framtíðar. Það eitt skiptir okkur hér máli að styrkja Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið og gera það ákjósanlegt að búa hér og efla svæðið sem sterka heild. Enginn vafi er á því í mínum huga að fólk hér eigi að vinna sameinuð og taka höndum saman. Það er mikilvægt, mjög svo. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur markað sér þá stefnu að stuðlað verði að frekari sameiningu sveitarfélaga á svæðinu og okkur er því mikið ánægjuefni að fara yfir niðurstöður skýrslu RHA og það sem þar kemur fram. Hugmyndir hafa vaknað um sameiningu Eyjafjarðarsvæðisins og Siglufjarðar með tilkomu Héðinsfjarðarganga á komandi árum og ennfremur að þetta verði allt eitt atvinnusvæði. Það er stefnt að því í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar að svo verði og göngin mikilvægur þáttur í því ferli að þetta verði að veruleika. Að mínu mati mun sá dagur renna upp innan næsta áratugar að öll þessi sveitarfélög á þessu svæði sameinist. Eins og fyrr segir er ánægjuefni að þetta ferli gangi svo vel og stefni jafnvel í að þetta náist í gegn fyrir næstu kosningar.

Kynningarmynd af 12 hæða blokk á BaldurshagareitnumSenn hverfur í aldanna skaut merkilegt ár í bæjarmálunum. Mörg mál hafa verið til umræðu í nefndum og bæjarstjórn Akureyrarbæjar og á árinu stækkaði sveitarfélagið okkar með sameiningu við Hrísey. Eitt mesta hitamál ársins í bæjarmálunum er Baldurshagamálið. Í pistli mínum á Íslendingi, vef sjálfstæðisfélaganna í bænum, fer ég yfir þetta mál. Orðrétt segir þar: "Tekist hefur verið á um þetta mál á grundvelli tilfinninga, umfram allt annað. Hefur fólk verið duglegt við að tjá skoðun sína, bæði þeir sem eru hlynntir því að byggt sé þarna og sérstaklega þeir sem eru því andvígir. Hafa þeir sem eru andvígir verið meira áberandi vissulega, en það er þó ljóst að fylkingarnar eru báðar stórar og margir bæjarbúar eru mjög hlynntir því að þessi kostur verði kannaður til fulls og ræddur vel. Það er það jákvæða við þetta mál að farið hefur fram gagnleg og almenn umræða um það og bæjarbúar tjáð sig óhikað, sem er vitaskuld hið allra besta mál. Ég og við í stjórn Varðar höfum allt frá aðalfundi í félaginu verið öflug í að tjá okkur um málefni bæjarins okkar og önnur heit umfjöllunarefni í stjórnmálum og tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni með ályktunum okkar. Meðal þess sem við höfum talið mikilvægt að tjá okkur um er þetta mál og skipulagsmál almennt í bænum."

Í lok pistilsins segir svo: "Á síðu Samfylkingarinnar hér í bæ er sagt að Vörður sé yfirlýsingaglatt félag og sagt að það sé gjarnan aðferð þeirra sem sitji í minnihluta að láta rödd sína heyrast. Ekki get ég sett mig í spor þeirra í minnihlutanum eða séð hlutina frá þeirra sjónarhorni. En hitt er þó jafnljóst að á meðan ég leiði félag ungra sjálfstæðismanna í bænum eða tek þátt í pólitísku starfi hér mun ég hafa skoðanir á málum, tjá þær af krafti á eigin heimasíðum, flokksvefnum eða í fjölmiðlum almennt og leitast við að vera sýnilegur í því að vera málsvari ungliðafélagsins hér og vinna fyrir flokkinn af krafti. Ég og við sem sitjum í stjórn félagsins erum í þessu starfi af áhuga og viljum vera virk í að hafa skoðanir og sýnileg við að tjá þær. Það er grundvallarsjónarmið af minni hálfu. Það er mikilvægt að hafa kraftmikið pólitískt starf svo þeir sem áhuga hafi á pólitík geti valið skoðunum sínum og pólitískum hugsjónum farveg og eigi vettvang. Það er mitt starf að tryggja það hér, og ég fagna öllum þeim sem vilja taka þátt með mér og hafa skoðanir á hitamálunum og tjá þær alveg óhikað og af krafti. Með því að tjá skoðanir okkar af krafti getum við haft áhrif á samfélag okkar og þá fylkingu sem við erum í. Hjá okkur er starfið opið og öllum er velkomið að taka þátt og hafa skoðanir og rökræða málin. Það gildir jafnt við um hugmyndir um blokkarbyggingu á Baldurshagareitnum, sem öll önnur."

Stefán Friðrik StefánssonAfmæli mitt
Í dag fagna ég 27 ára afmæli mínu. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Um síðustu helgi hélt ég upp á afmælið og bauð til mín nokkrum vinum og ættingjum. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Ég met þetta allt mjög mikils, annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu, en ekki virðist mér skorta vinina ef marka má þessi viðbrögð. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum.

bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson

Húmorinn
Yesterday, I received a Christmas card from Donald Rumsfeld in the mail. Would have been nice if he had actually signed it!
David Letterman

Congratulations to President George Bush, Time magazine named him the Person of the Year. And, of course, when he heard the news he was stunned. Bush said: 'I don't even subscribe to Time magazine.' ... I still don't think Bush quite gets it. Today he was asking people, 'So where is Ed McMahon with my big check?

President Bush got man of the year and in a related story John Kerry got a free copy of Entertainment Weekly.

Now here is the latest on Social Security. It looks like Donald Rumsfeld is about to start collecting it.
Jay Leno

Dagurinn í dag
1897 Klukka var sett upp í turni Dómkirkjunnar í Reykjavík - hún telur enn stundirnar fyrir borgarbúa
1989 Einræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu fellur í Rúmeníu. Ceausescu-hjónin reyndu að flýja höfuðborgina Búkarest þegar sýnt var að uppreisn almennings yrði ekki stöðvuð með valdi lengur, en þau voru handsömuð skömmu síðar. Þau voru tekin af lífi eftir réttarhöld á jóladag
1989 Brandenborgar-hliðið í Berlín, sem skildi að austur- og vesturhluta Berlínarborgar opnað fyrir almenningi að nýju, eftir tæplega þriggja áratuga hlé, í kjölfar falls Berlínarmúrsins sem stóð í 28 ár
1991 Rússneska þingið staðfestir að Rússland verði sjálfstætt ríki og hluti af samveldi sjálfstæðra ríkja frá 1. janúar 1992. Með þessu var formlega staðfest að Sovétríkin heyrðu sögunni til, flest ríki landsins höfðu þá lýst yfir sjálfstæði sínu og staðfest það. Mikhail Gorbachev forseti Sovétríkjanna, stóð eftir valdalaus sem þjóðhöfðingi án ríkis í raun og veru. Hann tilkynnti formlega um afsögn sína í ávarpi til þjóðarinnar á jóladag og batt með því enda á vangaveltur um hvað yrði um pólitíska stöðu sína eftir þessi sögulegu þáttaskil. Gorbachev, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990, hætti í pólitík
2000 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, valinn maður aldarinnar í aldamótakönnun Gallup. Í sömu könnun var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, valin kona aldarinnar. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var hinsvegar valinn stjórnmálamaður aldarinnar

Snjallyrði dagsins
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hrærð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.
Sigurður Björnsson (Ó, helga nótt)

21 desember 2004

Kókið er alltaf yndislega gott (sérstaklega fyrir 9 á kvöldin)Heitast í umræðunni
Sl. föstudag sendum við í stjórn Varðar frá okkur ályktun um undarlega þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar þess efnis að leggja bönn við auglýsingum á óhollum matvörum í fjölmiðlum til kl. 21:00 á kvöldin. Hefur ályktun okkar hlotið nokkra umfjöllun í blöðum sem og útvarpi. Í gær ræddi ég ályktunina og tengd málefni við þá Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason í síðdegisþætti Bylgjunnar, Reykjavík síðdegis. Vildu þeir kynna sér skoðanir mínar og okkar í Verði betur, en þeir höfðu á föstudag rætt við einn af flutningsmönnum tillögunnar, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur alþingismann Samfylkingarinnar. Tjáði ég í spjallinu það sem við blasir að í þessari tillögu er um að ræða allverulega frelsisskerðingu. Lagði ég áherslu á þann punkt málsins að fólk verði sjálft að standa vörð um heilsu sína, það væri út í hött að ríkið geri það með svona lagarömmum eins og lagt sé til. Gekk viðtalið vel og fórum við ítarlega yfir þetta og höfðu þeir greinilega mikinn áhuga á að heyra afstöðu ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri til málsins.

Þótti mér ekki verra að geta bætt í umfjöllun mína þeim ummælum Stefáns Jóns Hafsteins borgarfulltrúa og formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, í Íslandi í dag hjá Svansí og Þórhalli á föstudag, að tillagan væri illa ígrunduð. Fróðleg ummæli sem vert er að halda vel til haga. Er ekki hægt annað en að gera gott grín að þessu rugli þingmannanna. Vissulega má ræða matarvenjur Íslendinga, en hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál? Þetta er algjörlega út í hött og algjör tímaskekkja á okkar tímum. Ríkið á semsagt að hugsa og gera allt fyrir alla, jafnvel að hafa áhrif á matarvenjur fólks. Alveg kostulegt rugl. Frelsið er meira virði en svo að menn geti með góðu samþykkt svona forræðishyggju og vitleysu. Samhliða umfjöllun sinni voru þeir Þorgeir og Kristófer með viðhorfskönnun á heimasíðu Bylgjunnar og þar kom fram að 59% væru andvíg tillögu þingmannanna en 41% hlynnt henni. Verð ég að viðurkenna að þeir sem styðja þessa svartagallsvitleysu forsjárhyggjumanna á vinstrivængnum eru fleiri en ég átti von á, enda er þessi tillaga að mínu mati svo absúrd að það hálfa væri miklu meira en alveg nóg. En vissulega er þetta bara viðhorfskönnun og vart áreiðanleg sem vilji þjóðarinnar, en ég tel ólíklegt að svo margir séu í raun hlynntir þessari tillögu. En eftir stendur að flestir flokka tillögu þessara þingmanna sem óraunhæft tal. Hefur sést á viðbrögðum flestra að hún fær þau eftirmæli umfram allt.

ReykjavíkurflugvöllurAð mati okkar hér úti á landi er flugið óneitanlega samgönguleið, lífæð okkar svæðis til höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegur punktur í okkar lífi. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur okkur sem þurfum að fara um hann mörgum sinnum á ári til að komast suður til Reykjavíkur til fundahalda eða bara til að fara í langferðir. Mikil umræða hefur verið seinustu vikurnar um málefni hans og sitt sýnist hverjum. Fróðlegt hefur verið að heyra skoðanir Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra, á þessum málum, en hún hefur verið áberandi í að tjá sig eftir að hún tók við embætti 1. desember sl. Ekki er þó margt nýtt á döfinni í málflutningi hennar eins og búast mátti við, enda er hún sami flugvallarandstæðingurinn eftir sem áður og á sömu slóðum í málflutningi og áður sem formaður skipulagsnefndar borgarinnar. Ekki er heldur mikill blæbrigðamunur á afstöðu hennar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa, sem sat á borgarstjórastóli 1994-2003 og beitti sér ákveðið gegn flugvellinum en reyndi að klæðast í felulitina í umræðunni um völlinn í kosningaslagnum til þings í fyrra.

Í sunnudagspistli mínum á heimasíðunni, 28. nóvember sl. fjallaði ég um flugvallarmálið og fór yfir mikilvæga punkta tengda því. Þar kom fram það mat mitt að málefni flugvallarins væru verkefni og úrlausnarefni allra landsmanna, ekki bara afmarkaðs hóps í höfuðborg landsins. Tek ég undir ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, í fjölmiðlum í gær þess efnis að aðalatriði málsins sé ekki staðsetning flugvallarins, hvar nákvæmlega við borgina hann sé, heldur að samgöngur til og frá höfuðborginni verði jafn greiðar og þær eru í dag. Borgarstjóri hefur sagt seinustu daga að það sé ekki spurning um hvort, heldur aðeins hvenær, innanlandsflugið flytjist frá Reykjavík til Keflavíkur. Er hún þar greinilega bara að tala máli hluta umbjóðenda sinna. Eins og allir vita er Reykjavík höfuðborg Íslands alls og því vantar henni greinilega ýmsar pælingar í myndina svo hún smelli saman. Mikilvægt er að tryggja tengingu höfuðborgarinnar við aðra hluta landsins. Ef Reykjavík verður komin úr samgöngupunkti landsbyggðarinnar breytist að mínu mati hlutverk hennar, það er reyndar óhjákvæmilegt að við á landsbyggðinni lítum borgina öðrum augum ef tengsl okkar við hana samgöngulega séð verða verri en nú er. Þessu verður nýr borgarstjóri að gera sér sem fyrst fulla grein fyrir.

It's a Wonderful LifeJólamyndir
Um jólin er viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna. Tvær þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.

Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Mynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð. Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum. Tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2004 og 1946. Sígildur boðskapurinn á alltaf við.

Miracle on 34th StreetEin besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum. Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök. Vonandi eigið þið góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum, nóg af úrvalsefni er í boði hjá sjónvarpsstöðvunum og kvikmyndahúsunum.

Áhugavert efni
Einnota eða teflon - pistill Fjólu Margrétar Hrafnkelsdóttur
Öllu má nú nafn gefa! - pistill Kristrúnar Lindar Birgisdóttur
Steinunn Valdís og R-listinn í orðaleikjum - pistill Vef-Þjóðviljans
Umfjöllun um ævisögu Hannesar Hafstein - pistill Vef-Þjóðviljans
Morð í Fallujah og ástandið í Írak - pistill Gísla Freys Valdórssonar

Dagurinn í dag
1945 Ölfusárbrú við Selfoss var opnuð til umferðar - var þá langstærsta og mesta brú sem byggð hafði verið hérlendis. Hún er 134 metra löng og leysti af hólmi eldri brú sem tekin var í notkun 1891
1952 Kveikt var á 15 metra háu jólatré á Austurvelli í Reykjavík. Þetta var fyrsta tréð sem Oslóarbúar gáfu Reykvíkingum. Frá þessu hefur það verið árleg hefð að tré komi þaðan sem gjöf til Reykvíkinga
1958 Charles De Gaulle hershöfðingi, kjörinn með miklum meirihluta sem forseti Frakklands, og hlaut mun meiri pólitísk völd en forverar hans. De Gaulle sat í embætti allt til ársins 1969, og lést 1970
1988 Flugvél Pan Am-flugfélagsins, á leið frá London til New York, sprakk í loft upp yfir smábænum Lockerbie á Skotlandi. 258 létust, þarmeð taldir allir farþegar vélarinnar og fólk á jörðu niðri er vélin hrapaði til jarðar. Líbýskir menn grönduðu vélinni og voru þeir handteknir og sóttir til saka 2001
1999 Þingsályktun um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi. Síðar var fallið frá þessum áformum, sem kennd voru við Eyjabakka og ákveðið að stefna frekar að Kárahnjúkavirkjun

Snjallyrði dagsins
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja hann ei sem bæri
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnari heimsins væri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum brátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Sr. Einar Sigurðsson frá Heydölum (1538-1626) (Nóttin var sú ágæt ein)

20 desember 2004

Davíð Oddsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt hérlendis sem um allan heim um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hérlendis. Íslensk stjórnvöld ætla ekki að fara að hvatningu bandarískra stjórnvalda um að draga boðið til baka. Á fundi Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í dag, tjáði ráðherra honum að Fischer nyti mikils álits hérlendis og Ísland væri með boði sínu einungis að bregðast við með vísun til sögulegra tengsla við skákmanninn. Forsenda þeirrar ákvörðunar að vísa beiðninni ekki á bug væri sú að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki krafist framsals Fischers frá Japan. Sagði Davíð við sendiherrann að möguleg brot Fischers gegn viðskiptabanni á fyrrum Júgóslavíu væru fyrnd skv. íslenskum lögum. Davíð óttast ekki að sú ákvörðun munu hafa áhrif á samskipti þjóðanni, og segist jafnframt reiðubúinn að láta á það reyna með formlegum hætti, krefjist bandarísk stjórnvöld þess að fá Fischer framseldan.

Er þetta mál vitnisburður um það hversu öflugur stjórnmálamaður Davíð er. Hann tekur ákvörðun, hikar aldrei og fer með málið alla leið og vinnur af krafti fyrir framgangi þess, hvað sem mögulega getur gerst. Staða málsins er með þeim hætti að afstaða okkar til þess liggur fyrir og óþarfi að hika eitthvað í framgangi þess. Ekki er fyllilega víst hvort Fischer kemur hingað til lands. Honum er þó mikið í mun um að komast hingað sem fyrst. Hann hefur ákveðið að falla frá málsókn á hendur japönskum stjórnvöldum, en þó ekki fyrr en tryggt verður að þau heimili honum að fara til Íslands. Sæmundur Pálsson trúnaðarvinur Fischers til fjölda ára, hyggst fara til Japans til að fylgja Fischer til landsins. Mál Fischers kemur upp á sama tíma og viðræður standa yfir milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um áframhaldandi veru varnarliðsins hér á landi. Það hefur ekki gerst áður að Íslendingar veiti manni landvistarleyfi sem bandarísk yfirvöld álíta vera eftirlýstan glæpamann og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þess. Hvort Fischer komi til landsins veltur fyrst og fremst á japönskum stjórnvöldum. Hvort skákmeistarinn komi eður ei, ætti að ráðast á næstu dögum.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hélt blaðamannafund í dag í Dwight D. Eisenhower stjórnunarbyggingunni í Washington, og flutti þar yfirlýsingu og svaraði að því loknu spurningum fjölmiðlamanna. Var þetta í sautjánda skipti á forsetaferli Bush sem hann heldur blaðamannafund. Fór hann þar yfir stefnu stjórnar sinnar í mikilvægum málaflokkum og fór að mestu leyti yfir hvað hann og stjórn hans muni gera á seinna kjörtímabili sínu, en það hefst eftir nákvæmlega mánuð, 20. janúar 2005. Á fundinum lýsti forsetinn yfir trausti sínu í garð Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, sem hefur barist í bökkum seinustu vikurnar, eftir að tilkynnt var að hann myndi sitja áfram í embættinu í upphafi seinna kjörtímabilsins. Sagði forsetinn að Rumsfeld hefði staðið sig vel og að hann hefði verið ánægður þegar Rumsfeld hefði þegið boð hans um að sitja áfram í embætti. Rumsfeld hefur verið gagnrýndur harðlega af valdamiklum þingmönnum beggja flokka, sérstaklega Repúblikanaflokksins seinustu dagana, vegna Íraksstríðsins og framkomu hans við fjölskyldur fallinna hermanna.

Deilur spruttu svo endanlega upp þegar í ljós kom að hann hefði til þessa látið prenta undirskrift sína á bréfum til ættingja þeirra rúmlega 1000 hermanna sem hafa fallið í átökunum í Írak og Afganistan. Hefur hann nú heitið að undirrita hvert einasta bréf með eigin hendi framvegis. Er þetta ekki eina dæmi þess að hart sé að honum sótt. Athygli vakti að þegar hann fór til hermanna í Kuwait að þar var hann gagnrýndur harkalega af hermönnum. Fullyrtu þeir þar að þeir fengju ekki þau vopn í hendur sem dygðu gegn uppreisnarmönnum í Írak og fullyrtu að ekkert væri aðhafst í Washington til að finna leiðir til að minna hættuna af jarðsprengjum á vegum og vegaslóðum í landinu sem uppreisnarmenn hefðu komið fyrir til að granda hermönnum. Notuðu margir áhrifamenn í bandarískri pólitík pólitísku helgarspjallþættina til að ráðast að ráðherranum og tjá andstöðu sína við verk hans. Hefur andstaðan komið vel fram í skoðanakönnunum. Í nýrri könnun Gallups fyrir CNN kemur í ljós að 52% landsmanna vilja að hann víkji af ráðherrastóli. Er ljóst að staða hans hefur skaddast verulega á skömmum tíma og er talið líklegt að hann muni aðeins sitja skamman hluta kjörtímabilsins í embætti.

DimmugljúfurKárahnjúkavirkjun - með og á móti
Nýlega keypti ég mér bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, þar sem hann fer yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Ómar er landsmönnum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í öllum fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur hann seinustu fimm árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjun á Austurlandi og álver við Reyðarfjörð.
Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, árið 2002 og heldur nú þeirri umfjöllun áfram í bókinni. Er hún sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni neikvæða, báðar skoðanir koma vel fram.

Er þessi bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar. Þó að við Ómar séum ósammála um þetta mál, met ég það að hann reyni af krafti að tjá báðar skoðanir með þessum hætti og fái fram umræðu um það. Það er nefnilega það nauðsynlega við þetta, að fá umræðu um kosti og galla framkvæmdarinnar og þess sem gera þarf til að styrkja og efla Austfirðina. Enginn vafi er á því að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð eru gríðarlegur áfangi fyrir þjóðina. Það stefnir í nýtt og öflugt hagvaxtarskeið, atvinnuástand mun styrkjast verulega, kaupmáttur aukast og tekjur þjóðarbús og landsmanna hækka. Mikill uppgangur hefur verið á öllum sviðum á Austurlandi. Fór ég austur í Fjarðabyggð í sumar og þótti mjög ánægjulegt að sjá hversu vel gengur þar núna og að finna fyrir þeim mikla krafti sem býr í fólki þar og öllum framkvæmdum sem í gangi eru. Framkvæmdirnar þar styrkja Norðausturkjördæmi í heild og efla Austurland og síðast en ekki síst mannlífið í Fjarðabyggð. Það er því rétt að taka umræðuna um málið, en eftir stendur að kostirnir við framkvæmdina yfirgnæfa alla mögulega galla sem tíndir eru fram í bók þessari. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar.

Húmorinn
In his speech last night President Bush said this nation should never settle for mediocrity. Then he let Dick Cheney finish the speech.

Bill Clinton was walking through Central Park this week and a crowd gathered and began to ask him questions. And some one interrupted and said 'You were an embarrassment to the office of commander and chief.' Clinton fought right back and said 'Honey can we save this till we get home.'
Jay Leno

How about that Bernard Kerik, former police commissioner who was gonna be the head of Homeland Security. You know I think he would be a great Homeland Security director. He's had three wives and two mistresses. I mean he's used to fighting terrorism.
David Letterman

The first lady has had her staff put up 41 Christmas trees. Or, as President Bush said, one for each state.
Conan O'Brien

At his annual physical last week, the president found out he has gained six pounds over the last year and he has pledged to loose the weight as soon as possible. So, finding Osama bin Laden gets pushed even further down the to-do list.
Tina Fey (Saturday Night Live)

It was reported that while at the White House Christmas party first daughter Barbara Bush smashed her head on the dance floor when a friend she was dancing with dipped her to low. That friend - Captain Morgan.
Amy Poehler

Áhugavert efni
Þrjú stórlestarslys R-listans - pistill Vef-Þjóðviljans
Þú ert plebbi! - pistill Kára Allanssonar á vef Heimdallar
Tyrkland skrefi nær í átt að aðild að ESB - pistill Camillu Óskar Hákonardóttur

Dagurinn í dag
1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa - útvarpað var í upphafi þrjá tíma á kvöldin, en eftir því sem árin liðu lengdist útsendingartíminn og er nú útvarpað á Rás 1 frá 6:45 til 01:00 að nóttu. Árið 1966 hóf RÚV rekstur fyrstu sjónvarpsstöðvar landsins og 1983 var svo stofnuð önnur útvarpsrás, Rás 2. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson, en núv. útvarpsstjóri er Markús Örn Antonsson
1973 Aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, ráða Luis Carrero Blanco forsætisráðherra Spánar, af dögum í sprengjutilræði í Madrid - almenn þjóðarsorg var á Spáni vegna andláts hins sjötuga forsætisráðherra
1974 Snjóflóð féllu á Neskaupstað og ollu stórtjóni á mannvirkjum. 12 manns fórust í snjóflóðinu, margir voru grafnir lifandi upp úr snjónum. Tvítugur piltur bjargaðist eftir rúmlega 20 klukkustundir
1975 Kröflueldar hófust með miklu eldgosi í Leirhnjúki - gosið stóð allt fram til febrúarmánaðar 1976
1983 Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi - kerfið sem varð umdeilt tók gildi 1. janúar 1984

Snjallyrði dagsins
Framtíð okkar svo fallvölt er,
fortíð leit hjá sem blær
jólanóttin er nú og hér.
Nóttin heilög og kær.

Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gleymdu sorg og þraut
vittu til að vandamálin hverfa á braut.
Glæddu jólagleði í þínu hjarta
gjöf, sem dýrmætust er.
Í kærleika að kunna að gefa af sjálfum sér.

Hér og nú hjartkær vinafjöld
hjá oss eru í kvöld sem fyrr.
Jólabarn við oss brosir rótt
björt er jólanótt, hljóð og kyrr.
Ómar Ragnarsson (Glæddu jólagleði í þínu hjarta)