Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 október 2005

George W. Bush og Samuel Alito

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í morgun að hann hefði skipað dómarann Samuel Alito sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Er hann skipaður í réttinn sem eftirmaður Söndru Day O'Connor, sem tók fyrst kvenna sæti í réttinum árið 1981. Er hann þriðja dómaraefnið sem skipað er í stað Söndru. Upphaflega, fyrr í sumar, hafði forsetinn skipað John G. Roberts sem dómara við réttinn. Í kjölfar andláts William H. Rehnquist forseta Hæstaréttar, í haust, var Roberts skipaður í stað hans og var staðfestur sem forseti réttarins í lok september. Þá skipaði forsetinn Harriet Miers yfirlögfræðing Hvíta hússins, sem dómara. Tilkynnt var á fimmtudag að hún hefði hætt við að þiggja útnefninguna. Sýnt var að henni skorti nauðsynlegan meirihluta í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og í þingdeildinni sjálfri. Andstaða við hana innan hins íhaldssama arms Repúblikanaflokksins varð henni að falli - án þess stuðnings var borin von að hún hlyti tilskilinn stuðning í þinginu. Því fór sem fór. Brotthvarf Miers frá ferlinu og erfiðleikar hennar í stöðunni markaði vandræðalegt ástand fyrir forsetann. Það er alltaf vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið.

Nú tekur Bush forseti engar áhættur í stöðunni. Skipaður er tryggur hægrimaður - umfram allt tryggur íhaldsmaður í lykilmálum. Alito er mjög tryggur íhaldsmaður hvað varðar þau lykilmál sem deilt hefur verið um seinustu árin. Hann er allavega talinn svo líkur hæstaréttardómaranum íhaldssama Antonin Scalia, að hann er almennt uppnefndur Scalito. Þessi brandari er lífseigur og rifjast upp nú þegar hann er orðinn útnefndur dómari við réttinn og þarf að heyja baráttu í þinginu fyrir staðfestingu. Bakgrunnur Alito er allavega mjög honum til styrktar hvað varðar stuðning repúblikana í þinginu. Bush gerði sér allavega grein fyrir því hvaða stuðning þarf til að dómaraefnið komist heilt í land - vandræði Miers og harkaleg endalok staðfestingarferlisins sannfærðu hann vel um það. Því er skipaður tryggur íhaldsmaður með þær grunnskoðanir sem forsetinn telur þurfa til að dómaraefnið nái í gegnum hið langvinna og harðvítuga ferli. Búast má við umtalsverðum deilum. Nú er verið að fylla í skarð Söndru, sem var þekkt sem swing vote í réttinum. Búast má við að demókratar berjist hatrammlega gegn því að yfirlýstur íhaldsmaður taki við af Söndru. Þegar hafa þekktir demókratar tjáð andstöðu sína við Alito og líklegt að nokkur átök verði í þinginu. Um mun meira er enda verið að spila nú en þegar Roberts kom fyrir þingið.

Samuel Alito er fæddur í Trenton í New Jersey hinn 1. apríl 1950. Hann útskrifaðist frá Princeton-háskóla árið 1972 og fór í Yale lagaskólann að því loknu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1975. Árin 1976-1977 starfaði hann sem aðstoðarmaður alríkisdómarans Leonard I. Garth. Árin 1977-1981 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra New Jersey-fylkis. 1981-1985 var Alito aðstoðarmaður Rex E. Lee lagasérfræðings Hvíta hússins. Árin 1985-1987 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í ráðherratíð Edwin Meese. 1987-1990 var Alito saksóknari New Jersey-fylkis. Frá árinu 1990 hefur Alito verið alríkisdómari við áfrýjunardómstólinn í Philadelphiu. Alito og eiginkona hans, Martha, búa í West Caldwell í New-Jersey. Þau eiga tvö börn, soninn Phil og dótturina Lauru. Eins og sést á verkum Alito hefur hann gríðarlega reynslu að baki og erfitt verður að finna að verkum hans sem lagasérfræðings. Hann hefur ennfremur flutt tólf mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og býr því yfir víðtækri reynslu. Það er enda rétt sem forsetinn sagði í dag að Alito er einn virtasti og hæfasti dómari í Bandaríkjunum.

Verður merkilegt að fylgjast með því er hann kemur fyrir dómsmálanefndina og svarar þar spurningum um lagaleg álitaefni og hitamál samtímans. Má búast við átökum fyrir þinginu vegna skipunar Bush forseta á kaþólikkanum Alito í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar verða átakapunktarnir klassískir - en umfram allt harðir. Þar takast á grunnpólar, með og á móti íhaldssömum sjónarmiðum. Verður sá slagur mjög hvass, enda mun sá sem tekur sæti Söndru Day O'Connor í réttinum hafa umtalsverð áhrif á skipan mála á komandi árum og framvindu hitamálanna sem allir þekkja. Því má búast við að það muni reyna mjög bæði á Alito, sem berst fyrir staðfestingu þingsins, og ekki síður Bush, sem skipar hann til setu í réttinum.

Fall Berlínarmúrsins 1989

Í gærkvöldi horfði ég á einn þátt úr þáttaröð CNN: The Cold War. Þar var um að ræða þátt um fall Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins hinn 9. nóvember 1989 hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið-Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins, þessa merkilega tímabils. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs.

9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta nóvemberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei. Allavega man ég eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Sagan var þarna að gerast - atburður sem hóf dómínófall kommúnismans. Það er enn í dag gleðiefni að horfa á þessi miklu umskipti. Hvet alla til að sjá þessa þætti.

Vænn hamborgari

Hvað er málið með forsætisráðherrann? Nú er hann búinn að skipa einhverja þá tilgangslausustu nefnd sem ég hef heyrt af til fjölda ára. Um er nefnilega að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina á vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það er ekkert annað - góðan daginn maður minn, varð mér að orði við að lesa þessa frétt á netinu. Hvernig á nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei. Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka.

ISG

Það bar til tíðinda undir lok síðustu viku að Ingibjörg Sólrún mætti með betlistafinn til útgerðarmanna og tók lagið: "Ég vil ganga þinn veg - ef þú vilt ganga minn veg" með grátstafinn í kverkunum. Alveg sérdeilis hlægilegt. Þar talaði ISG með þeim hætti að ná mætti sáttum ef aðeins yrði farið eftir hennar leikreglum. Það fyrsta sem mér varð að orði við þessar fregnir var að nú væri greinilega orðið hart í ári í Sollukoti Samfylkingarinnar. Hún semsagt mætt til útgerðarmannanna með blik í auga en kröfuspjöld á lofti. Þetta finnst flestum fyndið - ja nema flokksfélögum hennar (sem flestir hafa vit á því að segja ekki neitt um þetta útspil) og svo auðvitað frjálslyndum sem hafa misst grínið og beina nú spjótum sínum að Samfylkingunni og láta þingmenn flokksins hátt á blaðursíðum sínum. Lítið endilega á það. En fyrir mig sem andstæðing ISG og Samfylkingarinnar er ekki ónýtt að horfa á þetta fyrrum forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningunum 2003 éta ofan í sig nú alla þvæluna um fyrningarleiðina sem þá var látin falla. Skál fyrir því áti Ingibjargar Sólrúnar!

Vetur á Akureyri

Það er bara að verða ansi jólalegt og notalegt hér norður á Akureyri. Það snjóar og snjóar - kominn ekta vetur með tilheyrandi frosti, skammdegi og kuldatíð. Þó að ég sé ekki mikið fyrir snjó finnst mér alltaf eitthvað ansi rómantískt við snjó og skammdegið. Nú styttist óðum í heilagasta tíma ársins - jólin sjálf. Innan við mánuður er í upphaf aðventunnar og upphaf jólaundirbúningsins. En ég ætla að vona að það muni ekki massasnjóa hér næstu vikurnar. Tel þetta orðið notalegt og gott. Get sætt mig við þetta - ef þetta helst svona. Þó að snjórinn sé rómantískur eru takmörk fyrir öllu þykir mér.

Saga dagsins
1955 Margrét prinsessa, tilkynnti formlega að hún muni ekki ganga að eiga heitmann sinn, Peter Townsend flotaforingja. Konungsfjölskyldan féllst ekki á ráðahag þeirra vegna þess að Peter var fráskilinn. Peter var alla tíð stóra ástin í lífi Margrétar og varð það henni þungt að geta ekki gifst honum nema að þurfa að fórna stöðu sinni innan fjölskyldunnar og í valdaröðinni. Hún giftist 1960 og eignaðist tvö börn síðar. Hún var alla tíð í ástarsorg vegna Peters og lauk hjónabandi hennar með skilnaði 1980. Margrét lést í febrúar 2002, en hún hafði seinustu árin átt við heilsuleysi að stríða.
1984 Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands, myrt af síkhum sem komist höfðu í lífvarðasveit hennar og skutu hana í garði fyrir utan embættisbústað hennar í Nýju Delhi. Indira var kraftmesti stjórnmálamaður Indlands í nokkra áratugi og leiddi Kongressflokkinn frá 1966 til dauðadags. Hún var forsætisráðherra landsins 1966-1977 og aftur frá 1980. Sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu nokkrum klukkutímum eftir lát móður sinnar. Óeirðir urðu um allt landið í kjölfar dauða hennar.
1993 Ítalski leikstjórinn Federico Fellini lést í Róm, 73 ára að aldri - var meistari í kvikmyndagerð.
1997 Breska fóstran, Louise Woodward, sakfelld fyrir að hafa valdið dauða barns sem hún passaði í Boston þegar hún var þar au-pair. Var orsök andláts barnsins sagt vera Shaken baby syndrome. Dómnum var síðar breytt í manndráp af gáleysi og Louise fékk að halda aftur heim til Englands.
2003 Mahathir bin Mohamad lætur af embætti sem forsætisráðherra Malasíu eftir 22 ára valdaferil.

Snjallyrðið
Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.
Komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig.
Minnst mildingur mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjarta borg.

Gæt, mildingur mín,
mest þurfum þín,
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
málsefni fögur.
Öll er hjálp af þér
í hjarta mér.
Kolbeinn Tumason (1170-1208) (Heyr himnasmiður)

Fallegt ljóð Kolbeins Tumasonar sem snertir alltaf streng í hjartanu mínu - í þessu ljóði er næm taug og tær sál.

30 október 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um nýlegan landsfund VG. Fer ég yfir niðurstöður fundarins hvað varðar vinstriáherslur flokksins, rússneska endurkosningu forystu flokksins og það hvernig formaður flokksins biðlaði til Samfylkingarinnar um pólitísk samstarf á komandi árum. Steingrímur J. allt að því öskraði fimm slagorð byggð á heiti fundarins: NÚNA vil ég fara að fá að ráða einhverju - NÚNA er komið að mér að fá að plotta - NÚNA er komið að okkur að stjórna en ekki Framsókn - NÚNA vil ég að við Samfylking byrjum saman - NÚNA verðum við að beygja til vinstri. Örvænting Steingríms J. var allavega greinileg og það var óneitanlega skondið að fylgjast með fréttum af þessum fundi öllum. Skiljanlegt er að Steingrímur J. sé orðinn hundleiður á stjórnarandstöðuverunni - eftir að hafa dvalið þar 19 af 22 árum sínum á þingi. Hann má þó ekki gleyma þeirri gullnu staðreynd að það eru kjósendur sem hafa barið hann niður í það hlutskipti. Kannski er það vegna þess að kjósendum hugnast ekki vinstriáherslurnar og ruglið sem kommúnískur afdalaflokkur frá fortíðinni býður upp á, á okkar tímum.

- í öðru lagi fjalla ég um kvennafrídaginn, sem haldinn var í byrjun vikunnar. Hátt í 50.000 manns, mest konur eins og fyrir þrjátíu árum, komu saman í miðborg Reykjavíkur til að minnast tímamótanna, en 30 árum áður höfðu konur komið saman af sama tilefni. Þarna var að finna, rétt eins og 1975, fólk af öllum aldri og af öllum stéttum. Íslenskar konur lögðu niður vinnu klukkan 14:08 þann dag. Sú tímasetning var vissulega táknræn - enda höfðu konur þá unnið fyrir launum sínum ef litið er til þess að þær munu hafa um 64% af launum karla. Vinnudegi kvenna var þá lokið sé litið til launamunar kynjanna. Konur þessa lands eiga það skilið að vinnuframlag þeirra í sambærilegum störfum og karla sé metið jafnt. Jafnrétti verður að standa undir nafni - með viðeigandi aðgerðum. Kynbundinn launamunur er og verður óeðlilegur.

- í þriðja lagi fjalla ég um nýtt og spennandi tímarit sem ber heitið Þjóðmál og hefur vakið athygli fyrir áhugaverð skrif um stjórnmál. Hvet ég alla lesendur til að fá sér ritið og lesa það. Allir þeir sem áhuga hafa á þjóðmálum - stjórnmálum samtíma og fortíðar hafa gaman af þessu riti. Hlakkar mér til að lesa næsta tímarit af Þjóðmálum.


Kleifarvatn

Kleifarvatn

Las í vikunni aftur bestu skáldsögu ársins 2004 - Kleifarvatn eftir meistara íslenskra spennusagna, Arnald Indriðason. Hún var ennfremur söluhæsta bókin fyrir seinustu jól - seldist í metupplagi. Rúmlega 30.000 eintök hafa selst af Kleifarvatni - er hún söluhæsta skáldsaga Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Hefur engin bók selst betur síðan farið var að halda utan um sölu á bókum hérlendis með þeim hætti sem nú er, fyrir nokkrum áratugum. Kom þessi góði árangur engum á óvart sem las bókina. Las ég hana tvisvar í fyrra, um leið og hún kom út og svo aftur yfir sjálf jólin. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við. Þetta er svo sannarlega spennusagnabók á heimsmælikvarða. Að mínu mati er þetta besta bók Arnaldar.

Sem jafnan fyrr er aðalsöguhetjan, Erlendur Sveinsson lögreglumaður, og samstarfsfólk hans, Elínborg og Sigurður Óli, sem áður hafa komið við sögu t.d. í Mýrinni, Grafarþögn og Röddinni. Segir frá því að þegar vatnsborð Kleifarvatns lækkar í kjölfar jarðskjálfta finnst beinagrind af manni í sandinum sem vatnið hafði áður hulið. Rannsaka Erlendur og aðstoðarmenn hans málið og leiðir sú rannsókn þau nokkra áratugi aftur í tímann, til þess tíma er hugsjónaeldur brann í brjósti fólks sem var slökktur í viðjum kalda stríðsins. Söguþráðurinn er eins og jafnan fyrr hjá Arnaldi meistaralega spunninn og æsispennandi. Hefur það verið alveg virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig. Sem spennusagnahöfundur er Arnaldur á heimsmælikvarða og hefur hann hlotið alþjóðlega frægð og hlotið Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn.

Var Arnaldur tilnefndur loks til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, fyrir þessa bók. Slæmt var að hann fékk þau ekki - enda var Kleifarvatn langbesta skáldsaga ársins 2004, að mínu mati og margra fleiri. Hefur hann verið sniðgenginn seinustu ár, þrátt fyrir hvert meistaraverkið á eftir öðru. Á þriðjudag kemur út næsta bók Arnaldar - Vetrarborgin. Ætla ég að kaupa mér hana í vikunni og lesa hana fyrir helgina - af sama áhuga og aðrar bækur þessa góða meistara okkar í spennusagnaritun. Skrifa ég um bókina þegar ég hef lokið lestrinum.

Saga dagsins
1796 Dómkirkjan í Reykjavík var tekin formlega í notkun - hún er höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar.
1934 Fyrri hluti skáldsögunnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness, kom út. Síðari hlutinn kom út ári síðar. Sjálfstætt fólk er meistaralega vel rituð bók - hún var valin bók 20. aldarinnar árið 1999.
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, rekur Elliot Richardson dómsmálaráðherra, og William Ruckelshaus aðstoðardómsmálaráðherra, úr embættum sínum því að þeir höfðu þá neitað að reka Archibald Cox sérstakan saksóknara í Watergate-málinu, en hann hafði þá gengið nærri forsetanum með því að krefja hann um upptökur af leynifundum hans með helstu ráðgjöfum sínum. Nixon skipaði Robert Bork sem dómsmálaráðherra, og það var hann sem að lokum rak Cox. Framgangur rannsóknar á hneykslismálinu var þó ekki stöðvuð úr þessu og síðar komu í dómsmálunum loks fram upptökurnar frægu sem sönnuðu að Nixon forseti hafði fulla vitneskju, allt frá því í júnímánuði 1972, um innbrotið í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingunni. Leiddi Watergate-málið loks til afsagnar Nixons.
1974 Muhammad Ali endurheimtir heimsmeistaratitil sinn í boxi með því að veita George Foreman þáverandi heimsmeistara, allþungt rothögg í heimsfrægum boxbardaga kappanna í Kinshasa í Zaire.
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, setur friðarráðstefnu ríkjanna í M-Austurlöndum í Madrid með ræðu þar sem hann hvatti bæði Araba og Ísraeli til að horfa til framtíðar en ekki fortíðar þegar þeir settust að samningaborðinu. Um var að ræða mjög sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu þá saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló milli deiluaðila árið 1993.

Snjallyrðið
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ferðalok)

Að mínu mati eitt af allra fallegustu ljóðum íslenskrar bókmenntasögu. Falleg frásögn og næm tilfinning einkenna þetta meistaraverk Jónasar - stök snilld.

28 október 2005

Harriet Miers

Í gær tilkynnti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í yfirlýsingu til fjölmiðla að Harriet Miers hefði afþakkað útnefningu hans í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Leystist með því eitt stærsta vandamál forsetans - enda hafði blasað við að skipun Miers væri strönduð og hún myndi ekki hljóta staðfestingu þingsins í því ferli sem brátt myndi hefjast í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Engu að síður markar brotthvarf Miers frá ferlinu vandræði fyrir forsetann. Það er alltaf vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið. Fyrst í stað áttu flestir von á að forsetinn myndi ná að berja saman stuðning við Miers. Miers átti enga dómarasetu að baki og var óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira. Íhaldssamir voru mjög í vafa um að hún væri sá íhaldssami lagasérfræðingur sem Bush forseti, sagði að hún væri. Tóku hægrisinnuðustu repúblikanarnir hana í raun aldrei í sátt og því fór sem fór. Hún varð að bakka frá draumastarfinu - sem dómarasæti í Hæstarétti Bandaríkjanna er í raun.

Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fjalla ég um þessi tíðindi - jafnframt um vandræðin sem steðja nú að Bush forseta. Um þessar mundir er ár liðið frá því að hann var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann bar þá sigurorð af John Kerry öldungadeildarþingmanni frá Massachusetts, í jöfnum og spennandi kosningaslag. Tókst honum þá að hljóta meira en helming greiddra atkvæða og 286 kjörmenn - en 270 kjörmenn þarf til að hljóta lyklavöldin í Hvíta húsinu. Það hafði þá ekki gerst í 16 ár, eða síðan faðir forsetans vann sigur í forsetakosningunum 1988, að frambjóðandi hlyti meira en helming greiddra atkvæða. Bush var fyrst kjörinn í embættið árið 2000, þá mjög naumlega. Hann hefur því sigrað í tvennum forsetakosningum og getur ekki boðið sig fram aftur. Bush hefur jafnan tekist að koma öflugur úr erfiðleikum og staðið af sér allar árásir andstæðinga sinna. Það er alveg óhætt að fullyrða að Bush forseti sé nú þessa októberdaga að glíma við mestu erfiðleika á forsetaferli sínum. Ekki aðeins mælist persónulegt fylgi forsetans hið lægsta á forsetaferli hans heldur hafa nánir samstarfsmenn hans flækst í hneykslismál og rannsókn á því hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA.

Við hafa svo bæst erfiðleikarnir vegna skipunar forsetans á Miers sem dómara við hæstarétt. Skipun Miers í réttinn var vissulega nokkuð söguleg - enda var hún aðeins þriðja konan sem skipuð hafði verið til setu í réttinum. Fyrst í stað benti flest til þess að hún yrði skrautfjöður fyrir forsetann - en andstaða hægriarms Repúblikanaflokksins gerði forsetanum erfitt fyrir. Nú er hún hinsvegar hætt við tilnefninguna og þáttaskil hafa orðið hjá henni. Eins og flestir vita er hæstiréttur Bandaríkjanna stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu. Þann stuðning vantaði í tilfelli Miers og því strandaði ferlið. Hið merkilega var undir lokin að demókratar vörðu Miers en hægrisinnaðir repúblikanar vildu hana ekki. Í fyrrnefndum pistli fjalla ég meira um persónu Miers og bakgrunn hennar - það sem mikilvægt er að fara yfir í málinu.

Nú blasir við Bush forseta að velja nýtt dómaraefni. Væntanlega mun hann hugsa sig vel um áður en hann velur einhvern til setu í réttinum. Hann virðist hafa misreiknað sig svakalega þegar hann valdi Miers - talið að hún myndi verða staðfest þrátt fyrir allt og myndi kannski fá vægari meðferð vegna þess að hún væri kona. Endalok þessarar skipunar í réttinn hefur vissulega skaðað hann og varla verður anað að vali nýs dómara, sem leysa mun af Söndru Day'O Connor, fyrstu konuna sem tók sæti í réttinum, árið 1981. Mun Bush væntanlega skipa tryggan íhaldsmann til setu nú og tekur engar áhættur. Horfir hann þar væntanlega til þess stöðugleika sem einkenndi allt ferlið við skipun John G. Roberts í réttinn, en hann vakti athygli fyrir öfluga og virðulega framkomu fyrir dómsmálanefndinni. Varð andstaða lítil við skipun hans í forsetastól réttarins, en hann tók við forystu hans af William H. Rehnquist, sem lést í haust. Brotthvarf Harriet Ellan Miers frá strönduðu staðfestingarferli vegna sætis í hæstarétt Bandaríkjanna markar allavega súrsæt þáttaskil hjá forsetanum. Væntanlega er honum létt að þessu hitamáli sé lokið, en jafnframt hugsi yfir framtíðinni.

Auður Auðuns

Í byrjun vikunnar minntu íslenskar konur á stöðu sína í samfélaginu með fjölmennum útifundi í miðborg Reykjavíkur – rétt eins og þær gerðu sama dag þrem áratugum áður. Fundurinn sendi nokkuð sterk skilaboð – framlag kvenna til samfélagsins skiptir máli. Án þess framlags fúnkerar samfélagið ekki. Þau skilaboð voru jafnvel enn sterkari nú en á sama degi þrem áratugum áður. Mikið hefur verið rætt og ritað um mikilvægi kvennafrídags. Í pistli á vef SUS í vikunni þótti mér rétt að minna á framlag sjálfstæðiskvenna í jafnréttisbaráttu í pólitík. Eins og flestir vita sitja tvær sjálfstæðiskonur í ríkisstjórn nú. Alls hafa fimm sjálfstæðiskonur setið í ríkisstjórn á þeim 35 árum sem liðið hafa frá því að Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórn, fyrst kvenna. Í pistlinum fjallaði ég sérstaklega um Auði. Hún var ein af fyrstu konunum sem mörkuðu sér sess í stjórnmálasöguna fyrir stjórnmálaþáttöku á vettvangi borgarstjórnar og þings, og hlaut hún ævarandi sess í stjórnmálasögu landsins fyrir að verða fyrsta konan sem varð borgarstjóri og ráðherra. Í pistlinum bar ég fram spurningu til þeirra kvenna sem tala fyrir því að heiðra framlag kvenna í stjórnmálastarfi - hvenær ætla þær að hefja baráttu fyrir því að til sögunnar komi stytta af Auði í miðbæ Reykjavíkur?

(Ég vil þakka vefnum akureyri.net fyrir að birta þennan pistil minn á vef sínum.)

Gregory Peck í To Kill a Mockingbird

Það hefur verið nóg um að vera í vikunni. Var veikur meginpart hennar. Hinsvegar gat maður lítið pásað sig og nóg að gera. Stjórnmálanámskeiðið er byrjað og í mörg horn að líta vegna þess. Það hefur gengið alveg mjög vel þar. Eftir að hafa verið allt gærkvöldið þar kom ég heim og horfði, enn einu sinni, á kvikmyndina To Kill a Mockingbird. Enn í dag hrífur leikarinn Gregory Peck áhorfendur í óskarsverðlaunahlutverki sínu sem lögmaðurinn Atticus Finch í þessu meistaraverki frá árinu 1962. Þetta er glæsilega sögð saga um hugrekki, hugsjón og persónulega sannfæringu lögmanns sem tekur að sér málsvörn blökkumanns sem ákærður er fyrir að hafa misþyrmt hvítri konu í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í myndinni, sem byggð er á verðlaunaskáldsögu Harpers Lee frá árinu 1960, leikur Brock Peters, verkamanninn Tom Robinson, hinn meinta glæpamann. Í fyrstu lítur út fyrir að málsvörn hans sé með öllu vonlaus enda eru fordómar samfélagsins réttlætinu yfirsterkara. En Atticus trúir statt og stöðugt á sakleysi skjólstæðings síns og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að sanna mál sitt um leið og hann þarf að vernda fjölskyldu sína fyrir andstæðingum sínum. Háklassískt meistaraverk - heilsteypt saga um mannréttindi, lífsvirðingu og síðast en ekki síst réttlæti.

Gísli Marteinn BaldurssonVilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Það hefur varla farið framhjá neinum að prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni verður eftir viku. Flestallir frambjóðendur búnir að opna vefi og eða kosningaskrifstofur og kynna þar sig og sín málefni. Hef ég fylgst með þessu prófkjöri úr nokkrum fjarska og haft gaman af að fylgjast með prófkjörsslagnum. Hafa lítil átök svosem bein verið - enda eru flokksfélagar að takast á í góðu um sæti og áhrif í gegnum það. Aðalátökin eru enda borgarstjórnarkosningarnar - þar verða menn að vinna saman að því að vinna meirihluta í borgarstjórn. Sérstaklega hef ég talað máli yngri frambjóðendanna. Það er alveg klárt í mínum huga að frambjóðendur á Heimdallar aldri verða að koma þar vel út. Sérstaklega hef ég ekki farið leynt með að ég vil að Gísli Marteinn vinni - en hann er öflugur og góður maður sem ég hef þekkt nokkurn tíma og ég styð áfram til að leiða flokkinn - inn í nýja tíma. Báðir eru hann og Vilhjálmur Þ. mætir menn og tryggt að flokknum verður vel stýrt sama hvor vinnur. En ég vil að unga fólkinu sé treyst fyrir forystunni og því er ég hiklaust þeirrar skoðunar að Gísli Marteinni eigi að fá tækifærið til að leiða flokkinn - og vonandi munu sem flestir á ungliðaaldri ná öruggu sæti á framboðslista.

Kastljós

Þess var minnst bæði í Kastljósi og Íslandi í dag á miðvikudagskvöld að áratugur væri liðinn frá snjóflóðinu á Flateyri. Var fjallað um málið með næmum og tilfinningaríkum hætti á báðum stöðvum. Sérstaklega var mjög áhrifaríkt að horfa á Kastljós, en þar var viðtal við Eirík Guðmundsson og Rögnu Óladóttur. Í flóðinu lést eldri dóttir þeirra, Svana Eiríksdóttir, en yngri dóttir þeirra, Sóley, fannst lifandi í rústum hússins átta tímum eftir að flóðið féll. Þau misstu allar sínar veraldlegu eigur í flóðinu. Var eins og fyrr segir mjög áhrifaríkt að horfa á viðtalið og heyra lýsingar þeirra á þessum degi og sorginni sem þau urðu fyrir og hvernig þau horfðust í augu við hana. Kannast ég örlítið við þessa fjölskyldu, en sonur þeirra, Óli Örn, er góðvinur minn. Er aðdáunarvert hversu heilsteypt þau hafa horfst í augu við framtíðina eftir þetta mikla áfall sem þau urðu fyrir. Mjög áhrifaríkt var svo að fylgjast með stemmningunni fyrir vestan á minningarathöfninni og eins og fyrr vann frú Vigdís hug og hjarta allra landsmanna með framkomu sinni á þessum degi.

Saga dagsins
1780 Reynistaðarbræður lögðu af stað úr Árnessýslu norður Kjöl við fimmta mann, með 180 kindur og 16 hesta - þeir fórust í aftakaveðri í Kjalhrauni. Almennar sögur segja að andi þeirra sé þar enn.
1848 Dómkirkjan í Reykjavík var endurvígð eftir endurbætur - höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar.
1886 Grover Cleveland forseti Bandaríkjanna, vígir frelsisstyttuna í New York - hún var gjöf Frakka.
1962 Kúbudeilunni lýkur - John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, tilkynnir að hættuástandið sé liðið hjá og að Sovétmenn hafi látið undan og hörfað frá Kúbu. Hættuástand var í deilunni í 13 daga.
1987 Spjallþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, var í fyrsta skipti á dagskrá Ríkissjónvarpsins - varð langvinsælasti spjallþáttur íslenskrar sjónvarpssögu og var á dagskrá Sjónvarpsins í tæpan áratug.

Snjallyrðið
Og því var allt svo hljótt við helför þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta harmi lostið
sem hugsar til þín alla daga sína.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna
sem horfðu eftir þér í sárum trega
þá blómgast enn og blómgast ævinlega
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Hið bjarta vor)

Fallegt ljóð borgarskáldsins Tómasar - í þessu ljóði er næm taug og falleg sál.

26 október 2005

Áratugur frá snjóflóðinu á Flateyri

Flateyri

Í dag er áratugur liðinn frá snjóflóðinu mannskæða á Flateyri. Mikill harmur var kveðinn yfir öllum landsmönnum að morgni fimmtudagsins 26. október 1995, er þessar náttúruhamfarir riðu yfir. 20 manns létu lífið þar, þar af fjöldi barna og margir misstu þar allt sitt og sína nánustu ættingja. Það högg sem Vestfirðingar urðu fyrir á þeim degi og áður sama ár er snjóflóð féll í Súðavík snertu við allri þjóðinni. Íslendingar stóðu þá eins og jafnan á slíkum stundum saman í órjúfanlegri heild og mættu því sem að höndum bar með samhug í verki. Þessi kaldi fimmtudagur í októbermánuði fyrir áratug mun aldrei líða mér úr minni. Daginn áður og um nóttina hafði gengið yfir Norðurland sem og mestallt landið nöturlegt kuldaveður með blindbyl. Ég man vel eftir þessum morgni. Ég vaknaði við blindbyl og niðinn í óveðrinu hér á Akureyri um sexleytið um morguninn. Ófært var orðið um allan bæ og veðurofsinn enn þónokkur í upphafi þessa dags. Um sjöleytið um morguninn heyrði ég í útvarpinu frétt þar sem tilkynnt var í fyrsta skipti um snjóflóðið. Eftir því sem leið á morguninn urðu fréttir ítarlegri og umfang þessa skelfilega atburðar varð manni meira ljós. Það var dapurlegt að heyra fréttirnar berast og heyra meira um það sem gerst hafði.

Það var sannkallað áfall að heyra fyrstu fréttir af þessu snjóflóði þennan morgun og heyra nánari fréttir af gangi mála eftir því sem leið á daginn. Hugur minn og allra landsmanna var á Flateyri - hjá þeim sem höfðu misst allt sitt, bæði veraldlegar eigur sem og það sem mest er um vert í lífinu, ættingjar og vinir. Fréttir þessa tíma koma upp í huganum á þessum tímamótum - tíðarandinn og sorgin eru enn sterk í huga mínum, sem og eflaust flestra sem upplifðu þennan tíma. Um var að ræða mannskæðustu náttúruhamfarir í sögu landsins í marga áratugi. Á þessum nöturlega vetrardegi létu tveir tugir landsmanna lífið á heimilum sínum, því sem heilagast er, og eftir stóðu ættingjar í sorg. Þetta var tími sem greyptist í hjarta allra sem upplifðu þá, allavega hvað mig varðaði. Ég þekkti engan af þeim sem létu lífið fyrir vestan en þekki til fólks sem bjó á staðnum. Hafði ég komið þangað og þekkti því staðinn og vissi vel um leið og fyrstu fréttir bárust hversu mikið skarð væri komið í þennan litla og heillandi bæ vestur á fjörðum. Höggið mikla, varð einkennandi næstu vikurnar, bæði í hjarta Vestfirðinga og ekki síður landsmanna allra.

Vigdís Finnbogadóttir forseti

Ekki gleymist mér né öðrum sem upplifðu þessa dimmu októberdaga framganga Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra, sem fóru vestur og sýndu aðstandendum samúð sína við minningarathöfn sem haldin var til heiðurs hinum látnu. Samhugur Íslendinga í hörmungum ársins 1995 gleymast ekki okkur sem upplifðum þessa köldu daga og geymast í hjartanu um eilífð. Sterkust var minningin um framlag Vigdísar. Hún fór við allar minningarathafnir og jarðarfarir - hún varð þátttakandi í sorg fjölskyldna sem misst höfðu nána ættingja. Hún tók þátt í sorgarferlinu - huggaði fólk og styrkti með nærveru sinni og hlýlegum orðum. Ég tel að Vigdís hafi aldrei á sínum forsetaferli risið hærra sem þjóðhöfðingi Íslendinga og sem persónan á valdastólnum en þessa dimmu októberdaga, með því að sýna styrk sinn í verki og hugga þá sem misst höfðu allt sitt. Er enda engin furða að Vigdís sé Flateyringum kær - hún er enda þar í dag og dvelur með Flateyringum á þessum degi, er áratugur er liðinn. Mun hún þar flytja í kvöld ræðu og minnast tímamótanna.

Á þessum degi færi ég Flateyringum kærar kveðjur - þeir hafa haft stuðning þjóðarinnar í gegnum þetta áfall og hlotið góðan styrk í gegnum allt sem yfir þá hefur dunið. Á þessum degi er viðeigandi að hugsað sé til baka og farið yfir þetta áfall sem er enn ofarlega í huga Vestfirðinga, sem og allra landsmanna. Fjölmiðlar hafa fjallað um þetta vel og ítarlega í allan dag - nú sem fyrir áratug sýna Íslendingar allir samhug í verki.

Saga dagsins
1927 Gagnfræðaskólanum á Akureyri var veitt formlega leyfi til að útskrifa nemendur sem stúdenta - samhliða þeim breytingum var nafni skólans breytt og hét hann eftir það Menntaskólinn á Akureyri.
1951 Winston Churchill komst aftur til valda í breskum stjórnmálum eftir nauman kosningasigur. Churchill sat áður sem forsætisráðherra Bretlands á stríðsárunum, 1940-1945, en leiddi flokk sinn í stjórnarandstöðu í sex ár. Churchill lét af embætti og hætti í pólitík 1955 - hann lést árið 1965.
1965 Reykjanesbraut, milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, var formlega opnuð til umferðar - var fyrsti eiginlegi þjóðvegurinn sem var lagður bundnu slitlagi - fyrst í stað var vegatollur þar innheimtur.
1986 Hallgrímskirkja í Reykjavík var vígð - hún var reist til minningar um sr. Hallgrím Pétursson.
1995 20 manns fórust þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð klukkan fjögur að nóttu. Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegið. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast þangað vegna veðurs, einungis var fært þangað sjóleiðina. Aftakaveður var út um allt land á þessum degi og verst á Vestfjörðum. Snjóflóðið á Flateyri er eitt mannskæðasta snjóflóð í sögu landsins. Þjóðarsorg var í landinu vegna þessara hörmulegu náttúruhamfara, t.d. fóru þáv. forseti og forsætisráðherra vestur til að hughreysta fólk sem átti um mjög sárt að binda þar og voru viðstödd minningarathöfn á Ísafirði.

Snjallyrðið
Við andvörpum hljóðlát en hugleiðum þó
hve höggið var mikið er byggðina sló.
Hún magnar sín áhrif svo orðlaus og skýr
sú allsherjar sorg er á Flateyri býr.

Og létt er að tárast á líðandi stund
og leita sem vinur á syrgjenda fund;
í harmanna tíbrá þau titra svo glöggt
þau tuttugu hjörtu sem brustu svo snöggt.

Við barnshjartað syrgjum er sviplega brast
og sjómannsins handtakið, öruggt og fast
og alla þá kosti sem fóru svo fljótt
í framhlaupi dauðans á skelfingarnótt.

Svo biðjum við Guð að hann gefi þann frið
sem græðir og líknar og una má við.
Og alþjóðar samúð sé sýnileg gjörð
í sorginni miklu við Önundarfjörð.
Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld (1907-2002) (Sorg á Flateyri)

Fallegt ljóð skáldsins úr Önundarfirðinum í kjölfar snjóflóðsins á Flateyri - táknrænn endir á bloggfærslu á þessum degi.

25 október 2005

Kvennafundur á Ingólfstorgi - 24. október 2005

Í gær voru þrír áratugir liðnir frá hinum sögulega kvennafrídegi. 24. október 1975 tóku íslenskar konur sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist þá að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var á þessum degi haldinn fundur sem tæplega 30.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982 - eflaust átti fundurinn líka söguleg áhrif sem leiddu til þess að Vigdís Finnbogadóttir gaf kost á sér til forsetaembættis árið 1980 og náði kjöri. Þessa sögulega dags var minnst í gær, þrem áratugum síðar, með baráttufundi kvenna á Ingólfstorgi. Hátt í 50.000 manns, mest konur eins og fyrir þrjátíu árum, komu saman í miðborg Reykjavíkur í gær til að minnast tímamótanna. Þar var að finna fólk af öllum aldri og af öllum stéttum. Íslenskar konur lögðu niður vinnu klukkan 14:08 í gær. Sú tímasetning er vissulega táknræn - enda höfðu konur þá unnið fyrir launum sínum ef litið er til þess að þær munu hafa um 64% af launum karla. Vinnudegi kvenna var þá lokið sé litið til launamunar kynjanna.

Óhætt er að segja að auglýsingaherferð Verslunarmannafélags Reykjavíkur í síðasta mánuði, þar sem varpað er athyglisverðu ljósi á launamun kynjanna, hafi hitt í mark. Í auglýsingunum sáum við þekkta Íslendinga í öðrum kynjahlutverkum. Vöktu auglýsingarnar athygli á því þarfa umræðuefni sem launamunur kynjanna vissulega er. Í þessum auglýsingum birtust t.d. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi, í merkilegu ljósi. Þessar auglýsingar hófu nauðsynlega umræðu á nýtt plan og vakti þörf á líflegri umræðu um málið - sem þær og gerðu. Eins og vitað er, er launamunur kynjanna algjörlega óeðlilegur og leitt að á okkar tímum sé hann enn til staðar. Það eru eiginlega merkilegustu skilaboð kvennafrídagsins árið 2005 að ekki hafi tekist að laga þessi mál öll sem mótmælt var að væru í ólestri á árinu 1975. Konur þessa lands eiga það skilið að vinnuframlag þeirra í sambærilegum störfum og karla sé metið jafnt. Jafnrétti verður að standa undir nafni - með viðeigandi aðgerðum. Kynbundinn launamunur er og verður óeðlilegur. Á árinu 2005 er ekkert annað viðeigandi en að hann hverfi!

Ég vil nota tækifærið og gratúlera konum með gærdaginn. Þær sýndu og sönnuðu þá, rétt eins og fyrir þrem áratugum, hversu mikilvægur hluti samfélagsins þær eru. Samfélagið fúnkerar ekki án þeirra. Það er vel við hæfi að þær minni á stöðu sína - nú þarf að tryggja að konur fái jafnmikið greitt fyrir sambærileg störf og karlmenn. Annað kemur ekki til greina. Það að svona dag þurfi þrem áratugum eftir hinn öfluga kvennafrídag 1975 segir sína sögu. Ég er alinn upp af öflugum konum og hef alla tíð metið mikils framlag þeirra í mitt líf - þær kenndu mér alveg gríðarlega mikið. Ef ég lít til baka og hugsa um hvar ég lærði mest á lífið hugsa ég fljótt til móðurömmu minnar, Sigurlínar Kristmundsdóttur, föðurömmu minnar, Hönnu Stefánsdóttur og ömmusystur, Hugrúnar Stefánsdóttur. Þær ólu mig upp sem persónu og kenndu mér að meta lífið og grunn þess í raun. Það framlag er ómetanlegt og ég tel því jafnrétti skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það þarf því ekki að kenna mér eitt né neitt í þeim efnum. Þeir sem þekkja mig og mínar skoðanir í jafnréttismálum vita hvar ég stend í þessum efnum.

Í tilefni kvennafrídagsins er við hæfi að óska íslenskum konum innilega til hamingju með daginn.

Oktavía Jóhannesdóttir

Prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri verður í næstu viku. Ef marka má fréttir mun þar verða kosið á milli tólf einstaklinga um fjögur efstu sæti listans. Þeir sem lenda neðar eru ekki öruggir á lista. Er fyrirkomulagið eins og hjá VG í borginni - aðeins geta tvær konur og tveir karlar komist í gegn í örugg sæti. Oktavía Jóhannesdóttir, eini bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hér á Akureyri, ákvað að gefa ekki kost á sér í prófkjörið og víkur hún því úr bæjarstjórn eftir komandi kosningar. Oktavía hefur verið í bæjarstjórn samfellt frá árinu 1998, fyrstu fjögur árin fyrir Akureyrarlista vinstri manna, og þá í meirihlutasamstarfi við okkur sjálfstæðismenn. Frá 2002 hefur Oktavía verið bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. Það hefur blasað við seinustu vikurnar að Oktavía myndi ekki fara fram, enda við ramman reip að draga. Varamaður hennar í bæjarstjórn, Hermann Jón Tómasson, ákvað að gefa kost á sér til leiðtogastöðunnar og þótti flestum ljóst að Oktavía hefði átt erfiðan slag fyrir höndum - hefði hún gefið kost á sér. Verður fróðlegt að sjá hvað Oktavía tekur sér fyrir hendur er hún víkur úr bæjarstjórn. Persónulega vil ég þakka Oktavíu fyrir ágæt samskipti í pólitík hér í bæ og óska henni góðs gengis á nýjum vettvangi - hvað svo sem hún tekur sér nú fyrir hendur er hún víkur úr bæjarpólitík.

Um fyrsta sætið takast Hermann Jón og nafni hans, Hermann Óskarsson, formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í NA. Það verður merkilegt að sjá hvor þeirra muni vinna prófkjörið og hvernig munurinn verði á milli þeirra í atkvæðum talið, er yfir lýkur. Þeir nafnar takast væntanlega á í bróðerni, en ljóst er að sá sem tapar slagnum tapar nokkru. Annar er varabæjarfulltrúi, hinn formaður kjördæmisráðs flokksins. Báðir vilja leiða listann. Ennfremur er í framboði Ásgeir Magnússon sem leiddi Akureyrarlistann árið 1998 og varð formaður bæjarráðs á því kjörtímabili, en varð svo undir í leiðtogabaráttunni hjá Samfylkingunni árið 2002 fyrir Oktavíu. Hann tók þá ekki sæti á framboðslista og hætti í bæjarmálum. Nú kemur hann aftur - og sækist merkilegt nokk bara eftir þriðja sæti flokksins. Hann vill vera með greinilega - en hefur ekki ambisjónir í leiðtogastól. Kannski hann ætli sér að verða baráttumaður flokksins í bænum. Fróðlegt hvað forystumenn Samfylkingarfélaga í bænum segja annars um það. Um annað sætið takast á þær Helena Karlsdóttir og Sigrún Stefánsdóttir.

Það blasir við að kona verði í öðru sætinu - enda karl í hinu fyrsta. Þetta verður merkilegt prófkjör - og ljóst að ekki verða allir sáttir að því loknu. Kannski fáum við að sjá sömu fýluna gjósa upp þarna og varð fyrir þrem árum þegar Ásgeiri Magnússyni var hafnað í lokuðu forvali innan flokksins.

Abba

Haldið var upp á hálfrar aldar afmæli Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, síðastliðið laugardagskvöld. Sá ég ekki útsendinguna en horfði á upptöku af henni í gærkvöldi. Var ánægjulegt að horfa á þessa skemmtilegu athöfn - kynna sér þar þekkt lög keppninnar seinustu hálfu öldina og merkilega sögulega punkta keppninnar samhliða því. Vegna afmælisins var valið besta lag keppninnar seinustu hálfu öldina. Það kom fáum á óvart að sigurlagið á þessu tímabili var Waterloo, sem hljómsveitin Abba flutti í söngvakeppninni í Bretlandi árið 1974. Er það að mínu mati ennfremur besta lag keppninnar. Vel var valið í aðdraganda keppninnar en þar var hægt að kjósa á milli fjórtán laga sem sett hafa svip sinn á sögu keppninnar. Eins og ávallt þegar farið er yfir langan feril og valið á milli merkra sögulega punkta vantar alltaf eitthvað inn í sem manni hefði þótt getað sómað sér vel þar. Vantaði að mínu mati fjölda laga sem skarað hefur fram úr á síðustu hálfu öld og hefði getað hlotið meiri heiðurssess en önnur lög. En það er eins og það er, segi ég bara.

Niðurstaðan er glæsileg og vel viðeigandi. Fá lög hafa sett sterkari svip á tónlistarsöguna en Waterloo - varð það enda upphaf að merkum frægðarferli sænsku sveitarinnar Abba, sem starfaði af krafti í um áratug og sigraði heiminn. Í öðru sæti í kosningunni varð Volare, sem heitir réttu nafni Nel blu, di pinto di blu en Ítalinn Domenico Modugno söng það árið 1958. Í 3. sæti varð Hold me now sem Johnny Logan söng til sigurs árið 1987. Hef ég aldrei verið neinn æstur Eurovision-aðdándi - á t.d. ekkert complete safn laga þess en hef fylgst með eins og flestir. Hversu oft hefur maður ekki heyrt Jón í næsta húsi segjast ekki fylgjast með en hann er svo fyrsti maður að skjánum á hverju ári. Mörg lög íslensk sem erlend í sögu keppninnar eru eftirminnileg. Öll erum við annars aðdáendur keppninnar - hvert á sinn hátt. En það er alltaf gaman að fallegum lögum - sem vekja athygli og eignast stað í hjartanu.

Páll Magnússon útvarpsstjóri

Það hefur varla farið framhjá neinum að Páll Magnússon útvarpsstjóri, birtist nú á sjónvarpsskjám landsmanna í hverri viku og les fréttir í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Hefur þetta mælst misjafnlega vel fyrir og er umdeilt meðal sumra, að því er virðist. Er einsdæmi að útvarpsstjóri lesi fréttir í sjónvarpi. Markús Örn Antonsson las kvöldfréttir 30. september 1991, á 25 ára afmæli Sjónvarpsins. Markús Örn var einn af fyrstu sjónvarpsfréttamönnum þjóðarinnar og las hann fréttir vegna afmælisins þetta kvöld merkisafmælis Sjónvarpsins þetta afmæliskvöld, ásamt Magnúsi Bjarnfreðssyni. Var það engin tilviljun, en þeir lásu fréttir í fyrsta sjónvarpsfréttatímanum hérlendis í októberbyrjun 1966. Sá munur er þó á að Markús Örn var þá ekki starfandi útvarpsstjóri, heldur borgarstjóri. Páll tók sæti Loga Bergmanns Eiðssonar, er hann fór yfir á Stöð 2. Er að mínu mati varla hægt að kvarta yfir komu Páls á skjáinn. Hann er að mínu mati einn allra besti fréttaþulur í íslenskri sjónvarpssögu - hefur allt til að prýða sem þarf í starfið. Síðasta laugardagskvöld gerði Páll grín að þessu með kostulegum hætti - er hann lék sjálfan sig í hinum ýmsu störfum hjá RÚV. Sást þar vel að Páll hefur húmor - fyrst og fremst fyrir sjálfum sér.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri hefst í kvöld. Þá munu Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður, og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, verða með framsögur. Arnbjörg, sem setur námskeiðið, fjallar um sjávarútvegsmál en Sigrún Björk um sveitarstjórnarmál. Er um að ræða fyrsta kvöldið af sex þar sem fjallað er um fjölda áhugaverðra málefna. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um sjávarútvegsmál, heilbrigðismál, menntamál, sveitarstjórnarmál, ræðumennsku- og framkomu, frétta- og greinaskrif, umhverfismál, samgöngumál, stjórnskipan og stjórnsýslu, sjálfstæðisstefnuna og Sjálfstæðisflokkinn. Um er að ræða fjölbreytt og gott námskeið sem haldið er fyrir sjálfstæðisfélögin hér á Akureyri. Mun námskeiðið standa allt til 15. nóvember, en því lýkur með pallborðsumræðum þar sem fyrir svörum verða Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi.

Saga gærdagsins
1970 Salvador Allende kjörinn forseti Chile - honum var steypt af stóli í valdaráni hersins 1973.
1975 Kvennafrídagurinn - íslenskar konur tóku sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var haldinn fundur sem 25.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982.
1975 Sjónvarpsútsendingar í lit hófust hér á landi - deilur voru uppi um hvort ætti að taka upp litaútsendingar og var tekist á í þingsölum um hvort ætti að hafa litasjónvarp eða auka dagskrárgerð.
2002 Lögregla handtók John Allen Muhammad og Lee Boyd Malvo - þeir héldu íbúum á Washington-svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Þeir myrtu alls 10 manns í október 2002 og særðu nokkra. Muhammad var dæmdur til dauða fyrr á þessu ári og Malvo var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Báðum dómunum var svo áfrýjað til Hæstaréttar.
2003 Concorde flugvél fer í síðustu flugferðina - ákveðið hafði verið að hætta að fljúga með Concorde eftir hörmulegt slys á Charles De Gaulle flugvelli í París 25. júlí 2000 þar sem 113 létust.

Saga dagsins
1875 Fyrsta borgaralega hjónavígslan hér á landi fór fram í Vestmannaeyjum, með leyfi konungs.
1937 Ljósafossstöðin var gangsett - með því jókst afl á svæði rafveitu RVK um rúm 13.000 hestöfl.
1976 Elísabet II Englandsdrottning, opnaði formlega þjóðleikhús Bretlands, eftir mörg ár í byggingu.
1993 Jean Chretien varð forsætisráðherra Kanada - hann sat á valdastóli allt til desember 2003.
2002 Öldungadeildarþingmaðurinn Paul Wellstone frá Minnesota, ferst í flugslysi ásamt eiginkonu sinni Sheilu og dótturinni Marciu, í N-Minnesota á kosningaferðalagi. Hann var fyrst kjörinn í öldungadeildina árið 1990 og endurkjörinn 1996. Í kosningunum 11 dögum síðar var Walter Mondale fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, frambjóðandi demókrata í stað hans. Hann tapaði kosningunum fyrir Norm Coleman sem vann nauman sigur þrátt fyrir andlát Wellstone, skömmu fyrir kjördaginn.

Snjallyrðið
Svo er um ævi
öldungamanna
sem um sumar
sól fram runna;
hníga þeir á haustkvöldi
hérvistardags
hóglega og blíðlega
fyrir hafsbrún dauðans

Gráti því hér enginn
göfugan föður
harmi því hér enginn
höfðingja liðinn;
fagur var hans lífsdagur,
en fegri er upp runninn
dýrðardagur hans
hjá drottni lifanda.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Höfðinginn)

Jónas Hallgrímsson var skáld tilfinninga og sannra hughrifa - þetta ljóð hans um hinn fallna höfðingja snertir streng í hjartarót minni. Fallegt og tilfinninganæmt ljóð.

23 október 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um þýsk stjórnmál, en stóru flokkarnir í landinu hafa samið um stjórnarsamstarf sín á milli, svonefnda stóru samsteypu. Verður Angela Merkel kanslari, í stað Gerhard Schröder sem hefur verið í því embætti í rúm sjö ár. Blasa mörg vandamál við nýrri stjórn og umfangsmikil úrlausnarefni. Við hafði blasað að ekkert annað stjórnarmynstur gat gengið við breyttar aðstæður í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar 18. september þar sem hvorug valdablokkin náði starfhæfum meirihluta. Hefur stjórn af þessu tagi ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug, en hún sat árin 1966-1969. Það eru því óneitanlega þáttaskil nú þegar samkomulag milli stóru flokkanna blasir við. Brotthvarf Schröders úr miðpunkti þýskra stjórnmála markar þáttaskil - hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Verður merkilegt að sjá hvernig Merkel muni ganga í embætti.

- í öðru lagi fjalla ég um skipan Bush forseta á Harriet Miers sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, sem virðist ætla að verða umdeild mjög. Heldur koma þó deilurnar upp á skondnum stað að margra mati. Jú, það eru einmitt íhaldssömustu stuðningsmenn forsetans sem skora nú á hann að draga skipun Miers til baka og velja annað dómaraefni. Margir spyrja sig eflaust af hverju þeir láti til skarar skríða gegn Miers og vali hennar í réttinn. Jú, þeir eru hræddir um að hún verði andstæða þess sem menn telja að hún sé er hún er komin í réttinn. Miers á ekki neina dómarasetu að baki og er óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. hvað varðar samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira. Er andstaðan svo langt gengin að Bush hefur orðið að verja valið.

- í þriðja lagi fjalla ég um kostulegar tillögur Arnar Sigurðssonar arkitekts á landsfundi fyrir viku, og snerust að mestu um andstöðuna við Reykjavíkurflugvöll. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir nefndarmanna í samgöngunefnd á landsfundi um tilvist vallarins náðist samstaða um orðalag í ályktunina í endalögum drögum sem fyrir fundinn fóru á sunnudeginum. Var það ánægjuleg niðurstaða - mikið gleðiefni að svo skyldi vera. Það virtist á fundunum nefndarinnar svo að Örn tæki undir málamiðlun í málinu og lagði hann ekki fram neinar tillögur beint í aðra átt þar inni. Það kom því mjög á óvart að sjá tillögur hans - sem voru felldar á landsfundinum, sem er mikið gleðiefni.

Að lokum fjalla ég um styrk Eddu Heiðrúnar Backman, sem berst nú við MND-sjúkdóminn. Dáðist ég að þeim styrk hennar sem sást í tveim sjónvarpsviðtölum nýlega. Er ekki annað hægt en að skrifa um þau viðtöl - en ég, eins og margir fleiri, hrifust af því hvernig Edda Heiðrún horfist í augu við sjúkdóminn, baráttu lífs síns.


Þjóðmál

Þjóðmál

Nýlega kom út athyglisvert tímarit að nafni Þjóðmál, í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Þar er að finna fróðlegar og góðar greinar sem fjalla um ýmislegt merkilegt, jafnt í stjórnmálum sem þjóðmálum. Í þessu fyrsta riti Þjóðmáls, sem ætlað er að koma út fjórum sinnum á ári, er að finna fjölbreyttar greinar. Þarna er að finna ítarlega grein eftir Magnús Þór Gylfason um pólitíska sögu R-listans, sem eins og flestir vita hefur nú geispað golunni, og þar er að sjálfsögðu rakin sagan af valdatímanum sem hefur einkennst af ævintýrafjárfestingum og stöðnun umfram allt. Jóhannes Nordal, fyrrum seðlabankastjóri, ritar merkilega grein um sögu Stjórnarráðs Íslands.

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, ritar í tímaritið grein um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar, sem nú hefur vikið af hinu pólitíska sviði og tekið við embætti seðlabankastjóra, eftir að hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár, þar af forsætisráðherra Íslands samfellt í 13 ár af þessum 14. Er ekki ofsögum sagt að skrif Páls um Davíð séu merkileg. Eins og flestir vita er Páll ritari Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Auk Páls rita Jónas H. Haralz, fyrrum bankastjóri Landsbankans, og Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, greinar um Davíð. Af öðru efni má nefna fróðlega grein Glúms Jóns Björnssonar um Samfylkinguna. Þar er t.d. að finna margar skondnar lýsingar á þessum flokki, sem vert er að mæla með.

Ennfremur má vekja athygli á grein Þorbjörns Broddasonar, prófessors, þar sem hann dæmir bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004. Eins og flestir vita er Þorbjörn fyrrum borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins og því auðvitað fjarri því samherji höfundar bókarinnar í stjórnmálum. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skrifar vettvangsgrein um stjórnmálin í ritið og víkur þar auðvitað að þeim stórtíðindum sem urðu með brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Ásta Möller, alþingismaður, sem tók sæti á þingi í stað Davíðs, ritar í Þjóðmál ennfremur mjög merkilega grein um ráðherraábyrgð.

Er vel þess virði fyrir áhugamenn um stjórnmál og góð og vel ígrunduð skrif um stjórnmál og málefni samtímans, sem og sagnfræðilegar pælingar að líta á Þjóðmál.

Saga dagsins
1956 Þúsundir ungverja mótmæla kommúnistastjórn landsins og krefjast almennra mannréttinda - stjórn landsins barði niður mótmælin með harðri hendi með beitingu valds nokkrum dögum síðar.
1973 Richard Nixon forseti, samþykkir að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Hæstiréttur landsins hafði áður skipað honum að afhenda segulböndin. Aðeins var birtur hluti spólanna á þessum tímapunkti, höfða þurfti fleiri mál til að fá öll gögnin. Birting þeirra sumarið 1974 leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar Nixons forseta, 9. ágúst 1974. Hann varð fyrstur af forsetum landsins til að segja af sér embætti.
1976 Nýr flugvöllur við Sauðárkrók tekinn í notkun - nefndur eftir Alexander Jóhannessyni rektor.
2002 Téténskir uppreisnarmenn taka rúmlega 700 manneskjur í gíslingu í þjóðleikhúsinu í Moskvu - gíslatökunni lauk tveim sólarhringum síðar þegar yfirvöld réðust inn í leikhúsið og sprautuðu gasi þar inn. Allir uppreisnarmennirnir voru drepnir í innrás hersins í húsið, auk þeirra létust um 120 gíslar.
2003 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpar ástralska þingið - neyddist til að gera hlé á ræðunni vegna hrópa frá þingmönnum græningja sem mótmæltu mjög, einkum vegna Íraksstríðsins.

Snjallyrðið
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.

Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Sunnan af heiðum koma vorsins vindar
og vilja, að ár og lækir með þeim syngi.
Þá leysir ísa, fuglar koma og kvaka.
Á kvöldin roðna björgin og taka undir.
Nóttina birtir, villtir vængir blaka.
Veturinn kveður og býður góðar stundir.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)

Ein af perlunum hans Davíðs frá Fagraskógi - hér er ort um bæinn fagra við fjörðinn norðan heiða. Sætt og heilsteypt ljóð sem lýsir vel hinum fagra Eyjafirði.

21 október 2005

David DavisDavid Cameron

Leiðtogakjörið í breska Íhaldsflokknum er hafið af fullum krafti. Ferlið vegna leiðtogakjörsins hófst formlega fyrr í þessum mánuði er Michael Howard leiðtogi flokksins frá árinu 2003, baðst lausnar. Það gerði hann í lok flokksþings Íhaldsflokksins sem haldið var í Blackpool fyrri hluta mánaðarins. Fimm höfðu tilkynnt framboð þegar framboðsfrestur rann út: David Cameron, Kenneth Clarke, David Davis, Liam Fox og Malcolm Rifkind. Þar sem ekki náðist samstaða um að breyta lögum um vali á leiðtoga flokksins fór því svo að leiðtogakjörið fer fram með sama hætti og er forveri Michael Howard á leiðtogastóli, Iain Duncan Smith, var valinn í leiðtogakjöri árið 2001. Það er með þeim hætti að þingflokkurinn kýs með útsláttarfyrirkomulagi á milli leiðtogaefnanna þangað til að tveir standa eftir. Um þá munu svo flokksmenn kjósa í póstkosningu næstu vikurnar. Svo fór að Rifkind dró framboð sitt til baka í síðustu viku og eftir stóðu því fjórir í leiðtogakjöri innan þingflokksins. Á þriðjudaginn fór fyrsta umferð leiðtogakjörsins fram í þingflokknum.

Þá féll Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, úr leik. Hlaut hann fæst atkvæði fjórmenninganna, eða 38 af þeim 198 sem greidd voru. David Davis hlaut flest atkvæði í umferðinni, alls 62. David Cameron hlaut 56 atkvæði og Liam Fox hlaut 42. Clarke var því úr leik í umferðinni. Þetta var í þriðja skipti sem Clarke fer í leiðtogaslag. Hann fór fram árið 1997 þegar að Sir John Major lét af leiðtogaembættinu eftir afhroðið í kosningunum það ár. Hann tapaði svo í póstkosningu allra flokksmanna fyrir Iain Duncan Smith árið 2001. Hann fór þó ekki fram árið 2003, enda var Michael Howard þá sjálfkjörinn í leiðtogastöðuna. Fullyrða má að einkum tvennt hafi orsakað það að Clarke féll úr leik. Bæði er hann harður Evrópusinni, sem fer ekki vel í þingmenn flokksins almennt, og svo er hann orðinn 65 ára gamall og er eldri en núverandi leiðtogi flokksins. Þáttaskil urðu samhliða þessu - Clarke er væntanlega á útleið úr stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Hann mun allavega aldrei verða leiðtogi flokksins, þessi úrslit leiða til þess að þessi umdeildi en litríki stjórnmálamaður pakkar niður og heldur af hinu pólitíska sviði.

Leiddi tap Clarke til þess að fjölmargir stuðningsmanna hans lýstu yfir stuðningi við leiðtogaframboð David Cameron, og þótti eftir það sýnt að stuðningur við hann hefði aukist umtalsvert. Í gær fór svo önnur umferð leiðtogakjörsins fram. Þá hlaut Cameron 90 atkvæði, Davis hlaut 57 og Fox hlaut 51. Fox er því úr leik - eins og flestir höfðu spáð - og eftir standa þeir Cameron og Davis. Við blasir að staða David Cameron hefur vænkast verulega seinustu vikurnar. Þau þáttaskil hafa átt sér stað að Davis, sem lengi vel var talinn fremstur í kjörinu og sigurstranglegastur, hefur misst þann sess til Cameron. Honum hefur vaxið mjög ásmegin og stefnir allt í að hann verði leiðtogi með mjög afgerandi hætti. Stuðningur við Davis hefur þverrað mjög hratt seinustu daga og stefnir allt í að hann verði fyrir miklu áfalli í kjörinu. Það var Davis og stuðningsmönnum hans áfall hversu naumur sigur Davis var í fyrri umferðinni.

David Davis

Enn meira áfall þykir það að hann hafi misst forystuna til Cameron í seinni umferð þingflokksins. Það var þó fyrirséð að svo myndi fara. Því var jafnvel spáð um tíma í gær fyrir kjörið að Cameron myndi fá fleiri en 100 atkvæði í þingflokknum. Slík staða hefði gert vonir frambjóðandans gegn honum í póstkosningunni allt að því vonlausa og því jafnvel spáð að ekki kæmi til póstkosningarinnar yrði sú staðan. Svo fór ekki og þykir ljóst nú að Davis muni leggja allt undir og fara í póstkosninguna. Sigur Cameron í þessari umferð var nokkuð afgerandi en ekki nógu afgerandi til að vera rothögg á mótframbjóðandann. Davis heldur því áfram af krafti í lokabardagann. Við tekur nú sex vikna slagur milli Cameron og Davis um hylli flokksmanna. Ef marka má yfirlýsingar leiðtogaefnanna verður sú barátta mjög hörð. Munu um 300.000 flokksfélagar í breska Íhaldsflokknum nú fá lokavaldið í hendurnar um hvor Davíðinn í forystusveit þeirra David – Cameron eða Davis taki við valdataumunum í flokknum.

Þetta er vissulega nokkuð merkileg þróun í breska Íhaldsflokknum sem átt hefur sér stað í þessum mánuði. Lengi vel var Cameron talinn djarfur að leggja í leiðtogaslaginn og lengi vel talinn algjör outsider í slagnum. Hann hafði enda aðeins setið á þingi í fjögur ár er hann lýsti yfir leiðtogaframboðinu og barðist lengi vel á móti miklum straumi innan flokksstofnana og talinn vera með vonlaust framboð. Davis hafði yfirburðastöðu lengi vel og talið um tíma að slagurinn stæði milli hans og Clarke. Nú er Clarke fokinn burt og stjórnmálaferli hans augljóslega lokið að loknu þessu kjörtímabili. Skjótt skipast því veður í lofti í leiðtogapólitík íhaldsmanna. Það er allavega hægt að orða það þannig að leiðtogi hafi fæðst á flokksþinginu í Blackpool. Þar urðu þáttaskilin – Cameron talaði til flokksmanna með miklum fítonskrafti – algjörlega blaðlaust og þótti öflugur meðan að Davis þótti flytja hundleiðinlega ræðu af blöðum. Munurinn þótti sláandi – síðan hefur Cameron leitt slaginn og sífellt bætt við forskotið.

Aldursmunurinn á milli Davis og Cameron er nokkur. Davis er jafngamall Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, fæddur árið 1948. Cameron er um fertugt, fæddur árið 1966 – maður nýrra tíma semsagt. Þau þáttaskil eru í þessu kjöri að þarna takast á nýji og gamli tíminn í breska Íhaldsflokknum - í fyrsta skipti í mörg herrans ár. Margir telja að flokkurinn sé að ganga í gegnum kosningu, ekki bara um stefnu sína og strauma, heldur um það í hvaða átt hann vilji sækja með nýjum leiðtoga. Hvort hann eigi bara að lúkka vel eða eigi að vera hugsjónapólitíkus. Það er því í raun tekist á um framtíðarsýn leiðtoganna, bæði fyrir Íhaldsflokkinn og sig sem leiðtogaefnið inn í framtíðina. Michael Howard mun gegna leiðtogastöðunni í breska Íhaldsflokknum allt til 6. desember nk. Þann dag munu úrslitin úr póstkosningunni milli Davis og Cameron liggja fyrir. Hans hlutverk er þó að mestu formlegt nú, enda er sviðsljós allra nú á leiðtogaefnunum sem berjast um að hljóta sess hans innan flokksins.

David Cameron

Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrr á árinu. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram.

Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Cameron er því rétti maðurinn að mínu mati fyrir íhaldsmenn. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!

Saga gærdagsins
1728 Mikill eldur kom upp í Kaupmannahöfn - þar brann stór hluti bókasafns Árna Magnússonar.
1905 Landsdómur stofnaður til að dæma í málum gegn ráðherrum fyrir brot á stjórnarathöfnum - allt frá stofnun dómsins hefur hann aldrei komið saman, enda ekki þótt neitt tilefni að svo skyldi vera.
1968 Jacqueline Bouvier Kennedy fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ekkja John F. Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, giftist milljarðamæringnum Aristotle Onassis í Grikklandi - brúðkaup þeirra olli mjög miklum deilum. Það var ástlaust að mestu, en entist til andláts Onassis 1975 - Jackie lést 1994.
1973 Óperuhúsið í Sydney formlega tekið í notkun - ein glæsilegasta menningarbygging sögunnar.
1989 Borgarleikhúsið í Reykjavík var vígt - það var 13 ár í byggingu og var um 10.000 fm. að stærð.

Saga dagsins
1916 Pétur Ottesen, 28 ára bóndi, var kjörinn á þing fyrir Borgfirðinga - Pétur sat á þingi samfellt í 43 ár, er hann lét af þingmennsku 1959 hafði hann setið á þingi lengst allra sem þar hafa tekið sæti.
1933 Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um afnám bannlaganna - 15.866 greiddu atkvæði með afnámi en 11.625 greiddu atkvæði á móti tillögunni. Áfengisbann var svo formlega afnumið hinn 1. febrúar 1935.
1944 Ríkisstjórn Ólafs Thors, Nýsköpunarstjórnin, tók formlega við völdum - Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn áttu aðild að henni. Hún sat að völdum í rúmlega þrjú ár. Meginmarkmið hennar var nýsköpun atvinnulífsins og uppbygging eftir seinni heimsstyrjöldina.
1961 Bjarni Jónsson vígslubiskup og fv. forsetaframbjóðandi, varð fyrsti heiðursborgari í Reykjavík.
1998 Útför Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, fór fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík - þjóðhöfðingjar Norðurlandanna voru viðstaddir jarðarför forsetafrúarinnar. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands flutti hugljúfa minningarræðu um hana, en hann jarðsöng. Ríkisstjórn Íslands bar kistu hennar úr kirkju. Að afhöfninni lokinni var kista forsetafrúarinnar flutt í Fossvogskapellu þar sem bálför fór fram. Duftkeri forsetafrúarinnar var komið fyrir í Bessastaðakirkju skömmu eftir útförina.

Snjallyrðið
Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
Íslands er það lag.

Eða fugl í eyjum kvaka,
undir klöpp og skútar taka:
Íslands er það lag.
Heyrið brim á björgum svarra,
bylja þjóta svipi snarra:
Íslands er það lag.

Og í sjálfs þín brjósti bundnar
blunda raddir náttúrunnar:
Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði og eins í harmi
ymur Íslands lag.
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) (Íslandslag)

Þetta þjóðlega og kraftmikla ljóð Gríms Thomsens snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Þetta er fallegra en orð fá lýst. Þetta fagra ljóð var svo fært í unaðslegan búning við lag Björgvins Guðmundssonar. Stórfenglegt!

19 október 2005

Stefán Friðrik Stefánsson

Þriggja ára afmæli bloggvefsins
Í dag eru þrjú ár liðin síðan ég hóf bloggskrif á netinu á þessum stað. Allt frá upphafi hafa hitamál samtímans, bæði á vettvangi innlendra og erlendra stjórnmála, verið umfjöllunarefni í skrifum mínum. Þennan vettvang hef ég notað til að tjá mínar skoðanir um helstu málin, fara yfir þau frá mörgum hliðum og vera með úttekt á því sem helst er fréttnæmt. Fyrir mér var bloggheimurinn frá upphafi einkar spennandi vettvangur til að tjá skoðanir mínar og hef ég uppfært bloggvefinn reglulega allan þennan tíma. Fyrir tveim árum breytti ég uppsetningunni verulega og bætti hana nokkuð og til sögunnar kom öflugri umfjöllun. Í febrúarmánuði breytti ég aftur til og í sumar hætti ég með gamlan og góðan flokk og kaflaskiptingu og við blasir þetta sem nú sést: samantekt í fimm punktum, dagleg umfjöllun og í lokin sögulegir punktar og snjallyrði. Allan tímann hef ég haft sanna ánægju af þessu. Myndi varla nenna þessu nema sönn ástríða á umfjöllunarefnunum og hjartans áhugi á þjóðmálum væri fyrir hendi. Pælingarnar halda áfram af krafti.

bestu kveðjur og kærar þakkir fyrir samfylgdina
Stefán Friðrik Stefánsson

Kenneth Clarke

Kenneth Clarke fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, féll í gær úr leik í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins. Hlaut hann því fæst atkvæði þeirra fjögurra sem gefið höfðu kost á sér til leiðtogastöðunnar. Hann hlaut 38 atkvæði af þeim 198 sem greidd voru. David Davis hlaut flest atkvæði, alls 62. David Cameron hlaut 56 atkvæði og Liam Fox hlaut 42. Clarke er því úr leik og kosið verður að nýju á morgun milli þeirra þriggja sem eftir standa. Þeir tveir sem standa eftir að lokinni þeirri umferð fara í lokaumferðina, sem er póstkosning allra flokksmanna. Þetta er í þriðja skipti sem Clarke fer í leiðtogaslag - alltaf hefur hann tapað slagnum. Hann fór fram árið 1997 þegar að Sir John Major lét af leiðtogaembættinu eftir afhroðið í kosningunum það ár. Hann tapaði svo í póstkosningu allra flokksmanna fyrir Iain Duncan Smith árið 2001. Hann fór þó ekki fram árið 2003, enda var Michael Howard þá sjálfkjörinn í leiðtogastöðuna. Fullyrða má að einkum tvennt hafi orsakað það að Clarke féll úr leik. Bæði er hann harður Evrópusinni, sem fer ekki vel í þingmenn flokksins almennt, og svo er hann orðinn 65 ára gamall og er eldri en núverandi leiðtogi flokksins.

Þáttaskil verða samhliða þessu - Clarke er væntanlega á útleið úr stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Hann mun allavega aldrei verða leiðtogi flokksins, þessi úrslit leiða til þess að þessi umdeildi en litríki stjórnmálamaður pakkar niður og heldur af hinu pólitíska sviði. Við blasir að staða David Cameron hefur vænkast verulega seinustu vikurnar. Nú þegar hafa margir af lykilstuðningsmönnum Clarke að styðja hann. Við blasir að hann muni fá flest atkvæði í kjörinu á morgun. Þau þáttaskil hafa því átt sér stað að Davis, sem lengi vel var talinn fremstur í kjörinu og sigurstranglegastur, hefur misst þann sess til Cameron. Honum hefur vaxið mjög ásmegin og stefnir allt í að hann verði leiðtogi með mjög afgerandi hætti. Stuðningur við Davis hefur þverrað mjög hratt seinustu daga og stefnir allt í að hann verði fyrir miklu áfalli á morgun. Það var Davis og stuðningsmönnum hans áfall hversu naumur sigur Davis var í fyrri umferðinni. Það blasir við að margir töldu að Cameron myndi ekki komast yfir 50 atkvæði í fyrstu umferðinni. Það að svo fór leiðir til þess að staða Davis veikist - eins og sést hefur í dag og í gær.

Svo gæti farið að sigur Cameron í annarri umferðinni verði svo yfirgnæfandi að ekki komi til framhaldskosninga. Mótherji hans í póstkosningunni leggi ekki í þann slag og pakki saman. Forskot Cameron er enda orðið svo yfirgnæfandi að fátt annað kemur orðið til greina en að hann nái í mark. Hann hefur meðbyr lykilflokksmanna og hefur stuðning almennra flokksmanna í könnunum. Ef marka má fréttir í dag telja margir að Cameron verði jafnvel orðinn leiðtogi strax fyrir helgi - en til þess þarf sá sem fer í póstkosninguna að draga sig til baka. Margir telja það blasa við - enda hafi Cameron náð það afgerandi stöðu að mótherjinn telji vonlaust að hafa hann undir. Þetta er merkileg þróun, enda var Cameron talinn djarfur að leggja í leiðtogaslaginn og lengi vel talinn outsider í slagnum. En skjótt skipast oft veður í lofti. Það er allavega hægt að orða það þannig að leiðtogi hafi fæðst á flokksþinginu í Blackpool.

Reykjavíkurflugvöllur

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var nokkuð rætt um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Sat ég fundi samgöngunefndar þar sem var lífleg umræða um málið. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir nefndarmanna á tilvist vallarins náðist samstaða um orðalag í ályktunina í endanlegum drögum sem fyrir fundinn fóru á sunnudeginum. Var það ánægjuleg niðurstaða - mikið gleðiefni að svo skyldi vera. Aðilar komu til móts hvor við annan og niðurstaðan farsæl fyrir okkur öll - einkum þó flokkinn okkar. Einn þeirra sem sat fundi nefndarinnar og tók undir samkomulagið að því er virtist var Örn Sigurðsson arkitekt og frambjóðandi í prófkjöri flokksins í borginni. Eins og allir vita er Örn ekki stuðningsmaður vallarins. Það virtist á fundunum nefndarinnar svo að Örn tæki undir málamiðlun í málinu og lagði hann ekki fram neinar tillögur beint í aðra átt þar inni. Það kom því mjög á óvart þegar sami maður lagði fram á sunnudeginum tillögu um að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera farinn úr Vatnsmýrinni, eigi síðar en árið 2012. Komu frá honum ennfremur fleiri tillögur í svipaða átt - allar með þeim hætti að vera algjörlega óviðunandi fyrir landsbyggðarfólk.

Þessi gangur mála hefði varla orðið fréttaefni hér á þessum vef nema fyrir þær sakir að ég og aðrir tókum ekki eftir þessum tillögum Arnar inni í nefndinni. Þetta var mjög merkilegt, svo vægt sé til orða tekið. Eins og allir vita sem sátu í nefndinni tók Örn þátt í því ásamt fjölda manna að móta orðalag sem vera mætti til málamiðlunar og var ekki að flagga neinum sólómennskutillögum. Þær komu þó fram á sunnudeginum. Er mjög vægt til orða tekið að við höfum orðið gáttuð á þessum vinnubrögðum og undrandi á því að þessar tillögur kæmu fram og það með þessum hætti. Birna Lárusdóttir formaður vinnuhópsins um samgöngumál í aðdraganda fundarins, fór í pontu og lagði fram tillögu til frávísunar á tillögur Arnar. Kom þá Örn í pontu og varði tillögur sínar. Meðan að hann talaði lyftum við landsbyggðarfólk (og fleiri) upp rauða nei-spjaldinu sem notað var við atkvæðagreiðslur. Þótti okkur það sterk skilaboð að senda manninum og skilaboðum hans rauða spjaldið með táknrænum hætti. Var það mjög viðeigandi.

Svo fór að tillögur hans voru felldar. Var það mjög gleðilegt! Afstaða fundarmanna kom vel fram og meirihluti landsfundarfulltrúa henti tillögum hans algjörlega út í hafsauga! Tek ég undir með Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra á Ísafirði, sem ritar um málið í dagbókinni á vef sínum, að Örn Sigurðsson þurfi að fara á námskeið í félagsstarfsemi og fundaþátttöku! Það veitti varla af því. Allavega fór það svo að arkitektinn rann á rassinn með tillögur sínar á fundinum - okkur landsbyggðarfólki til mikillar gleði!

Daniel Craig

Nú hefur verið tilkynnt formlega að leikarinn Daniel Craig muni taka við hlutverki njósnara hennar hátignar, James Bond, sem ber kenniheitið 007 í bresku leyniþjónustunni. Markar valið á Craig nokkur þáttaskil - enda verður hann fyrsti ljóshærði leikarinn sem leikur ofurnjósnarann í rúmlega fjögurra áratuga langri sögu kvikmyndanna um Bond. Tekur hann við hlutverkinu af Pierce Brosnan, sem lék Bond í fjórum kvikmyndum á tímabilinu 1995-2002. Mun Craig birtast áhorfendum í kvikmyndinni Casino Royale, sem verður frumsýnd á næsta ári. Verður það 21. kvikmyndin sem Broccoli-fjölskyldan framleiðir um Bond. Eftirsjá er af Brosnan í hlutverki Bond. Taldi ég lengi vel að hann hefði átt að leika Bond einu sinni enn. En skiljanlegt er að framleiðendur vilji breyta til. Verður fróðlegt að sjá Daniel Craig færa okkur annan og unglegri Bond í nýju myndinni.

Sálin

Rosalega er nýja lagið með Sálinni gott. Ég er ekki fjarri því að lagið "Undir þínum áhrifum" sé besta lag Sálarinnar í fjöldamörg ár. Það allavega hitti beint í hjartastað hjá mér - svo er um fleiri hef ég heyrt. Stórfenglegt lag - þeir eru algjörir snillingar strákarnir. Í vikunni var myndbandið við lagið frumsýnt í Íslandi í dag hjá Svansí og Ingu Lind. Hvet alla til að horfa á það - stórfenglegt myndband sem segir sæta og hugljúfa ástarsögu (afturábak skemmtilegt nokk) frá því að ástin kviknar milli tveggja einstaklinga þar til að kemur að þeirri stundu að annar aðilinn kveður þennan heim. Stórfenglegt lag - frábært myndband. Klikkar ekki!

Saga dagsins
1918 Spænska veikin barst til landsins með tveimur skipum, öðru frá Kaupmannahöfn en hinu frá
New York. Í hinni skæðu inflúensu létust á fáum vikum vel á fimmta hundrað manns í Reykjavík.
1965 Fyrsta plata hljómsveitar Ingimars Eydal kom út. Meðal laga á plötunni voru klassísk lög á borð við Vor í Vaglaskógi og Á sjó. Hljómsveitin starfaði með breytingum allt til andláts Ingimars árið 1993.
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, neitar að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Þessi ákvörðun leiddi til málaferla sem lauk fyrir hæstarétti þar sem forsetanum var skipað að afhenda hljóðritanirnar. Sú ákvörðun leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar forsetans, 9. ágúst 1974.
1989 Guildford fjórmenningunum sleppt úr fangelsi, eftir að sannað var að þau voru saklaus um að hafa staðið á bakvið sprengjutilræði í Guildford 1975. Þau sátu inni saklaus í 15 ár, er talið eitt mesta hneykslið í réttarsögu Bretlands - saga málsins er sögð í kvikmyndinni In the Name of the Father.
2003 Móðir Teresa gerð að dýrlingi af Jóhannesi Páli páfa II við hátíðlega athöfn - hún lést 1997.

Snjallyrðið
Í regninu elskendur finnurðu falda,
fallandi regnið mun yfir þau tjalda,
hjörtun þau titra, hjörtun þau loga,
hjörtun sér fórna undir silfruðum boga.

Við þig ég tala meðan tunglið syndir
tekur þín augu sýnir þér myndir.
Lífinu mundi ég vissulega voga
í von um koss undir silfruðum boga.

Dagarnir mínir daufir líða,
daprir eftir ástinni þurfum að bíða
í hjarta mitt sem hamast togar
húmblá augu undir silfruðum boga.

Ef í regninu elskendur finnurðu farna
felldu ekki dóminn, allavega ekki þarna,
ef þú aðeins heldur við hjartans loga
mun hamingjan bíða undir silfruðum boga.

Ástin undir silfruðum boga bíður
að bros þitt vakni því tíminn líður.
Ef regninu kaldar göturnar gengur
gakktu undir bogann og dveldu þar lengur.
Bubbi Morthens tónlistarmaður (Silfraður bogi)

Ein af perlunum hans Bubba - sætt og hugheilt ljóð sem fært var í undurfagran búning á plötunni Dögun fyrir tveim áratugum.

17 október 2005

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Í ítarlegum pistli á heimasíðu minni í dag fjalla ég um 36. landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þáttaskil hafa átt sér stað í flokknum. Á landsfundinum sté Davíð Oddsson verðandi seðlabankastjóri, af hinu pólitíska sviði, í orðsins fyllstu merkingu er hann labbaði af aðalsviðinu í Laugardalshöll og hélt út í sal. Hann var ekki lengur forystumaður Sjálfstæðisflokksins, hafði afhent völdin innan flokksins til eftirmanns síns. Geir H. Haarde utanríkisráðherra, hafði þá verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og tekið við forystu flokksins af Davíð. Að baki er merkur ferill – rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferill öflugs leiðtoga sem leitt hefur Sjálfstæðisflokkinn í einn og hálfan áratug, í senn bæði með kraftmiklum og glæsilegum hætti. Þáttaskilin felast í brotthvarfi þessa sterka leiðtoga. Eftirmaðurinn er þó af sömu kynslóð – náinn samstarfsmaður og félagi Davíðs í rúma þrjá áratugi, maður sem þekkir Sjálfstæðisflokkinn og stjórnmálavettvanginn mjög vel. Þáttaskil urðu svo í varaformannskjöri þegar að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var kjörin varaformaður, fyrst kvenna. Þó að kosning hafi verið milli Þorgerðar Katrínar og Kristjáns Þórs um embætti varaformanns var baráttan vinsamleg og drengilega háð að hálfu þeirra beggja.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við flokknum heilum og öflugum á bakvið sig. Flokksmenn færðu honum forystuna í flokknum með afgerandi hætti og enginn vafi leikur á því hversu sterkur leiðtogi hann er við þessi þáttaskil. Þegar að sterkir leiðtogar kveðja verður alltaf tómarúm. Við sjálfstæðismenn erum svo heppnir að eiga sterka stjórnmálamenn sem geta tekið við forystunni af krafti við brotthvarf Davíðs. Geir H. Haarde er þekktur fyrir verk sín og störf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Honum voru launuð þau störf í kosningunni í gær með þeim hætti sem fyrir liggur. Geir er vel kominn að því að taka við forystu flokksins. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir var varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og var fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, eða í rúm sjö ár, og hefur nú tekið sæti sem utanríkisráðherra. Verður merkilegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum.

Það var aldrei vafi á því í mínum huga fyrir landsfundinn að Geir myndi hljóta glæsilega kosningu sem eftirmaður Davíðs á formannsstóli. Við sameinumst nú öll sem eitt að baki Geir og styðjum hann heilshugar í þeim verkefnum sem blasa við honum og flokknum okkar á komandi árum. Framundan eru tvær mjög spennandi kosningar og áhugavert verður að vinna fyrir flokkinn í þeim átökum sem fylgja kosningunum, og undir forystu Geirs sem formanns okkar. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins seinustu árin að fylgja formanni sínum heilshugar í því sem gera þarf og þeim verkefnum sem framundan eru á veginum. Lengi var sagt að þegar að Davíð Oddsson myndi láta af formennsku myndu pólitísk átök og ósamstaða einkenna andrúmsloftið við þau þáttaskil. Það varð ekki svo – andstæðingum okkar varð ekki að þeirri ósk sinni að læti yrðu við brotthvarf Davíðs. Við færðum Geir formennskuna með öflugum og samhentum hætti og hann hefur umboð okkar til forystu. Bind ég vonir við að Geir muni leiða brátt ríkisstjórn og taka við forystu í stjórnmálum með sama hætti og Davíð Oddsson gerði.

Rétt eins og ljóst var fyrir landsfundinn að Geir yrði formaður var öllum ljóst að nýr varaformaður yrði kjörinn á landsfundinum. Í framboði voru eins og fyrr segir Kristján Þór og Þorgerður Katrín. Eins og vel kom fram í pistli á vef mínum fyrir tæpum mánuði er framboð þeirra lágu fyrir ákvað ég að styðja Kristján Þór til varaformennsku. Hef ég þekkt Kristján Þór Júlíusson í um tvo áratugi og því engin undur og stórtíðindi að ég hafi stutt hann af krafti í þessu varaformannskjöri. Kristján Þór sannaði fyrir mér og öllum öðrum sem þekkja hann og bakgrunn hans í ræðunni á laugardeginum hvernig hann er – bæði sem stjórnmálamaður og persóna. Hann er kraftmikill, heiðarlegur og ábyrgðarmikill stjórnmálamaður – öflugur maður með mikla reynslu – sem þorir að taka áhættur og vill vinna verkin af krafti. Heyrði ég vel á landsfundinum að fólki líkaði markvissar áherslur hans og metnaður fyrir hönd flokksins í varaformannskjörinu. Kom hann enda fram með markvissa stefnu um að efla innra starf flokksins og sótti fram af krafti – umfram allt með metnað fyrir hönd flokksins að leiðarljósi. Þótti mér honum mælast þar vel og náði hann eflaust til þeirra sem óákveðnir voru, enda heyrði ég almenna ánægju allra með ræðu hans.

Þegar kom að kjörinu var öllum ljóst að mjótt gæti orðið á munum og Kristján hefði unnið mjög á. Fyrir fundinn þótti mörgum sem svo að framboð Kristjáns Þórs væri vonlaust og sótt hefði verið fram af hans hálfu aðeins til að skora keilur í athygli. Þeir sem þekkja Kristján Þór vita að hann er keppnismaður og leggur aldrei af stað nema vera fullkomin alvara. Það sáu allir sem fylgdust með ræðu hans á laugardeginum. Hann er enda keppnismaður. Svo fór að Þorgerður Katrín hlaut kjör sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Markaði hún sér þar sess í sögu flokksins, enda er hún fyrsta konan í sögu hans sem tekur sæti í æðstu forystu hans. Þorgerður Katrín hlaut 728 atkvæði eða 62,3%. Kristján Þór hlaut 424 atkvæði eða 36,3%. Var alveg ljóst á þessum úrslitum að Kristján Þór hafði öflugan stuðning og gott bakland í formannskjörinu. 10 aðrir sjálfstæðismenn fengu samtals 16 atkvæði. Við sem studdum Kristján Þór Júlíusson erum ánægð með góðan árangur hans í kosningunni, sem mun efla hann til komandi verkefna í pólitík, og vinnum af krafti með Þorgerði Katrínu í innra starfinu.

Þáttaskil hafa orðið í íslenskum stjórnmálum. Stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar er lokið og flokksmenn hafa á fjölmennum og góðum landsfundi fært Geir H. Haarde forystuna í flokknum. Þetta var mjög góð helgi og ánægjulegur fundur og virkilega gaman að hittast og eiga svo góða stund. Rúmlega þúsund manns greiddu atkvæði í kosningu um formann og varaformann og við finnum á því og kraftinum á fundinum hversu flokkurinn fer öflugur inn í pólitískan vetur. Geir er vel kominn að því að taka við pólitískum völdum Davíðs Oddssonar. Þorgerður Katrín fékk öflugt umboð til varaformennsku og mun vonandi vinna af krafti að innra starfi flokksins og þeim verkefnum sem mikilvæg eru í aðdraganda tveggja kosninga. Að fundinum loknum héldu sjálfstæðismenn sáttir til síns heima. Samstaða okkar er mikil og vinna framundan til að tryggja góða útkomu í kosningunum tveim. Framundan eru skemmtilegir tímar í íslenskum stjórnmálum eftir þessi þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum.

Bergur Þorri Benjamínsson

Í aðdraganda landsfundar hafði verið nokkur umræða um þá ákvörðun stjórnvalda að skerða bensínstyrk öryrkja. Var þetta mjög umdeild ákvörðun og vakti óánægju í samfélaginu, sem von er. Svo fór á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að Bergur Þorri Benjamínsson lagði fram breytingatillögu í heilbrigðisnefnd og mælti fyrir því að ákvörðunin skyldi dregin til baka. Var tillaga hans samþykkt. Var það mikið gleðiefni, mjög svo. Bergur Þorri lenti í alvarlegu slysi fyrir nokkrum árum og lamaðist fyrir neðan mitti. Hann er ein af hvunndagshetjunum. Hann lifir sínu lífi og hefur tekið þátt í þeim verkefnum sem hann hefur áhuga á. Hann er nú gjaldkeri stjórnar Varðar, f.u.s. á Akureyri, þess félags sem ég er formaður í. Ég studdi hann af krafti í að leggja fram þessa tillögu og fagna samþykkt hennar. Það kemur ekki til greina að þessi tillaga heilbrigðisráðherra verði samþykkt. Hún er óeðlileg og það var gleðiefni að Bergur Þorri lét landsfund Sjálfstæðisflokksins taka afstöðu til málsins og sló málið burt hvað varðar flokkinn. Nú er málið í höndum heilbrigðisráðherra. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er auðvitað algjörlega skýr. Burt með þessa fyrirhuguðu skerðingu bensínstyrksins. Hver getur enda varið þessa þvælu?

Almennur sjálfstæðismaður, sem er lamaður eftir alvarlegt slys, leggur fram tillögu um þetta mál sem er samþykkt af almennum sjálfstæðismönnum á landsfundi, sem er æðsta stofnun flokksins. Stefna okkar í málum er mótuð á þessum fundi og sjálfsagt að ræða þetta. Stefna flokksins í þessu máli er ljós og því alveg ljóst að menn verða að vinna eftir henni. Merkilegt er að heyra nú í framsóknarmönnum þar sem þeir tala um svik og hvað ofan á annað. Síðan hvenær er það að stinga einhvern í bakið að leggja fram tillögu á landsfundi flokksins síns og berjast fyrir sínum hjartans málum? Er það ekki bara besta dæmið um hversu flokksstarfið er opið og hversu mikil áhrif hinn almenni flokksmaður hefur? Það held ég nú. Við sjálfstæðismenn sögðum okkar á landsfundinum. Þetta er gott dæmi um það að almennir flokksmenn geta tekið málin í sínar hendur - komið með breytingatillögur og keyrt málin í gegnum fundinn og aflað breytingatillögunum stuðnings annarra fundarmanna. Hinn almenni flokksmaður hefur raunverulega áhrif - það er svosem gott að aðrir sjá það. En þetta er góð tillaga sem var þarna samþykkt og vonandi er þetta mál Jóns Kristjánssonar með þessu dautt. Gott hjá Bergi Þorra.

David Cameron

Ég hef lengi velt vel fyrir mér breskri pólitík. Nú er komið að því að íhaldsmenn hefja kosningu innan þingflokksins um það hver eigi að leiða flokkinn á næstu árum. Rifkind hefur hætt við og eftir standa Cameron, Clarke, Davis og Fox. Allt eru þetta mætir menn sem vilja vinna vel fyrir íhaldsmenn og koma flokknum til valda. Á morgun ræðst það hver þeirra dettur fyrst út og á fimmtudag dettur annar út. Þingflokkurinn kýs tvo út og svo munu flokksmenn kjósa á milli þeirra tveggja sem komast í gegnum kosningu þingflokksins. 6. desember verður kjöri nýs leiðtoga lýst. Lengi vel hallaðist ég að Davis eða Fox í þessum slag. Hef aldrei verið mjög hrifinn af Clarke sem stjórnmálamanni. Nú þykir mér sem að stjarna David Cameron sé að rísa. Hann flutti alveg glimrandi ræðu á flokksþingi íhaldsmanna fyrr í mánuðinum og sannaði þar kraft sinn og afl. Talaði þar blaðlaust og af styrk um lykilmál og stefnu flokksins. Er ég kominn á þá skoðun nú að hann sé málið - hann eigi að leiða flokkinn inn í nýja tíma. Hann er aðeins 39 ára gamall og hefur það sem ég tel í slaginn. Ætla að vona að hann vinni þetta. Hallast að því að Clarke detti fyrstur og svo fari Davis eða Fox á fimmtudag, hallast að Fox.

Edda Heiðrún Backman

Í síðustu viku var, eins og ég fjallaði um þá, viðtal við Eddu Heiðrúnu Backman leikstjóra og leikkonu, í Kastljósi. Þar talaði Edda Heiðrún með næmum og fallegum hætti um baráttu lífs síns - gegn hrörnunarsjúkdómnum MND, sem nú hefur leitt til þess að hún hefur orðið að hætta leik, langt um aldur fram. Dáðist ég þar að túlkun Eddu Heiðrúnar og því hversu heilsteypt hún horfist í augu við örlög sín. Á sunnudagskvöldið var Edda Heiðrún viðmælandi Jóns Ársæls Þórðarsonar í Sjálfstæðu fólki. Það var svo tilfinninganæmt viðtal að ég komst eiginlega við að fylgjast með henni tala þar um veikindin og lífið. Hreint út sagt að þá dáist ég að Eddu Heiðrúnu - hún er sannkölluð hetja. Þeir sem eru að fjargviðrast yfir smávægilegum erfiðleikum og eru úrillir vegna smáatriða lífsins ættu að horfa á viðtalið við Eddu Heiðrúnu og horfa á þá miklu sómakonu ræða um örlög sín með þeim hætti sem þar kemur fram. Hvet alla til að horfa á þetta viðtal við Eddu Heiðrúnu - það gefur lífinu annan lit að horfa á Eddu tala um örlög sín og hvernig hún horfist í augu við þau.

Davíð Oddsson

Á föstudeginum átti ég notalegt spjall við Davíð Oddsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þakkaði hann mér og stjórn Varðar þar fyrir skeytið sem við sendum honum vegna starfsloka hans í stjórnmálum. Þótti mér vænt um vingjarnleg orð Davíðs í garð okkar og félagsins. Það er vægt til orða tekið að ég hafi dýrkað Davíð og flokkinn á þeim áratug sem ég hef verið flokksbundinn þar. Eiginlega mætti segja að ég hafi gengið í flokkinn vegna aðdáunar minnar á honum sem stjórnmálamanni og vegna þess að ég fann taug milli hugsjóna minna og sjálfstæðisstefnunnar. Annars á ég svosem ættir að rekja til flokksins. Afar mínir voru báðir miklir sjálfstæðismenn og kusu flokkinn alla tíð. Þeir mættu hinsvegar báðir á landsfund og fóru sínar leiðir en flokkinn kusu þeir alltaf og hikuðu ekki við að vaða eld og brennistein fyrir hann. Langafi var bæjarfulltrúi hér á Akureyri, svo tengslin í flokkinn eru til staðar og gott betur en það.

Saga dagsins
1755 Kötlugos hófst með miklum jarðskjálftum, eldingum, stórdynkjum, skruðningum, þoku, þykku sandmistri og eldsgangi. Talið er að þetta eldgos sé eitt mesta öskugos á sögulegum tíma í Kötlu.
1970 Anwar Sadat verður forseti Egyptalands - Sadat sat á valdastóli þar til hann var myrtur 1981.
1979 Móðir Teresa hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir ævistarf sitt að mannúðarmálum í heiminum.
1989 Jarðskjálfti skekur San Francisco og veldur miklum skemmdum - hann mældist 7 Richter-stig.
1998 Kista Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur forsetafrúar, kom til Íslands frá Seattle, þar sem hún hafði látist hinn 12. október. Stutt athöfn var á Keflavíkurflugvelli vegna þessa. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, minntist forsetafrúarinnar. Við athöfnina fór að snjóa og þótti það mjög táknrænt.

Snjallyrðið
Nú komin er kveðjustund okkar
og kossinn ég síðasta fæ.
En minningin merlar og lokkar
sú minning fer aldrei á glæ.
Innst í hjarta sem gull ég þig geymi
þú ert glóbjarta drottningin mín.
Þó árin til eilífðar streymi
fer aldrei burt minningin þín.
Kristján Ingólfsson (Kveðjustundin)

Undurfagurt ljóð Kristjáns Ingólfssonar við lag móðurbróður míns, Þorvaldar Friðrikssonar á Eskifirði. Valdi var snillingur í tónsmíðum, samdi listilega falleg lög sem geymast mjög vel í hjarta og huga. Kveðjustundin var hans fallegasta lag að mínu mati og vekur það alltaf upp minningar í huga mér. Texti Kristjáns er sannkallað snjallyrði.