Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 júní 2006

Haldið austur á bóginn

Sumarið

Er farinn í gott sumarleyfi - fyrst í stað austur á firði. Verður lítið uppfært hér á meðan - þeir sem vilja hafa samband á meðan geta bæði hringt og sent póst (fartölvan er með í för). mbk. SFS

Þrír bæjarstjórar á fjórum árum?

KÞJSBJHJT

Fyrir nokkrum misserum spurði einn góður félagi minn sem býr á höfuðborgarsvæðinu hvort að við værum að horfa fram á það að við værum með þrjá bæjarstjóra á Akureyri á kjörtímabilinu. Ég hugsaði mig um smástund og svaraði því til að aldrei yrðu þeir færri en tveir eins og staðan liti út þessa stundina - þegar væri ljóst að leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í kosningunum í vor fengju embætti bæjarstjóra. Hann spurði á móti af hverju að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefði afhent flokki sem hefði lokað á nær alla samningsmöguleika sína í stöðunni embætti bæjarstjóra og það aðeins í eitt ár. Við hefðum haft fleiri samningsmöguleika en þeir í stöðunni. Ég varð enn vandræðalegri við að tala fyrir þessu dæmi og sagði eitthvað á þá leiðina að þetta hefði verið sameiginlegur samningur flokkanna til verka.

Hann var engu nær og hélt áfram að spyrja um þennan undarlega samning. Næsta spurningin var hvort að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samið frá sér bæjarstjóraembættið til að losa um mál innan sinna veggja. Hann fann enga aðra skýringu á málinu. Ég sagði sem var að ég vissi ekkert um þá stöðu mála. Væri það niðurstaðan væri það eitthvað sem ég hefði ekkert heyrt um. Töluðum við lengi vel um þessa stöðu mála og varð spjallið lengri en ég hafði gert áður ráð fyrir. Þessi maður er einn þeirra sem kann að spila alla klæki viðskipta og lifir og hrærist alla daga í miður geðslegum fyrirtækjasamningum í bankakerfinu. Þeir sem lifa og hrærast þar í svo mikið sem einhver ár eru klókari en aðrir að lesa í undarlega samninga.

Sjálfur hef ég um nokkuð skeið undrast þennan bæjarstjórakapal hér og verið hugsi yfir honum. Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst það ekki stöðugleikatákn ef það á að vera þannig að þrír bæjarstjórar verði hér í sveitarfélaginu á fjórum árum. Ég gagnrýndi það í Reykjavík og kallaði það óstöðugleika og á ekki auðvelt með að verja slíkt hér. Það er ágætt ef maður þarf bankasamningamenn til að fá mann til að hugsa svosem. Ég skal viðurkenna þrátt fyrir allt það góða fólk sem við höfum í forystu að ég er lítt hrifinn af því að hér verði þrír bæjarstjórar á fjögurra ára kjörtímabili. Með því erum við að færa andstæðingum okkar of ódýr skotfæri að mínu mati.

En það er sjálfsagt að hugleiða þessi mál og í raun velta því fyrir okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það skilar mjög góðum pælingum sem eru í senn áhugaverðar og nauðsynlegar - fyrir okkur öll hér.

Fylgi Samfylkingarinnar hrynur

Ingibjörg Sólrún og Össur

Ný skoðanakönnun birtist í Fréttablaðinu í morgun á fylgi stjórnmálaflokkanna. Það er skemmst frá því að segja að könnunin boðar þau tíðindi helst að fylgi Samfylkingarinnar hefur hrunið á milli kannana. Það mælist nú aðeins rúm 24% - það er langt undir kjörfylgi vorið 2003 og hið allra minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu í skoðanakönnunum. Virðist flokkurinn vera á sömu leið og hann var í könnunum árin 2001 og 2002 þegar að hann mældist rétt yfir eða undir 20% fylgi. Neðst fór Samfylkingin þá í 13%. Merkilegast er að flokkurinn er nú aðeins með rétt rúmlega 10% meira en þá. Hlýtur þessi könnun að vera mikið reiðarslag fyrir Samfylkinguna. Flokknum hefur enda hvorki gengið lönd né strönd síðan að formannsskipti urðu innan flokksins á landsfundi vorið 2005.

Aðrir flokkar eru á góðri siglingu að því er virðist vera. Sjálfstæðisflokkurinn bætir talsvert við sig frá kosningunum og mælist með rúm 42%. Hefur flokkurinn styrkst greinilega í formannstíð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og blasir við að hann muni eflast mjög í kosningunum að ári. Forysta Geirs hefur verið traust og ábyrg og virðast landsmenn að kunna verklag hans. Framsóknarflokkurinn bætir við sig nokkru fylgi og fer yfir 10% aftur. Flokkurinn er þó nokkru frá því að endurheimta kjörfylgið frá árinu 2003. Verður fróðlegt að sjá hvort að yfirvofandi formannsskipti í flokknum hafi meiri áhrif en þetta. Greinilegt er að innkoma Jóns Sigurðssonar í stjórnmálin hefur styrkt Framsóknarflokkinn. VG fer vel yfir kjörfylgið 2003 og mælist nú með tæp 15% og Frjálslyndir eru aftur að rétta úr kútnum og mælast með tæp 6%.

Um þessar mundir eru rúmir 13 mánuðir liðnir síðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Sigraði hún þar svila sinn, Össur Skarphéðinsson, með nokkuð afgerandi hætti. Össur hafði leitt Samfylkinguna fyrstu fimm árin - sá tími hafði einkennst af sveiflum, bæði hafði flokkurinn farið upp og niður. Er hann lét af formennsku mældist flokkurinn þó með um 35% fylgi. Samt sem áður skoraði Ingibjörg Sólrún hann á hólm. Stefnt var að glæstum sigrum undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og glæsilegri uppsveiflu í kjölfar formannsskiptanna. Tók Ingibjörg Sólrún sæti Bryndísar Hlöðversdóttur á þingi þann 1. ágúst 2005 og síðan verið meira áberandi en ella. Við blasir hinsvegar nú að fylgi Samfylkingarinnar hefur minnkað sex mánuði í röð og stefnir í óefni - svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Fylgið er nú komið niður fyrir 25% og hefur fylgið minnkað um meira en 10% frá formannsskiptunum. Þetta er mikið afrek hjá Ingibjörgu Sólrúnu og sennilega mun glæsilegri árangur en andstæðingum Samfylkingarinnar óraði fyrir við formannskjör hennar. Um er að ræða lægsta fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum frá því í ágúst 2002. Þá náði flokkurinn botni eftir örlitla uppsveiflu. Leiddi talið þá til þess að talað var um mikilvægi þess að ISG færi í þingframboð. Svo fór að hún útilokaði þingframboð í september 2002, eins og hún hafði gert í kosningabaráttu til borgarstjórnar vorið 2002 og á kosninganótt eftir að ljóst varð að R-listanum hafði verið falin stjórn borgarinnar á kjörtímabilinu. Svo fór, eins og allir vita, að Ingibjörg Sólrún gekk á bak orða sinna og yfirlýsingarinnar frægu í september 2002 og fór í þingframboð.

Niðurstaðan varð sú að Samfylkingin sem hafði þá um haustið rétt úr kútnum undir forystu Össurar missti fylgi eftir innkomu hennar. Eins og allir vita varð Ingibjörg Sólrún að biðjast lausnar sem borgarstjóri vegna svika sinna við samherjanna innan R-listans. ISG var stimpluð sem forsætisráðherraefni í kosningunum. Flokkurinn bætti örlitlu við sig ? en stjórnin hélt velli og Ingibjörg Sólrún stóð utangarðs eftir allt tilstandið. Allir þekkja söguna af framhaldinu. ISG var varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi og undi sínum hlut mjög illa. Hún varð varaformaður Samfylkingarinnar síðla á árinu 2003 og tilkynni þá þegar formannsframboð á árinu 2005. Svo fór og eftirmálann þekkja allir enn betur en millisöguna. Flokkurinn hefur dalað um þessi rúmlega tíu prósentustig undir hennar stjórn. Forysta hennar hefur engri uppsveiflu skilað.

Það er skiljanlegt að vandræðagangur sé innan Samfylkingarinnar. Hann blasir við öllum sem fylgjast með stjórnmálum. Gott dæmi er að enginn þingmanna flokksins sem hefur heimasíður hefur ritað um fallandi gengi flokksins og "vonarstjörnunnar". Sennilega hlakkar í Össuri Skarphéðinssyni yfir stöðu mála, þó hann hafi auðvitað ekki tjáð það opinberlega. Það átti að koma honum frá og koma flokknum til einhverra áður óþekktra hæða en þess í stað fellur hann um mörg prósentustig við formannsskipti. Það sjá allir áhugamenn um stjórnmál að allt tal stuðningsmanna Össurar um stöðuna ef ISG yrði formaður hefur ræst.

Vissulega eru skoðanakannanir bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar. Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún heldur á forystukeflinu hjá þessum flokki. Henni virðast vera mislagðar hendur og hún er væntanlega nú á einhverjum krísufundum við að reyna að finna taktinn sinn í þessum efnum. Klúðrið hefur falist í stefnuflakki og vandræðalegu hjali um hitamál, tel ég.

Það er nefnilega oft þannig að fólk verður hlægilegt þegar að það reynir að elta allar vinsældakannanir. Þarna er væntanlega vandi Samfylkingarinnar. Nú virðist það vera svo að ISG verður að hætta að dekra við miðjuna og reyna að velja hvort fara eigi til vinstri eða hægri. En þetta er kostulegt klúður hjá ISG - sem skrifast á hana sjálfa, engan annan. Það er vandræðalegast fyrir hana sjálfa að reyna að skrifa vandræðin á aðra en sjálfa sig.

29 júní 2006

Áratugur frá forsetakjöri Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson

Í dag er áratugur liðinn frá forsetakosningum. Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. alþingismaður og fyrrum formaður Alþýðubandalagsins, var þá kjörinn forseti Íslands og sigraði þrjá keppinauta sína um embættið: þau Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómara, Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, og Ástþór Magnússon. Auk þeirra hafði Guðrún Pétursdóttir dósent, gefið kost á sér en hún dró sig út úr kosningabaráttunni tíu dögum fyrir kosningar, á kvenréttindadaginn 19. júní. Ólafur Ragnar vann nokkuð afgerandi sigur, en rúm 10% skildu að hann og Pétur sem hlaut næstflest atkvæði. Skammt undan kom Guðrún en Ástþór hlaut innan við 5% atkvæða. Ólafur Ragnar tók við embætti forseta Íslands af Vigdísi Finnbogadóttur við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu þann 1. ágúst 1996

Þegar að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti Íslands fyrir áratug var hann umdeildasti stjórnmálamaður landsins - óhætt er að segja að á þeim þrem áratugum sem stjórnmálaferill Ólafs Ragnars Grímssonar stóð hafi hann verið mjög umdeildur. Hann sat í miðstjórn Framsóknarflokksins 1967-1974 og í framkvæmdastjórn 1969-1973. Í upphafi áttunda áratugarins lenti Ólafur Ragnar upp á kant við forystu flokksins og hann stofnaði ásamt fleirum ungliðum í Framsóknarflokknum, samtök Möðruvellinga, sem voru til vinstri í flokknum. Ólafur Ragnar vildi kanna þann kost að sameina Framsóknarflokkinn og vinstri flokkana í einn flokk. Ólafur Jóhannesson sem á þeim tíma var forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins var andvígur þessum hugmyndum og Ólafur Ragnar yfirgaf flokkinn ásamt samherjum sínum með miklum hvelli. Hann gekk þá í flokk Hannibals Valdimarssonar, Samtök frjálslyndra og vinstri manna og var t.a.m. formaður framkvæmdastjórnar flokksins 1974-1976.

Árið 1976 gekk Ólafur Ragnar í Alþýðubandalagið. Hann sat í miðstjórn og framkvæmdastjórn flokksins frá árinu 1977 og var formaður hennar 1983-1987. Hann var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1980-1983, á valdatíma ríkisstjórnar Dr. Gunnars Thoroddsens. Ólafur Ragnar varð alþingismaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík árið 1978 og sat þar allt til ársins 1983 er hann féll af þingi eftir að hafa fallið í prófkjörsslag innan flokksins í borginni. Hann settist oft á þing á kjörtímabilinu 1983-1987, t.a.m. varð frægt þegar hann tók sæti á þingi í nóvembermánuði 1985 á þeim tíma er Hafskipsmálið stóð sem hæst og vöktu ummæli hans á þeim tíma mjög mikla athygli. Árið 1987 hafði Svavar Gestsson setið á formannsstóli í Alþýðubandalaginu í sjö ár og varð að hætta vegna reglna flokksins. Svavar og Ólafur Ragnar höfðu lengi eldað grátt silfur í flokknum og oft lent upp á kant við hvorn annan. Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram í formannskjörinu og mætti þar fulltrúa Svavarsarmsins í flokknum, Sigríði Stefánsdóttur bæjarfulltrúa flokksins á Akureyri.

Fóru leikar á þann veg að Ólafur Ragnar vann yfirburðarsigur í formannskosningunni. Fræg voru viðbrögð Hjörleifs Guttormssonar sem yfirgaf landsfundinn er úrslitin voru tilkynnt og hélt heim til að lesa Gunnlaðarsögu Svövu Jakobsdóttur. Vægt er til orða tekið að andstæðingar Ólafs hafi tekið úrslitunum illa. Fór svo að Svanfríður Jónasdóttir sem studdi Ólaf í formannskosningunni varð varaformaður flokksins. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk í loft upp með miklum hvelli í septembermánuði 1988 og við tók ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Ólafur Ragnar varð fjármálaráðherra í stjórninni (ráðherra utan þings) og með honum settust í hana svarnir andstæðingar hans innan flokksins, Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Ráðherraferill Ólafs Ragnars varð umdeildur og frægt varð t.a.m. þegar gert var grín af honum í áramótaskaupinu 1989 og hann færður í búning Skattmanns, en á því ári komst hann í fréttirnar vegna afskipta hans af skattamálum og hörkulegum innheimtuaðgerðum hjá fyrirtækjum.

Steingrímur J. Sigfússon felldi Svanfríði í varaformannskosningu á landsfundi flokksins 1989 og leyndist engum að það var Ólafi Ragnari mjög á móti skapi. Eftir þingkosningarnar 1991 tók við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokks og Ólafur Ragnar settist í stjórnarandstöðu. Hann sat á formannsstóli til ársins 1995 er hann varð að hætta vegna reglna flokksins. Ólafur Ragnar studdi Margréti Frímannsdóttur í formannskjöri á landsfundinum 1995 og fór svo að hún sigraði varaformanninn Steingrím J. Sigfússon naumlega. Kjörtímabilið 1995-1996 var Ólafur lítt sýnilegur á þingi og lét lítið á sér bera. Við setningu Alþingis, 2. október 1995, tilkynnti Vigdís Finnbogadóttir að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í forsetakosningunum 1996 eftir 16 ára setu á forsetastóli. Hófust þegar miklar bollaleggingar um mögulegan eftirmann hennar og fór svo fljótt að Ólafur Ragnar var nefndur sem mögulegur frambjóðandi í forsetakosningunum.

Lengi vel var rætt um þann möguleika að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, myndi gefa kost á sér í kosningum og lokaði Davíð ekki á þann möguleika í upphafi og svaraði engu þegar hann var spurður um mögulegt framboð. Guðrún Pétursdóttir varð fyrst til að gefa kost á sér og tilkynnti um framboð í janúarmánuði. Um miðjan marsmánuð tilkynnti Guðrún Agnarsdóttir læknir, framboð sitt. Þegar þarna var komið sögu var Ólafur Ragnar hvattur til framboðs af fólki um allt land og úr öllum flokkum. Fór svo að hann tilkynnti formlega um framboð sitt undir lok marsmánaðar með konu sína sér við hlið í stofunni heima hjá sér á Seltjarnarnesi. 9. apríl tilkynnti Davíð að hann myndi ekki gefa kost á sér í forsetakosningunum og tæpri viku síðar tilkynnti Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómari, um framboð sitt. Við lok framboðsfrestsins bættist svo Ástþór Magnússon í hóp frambjóðendanna. Kosningabaráttan varð hörð og þann 19. júní hætti Guðrún Pétursdóttir við framboð sitt vegna lítils fylgis í skoðanakönnunum eins og fyrr segir.

Kosningabaráttan náði hámarki nokkrum dögum fyrir kosningar er auglýsingar birtust í blöðum þar sem augljóslega var ráðist að Ólafi Ragnari. Meðframbjóðendur Ólafs neituðu að eiga þátt í birtingu auglýsinganna. Auglýsingarnar styrktu stöðu Ólafs til muna á lokasprettinum og hann vann samúð þjóðarinnar - auglýsingarnar höfðu því þveröfug áhrif frá því sem ætlað var af þeim sem auglýstu. Í kosningabaráttunni kom Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona Ólafs, mikið fram með manni sínum - í öllum auglýsingum og á öllum fundum kom Guðrún Katrín jafnt fram og Ólafur og er í raun ljóst að hún hafði mikil áhrif á úrslit kosninganna og var af mörgum talinn hinn sanni sigurvegari kosninganna; hún kom sá og sigraði. Það var hún sem gerði gæfumuninn og var stjarna þeirrar baráttu, hún ávann sér mikið persónufylgi og hún var hinn gullni miðpunktur í baráttu Ólafs, hún var í raun virt af öllum landsmönnum.

Eins og fyrr segir vann Ólafur Ragnar sannfærandi sigur í kosningunum - hann hafði leitt slaginn alla kosningabaráttuna og sigur hans aldrei í afgerandi hættu. Hann hlaut 41,4% fylgi á landsvísu. Fljótlega eftir embættistöku Ólafs Ragnars varð ljóst að hann og Guðrún Katrín myndu leitast við að ferðast um landið og verða áberandi í störfum sínum, á sama hátt og forveri Ólafs á forsetastóli. Í september 1997 kom reiðarslagið. Guðrún Katrín greindist með hvítblæði og varð að gangast undir lyfjameðferð gegn sjúkdómnum, og varð frá að hverfa. Í upphafi 1998 var talið að hún hefði náð yfirhöndinni í baráttunni við sjúkdóminn og hún fór að koma fram opinberlega á ný. Hún vann persónulegan sigur þegar hún hélt áfram störfum sínum eftir erfið veikindi. Í júní 1998 tók sjúkdómurinn sig upp á ný og héldu forsetahjónin til Bandaríkjanna þar sem Guðrún fór í mergskipti til að reyna að bjarga lífi hennar. Dvöldu Ólafur og dæturnar við hlið Guðrúnar þar til yfir lauk. Hún lést 12. október 1998, eftir hetjulega baráttu.

Við fráfall Guðrúnar Katrínar breyttist ásýnd forsetaembættisins og tóku dætur forsetans í fyrstu við hlutverki móður sinnar. Í september 1999 tilkynnti Ólafur Ragnar um samband sitt við breska hefðarfrú, Dorrit Moussaieff, og kom samband þeirra Íslendingum á óvart. Frægt varð þegar forsetinn féll af hestbaki og axlarbrotnaði í október 1999 í útreiðartúr með Dorrit og ljósmyndara DV sem myndaði reiðtúrinn. Birtust frægar myndir í DV af Dorrit stumrandi yfir forsetanum þar sem hann lá á kaldri jörðinni í kvöldsólinni þar sem beðið var eftir læknisaðstoð, og því þegar hann var fluttur með flugvél til Reykjavíkur. Í maí 2000 tilkynntu Ólafur og Dorrit um trúlofun sína og frá þeim tíma hefur Dorrit komið fram við hlið Ólafs af hálfu þjóðarinnar á innlendum og erlendum vettvangi. Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff gengu í hjónaband á Bessastöðum þann 14. maí 2003, á sextugsafmæli forsetans. Síðan hefur Dorrit verið stór hluti forsetaembættisins, rétt eins og Guðrún Katrín var meðan að hennar naut við.

Sú almenna sátt sem ríkti um Ólaf eftir kosningasigurinn hefur minnkað eftir því sem liðið hefur á forsetaferil hans. Ímynd forsetaembættisins farið sífellt niður á við. Kostnaður við forsetaembættið fer sífellt hækkandi og ekki bætir úr skák að Ólafur hefur gert forsetaembættið að hálfgerðum hégómleika þar sem hann er eins og haninn á haugnum ásamt sínu slekti. Ólafur Ragnar Grímsson var sem leiðtogi Alþýðubandalagsins maður sem barðist fyrir alþýðu manna með því að leggja fram stefnu um meiri jöfnuð í þjóðfélaginu. Hann var skrautlegur stjórnmálamaður sem með ósvífni sinni var erfiður andstæðingur en gekk mjög langt í því að ráðast á andstæðinga sína með fúkyrðum og ómálefnalegum skömmum eins og gengur um marga stjórnmálamenn. Með magnaðri ímyndarsmíð Einars Karls Haraldssonar og Gunnars Steins Pálssonar árið fyrir kosningar tókst að skapa honum nýja ímynd og hann virtist passa einstaklega vel við embættið.

Það er óhætt að fullyrða að staða forsetaembættisins hafi breyst nokkuð í forsetatíð Ólafs Ragnars. Í rúmlega 60 ára sögu lýðveldisins var embætti forseta Íslands lengst af táknmynd virðuleika í hugum Íslendinga. Forsetar Íslands stóðu jafnan vörð um að embættið héldi virðingu sinni og tign og það yrði ekki að daglegu bitbeini fjölmiðla. Sú var tíðin að embætti forseta Íslands var sameiningartákn þjóðarinnar og almenn virðing var fyrir hendi í garð embættisins og þess sem sat á forsetastóli. Á seinustu árum hefur þetta breyst til mikilla muna. Embættið er orðið að hversdagslegu bitbeini á almennum vettvangi. Virðingin sem áður einkenndi embætti þjóðhöfðingjans hefur minnkað stórlega. Eins og vel hefur verið bent á er það skoðun stórs hluta landsmanna að með ákvörðun sinni um að synja lagafrumvarpi staðfestingar í júní 2004 og ganga gegn þingræðinu hafi Ólafur breytt hlutverki embættisins.

Úrslit forsetakosninganna í júní 2004, þar sem Ólafur Ragnar keppti við Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon, endurspegluðu vilja almennings að tjá óánægju með fyrrnefnt embættisverk forseta Íslands. Þetta kom skýrast fram í því að rúmur fimmtungur þjóðarinnar mætti á kjörstað og skilaði auðu og tæp 40% kjósenda sat heima og greiddi ekki atkvæði. Fyrir þessu voru engin fordæmi í sögu kosninga á Íslandi. Auðu seðlana var enda vart hægt að túlka öðruvísi en sem óánægju með forsetann og þessa ákvörðun hans. Breytingin á forsetaembættinu sem blasti við öllum er úrslit seinustu forsetakosninga lágu fyrir, varð sitjandi forseta slíkt áhyggjuefni að hann reyndi að saka fjölmiðla um að hafa með fréttamennsku sinni reynt að grafa undan sér og beindi talinu frá aðalatriðum málsins: því að forsetaembættið er ekki lengur sameiningartákn þjóðarinnar og samstaðan um það að baki. Það dylst engum að óeining var um ákvörðun hans og hún skipti þjóðinni í fylkingar.

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hafi skoðanir á ákvörðunum forsetans, einkum í þessu máli þar sem þjóðhöfðinginn stuðlaði í fyrsta skipti í lýðveldissögunni að því að sundra þjóðinni og taka sér í hendur vald sem mjög er deilt um hvort sé til staðar og virkt í raun. Heyrst hafa raddir samhliða þessu máli, að óeðlilegt sé að fólk gagnrýni forsetann. Það fólk sem svo talar er ekki í takt við raunveruleikann eða meðvitað um þær breytingar sem Ólafur gert á embættinu. Eins og ég hef bent á gerði þessi ákvörðun forsetans og fleiri tilburðir hans til stjórnmálaþátttöku bæði hann og forsetaembættið berskjaldað með öllu fyrir gagnrýni og árásum beint. Það er allavega í hæsta máta óeðlilegt að vinstrifólk hafi sagt að allir ættu að virða ákvörðun Ólafs Ragnars og aðför hans að þingræðinu og áfram líta á embættið sem sameiningartákn.

Í rúmlega 60 ára sögu lýðveldisins hefur embætti forseta Íslands verið í mótun. Að mínu mati er fyrir löngu kominn tími til að stokka upp hlutverk embættisins og valdsvið þess. Endurskoðun á stjórnarskrá er í vinnslu núna undir verksviði nefndar um málið - sú vinna hefur m.a. vikið að því að endurskoða stjórnarskrárgreinar tengdar forsetaembættinu. Sú vinna var löngu tímabær. Hef ég lengi talað fyrir því að efni 26. greinarinnar verði stokkað upp og tryggt að forseti Íslands geti ekki synjað lögum staðfestingar sem réttkjörinn meirihluti þingsins hefur samþykkt með eðlilegum hætti. Miklu eðlilegra væri að setja í staðinn inn í stjórnarskrá greinar um að viss hluti þingmanna eða kosningabærra manna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og atburðir seinustu missera í sögu forsetaembættisins hafa sannað getur ekki gengið að einn maður taki þá ákvörðun.

Nú þegar að áratugur er liðinn frá kjöri Ólafs Ragnars Grímssonar blasir við nokkuð annað embætti þjóðhöfðingja íslenska lýðveldisins en var er hann tók við því. Það er orðið að hversdagslegu bitbeini slúðurblaða og slefberta. Það er allt annað lag á þessu embætti nú og var t.a.m. í forsetatíð Kristjáns Eldjárn og Vigdísar Finnbogadóttur. Virðingin er horfin - hvort hún kemur aftur skal ósagt látið. Ljóst er þó að hinn umdeildi vestfirski stjórnmálamaður hefur haft mikil áhrif á forsetaembættið í forsetatíð sinni og það verður aldrei samt aftur.

grein á vef SUS

28 júní 2006

Jón Sigurðsson gefur kost á sér til formennsku

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur gefið kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum. Jón tók sæti í ríkisstjórn fyrr í þessum mánuði er Halldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra, lét af embætti og vék úr ríkisstjórn eftir langan stjórnmálaferil. Jón er fyrsti utanþingsráðherrann frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra árin 1988-1991. Tíðindin um að Jón hafi áhuga á æðstu metorðum innan flokksins koma engum að óvörum. Greinilegt var allt frá óvæntri innkomu Jóns að þar væri kominn nýtt leiðtogaefni í flokknum - maður valinn til verka af Halldóri Ásgrímssyni og stuðningsmönnum hans. Greinilegt er enda að hann heldur í slaginn með stuðning Halldórs og Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, og þeirra sem næst þeim standa.

Jón Sigurðsson er reyndar árinu eldri en Halldór Ásgrímsson - hann verður sextugur síðar á árinu. Á móti kemur að hann hefur aldrei setið á þingi né verið í forystusveit flokksins. Hann getur því markað flokknum nýja forystu á nýjum grunni. Hann er ekki tengdur í innstu erjur flokksins og er ekki markaður af neinum átökum þar, sem hlýtur að teljast allnokkur kostur fyrir hann. Jón hefur alla tíð verið í innsta kjarna flokksins. Hann var ritstjóri Tímans og skólameistari Samvinnuskólans gamla á Bifröst - reyndar breytti hann honum í háskóla og markaði honum nýtt og spennandi upphaf sem við höfum séð vel seinustu árin. Hann var trúnaðarmaður margra forystumanna flokksins. Bæði Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson sóttu ráðleggingar til Jóns og hann hefur lengi verið áberandi í flokksstarfinu.

Athygli vekur hvernig að Jón Sigurðsson tilkynnir formannsframboð sitt. Það er í viðtali í Morgunblaðinu nú í dag. Oftast nær hefur það gerst hérlendis að formannsframboð sé tilkynnt í kastljósi ljósvakafjölmiðlanna. Það er greinilega ekki stíll Jóns Sigurðssonar að marka sér stöðu á sviðinu með þeim hætti. Látlaus yfirlýsing kemur á síðum blaðanna. Þetta er vissulega nokkuð merkilegt. En nú er hægt að segja með vissu að formannsslagurinn í Framsókn sé hafinn. Nú verður það að ráðast hvort að einhverjir halda í slag við Jón Sigurðsson. Greinilegt er að hann er fulltrúi Halldórsarms flokksins. Halldór markaði sér flotta fléttu eftir að fyrri flétta hans um Finn Ingólfsson var allt að því skotin niður í fjölmiðlum af Guðna Ágústssyni og staða mála virtist svífa í lausu lofti.

Halldór batt enda á óvissuna og allt að því innilokaði Guðna Ágústsson. Valgerður Sverrisdóttir, einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs, varð utanríkisráðherra og með því launuð öll tryggðin við Halldór. Stór tíðindi voru að hún fengi lykilráðuneyti stjórnarinnar. Á móti kom að Jón Sigurðsson var valinn til verka í mest áberandi innanríkisráðuneyti flokksins, þar sem eru viðskipta- og iðnaðarmál. Með því var Jóni mörkuð verkefni hér heima meðan að Valgerður verður meira fjarri en áður hefur verið. Þessi flétta gerði auðvitað ekki ráð fyrir Guðna, enda er greinilegt að armur fráfarandi formanns styður hann ekki til forystu nú. Allt er lagt undir Jón Sigurðsson eins og atburðarás seinustu tveggja vikna hefur kortlagt vel og nú hefur Jón hafið formannsbaráttu sína formlega.

Verði Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins, eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás í þessum mánuði blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það var mjög klókt af Halldóri Ásgrímssyni að velja Jón Sigurðsson til verka, enda hann engum tengdur í innri valdaátökum innan Framsóknarflokksins og getur boðað nýja tíma fyrir flokkinn í íslenskum stjórnmálum. Hann hefur tengingar til hins gamla Framsóknarflokks og getur fært þeim nýja forystu á mikilvægum tímum. Hann gæti orðið óumdeildur.

Það er öllum ljóst að innkoma Jóns Sigurðssonar í ráðherrahóp Framsóknarflokksins boðaði mikil tíðindi og það staðfestist með yfirlýsingu hans um formannsframboð. En um leið og menn hugsa um hvernig formaður Jón geti verið er ekki fjarri að hugsa um hvað Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins, er að pæla þessa dagana. Greinilegt er að fléttan fyrrnefnda lokaði hann inni og bjó til formannsefni. Sú flétta Halldórsarmsins er komin í framkvæmd svo um munar. Framundan eru spennandi tímar í Framsóknarflokknum gefi fleiri kost á sér. Athyglisvert er að sjá í viðtalinu við Jón í Mogganum hvaða orð hann velur væntanlegu formannskjöri.

Aðspurður segir hann: "Ég hef áður sagt opinberlega að ég tek að mér þau verkefni sem mér eru falin og í því felst að ég verð í kjöri á flokksþinginu. Reyndar eru allir flokksmenn í kjöri og eflaust munu fleiri stíga fram og gefa kost á sér en ég vona að það verði vinsamleg og heiðarleg barátta. Ég hef rætt þessi mál við marga flokksmenn að undanförnu og veit af því að það fólk sem sækir flokksþingið er lífsreynt og yfirvegað og mun taka sínar ákvarðanir eftir sinni bestu vitund." Svo mörg voru þau orð. Eins og allir hafa séð með innkomu Jóns er þar kominn maður sem lætur hefur ímynd pókerspilarans: er yfirvegaður og ákveðinn í senn. Kannski er það sú týpa sem flokkurinn þarf á að halda núna.

Framundan eru allavega spennandi tímar í Framsóknarflokknum og fróðleg atburðarás. Flestir bíða nú væntanlega eftir Guðna Ágústssyni, sem varla á marga aðra valkosti en að taka slaginn vilji hann verða í forystusveit stjórnmála áfram og marka sér sess í forystufléttu Framsóknar í kosningum að ári. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann nær vopnum sínum að nýju eftir greinilegan áfangasigur Halldórsarmsins í valdataflinu í kjölfar brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum.

27 júní 2006

Að loknum aðalfundi

Sjálfstæðisflokkurinn

Aðalfundur Varðar var haldinn í kvöld í Kaupangi. Á fundinum lét ég af formennsku í félaginu. Ég hef verið formaður Varðar nú í tvö ár. Það er að mínu mati hæfilegur og góður tími og kominn tími til að aðrir fái að spreyta sig á þeim verkefnum sem þar eru unnin. Er mér þakklæti í huga fyrir að vera treyst fyrir þessu verkefni í upphafi en þessi tvö ár mín á formannsstóli voru ár vinnu fyrir mig en ég tel að félagið hafi ekki verið litlaust á þessum tíma. Það hefur verið gaman að leiða félagið og kynnast með því annarri hlið á bæjarpólitíkinni hér.

Ragnar Sigurðsson, laganemi, var kjörinn formaður Varðar. Ég hef þekkt Ragnar til nokkurra ára og veit að þar fer heill og vandaður strákur sem er vinnusamur. Ég tel að félagið sé í góðum höndum undir hans stjórn. Með Ragnari í stjórn munu sitja á næsta starfsári: Gerald Häsler, Hanna Dögg Maronsdóttir, María H. Marinósdóttir, Sindri Alexandersson, Sigurjón Steinsson og Steinþór Þorsteinsson. Í varastjórn félagsins voru kjörin: Eva Einarsdóttir, Jóna Jónsdóttir og Sigurður Pétursson. Skoðunarmenn reikninga félagsins voru kjörnir ég og Bergur Þorri Benjamínsson og til vara er Sindri Guðjónsson.

Í upphafi aðalfundar flutti ég ræðu þar sem ég fór bæði yfir starfsárið og fleiri þætti tengda því. Ég kveð félagið sáttur við verkin og vona að þeim sem taki við farnist vel í því að tryggja öflugt og gott félag til verka á kosningavetri. Sjálfur ætla ég að halda í önnur verkefni innan flokksins og tel mjög gott fyrir mig að breyta til á þessum tímapunkti.

26 júní 2006

Kvikmyndir leikstjórans Woody Allen

Woody Allen

Í fjóra áratugi hefur verið deilt um það í heimi kvikmyndanna hvort að Allan Konigsberg, betur þekktur undir listamannsnafninu Woody Allen, sé góður kvikmyndagerðarmaður og leikari. Fáir deila þó um áhrif hans í kvikmyndamenningu 20. aldarinnar. Fáum tókst betur á öldinni að vekja athygli, jafnt vegna verka sína í geiranum og einkalífs síns. Þegar að ég tala við félaga mína á fræðilegum og mátulega háalvarlegum nótum um kvikmyndir kemur ansi fljótt að spurningunni: fílarðu Woody Allen? Þetta er klassaspurning, enda eru sérfræðingar og að ég tala ekki um sófaspekúlantar um kvikmyndir mjög á öndverðri skoðun um hversu góður Allen hefur verið á litríkum og stormasömum ferli sínum. Ég svara alltaf með þeim hætti að ég telji Allen með bestu kvikmyndagerðarmönnum seinustu áratuga. Hann hefur markað mikil áhrif og hefur allavega heillað mig með stíl sínum.

Seinustu vikur hafa kvikmyndir Woody Allen ein af annarri prýtt dagskrá Skjás eins á sunnudagskvöldum. Nú er yfirferðin komin að miðjum níunda áratugnum. Woody Allen er að segja má náttúrutalent í kvikmyndagerð. Hann hóf ungur að selja brandara sína í slúðurmáladálkana. Eftir að hafa í mörg ár samið brandara fyrir aðra uppistandara ákvað hann árið 1961 að hefja sinn eigin feril sem uppistandari í New York. Hann notaði feimni sína til að auka á húmorinn og markaði sinn eigin stíl. Hann kom fram með einnar línu brandara sína sem hittu beint í mark og hefur jafnan síðan orðið þekktur fyrir hnyttna brandara og skemmtileg tilsvör sín. Skópu þeir höfuðþættir þá frægð sem honum hlotnaðist í kjölfarið. Hann skrifaði sitt fyrsta kvikmyndahandrit árið 1965, What´s New Pussycat og lék sjálfur í myndinni. Það hlutverk gerði hann að stjörnu á einni nóttu. Eftirleikinn þekkja allir spekúlantar um kvikmyndir.

Allen hefur verið jafnvígur á gamanleik og tilfinningu í kvikmyndum. Þó að hann sé leiftrandi af húmor og léttleika (skemmtilega pirrandi léttleika) hefur hann snert í streng kvikmyndaunnenda. Til dæmis er ein af uppáhaldsmyndunum mínum ein af hans eðalmyndum. Kvikmyndin Annie Hall er ein af þeim allra bestu. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Bæði hlutu þau óskarinn fyrir hana, Allen fyrir leikstjórn sína og Keaton fyrir að leika hina svipmiklu Annie Hall. Myndin var forsmekkur þess sem hefur verið meginpunktur höfundaeinkenna Allens í kvikmyndum: full af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir.

Aðrar flottar myndir hans eru Manhattan (eftirminnileg súrsæt rómantísk kómedía sem sýnir New York í svarthvítum tón og undir hljómar tónlist Gershwin bræðra), Zelig (þessi mynd er gott dæmi um snilli Allens sem leikara en túlkun hans á Leonard Zelig varð hans besta á ferlinum), Broadway Danny Rose, The Purple Rose of Cairo (báðar myndir þar sem Mia Farrow sýnir einn besta leik ferils síns), Hannah and Her Sisters (þroskuð og notalega góð sem besta rauðvín), Crimes and Misdemeanors (flott blanda af glæpasögu og kómíker sem fléttast óaðfinnanlega og óvænt í blálokin), Husbands and Wives (gerð rétt fyrir fræg sambandsslit hans og Miu Farrow og sýnir í raun söguna af endalokum sambands þeirra með þeim sjálfum í aðalhlutverkunum - ógleymanlegt meistaraverk), Manhattan Murder Mystery (undurlétt glæpakómedía þar sem Allen og Keaton léku saman loksins aftur) og Bullets Over Broadway (undurljúf og heillandi - skemmtilega gamaldags).

Ég get talið upp endalaust þær myndir sem hafa heillað mig og Allen á heiðurinn af. Toppnum að mörgu leyti fannst mér hann ná árið 1996 þegar að hann setti upp söngleik í formi myndarinnar Everyone Says I Love You og fékk meira að segja leikara á borð við Alan Alda, Edward Norton og Goldie Hawn til að syngja og það bara ansi flott. Hápunkturinn var þegar að meira að segja leikstjórinn sjálfur tók lagið með snilldarbrag við undrun allra kvikmyndaunnenda en fram að því höfðu enda flestir talið hann með öllu laglausan. Allen er kómískur en undir yfirborðinu er hann talinn mjög fjarlægur og sjálfsgagnrýninn. Að margra mati er hann einmitt að leika sjálfan sig að svo mörgu leyti oft. Oft setur hann sig og aðstæður sínar í meginpuntk kvikmyndar. Bestu dæmin um þetta eru Annie Hall og Husbands and Wives. Hann hefur oftar en ekki sótt einmitt efni mynda sinna í eigið einkalíf og prívatkrísur tilverunnar sinnar, oftast nær með snilldarhætti.

Skilnaður Allens við leikkonuna Miu Farrow í upphafi tíunda áratugarins varð stormasamur. Þau voru eitt af lykilpörum kvikmyndaheimsins á níunda áratugnum og léku saman í um tíu kvikmyndum. Sambandinu lauk með hvelli árið 1992, skömmu áður en Husbands and Wives, sem með kostulegum hætti lýsti aðstæðum þeirra með þeim í aðalhlutverkum, var frumsýnd. Fjallaði hann ítarlega um sambandsslitin við Miu Farrow í sjálfsævisögu sinni The Unruly Life of Woody Allen sem er snilldarvel skrifuð og segir þar á athyglisverðan hátt frá þessu máli. Er þessi bók alveg mögnuð og gaman að lesa að hana, þar segir hann frá málaferlunum, skilnaðinum, fjölmiðlafárinu, persónu sinni og skoðunum á lífinu og tilverunni almennt.

Woody Allen er hiklaust einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna. Hann hefur gert heimaborg sína, New York, að umgjörð bestu kvikmynda sinna og sýnir henni mikla tryggð - svo fallega og undurljúft að athygli hefur vakið. Allen stendur framarlega í flokki helstu snillinga kvikmyndaheimsins á seinustu áratugum. Engum hefur sennilega tekist öðrum fremur að fanga athygli kvikmyndaunnenda, annaðhvort með því að heilla þá eða valda hneykslan þeirra og ná ennfremur fram því allra besta frá leikurum sínum, oftar en ekki hafa leikarar í myndum hans hlotið óskarsverðlaunatilnefningar. Hann er sannkallaður meistari kvikmyndaheimsins í byrjun nýrrar aldar.

Umfjöllun SFS um feril Woody Allen (2003)

George H. W. Bush kemur til Íslands

George H. W. Bush

Ef marka má fréttir nú síðdegis er George Herbert Walker Bush, 41. forseti Bandaríkjanna, að koma til Íslands í heimsókn dagana 4. - 7. júlí nk. í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. George H. W. Bush er 82 ára að aldri - hann var forseti Bandaríkjanna árin 1989-1993 og var eftirmaður Ronald Reagan á forsetastóli. Bush var varaforseti í forsetatíð Reagans árin 1981-1989. Hann varð fyrsti sitjandi varaforseti Bandaríkjanna í rúm 150 ár sem var kjörinn forseti og sá eini síðan reyndar. Hann kom í opinbera heimsókn til Íslands vorið 1983, þá sem varaforseti.

George H. W. Bush kom aldrei til Íslands í forsetatíð sinni. Frá því að Ronald Reagan kom hingað til lands á leiðtogafund stórveldanna haustið 1986 hefur aðeins einn kjörinn forseti Bandaríkjanna komið til landsins en það var Bill Clinton, sem kom hingað í eftirminnilega heimsókn í ágústmánuði 2004. Sú ferð var mjög merkileg fyrir margra hluta sakir, einkum vegna þess að Clinton lét allar ráðleggingar um mikla öryggisvernd sem vind um eyrun þjóta og labbaði um miðbæinn, fékk sér pylsu, fór í bókabúðir og handverksverslun svo fátt eitt sé nefnt. Sérstaklega kynnti hann sér sögu Þingvalla með ferð þangað. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áherslu Bush eldri leggur í ferð sinni.

Ef marka má fréttatilkynningu um komu hans mun hann ætla að sitja kvöldverðarborð forseta Íslands á Bessastöðum að kvöldi þjóðhátíðardags Bandaríkjanna þann 4. júlí og fara víða til að kynna sér land og þjóð. Með honum í för verða nokkrir vinir hans, þar á meðal Sig Rogich sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í forsetatíð hans. Bush hyggst sérstaklega ætla að halda til laxveiða í boði Orra Vigfússonar formanns Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF). Bush hefur lengi verið eindreginn stuðningsmaður stuðningsmaður slíkrar verndar.

Skemmtilegur dagur í Reykjanesbæ

Hluti hópsins í ferðinni

Á laugardag hittist stjórn og trúnaðarfólk Sambands ungra sjálfstæðismanna um allt land í Reykjanesbæ og átti saman góða stund. Stjórn Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, hafði skipulagt góða dagskrá fyrir gesti sína og var þetta mjög eftirminnilegur dagur fyrir þá sem voru í ferðinni. Dagurinn hófst með því að Árni Sigfússon, bæjarstjóri, tók á móti hópnum í Íþróttaakademíunni laust fyrir hádegi og kynnti fyrir honum stöðu sveitarfélagsins og styrka forystu flokksins þar, en Sjálfstæðisflokkurinn hlaut tæplega 60% atkvæða í kosningunum 27. maí sl.

Að því loknu var haldið með rútu um bæinn og að því loknu upp að varnarsvæðinu. Þar tók Pétur Guðmundsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, á móti hópnum og fór yfir það sem þar hefur farið fram seinustu áratugina. Var snæddur hádegisverður í höfuðstöðvum Íslenskra aðalverktaka á varnarsvæðinu og fór þá Pétur betur yfir meginþætti starfseminnar með góðri og ítarlegri kynningu. Nú eru aðeins örfáir mánuðir þar til að öll starfsemi Varnarliðsins hefur verið aflögð og því miklar breytingar framundan á svæðinu og velja þarf því bráðlega annað hlutverk.

Var athyglisvert að fara um svæðið, enda minnir það að mestu orðið á draugabæ, enda eru mjög fáir eftir þar. Fyrir þau okkar sem aldrei höfðu þarna komið var vissulega merkilegt að sjá loksins allan aðbúnað og starfsemi sem þarna er um að ræða. Svæðið er mjög umfangsmikið og hefði verið mjög áhugavert að sjá stöðu mála þarna þegar að mestu umsvifin voru þarna og einkum áður en flugstöð Leifs Eiríkssonar kom til sögunnar um miðjan níunda áratuginn. Nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um svæðið er Bandaríkjamenn halda á brott fyrir lok septembermánaðar.

Ég, Skúli og Erlingur

Að lokinni heimsókninni fór hópurinn í skoðunarferð í nýbyggingarhverfi í sveitarfélaginu. Ný og spennandi hverfi eru í byggingu og þar eru miklar framkvæmdir sem var áhugavert að kynna sér. Haldið var í höfuðstöðvar Hitaveitu Suðurnesja við Bláa Lónið að því loknu. Þar tók Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, á móti hópnum og kynnti honum starfsemina og hlutverk fyrirtækisins með mjög ítarlegum og áhugaverðum hætti. Var Bláa Lónið skoðað vel og var fundað í fundarsal í húsakynnum Bláa Lónsins.

Þar flutti Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi og varaþingmaður, okkur ræðu um kosningabaráttu flokksins í Reykjanesbæ. Enginn vafi leikur á þvi að kosningabaráttan í Reykjanesbæ var gríðarlega vel heppnuð og vel utan um allt haldið eins og við sáum á þeim gögnum sem heimamenn kynntu okkur. Þar var spilað á jákvæðni og ferskleika í allri kynningu og öllum ljóst að vel var unnið þar. Böðvar, sem sat í stjórn SUS í fjögur ár, fór ennfremur yfir stjórnmálaástandið almennt og urðu líflegar og góðar umræður að því loknu meðal viðstaddra. Þar bar auðvitað hæst brotthvarf Varnarliðsins, breytingar á ríkisstjórn og nýlegar kosningar.

Kl. 17:00 hófst móttaka í Listasafni Reykjanesbæjar og þar sýndu Heimismenn okkur skemmtilegar auglýsingar flokksins fyrir kosningarnar og þar var lífleg umræða um málin að því loknu yfir góðum veigum. Snæddum við kvöldverð að því loknu og að því loknu horfðum við fótboltaáhugamennirnir í hópnum á skemmtilegan leik Argentínu og Mexíkó í 16 liða úrslitum Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Þýskalandi. Var mikið skemmt sér yfir leiknum og mikið líf og fjör. Eins og flestir vita lauk þessum góða leik með sigri Argentínumanna. Að því loknu skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi.

Þetta var virkilega áhugaverður dagur sem við áttum saman í góðra vina hópi. Vil ég þakka stjórn Heimis, f.u.s. í Reykjanesbæ, fyrir góða og vel skipulagða dagskrá og höfðinglegar móttökur. Það var svo sannarlega gaman að hittast í Reykjanesbæ og njóta þeirrar dagskrár sem boðið var upp á.

23 júní 2006

SUS-dagur í Reykjanesbæ

Reykjanesbær

Á morgun verður SUS-dagur haldinn í Reykjanesbæ. Þar munu stjórn og trúnaðarmenn SUS um allt land hittast og eiga saman góða stund. Stjórn Heimis, f.u.s. í Reykjanesbæ, hefur skipulagt góða og vandaða dagskrá sem verður gaman að njóta. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, mun taka á móti hópnum við komuna til bæjarins. Mun Árni kynna okkur góða stöðu mála í bænum og þau umfangsmiklu verkefni sem í gangi eru nú í sveitarfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur í Reykjanesbæ þann 27. maí sl. og hlaut sjö bæjarfulltrúa kjörna af ellefu og tæp 60% atkvæða. Flokkurinn hefur verið í forystu Keflavíkur og Njarðvíkur og síðar Reykjanesbæjar allt frá árinu 1990 og verið í hreinum meirihluta þar frá árinu 2002. Óhætt er að segja að forysta Árna og flokksins hafi verið farsæl og segja úrslit kosninganna nú í vor allt sem segja þarf um stöðu flokksins í sveitarfélaginu.

Á SUS-deginum verður haldið á varnarsvæðið og kynnt sér stöðu mála þar, en eins og allir vita mun varnarliðið halda af landi brott fyrir lok septembermánaðar. Síðdegis verður fundað og farið yfir stjórnmálaástandið í kjölfar góðrar útkomu Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í vor og breytinga innan ríkisstjórnar, en nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins að nýju tekið við forsæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Verður ánægjulegt að hitta góða félaga í Reykjanesbæ nú um helgina - sérstaklega ánægjulegt er að hittast í Suðurkjördæmi. Flokkurinn vann glæsilega kosningasigra um allt kjördæmið og þar stendur vissulega upp úr fyrrnefndur kosningasigur í Reykjanesbæ.


Að lokum vil ég hér í dag óska Línu systur til hamingju með afmælið nú í dag. Hún er 37 ára í dag. Innilega til hamingju með daginn Lína mín. :)

Samkomulag næst um að tryggja stöðugleika

Geir H. Haarde

Skrifað var undir endurskoðaðan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í gærkvöldi. Þá lá fyrir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í skatta- og vinnumarkaðsmálum, sem kynnt var í ráðherrabústaðnum á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, kynntu ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og fóru yfir stöðu mála í Ráðherrabústaðnum ásamt Grétari Þorsteinssyni, forseta ASÍ, er samkomulag lá fyrir. Hæst ber að hækkun skattleysismarka er fengin með hækkun persónuafslátts um 3.000 krónur og með því að lækka tekjuskattinn um 1%. Þetta mun gerast næstu áramót.

Stefnt er að því að persónuafslátturinn verði endurskoðaður árlega eftir það og mun breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs. Aldursmark barnabóta mun verða hækkaður í 18 ár um næstu áramót og lög um vaxtabætur verða endurskoðuð ef í ljós kemur við álagningu að hærra fasteignamat skerði þær marktækt. Framlag til starfsmenntamála mun verða aukið og samstarf verður komið á um málefni útlendinga á vinnumarkaði. Samningur Samtaka atvinnulífsins og ASÍ felur í sér 15.000 króna taxtaviðauka auk 5,5% launaþróunartryggingu handa þeim sem starfað hafa hjá sama vinnuveitenda í eitt ár. Þetta tekur gildi um næstu mánaðamót og með þessu móti halda kjarasamningar út næsta ár.

Ríkisstjórnin tekur í yfirlýsingu sinni undir þau markmið sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa sett sér um hjöðnun verðbólgu. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar eins og fyrr segir um 3.000 krónur um áramót - með þessari hækkun og fyrrnefndri lækkun tekjuskatts hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79.000 kr. í 90.000 kr. á mánuði, eða um 14%. Eins og flestir vita var það eitt helsta kosningaloforð stjórnarflokkanna í alþingiskosningunum fyrir rúmum þrem árum að lækka tekjuskatt umtalsvert á kjörtímabilinu og það var ómað í stjórnarsáttmála endurmyndaðrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 2003 og hefur það verið meginstef í ríkisstjórnum undir forsæti Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á tímabilinu.

Það eru vissulega nokkur vonbrigði að næsta skref lækkunar tekjuskatts verði um 1% um næstu áramót í stað þeirrar 2% lækkunar sem áður var fyrirhuguð, þ.e. úr 23,75% í 22,75%. Á móti kemur að lækkunin, eitt prósent sem nemur 5,7 milljörðum, kemur fram í samkomulaginu með öðrum hætti í öðrum ákvörðunum í þessu samkomulagi milli ríkisstjórnar og verkalyðshreyfingarinnar. Svigrúm er ekki við þessar forsendur að ljúka fyrrnefndri prósentulækkun tekjuskatts en það hlýtur að verða forgangsmál ríkisstjórnarinnar er aðstæður hafa batnað. Það leikur enginn vafi á því að gríðarlega mikilvægt er að samkomulag hafi náðst og lending blasir við. Mest er um vert nú fyrir fólkið í landinu og fyrirtækin er að ná tökum á verðbólgunni - tryggja stöðugleikann á ný.

Það er mikilvægt að marka þetta samhenta skref þar sem allir aðilar taka höndum saman til að leggja verðbólguna að velli. Stjórnarandstaðan er fljót að semja nýja leikrullu til að tala sig frá þessu samkomulagi. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, út og suður um málin í viðtali við Gísla Einarsson. Þar sagði hún að aðilar vinnumarkaðarins hefðu tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og skapað stöðugleikann. Það er alltaf skondið að hlusta á forystumenn stjórnarandstöðunnar tala um þessi mál. VG ljær aldrei máls á skattalækkunum, svo allir vita hvar þeir eru staddir. Samfylkingin er sem fyrr stefnulaust rekald sem enginn treystir á, eins og skoðanakannanir og niðurstöður sveitarstjórnarkosninga sýna allvel.

Í gærkvöldi kynnti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þetta samkomulag í ítarlegu viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni í Kastljósi. Þar fór hann yfir stöðuna með góðum hætti og viðeigandi að benda lesendum á það viðtal. Eins og fyrr segir er hér um merkilegt samkomulag að ræða. Sumt er gleðiefni, annað er vonbrigði eins og gengur. Staðan er með þeim hætti að lykilatriði er að tryggja samkomulag til verka við aðila - fyrst og fremst skiptir máli að tryggja stöðugleika. Það er mitt mat að Geir H. Haarde og ríkisstjórn hans hafi stýrt málum farsællega með samkomulaginu og tryggt undirstöður þess að betur horfir nú en áður í stöðunni.

Það verður áhugavert að fylgjast með stöðu mála næstu vikurnar nú þegar að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur með öflugum hætti stýrt okkur leiðina að tryggum stöðugleika með ákvörðunum ríkisstjórnar sinnar.

grein á vef SUS

22 júní 2006

Bættur tölvukostur og eðalgóð ræma

Acer fartölva

Ég keypti mér í gær nýja fartölvu. Það er mikill merkisgripur að nafni Acer aspire - þetta er virkilega fín týpa og margir góðir nýjir fítusar í henni. Tekur mig alltaf nokkurn tíma að venjast nýrri tölvu - ég er það sem margir kalla venjulega gamaldags og þarf minn góða tíma til að aðlagast nýjum hlutum. Allavega líkar mér vel við gripinn og hún hefur marga góða kosti fyrir tölvufíkil eins og mig. Ég hef haft það orð á mér að geta ekki án tölvu verið til fjölda ára og það er alveg rétt. Þegar að ég keypti mér fyrstu tölvuna (fyrir alltof löngu síðan) heillaðist ég af tæknimöguleikunum og með hverri nýrri tölvu kemur alltaf eitthvað nýtt sem gaman er að kynna sér. Þessi tölva er kærkomin viðbót í safnið - verður fínt að nota hana.

Eftir miklar sviptingar í pólitíkinni hefur aftur róast yfir. Sjálfstæðisflokkurinn ræður loksins borg og ríki - vinstrimenn eru að jafna sig á valdamissi í borginni og framsóknarmenn eru að plotta bakvið tjöldin um framtíðarforystu flokksins. Það er komin örlítil gúrka í tíðindin núna eftir mörg stórtíðindi seinustu vikna. Það er ekkert sérlega áhugavert að velta sér upp úr málefnum Framsóknarflokksins þó að vissulega sé alltaf spennandi að spá í spil breytinganna. Framundan er hinsvegar heitur kosningavetur og býst ég fastlega við því að margt spennandi gerist þá, venju samkvæmt. Við sjálfstæðismenn getum haldið glaðir út í pólitíska sumarið. Eftir tólf ára hlé er sjálfstæðismaður loksins borgarstjóri og sýnist mér að meirihlutinn þar fari af stað af krafti og öryggi - ráðleysi R-listatímans er á bak og burt. Því fagnar allt skynsamt fólk í pólitík.

The Seven Year Itch

Seint í gærkvöldi settist ég niður og horfði á hina ógleymanlegu stórmynd The Seven Year Itch. Marilyn Monroe var aldrei flottari en þar - þetta var hápunktur ferilsins hennar. Ljóskan á efri hæðinni í fjölbýlishúsinu sem hún gerði algjörlega stórfenglega var hlutverkið sem hún festist reyndar einum of mikið í. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig. Marilyn var að mínu mati stórfengleg leikkona. Hún fékk aldrei þann sess sem alvöruleikkona sem hún hefði átt að hljóta. Hún lék reyndar ansi oft heimsku ljóskuna en hún sýndi og sannaði t.d. í Bus Stop að hún leikið dramatík frá a-ö. Í Seven Year Itch er hún lifandi fersk og þar er kómík eins og hún gerist best.

Billy Wilder var snillingur í kómíkinni og þessi mynd var bæði fersk og heillandi. Wilder tók nokkra áhættu með valinu á Marilyn en kynnti með henni til leiks framtíðarstjörnu, þessi ein þekktasta kynbomba og eilífðarljóska sögunnar sló umsvifalaust í gegn. Ógleymanleg eru mörg atriðin í myndinni, einkum er eftirminnilegt atriðið er kjóll Monroe lyftist upp í vindinum við lestarstöðina. Ég hafði gaman að rifja upp myndina og þeir sem unna kvikmyndum og sannri kómík hafa alltaf gaman af þessari. Ógleymanleg og heillandi mynd.

21 júní 2006

Hugleiðingar á sumarsólstöðum

Geir H. Haarde og Halldór Ásgrímsson

Sumarsólstöður eru í dag og um að ræða því lengsta dag ársins - birtan hefur yfirgnæft allt myrkur. Aðeins sól og gleði ríkja, þótt vissulega mætti hitinn vera meiri en raun ber vitni. Á þessum lengsta degi ársins fór ég út að Ólafsfjarðarmúla og horfði á fallegt útsýnið út Eyjafjörðinn. Það jafnast fátt á við að fara þangað og skoða það sem fyrir augu ber. Það er einhvern veginn heillandi og styrkjandi í senn að vera þar og hugsa málin. Ég hef fengið margar spurningar seinustu dagana frá vinum og ættingjum hvað taki nú við hjá mér þegar að ég læt af formennsku í Verði á aðalfundi í næstu viku. Ég segi öllum að ég sé að hugsa mig um. Það er hollt og gott að nota sumarið til að hugsa sig um hvað taki við. Mörgum finnst það ekki fyllilega gott svar, vita að ég hef áhuga á pólitík og vart verður staðar numið hér. Þeir vita eflaust vel að ég unni stjórnmálum.

Ég tók ákvörðun eftir að hafa hugsað mig lengi um að halda til móts við ný verkefni. Ég hafði leitt Vörð í tvö ár og setið um nokkurt skeið þar í stjórn og taldi rétt að söðla um og líta í aðrar áttir. Það er öllum hollt og gott að breyta til reglulega og horfa í aðrar áttir. Ég sagði hér á vefnum í byrjun mars að mér liði eins og manni á vegamótum. Það hefur ekki breyst. Ég tel að ég hafi tekið rétta ákvörðun og er sáttur við að halda á brott úr forystu ungliðafélagsins. Ég tel mig hafa unnið af heilindum og krafti fyrir þennan flokk í bænum og þá sem með mér hafa unnið - hef reynt að leggja mig allan fram og met mikils að hafa kynnst þeim sem með mér hafa verið í verkunum. Það er reynslusjóður sem ég met mikils að hafa upplifað og það er gott veganesti á vegamótunum. Einn sem ég talaði við spurði hvort ég væri að fara burt. Ég veit það satt best að segja ekki hvað tekur við: en það eitt veit ég að stjórnmál heilla mig og munu alltaf gera.

Ég ætla að ljúka minni síðustu skyldu fyrir félagið mitt sem formaður með því að flytja aðalfundi skýrslu stjórnar á þriðjudaginn og koma á framfæri hugleiðingum mínum við þessar breytingar fyrir mig. Að því loknu er komið að sumarleyfi. Þar gefst gott næði til að hugsa meira um stöðuna og njóta þess að sleikja sól og sumaryl. Strax á föstudag held ég reyndar í helgarferð til Reykjavíkur og nágrennis en á laugardag er SUS-dagur í Reykjanesbæ. Það verður mjög ánægjulegt að hitta þar sanna vini og kunningja - samstarfsmenn í SUS-starfinu. Líst mér vel á dagskrána sem þar er boðið upp á og hlakka til helgarinnar. Að þriðjudeginum loknum tekur því gott frí við. Líst mér vel á það og verður fínt að líta á tækifærin sem mér finnst vera til staðar víða og hugsa sig betur um þó að mörgu leyti sé ég viss um hvað ég vilji gera.

Ég hef mikið hugsað það sem af er sumri. Ég hef stundað mun meiri útivist seinustu vikur en mörg hin fyrri árin og lít öðrum augum á svo marga hluti. Ég er vissari um úr hverju ég er og hverju ég vil helga krafta mína. Á gönguferðunum í Kjarnaskógi er sem að maður hugsi öðruvísi en ella. Þar gefst manni næði út í náttúrunni og fær ró og næði af öðrum toga til að spá í spilin en ella væri. Ég vil taka undir með mætum manni sem sagðist hugsa best út í náttúrunni þar sem fegurðin ein ríkti og fuglasöngurinn einn væri ómandi. Það er nærri sanni - satt best að segja vil ég meina að ég sé annar maður nú en ég hef verið lengi og sé að líta á annað upphaf á ævinni minni. Það er svo sannarlega gleðiefni.

20 júní 2006

Spunarokkarnir eru þagnaðir

Geir H. Haarde og Halldór Ásgrímsson

Tæp vika er síðan að Halldór Ásgrímsson yfirgaf forsætisráðuneytið og vék úr kastljósi íslenskra stjórnmála eftir þriggja áratuga stjórnmálaferil. Löngum ferli hans sem forystumanns flokks síns innan ríkisstjórnar lauk þar með - enn er Halldór þó formaður Framsóknarflokksins og situr á þingi fyrir flokkinn. Því skeiði lýkur á flokksþingi Framsóknarflokksins í ágúst en hann mun víkja af þingi strax í kjölfar þess. Hann mun því ekki taka sæti á þingi í haust og mun Sæunn Stefánsdóttir fara inn á þing. Með brotthvarfi Halldórs af þingi verða því fimm konur í tólf manna þingflokki Framsóknarflokksins. Starfsaldursforseti þingsins frá og með því verður Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum ráðherra, en hún hefur nú verið á þingi samfleytt í 28 ár - hún kom inn á þing í vinstrisveiflunni sögufrægu árið 1978 sem feykti formanni Framsóknarflokksins í Stjórnarráðið merkilegt nokk. Jóhanna og Halldór sátu saman í ríkisstjórn í þrjú ár, í vinstristjórninni 1988-1991.

Geir H. Haarde hefur verið húsbóndi í Stjórnarráðinu í þessa tæpu viku. Loksins er formaður stærsta stjórnmálaflokks á þeim stað sem honum ber í íslenskum stjórnmálum. Við komuna í Stjórnarráðið mætti nýja forsætisráðherranum slitnir spunarokkar og bilaðir spilarokkar - það er enda hægt að fullyrða að lágt sé risið á spunasérfræðingunum sem eftir standa nú er Halldór yfirgefur forsætið. Spunamennska var eitt helsta meginstef forsætisráðherraferils Halldórs Ásgrímssonar. Hann sótti með mjög áberandi hætti í smiðju áróðurstengdra vinnubragða í stjórnmálum og leitaði að mestu til Bretlands í því skyni - horft var til þeirrar spunapólitíkur sem Tony Blair hefur staðið fyrir um nokkurt skeið. Óhætt er að fullyrða að Halldór hafi stjórnað með ólíkum hætti og forveri hans á formannsstóli, Steingrímur Hermannsson. Hann var enda ófeiminn við að gagnrýna Halldór meðan hann var í Stjórnarráðinu.

Í pólitík sinni þann tíma sem hann leiddi ríkisstjórn safnaði Halldór að sér liði fyrrum fréttamanna sem aðstoðarmanna og almennatengslaráðgjöfum innan flokksins og í ráðuneytinu. Almennt séð er einsdæmi hér á landi að forsætisráðherra hafi á sínum snærum á að skipa fjölda fyrrum fréttamanna í opinberu hlutverki sem málsvara flokksins og ráðuneytisins, bæði í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Með þessa menn innanborðs reyndi Halldór oft að spinna umræðuna og túlka með öðrum hætti og beina henni í aðra farvegi. Er upp komu stór mál voru sendir af örkinni spunameistararnir þrír, þeir sem voru virkir í netskrifum innan flokksins og voru málsvarar Halldórs víða. Spuninn teygði sig því allvíða. Þessi tengsl voru ný af nálinni óneitanlega á þessum vettvangi. Þessir spunasérfræðingar voru Björn Ingi Hrafnsson, Steingrímur Ólafsson og Pétur Gunnarsson - allt fréttamenn sóttir til verka hjá Halldóri.

Fátt er nú að segja af spunarokkunum þremur sem sóttir voru til að leiða Halldór leiðina til öndvegis. Tveir höfðu yfirgefið skútuna er forsætisráðherraferill Halldórs lauk og einn sat eftir og beið nýs húsbónda. Björn Ingi er nú orðinn háseti á skipi Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í borginni og hefur verið leiddur til nýrra verkefna í öndvegi borgarmálanna - ekki þarf hann frekar að hugsa um stjórnmálaferil Halldórs Ásgrímssonar. Honum tókst að komast inn í borginni með naumindum en er nú formaður tveggja stórra nefnda borgarinnar og formaður í borgarráði. Ný verkefni blasa því við honum. Fyrir nokkrum mánuðum hvarf Pétur Gunnarsson til verka á Fréttablaðinu og varð fréttastjóri á blaðaskútu Þorsteins Pálssonar og Kára Jónassonar. Eitthvað plagaði það frjálslynda þríeykið á þingi (æi þið munið þessa sem enginn tekur alvarlega). Nú stefnir hann á aðstoðarmannasæti utanþingsráðherrans sem Halldór valdi.

Eftir stendur Steingrímur S. Ólafsson sem lengi var fréttamaður á Stöð 2 og síðar húsbóndi á slúðursíðunni mögnuðu frettir.com. Hann var eftir því sem mér skilst enn á fullu í verkunum í Stjórnarráðinu þegar að pólitískur ferill Halldórs Ásgrímssonar geispaði golunni eftir langar annir svona rétt fyrir heyskapinn í sveitinni. Pólitíski spuninn sem hann spann fyrir Halldór Ásgrímsson með tvímenningunum endaði sem pólitísk sorgarsaga. Hann flæktist í spunanum uns engin undankomuleið var í stöðunni. Pólitíski spuninn varð svo sannarlega að örlagavef á vegferð þess stjórnmálamanns sem lengst hefur setið í ríkisstjórn síðan að meistari Bjarni Ben var í stjórnmálum. Eftir því sem mér skilst hefur Geir H. Haarde ekki áhuga á svona spunameistara og hefur afþakkað sér hann. Það var nú gott að heyra.

Það er varla biðröð eftir því að fá ráðleggingar frá svona spunarokkurum eftir að kunn urðu örlög forsætisráðherraferils Halldórs Ásgrímssonar. Þegar að manni verður hugsað til spunarokkanna (og þeirra nýju tíma sem blasa við Framsókn nú) sem voru einkennandi fyrir forsætisráðherraferil fráfarandi formanns Framsóknarflokksins er ekki fjarri því að hugurinn reiki til eins besta kvæðis meistarans frá Fagraskógi en það hljóðar svo:

Rokkarnir eru þagnaðir
og rökkrið orðið hljótt.
Signdu þig nú barnið mitt
og sofnaðu fljótt.

Signdu þig og láttu aftur
litlu augun þín
svo vetrarmyrkrið geti ekki
villt þér sýn.

Lullu lullu bía,
litla barnið mitt.
Bráðum kemur dagurinn
með blessað ljósið sitt.

Bráðum kemur dagurinn
með birtu og stundarfrið.
Þá skal mamma syngja
um sólskinið.

Vangaveltur um ævisögu Steingríms

Steingrímur Hermannsson

Ég hef lengi unnað góðum ævisögum og haft ástríðu á bókmenntum. Sú bókmenntaástríða er þó ekki bara bundin ævisögum. Ég er mikið fyrir safaríkar og góðar bækur - gæti semsagt alls ekki lifað án góðra bókmennta. Það er óhætt að segja að þessi mánuður hafi verið tími mikilla tíðinda innan Framsóknarflokksins. Halldór Ásgrímsson hefur enda boðað endalok stjórnmálaferils síns og hefur látið af ráðherraembætti eftir langa setu. Seinustu dagana hef ég verið að glugga aftur í ævisögur Steingríms Hermannssonar, forvera Halldórs á formannstóli Framsóknarflokksins. Það er á fáa stjórnmálamenn hallað þegar að fullyrt er að Steingrímur hafi verið einn helsti áhrifamaður íslenskra stjórnmála á níunda áratug 20. aldar, enda var hann forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991. Hann leiddi Framsóknarflokkinn samfellt í einn og hálfan áratug, árin 1979-1994. Aðeins faðir hans, Hermann Jónasson, leiddi lengur flokkinn.

Ég á öll þrjú bindi ævisögu Steingríms. Þær lýsa merkilegum manni sem var áberandi í stjórnmálum landsins til fjölda ára og í innsta hring mikilvægrar ákvarðanatöku um forystu landsins. Bækurnar voru ritaðar árin 1998-2000 af Degi B. Eggertssyni, síðar borgarfulltrúa og leiðtoga Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur. Það þóttu mikil tíðindi er Dagur B. var valinn til ævisöguritunar Steingríms, enda hann auðvitað aldrei við Framsóknarflokkinn kenndur. Hann er hinsvegar góðvinur Guðmundar, yngsta sonar Steingríms, en þeir voru saman í háskólapólitíkinni fyrir Röskvu fyrir rúmum áratug. Enginn vafi leikur á því að Steingrímur var mjög umdeildur sem stjórnmálamaður og mörg verk hans á hinu pólitíska sviði ennfremur. Hann var rétt eins og t.d. Davíð Oddsson iðulega vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins og hafði því vinsældum að fagna nokkuð út fyrir sinn flokk.

Ævisaga Steingríms er auðvitað nokkur veisla fyrir þá sem áhuga hafa á stjórnmálum. Í öðru bindinu er t.d. mjög athyglisvert að lesa söguna á bakvið stjórnarmyndun dr. Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980, en með henni var Sjálfstæðisflokkurinn klofinn og lítill hluti þingflokks hans í stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Fjallaði ég um þá sögulegu stjórnarmyndun og aðrar á forsetaferli dr. Kristjáns Eldjárns í ítarlegum pistli á vef SUS í nóvember 2005. Steingrímur sem formaður Framsóknarflokksins leiddi viðræður um þá stjórnarmyndun og var því aðalleikari í þeirri atburðarás. Fer hann yfir meginþætti þeirrar atburðarásar í öðru bindi og bendir þar á að Ólafur Jóhannesson, forveri hans á formannsstóli, hafi verið mikilvægur í þeirri stjórnarmyndun, en hann varð utanríkisráðherra í stjórn dr. Gunnars og hætti við forsetaframboð sitt, en hávær orðrómur var um að hann hyggði á forsetaframboð árið 1980.

Í þriðju og síðustu bók Steingríms er fjallað um forsætisráðherraárin hans, en þau voru auðvitað hápunkturinn á hans pólitíska ferli. Árin 1983-1991 var hann í mjög öflugri stöðu í stjórnmálum og í raun ráðandi forystumaður allan þann tíma og í raun lengur ef má segja, í rauninni allt frá formannskjöri sínu árið 1979. Þó að hann væri utanríkisráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988 var hann í lykilstöðu. Er stjórn Þorsteins sprakk haustið 1988 var hann í oddastöðu og myndaði þá vinstristjórn með A-flokkunum undir forsæti sínu. Hann missti valdastöðu sína að loknum kosningum 1991 og má í raun segja að hann hafi aldrei fundið sig í stjórnarandstöðu eftir að Davíð Oddsson og Jón Baldvin tóku höndum saman um stjórnarmyndun í Viðey að loknum kosningum 1991. Hann varð seðlabankastjóri í apríllok 1994 og baðst lausnar frá formennsku Framsóknarflokksins og vék af hinu pólitíska sviði.

Steingrímur rekur vel undir lok þriðja bindisins atburðarásina sem leiddi til þess að hann ákvað að hætta í stjórnmálum. Þar réði úrslitum óeiningin innan Framsóknarflokksins vegna EES-málsins í upphafi tíunda áratugarins. Þá klauf viss hluti flokksins sig frá skoðun Steingríms um að leggjast gegn EES-samningnum og sat hjá við kosninguna á þingi í janúar 1993. Áberandi andstaða við vilja Steingríms kom fram og eftir það var aðeins tímaspursmál hvenær að hann myndi hætta. Fram að því hafði Steingrímur verið nær óskoraður forystumaður allra framsóknarmanna og hann hlotið afgerandi umboð til formennsku á öllum flokksþingum. Greinilegt var ennfremur að Halldór Ásgrímsson var orðinn óþreyjufullur í biðinni eftir formennsku flokksins en hann hafði verið varaformaður frá 1980 og talinn krónprins flokksins. Hann leiddi þann arm sem var jákvæður fyrir því að EES-aðild yrði að veruleika.

Halldórsarmurinn hafði myndast fljótlega eftir kosningarnar 1991, enda töldu margir fylgismanna Halldórs hans tíma vera kominn og vildu að Steingrímur hliðraði til fyrir honum. Þessi armur var harðasti stuðningskjarni Halldórs og minnti á styrkleika sinn í átökunum um EES. Steingrímur lýsir þessum átökum innan þingflokksins með góðum hætti og bendir t.d. á að hann rétt naumlega tókst að hafa stærri fylkingu innan þingflokksins með sér í málinu. Honum fylgdu: Páll Pétursson, Guðni Ágústsson, Guðmundur Bjarnason, Ólafur Þ. Þórðarson, Jón Helgason og Stefán Guðmundsson. Með Halldóri voru Valgerður Sverrisdóttir, Finnur Ingólfsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Jón Kristjánsson og Ingibjörg Pálmadóttir. Það varð öllum ljóst í þessum málum að síðarnefndi hópurinn væri að taka yfir forystu flokksins. Það gerði hann með því að Steingrímur vék burt af sviðinu fljótlega eftir klofninginn um EES.

Valdahlutföll voru jöfnuð með þeim hætti að einn nánasti samstarfsmaður Steingríms, Guðmundur Bjarnason, varð varaformaður flokksins á flokksþingi haustið 1994 er Halldór var fyrsta sinni kjörinn formaður. Nánir samstarfsmenn Halldórs sem fyrr er lýst komust allir til valda og áhrifa innan flokksins og urðu öll ráðherrar af hálfu flokksins í formannstíð Halldórs, nema Jóhannes Geir, sem reyndar varð stjórnarformaður Landsvirkjunar. Valgerður Sverrisdóttir er nú sú eina eftir af þessum hópi sem enn er í ríkisstjórn en hún tók sæti Halldórs í lykilráðuneyti við brotthvarf hans síðar meir, en hún varð eins og kunnugt er utanríkisráðherra. Mörgum kom sú vegtylla hennar á óvart en ekki mér, ég hafði spáð því nokkru áður en hún var valin til starfsins að það yrði hún sem myndi taka sess Halldórs við brotthvarf hans. Það vekur mikla athygli nú að henni er augljóslega ætlað að leiða mál til formannsskipta.

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar fer hann yfir litríkan stjórnmálaferil - bæði hápunkta og lægri punktana á ferlinum. Merkilegast af öllu er að kynnast valdablokkum innan Framsóknarflokksins sem til urðu undir lok valdaferils Steingríms. Þær valdablokkir eru enn til í flokknum en með öðrum formerkjum. Nú þegar að þáttaskil blasa við Framsóknarflokknum í skugga brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum verður fróðlegt að sjá hvort að átök verði um leiðtogastól flokksins. Margir sjá formannstakta þessa dagana á Guðna Ágústssyni og margir vilja leiða Jón Sigurðsson, fyrsta utanþingsráðherrann í tvo áratugi, til æðstu metorða. Greinilegar blokkamyndanir má sjá í því að Steingrímur hefur opinberlega talið Guðna vænlegan til forystu, en hann studdi Steingrím mjög í öllu sem gekk á hjá honum, sérstaklega undir lokin í erjunum í ársbyrjun 1993.

Það var áhugavert að rifja upp kynnin af þessu æviminningum Steingríms Hermannssonar - sérstaklega þar sem lýst er hápunkti ferils hans með forsæti í ríkisstjórn og endalokum ferilsins í skugga innanflokksátaka um miðjan tíunda áratuginn. Með því má sjá valdablokkir sem til staðar eru. Merkilegt verður að sjá hvort þær gangi í endurnýjun lífdaga við formannskjör í Framsóknarflokknum eftir tvo mánuði þegar að valinn verður sá forystumaður sem leiða mun flokkinn í gegnum þingkosningar eftir ellefu mánuði - inn í nýja pólitíska tíma.

19 júní 2006

19. júní

Bleikt er litur dagsins - enda er kvenréttindadagurinn, 19. júní, í dag og þá skarta allir einhverju bleiku til að styðja jafnrétti í verki. Í dag er liðið 91 ár frá því að Kristján 10. konungur Danmerkur og Íslands, undirritaði lög sem veittu konum á Íslandi, eldri en 40 ára, rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þetta er því merkilegur dagur í sögu landsins og ekki síður merkilegur dagur í sögu jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Þá öðluðust íslenskar konur mikilvægt skref til jafnréttis. Kosningarétturinn er mikilvægasta verkfæri okkar til að tjá skoðanir okkar og ekki síður táknrænn til að hafa áhrif á gang mála. Með honum getum við haft áhrif á gang mála, sent ráðamönnum skýr skilaboð og tjáð okkar innri hug til mikilvægra mála. Það að íslenskar konur hafi ekki fengið kosningaréttinn fyrr en 19. júní 1915 er vissulega umhugsunarefni.

Það er vissulega blettur á sögu landsins að konur hafi fram að því verið þögull aðili að málum og ekki getað haft áhrif með kjörrétti í mikilvægum málum. Segja má með sanni að kvennafrídagurinn, 24. október 1975, hafi haft gríðarleg áhrif á baráttu kvenna til að hljóta fullt jafnrétti. Þá, á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, tóku íslenskar konur sér frí til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var haldinn fundur sem 25.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna að fullu og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982. Segja má einnig að fundurinn þá hafi leitt til þess að konur efldust til forystustarfa. Vigdís Finnbogadóttir gaf svo kost á sér til embættis forseta Íslands í ársbyrjun 1980 og náði kjöri.

Eins og allir vita varð Vigdís fyrst kvenna í heiminum til að vera kjörin þjóðhöfðingi lands síns í lýðræðislegum kosningum. Hennar framlag til jafnréttisbaráttu hefur verið ómetanlegt. Alla tíð hef ég borið mikla virðingu fyrir Vigdísi og framlagi hennar til bæði jafnréttismála og ekki síður sextán ára dyggri þjónustu sinni við landsmenn alla á forsetaferli sínum. Hún sýndi og sannaði hversu öflugt framlag kvenna til forystu landsins getur verið. Nýlega hefur Valgerður Sverrisdóttir orðið utanríkisráðherra, fyrst kvenna. Það er auðvitað mikilvægt skref í jafnréttisbaráttu kvenna að hafa náð í forystusæti ríkisstjórnar landsins.

Meðal allra helstu baráttumála kvenna í dag er launamunur kynjanna. Það er ólíðandi á okkar tímum að kynin fái ekki sömu laun fyrir sambærileg störf. Varla þarf að taka það fram nógu oft að mikilvægt er að taka á þessum launamuni. Ég vil í tilefni dagsins óska konum til hamingju á kvenréttindadeginum. Það er við hæfi að minnast hans. Framlag kvenna til samfélagsins er ómetanlegt og mikilvægt eins og fyrr segir að kynin standi jafnfætis. Annað er ekki líðandi á okkar dögum en að fullkomið jafnrétti sé með kynjunum.

Haldið á vit nýrra verkefna

Stjórn Varðar kom saman á fundi þann 14. júní sl. og ákvað þar að boða til aðalfundar félagsins þriðjudaginn 27. júní í Kaupangi. Ég hef tekið þá ákvörðun að ég ætla ekki að vera í kjöri á aðalfundinum og mun því láta af formennsku í Verði undir lok þessa mánaðar. Ég hef verið formaður þessa góða félags í tvö ár og ég tel það mjög hæfilegan og góðan tíma. Þegar litið er yfir formannatalið á vef félagsins er það almennt séð sögulega séð álitlega langur tími og mjög fáir sem hafa gegnt þessu embætti lengur en tvö ár. Það er eðlilegt að nú fái aðrir tækifæri til að fá að leiða þessi verkefni. Eins og allir vita sem sinnt hafa verkefnum af þessum toga er það stórt verkefni að leiða flokksfélag - það útheimtir vinnu og að hugsað sé um það eins og barnið sitt. Ég hef reynt mitt besta til að vinna verkin eins vel og mögulegt má vera.

Það er ljóst að félagið hefur verið öflugra seinustu tvö árin en mörg árin þar á undan. Jafnframt er gleðiefni að fleiri konur eru þátttakendur í stjórnarstörfum en var lengi vel þar áður. Ég ákvað hvert skyldi stefna nú hina seinustu daga en fyrirfram hafði ég í upphafi þess starfsárs sem senn er á enda hugsað innra með mér að vera í mesta lagi eitt ár enn og hætta við svo búið. Ég hef tekið þá ákvörðun að réttast sé að þessi breyting verði á núna. Það eru margir gleðilegir hápunktar í starfi félagsins á þessum tveim starfsárum. Við vorum auðvitað í kosningabaráttu nú undir lok formannsferilsins og ég tók þátt í þeim verkefnum sem mér fannst mikilvægust. Ég hef alltaf haft gaman af verkum í kosningabaráttu. Það er mjög áhugavert að vinna svona vinnu undir miklu álagi og svo mikið er víst að kosningabaráttan nú var mjög athyglisverð og ekki síður eftirmáli hennar.

Ég tel erfiðasta tímann þessi tvö ár hafa verið prófkjör flokksins í febrúarmánuði á þessu ári. Útkoma þess fyrir ungliða í Verði var sannkallað kjaftshögg og það leiddi til þess að ég hugleiddi mikið mína stöðu. Það var mikið umhugsunarefni auðvitað að flokksmenn hér treystu engum ungliða til að taka sæti ofarlega á lista og leiddi t.d. slakt gengi ungliða í prófkjörum fyrir þessar kosningar til þess að framboð ungliða kom fram undir merkjum O-listans. Þó að því hafi svosem ekki gengið eins vel og kannanir sýndu um tíma var alveg ljóst að tilkoma þess framboðs leiddi til þess að margir fóru að hugsa meira og betur um að ná til ungs fólks, sem var auðvitað gleðiefni. Mér fannst fulltrúar Framfylkingar sem buðu fram undir merkjum aldurs síns hugaðir og djarfir að halda í framboðið. Þó að þeir næðu ekki markmiðum sínum fannst mér þeir koma fram af ábyrgð og tala fyrir mikilvægi þess að ungt fólk fengi frama.

Eftir stendur auðvitað að ég taldi mjög dapurt að enginn ungliða skyldi fá gott umboð til að fara ofarlega á lista og ég tel að margir sjálfstæðismenn hér í bæ hafi séð það mjög vel er líða tók á kosningabaráttuna að það skaðaði framboðslistann að hafa ekki ungliða í vonarsæti - einu af sex efstu sætunum. Í topp tíu sætum var aðeins einn ungliði og sem dæmi má nefna að aðeins einn ungur karlmaður í Verði var á framboðslistanum. Heilt yfir var þessi atburðarás og staða mála almennt til þess að margir hugsuðu stöðuna enn betur en ella. Það var mjög ánægjulegt að svo fór. Ég fór í viðtöl vegna þessara mála og tjáði skoðanir mínar. Ég sá ekki eftir neinu í þeirri atburðarás allri og ég tel að margir séu mun meðvitaðri um það nú en áður að til þess að ná til ungra kjósenda þarf ungt fólk að vera áberandi. Eðlilegt er að við hugsum öll vel um stöðu mála og hvernig virkja skal ungt fólk til stjórnmálaforystu - það er lykilmarkmið allra flokka.

Á þessum tveim árum hef ég unnið í starfi SUS á landsvísu en ég hef verið í stjórn SUS lengur en ég hef verið formaður Varðar. Mun ég halda áfram af krafti í verkefnunum þar. Það er enginn vafi á því að sumarið 2005 var nokkuð erfiður tími fyrir mig. Á þessum tíma fyrir ári síðan tók stjórn Varðar þá ákvörðun að styðja Borgar Þór Einarsson til formennsku í SUS. Ég tók þá ákvörðun fyrir mig persónulega að styðja hann til verksins. Ég hafði kynnst Borgari Þór í fjölda verkefna og vissi að hann væri maður sem myndi leiða verkin af krafti og hefði áhuga á stjórnmálastörfum - hefði metnað að leiðarljósi fyrir SUS. Það gekk á ýmsu í aðdraganda SUS-þingsins í Stykkishólmi og væri áhugavert að fara yfir þá sögu alla í ítarlegu máli þegar vel stendur á. Það kemur að því fyrr en síðar. En ég tel alveg óhætt að fullyrða að mjög hafi nærri mér gengið í þeim darraðardans öllum. Jafnan hefur mér mislíkað mjög misklíð vissra fylkinga innan SUS.

En ég hef semsagt ákveðið nú að hætta í forystusveit ungliðafélags flokksins hér í bæ. Eftir stendur mikið þakklæti af minni hálfu til allra þeirra sem ég hef unnið með í ungliðahreyfingunni þessu ár sem ég hef þar verið í stjórn en ég hef eignast marga vini í gegnum öll þessi verkefni. Met ég mjög mikils að hafa fengið tækifæri til að vinna með þeim öllum. Í mörgum verkefnanna var líf og fjör aðalatriðið og við unnum samhent að því sem skiptir máli. Nú taka ný verkefni við. Ég hef alla tíð verið mjög pólitískur og unnað stjórnmálum mikils - þau hafa átt stóran hluta hjartans míns alla mína ævi. Það hefur verið mér bæði unun og ferskleiki að geta verið til staðar í verkefnum flokksins míns.

Svo verður áfram og nú taka við ný verkefni á stjórnmálabrautinni - það er alltaf gott að vera til staðar meðan að næg verkefni eru til staðar.

18 júní 2006

Áhugavert rit af Þjóðmálum

Nýlega kom út annað rit Þjóðmála á þessu ári. Þjóðmál hefur vakið athygli fyrir fróðlegar og góðar greinar sem fjalla um ýmislegt merkilegt, jafnt í stjórnmálum sem þjóðmálum. Las ég ritið um helgina af miklum áhuga og leist vel á - er óhætt að segja að vel hafi til tekist eins og ávallt áður. Á Jakob F. mikið hrós skilið fyrir að hafa hafið útgáfu þessa rits, en það er okkur hægrimönnum, sem og öðrum áhugamönnum um stjórnmál, mjög mikilvægt. Í þessu riti Þjóðmála standa upp úr vandaðar greinar um nýskipan öryggis- og varnarmála. Best af þeim er án nokkurs vafa grein Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, þar sem hann fer yfir sögu varnarsamningsins og lykilpunkta hans. Björn er vel að sér í utanríkis- og varnarmálum og mjög áhugavert einkum að kynna sér skoðun hans á því hvað taka eigi nú við í stöðunni í hinu breytta umhverfi.

Magnea Marinósdóttir skrifar eins og Björn magnaða samantekt um varnarmálin og fannst mér merkilegt að lesa hennar grein. Þar koma fram margar spennandi staðreyndir og punktar sem vert er að benda á og áhugavert að lesa. Guðbjörg H. Kolbeins skrifar í Þjóðmál mjög áhugaverða og fróðlega grein um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Hún fer þar yfir sviðið allt og stöðu fjölmiðla á þessum tímapunkti. Ég las greinina með miklum áhuga og komst þar bæði að nýjum og áhugaverðum punktum og varð betur meðvitaðri um það sem ég vissi fyrir. Þessi grein Guðbjargar ætti að vera sérstaklega spennandi fyrir alla þá sem áhuga hafa á fjölmiðlum og málefnum þeirra, einkum og sér í lagi á okkar tímum þar sem við öllum blasir að samþjöppun verður sífellt meiri og augljósari.

Útrásin er og verður spennandi umfjöllunarefni á okkar tímum. Í Þjóðmálum að þessu sinni fjallar Stefán Sigurðsson um útrásina og ásýnd íslensks efnahagslífsins erlendis. Ennfremur er fróðleg úttekt Gunnars Haraldssonar um skýrslur hinna erlendu greiningarfyrirtækja og viðbrögð íslenskra fjölmiðla við þeim nú seinustu vikurnar. Sérstaklega er svo áhugavert að lesa grein Atla Harðarsonar sem ber heitið Verðmæti, náttúruspjöll og flótti frá veruleikanum. Gunnar Þór Bjarnason er svo með athyglisvert innlegg og góða grein um Ísland og Ísrael. Ekki má svo gleyma áhugaverðri grein Ragnhildar Kolku um þjóðnýtingu barnauppeldis.

Síðast en ekki síst má benda á góðan ritstjórnarpistil Jakobs F. Ásgeirssonar og skemmtilegar bókmenntapælingar undir lok ritsins. Mér finnst það jafnan veisla þegar að Þjóðmál berst inn um lúguna hjá mér og les blaðið algjörlega upp til agna fljótlega eftir komuna. Ég vil óska höfundum efnis og útgefanda til hamingju með gott rit af Þjóðmálum og hlakka til að lesa það næsta og kynna mér bæði áhugaverðar og íhugular skoðanir þeirra sem rita.

Um Chaplin og þögla meistaraverkið

Sir Charlie Chaplin og Jackie Coogan í The Kid

Sir Charlie Chaplin var eitt af stórmennum kvikmyndasögunnar á 20. öld. Látlaus en tilþrifamikill látbragðsleikur hans gerði hann að stórstjörnu og hann skipaði sér í sess með stærstu kvikmyndastjörnum þöglu myndanna. Síðar varð hann áhrifamikil stjarna í talmyndunum og markaði sér sess á nýjum forsendum. Ég á allar kvikmyndir Chaplins og hef unnað þeim öllum allt frá því að ég mat kvikmyndir sem þá miklu og ómetanlegu listgrein sem hún er. Að mínu mati er Chaplin sá leikari þöglu myndanna sem best náði að gera talmyndirnar að sínu listformi. Það var ekki öllum leikurum þögla tímans gefið að ná inn í nýtt form og gera það að því listformi sem við ætti fyrir þá. Það gat Chaplin og hann gat framlengt vinsældir sínar og áhrif innan kvikmyndaheimsins með því. Af því leiðir auðvitað að kvikmyndaverk hans fyrir og eftir lok þögla tímans eru ómetanleg stórvirki kvikmyndasögunnar.

Chaplin kom til sögunnar í kvikmyndum sem hinn þögli flækingur sem lenti í röð tilvika sem hann réði ekki við en tókst á hendur. Bestu kvikmyndir ferilsins eru þær fyrstu að mínu mati. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig þessi frábæri leikari talar til áhorfandans án orða og með látbragði. Best kemur þetta fram í kvikmyndunum City Lights, Gold Rush og The Kid. Allar eru þessar myndir gulls ígildi í kvikmyndasögunni og mörkuðu stöðu Charlie Chaplin sem leikara og frægð hans. Best þessara hefur mér jafnan þótt The Kid. Það er eitthvað við látleysi hennar sem heillar mig alltaf. Fyrir nokkrum árum keypti ég The Kid á DVD - með fylgdi ómetanlegt aukaefni og tónlistin sem Chaplin samdi árið 1971 og er ómetanleg viðbót við myndina. Chaplin var mjög liðtækur í að semja tónlist við myndir sínar síðar meir og hafa mörg kvikmyndatónverk hans hlotið mikla frægð.

Lagið Smile er sennilega hans besta tónsmíð. Það er lag sem algjörlega heillar alla sem heyrir. Það heyrðist fyrst í kvikmyndinni Modern Times árið 1936. Af kvikmyndatónunum er auðvitað tónlistin í The Kid algjörlega í sérflokki. Það er reyndar með ólíkindum að myndin hafi án tónlistarinnar verið í allan þennan tíma. Það er öllum ljóst að The Kid færði Chaplin frægðina. Hún er fyrsta stórmyndin hans. Í stuttu máli sagt segir myndin söguna af flækingnum sem fyrir tilviljun finnur kornabarn á víðavangi en það hefur orðið viðskila við móður sína. Hann fóstrar barnið sem sitt eigið væri en að því kemur að leiðir hans og móðurinnar liggja saman. Það er erfitt að lýsa þessari sögu með einfaldleika þó ekki eitt einasta orð sé sagt í myndinni. Það er einn sterkasti hlekkur myndarinnar að sjá samleik Chaplin og Jackie Coogan, sem fara á kostum. Coogan átti leik ferilsins sem strákurinn en andstæðurnar á hans ferli voru miklar og lék hann undir lok ferilsins Fester frænda í Addams-fjölskyldunni.

Það var notalegt seint að kvöldi 17. júní að rifja upp kynnin af þessum Chaplin-kvikmyndagullmola. Þessi mynd er og verður ein þeirra bestu í kvikmyndasögu 20. aldarinnar. Í senn markaði hún upphaf frægðarferils Charlie Chaplin og sýnir okkur að flóknar sögur þarf ekki að segja með orðum. Þær geta lýst sig sjálfar algjörlega með látbragðsleiknum einum saman. Ég hef lengi stúderað feril og ævi Chaplins, sem lést þrem dögum eftir fæðingu mína, á jóladag 1977. Það er öllum ljóst sem kynna sér hann að ævi hans var vafin undarlegum blæ og persónan var mörgum hulin til fulls. Það þarf að mínu mati að lesa ævisögu hans og kynna sér líf leikarans á bakvið tjöldin til að skilja persónuna til fulls. Hann var enn flóknari karakter en flækingurinn sem hann lék svo oft með glans.

En ekki verður af honum tekið að hann var snillingur í kvikmyndageiranum og án vafa er The Kid ein af þeim kvikmyndum sem stendur helst vörð um arfleifð hans í bransanum. Í raun snertir hún hjartað mitt alltaf þegar að ég sé hana - þannig að það er öllum gott að sjá hana reglulega. Hvet alla til að sjá hana hafi þeir kost á því.

17 júní 2006

Gleðilega þjóðhátíð

Íslenski fáninn

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáldkona (1881-1946)

15 júní 2006

Halldór hættir - ný ríkisstjórn tekur við

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum laust eftir hádegið. Þar kvöddu þrír ráðherrar ríkisstjórn landsins og í staðinn komu aðrir þrír sem aldrei áður hafa verið í ríkisstjórn. Á fundinum lét Halldór Ásgrímsson af forsætisráðherraembætti. Brotthvarf hans úr ríkisstjórn markar endalok stjórnmálaferils hans en hann hefur nú verið í ríkisstjórn samtals í rúm 19 ár og hefur aðeins dr. Bjarni Benediktsson verið lengur ráðherra en hann. Það eru vissulega þáttaskil þegar að Halldór hverfur úr ríkisstjórn, enda hefur hann verið ein helsta burðarás þessarar ríkisstjórnar sem annar flokksleiðtoginn sem myndaði fyrsta ráðuneyti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar árið 1995. Samstarf flokkanna hefur verið mjög traust og leikur enginn vafi á því að sterk pólitísk tengsl Halldórs og Davíðs mörkuðu undirstöðu vel heppnaðs samstarfs.

Nú eru bæði Davíð og Halldór horfnir á braut úr ríkisstjórn og nokkur þáttaskil blasa nú sérstaklega við í skugga formannsskipta í Framsóknarflokknum. Nú er það nýrra forystumanna að stjórna samstarfinu og leikur enginn vafi á því að Geir er vel að forsætinu kominn, enda hefur hann nú verið ráðherra samtals í heil átta ár og nýtur bæði mikilla vinsælda og trausts landsmanna. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er nú orðinn starfsaldursforsetinn í ríkisstjórninni en hann er eini ráðherrann frá upphafsári núverandi samstarfs, árið 1995, sem er enn í ríkisstjórn. Hann var menntamálaráðherra 1995-2002 en kom aftur í stjórnina að loknu rúmlega árshléi og þá sem dómsmálaráðherra. Næstlengst hefur setið Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Allnokkrar mannabreytingar hafa orðið á kjörtímabilinu en það helgast auðvitað verulega af því að margir ráðherranna hafa ákveðið að hætta þátttöku í stjórnmálum, flestir þeirra eftir langan stjórnmálaferil.

Engar breytingar verða nú hjá okkur sjálfstæðismönnum á ráðherraliði, utan þess að Sigríður Anna hættir eins og flestir vita. Inn koma Magnús Stefánsson, Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz. Magnús er vel kominn að því að verða félagsmálaráðherra - hann var lengi sveitarstjórnarmaður og hefur verið þingmaður nær samfellt frá árinu 1995. Hann var reyndar utan þings 1999-2001 en kom inn við brotthvarf Ingibjargar Pálmadóttur úr stjórnmálum. Hann er leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Jónína Bjartmarz hefur verið á þingi frá því að Finnur Ingólfsson hætti í stjórnmálum og varð seðlabankastjóri við árslok 1999. Hún hefur lengi verið talin vænlegt ráðherraefni og oft verið spáð að hún komi inn í stjórn. Jón Sigurðsson tekur svo sæti í ríkisstjórn og verður fimmti ráðherrann frá fullveldisstofnun sem ekki er þingmaður samhliða því.

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde

Stærstu tíðindi þessa ráðherrakapals tengjast einmitt Jóni Sigurðssyni og svo auðvitað Valgerði Sverrisdóttur. Jón kemur inn í stjórn við merkilegar aðstæður. Mikið er talað um, eins og ég minntist á hér fyrr í vikunni, að hann verði eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli. Það verður allavega að teljast klókt fyrir Halldór að velja Jón til ráðherrastarfa - bæði er hann tengdur innstu kjörnum flokksins bæði fyrr og nú og hefur ólíka skírskotun og margir þingmenn flokksins. Hann er ekki tengdur neinum innanflokkserjum og er vissulega mjög traustur maður og fer í verkefni síns ráðuneytis í skugga mikilla átaka um stórmál. Það mun mikið reyna á hann og vissulega verður mjög fylgst með honum í sínum verkum, enda er hann ráðherra utan þings og hefur því bæði allt aðra stöðu en ella. Verði hann formaður síns flokks mun hann fá aðra vigt en ella í pólitísku samhengi. Það verður því mikið fylgst með verkum Jóns á ráðherrastóli.

Valgerður Sverrisdóttir er nú orðin fyrsta konan á utanríkisráðherrastóli. Hún er fyrsta konan í sögu landsins sem situr við borðsendann, nær forsetanum, á ríkisráðsfundi. Hennar staða er því söguleg og vert að óska henni til hamingju til það. Mörgum er þó sennilega spurn um hvernig utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir muni verða. Hún er mun Evrópusinnaðri en tveir forvera sinna og hefur ekki útilokað aðildarviðræður og talaði sérstaklega opinskátt í þeim efnum á flokksþingi Framsóknarflokksins í ársbyrjun 2005 og studdi umdeilda tillögu þar um að flokkurinn hefði ESB-aðild sem stefnu að loknu þessu kjörtímabili. Valgerður mun ekki verða áberandi í varnarviðræðunum eins og fram hefur komið og fylgja þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra, áfram. Valgerður hefur jafnan þótt vera ákveðin og það gustar af henni. Það verður vissulega merkilegt að sjá hvernig henni muni vegna í ráðuneyti og hverjar áherslur hennar verða.

Eins og fyrr segir verða að mínu mati allnokkur þáttaskil núna þegar að Halldór Ásgrímsson víkur af ráðherrastóli og úr hringiðu íslenskra stjórnmála, enda hefur hann verið í forystusveit lengur en ég man eftir mér. Hann varð fyrst ráðherra árið 1983 og hefur verið formaður eða varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980. Að baki er því langur stjórnmálaferill. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og á að baki meira en þriggja áratuga þingsetu. Íslendingar, sem standa á þrítugsaldri eða eru yngri, muna ekki eftir íslenskum stjórnmálum án Halldórs Ásgrímssonar. Það er því alveg ljóst að nokkur þáttaskil blasa nú við þegar að hann hverfur úr sviðsljósi stjórnmála. Það er alveg greinilegt af fréttaviðtölum dagsins að Halldór og Sigurjóna, eiginkona hans, hlakka mjög til að geta lifað sínu lífi án stjórnmálanna. Í góðu viðtali á NFS í dag talaði Sigurjóna um þessar breytingar og mátti greina að hún væri alsæl með þessa stöðu mála.

Halldór Ásgrímsson

Það mátti greina mikinn létti á Halldóri Ásgrímssyni í dag er hann hætti sem ráðherra. Það er langt síðan að hann hefur verið eins glaður og hress að mínu mati. Það var sem þungu fargi af honum létt. Hvernig svo sem sagan mun meta forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar er það hiklaust mitt mat að stjórnmálaferill hans hafi bæði verið langur og glæsilegur - hann var í forystusveit lengi og leiddi mörg umdeild mál til lykta og lagði meginhluta ævistarfs síns í íslensk stjórnmál. Ég vil óska Halldóri og fjölskyldu hans heilla á þessum þáttaskilum í ævi hans og vona að honum muni vegna vel á þeim vettvangi sem hann velur sér nú við lok stjórnmálaferilsins. Hann er einn af litríkustu stjórnmálamönnum landsins seinustu áratugina.

Hnossgæti kvikmyndasögunnar

Bogie og Bergman í Casablanca

Á plássinu mínu á Myspace var ég að skrifa niður uppáhaldskvikmyndirnar mínar. Ég er forfallinn kvikmyndaáhugamaður og fór að rita þær helstu - listinn varð auðvitað alltof langur. Allar eiga þessar myndir sameiginlegt að ég á þær og hef alltaf gaman af. Þetta eru algjörar perlur - þeir sem eitthvað þekkja mig sennilega vita að ég er sérstaklega hrifinn af gullaldarmyndum sögunnar. Þetta eru myndir af öllum skeiðum, þó að hinar eldri njóti sín frekar sennilega. Læt listann hérmeð gossa á bloggið mitt.

The African Queen, All About Eve, Annie Hall, Apocalypse Now, Ben-Hur, The Big Sleep, Bonnie And Clyde, The Bridge On The River Kwai, Casablanca, Chinatown, Vertigo, Citizen Kane, City Lights, Dr. Strangelove, E.T., Easy Rider, The Godfather I og II, The Gold Rush, Breakfast at Tiffany´s, Gone With The Wind, The Graduate, The Grapes of Wrath, High Noon, It Happened One Night, Jaws, The Kid, Lawrence of Arabia, The Maltese Falcon, Midnight Cowboy, Mr. Smith Goes to Washington, North By Northwest, Notorious, On The Waterfront, One Flew Over The Cuckoo's Nest, Psycho, Raging Bull, Rear Window, Rebecca, Fight Club, Kill Bill I og II, Rebel Without a Cause, Roman Holiday, Schindler's List, Shane, Singin' In The Rain

Some Like It Hot, The Seven Year Itch, Stagecoach, Star Wars (pakkinn), A Streetcar Named Desire, Sunset Boulevard, Taxi Driver, To Kill A Mockingbird, Top Hat, 2001: A Space Odyssey, Vertigo, West Side Story, The Wizard of Oz, Alien, Lord of the Rings (pakkinn), The Apartment, Mystic River, The Deer Hunter, Fargo, The French Connection, From Here to Eternity, GoodFellas, The Hustler, Manhattan, Network, Pulp Fiction, The Silence of the Lambs, To Be or Not to Be, Lost in Translation, The Usual Suspects, La Vita é Bella, The Insider, Shawshank Redemption, American Beauty, Airplane!, American History X, All the King's Men, Crouching Tiger - Hidden Dragon, The Sixth Sense

JFK, Born on the Fourth of July, Crimes and Misdemeanors, Hannah and her Sisters, Five Easy Pieces, Missing, Forrest Gump, All the President´s Men, Braveheart, As Good as it Gets, Pink Panther (pakkinn), Giant, East of Eden, The Pianist, Il Postino, Casino, The Great Dictator, Key Largo, L.A. Confidential, The Matrix, Patton, Four Weddings and a Funeral, Saving Private Ryan, The Shining, Good Night and Good Luck, Munich, Walk the Line, Million Dollar Baby, Sideways, Quiz Show, Eternal Sunshine of the Spotless Mind, In the Name of the Father, Collateral, The Killing Fields, A Few Good Men, Bananas, Kramer vs. Kramer

Back to the Future, Die Hard, Beetlejuice, Batman, Memento, Edward Scissorhands, Holiday, Jackie Brown, Raiders of the Lost Arc, Vertigo, Apocalypse Now, The Sting, Sin City, Raising Arizona, The Big Lebowski, Terminator, Magnolia, Ed Wood....

Einhverju gleymi ég en þetta eru myndir sem mér finnst ómissandi og þessar eru allar í safninu mínu. Þeir sem vilja fara á plássið mitt á MySpace smelli á þennan tengil. Það fyrsta sem mætir þeim sem þangað líta fyrir utan myndina af mér er saxófónstefið yndislega úr Taxi Driver - síðasta kvikmyndatónverk meistara Bernard Herrmann. Algjört hnossgæti þetta flotta stef.

Halldór hættir sem forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun taka við embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Mun Halldór Ásgrímsson þá láta af embætti eftir að hafa leitt ríkisstjórn landsins samfellt í 21 mánuð. Hann varð forsætisráðherra þann 15. september 2004, er Davíð Oddsson hætti sem forsætisráðherra eftir 13 ára samfellda setu í embættinu. Mun Halldór láta af formennsku Framsóknarflokksins á flokksþingi hans um miðjan ágústmánuð og hætta þá þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferil. Mun staða mála innan ríkisstjórnar nú verða eins og fyrir forsætisráðherraskiptin árið 2004: Framsóknarflokkur tekur að nýju við utanríkis- og umhverfisráðuneyti og Sjálfstæðisflokkur fær forsætið. Eftir breytingarnar verða því báðir flokkar að nýju með sex ráðherra.

Geir H. Haarde verður sextándi forsætisráðherra Íslands á lýðveldistímanum. Geir nam í Bandaríkjunum. Hann hefur BA-próf í hagfræði frá Brandeis-háskóla, ennfremur MA-próf í alþjóðastjórnmálum frá Johns Hopkins-háskóla og að auki MA-próf í hagfræði frá Minnesota-háskóla. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1981-1985. Geir hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1987. Hann varð fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1998 og kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1999. Geir varð formaður flokksins og utanríkisráðherra við brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum haustið 2005. Allir formenn Sjálfstæðisflokksins hafa með þessu setið á forsætisráðherrastóli. Enginn hefur gegnt embættinu lengur en Davíð Oddsson árin 1991-2004.

Enginn vafi leikur á því að þáttaskil verða við lok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar. Halldór hefur setið á þingi nær samfleytt frá árinu 1974. Hann var á þingi fyrir Austurlandskjördæmi 1974-1978 og aftur 1979-2003. Frá 2003 hefur hann verið alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður, en hann færði sig um set við kjördæmabreytinguna. Halldór varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Halldór hefur setið í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og varð að lokum forsætisráðherra allt frá haustinu 2004.

lesa meira af pistli á vef SUS