Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 júlí 2006

Hugleiðingar um Skjaldarvík

Skjaldarvík

Ég heyrði af því nýlega að nú stæði til bráðlega að loka hjúkrunarheimilinu Skjaldarvík, sem er rekið á vegum Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, en það er staðsett á fallegum stað 8 km. hér fyrir norðan bæinn. Þar var rekið hjúkrunarheimili til fjölda ára, lokað árið 1998 og vistmenn þar fluttir í elliheimili í Kjarnalundi, rétt við Kjarnaskóg, en Skjaldarvík opnaði að nýju nokkrum árum síðar sem elliheimili. Stefán Jónsson, athafnamaður, stofnaði elliheimili í Skjaldarvík á eigin vegum og rak það með skörungs- og myndarskap til fjölda ára. Hann ánafnaði Akureyrarbæ húsnæðinu og öllu sem heimilinu tengist eftir sinn dag að því gefnu að það yrði rekið áfram. Akureyrarbær tók við því að reka Skjaldarvík og gerði það með sama glæsibrag lengst af.

Mín fjölskylda hefur verið viðloðandi Skjaldarvík til fjölda ára. Ég var þar reglulegur gestur í yfir tvo áratugi og verð að segja það eins og er að ég met Skjaldarvík mikils. Langafi minn, Kristmundur Jóhannsson, sem bjó á Eskifirði 1923-1959 ákvað að setjast að í Skjaldarvík er heilsunni tók að halla og hann gat ekki lengur dvalið fyrir austan hjá ömmu. Þar bjó hann til dánardægurs árið 1964. Þau ár sem hann lifði eftir að hann kom norður dvöldu amma og mamma í Skjaldarvík og unnu þar yfir sumarið til að geta verið hjá honum. Örlögin höguðu því svo til að Sigurlín Kristmundsdóttir, amma mín, fór að vinna í Skjaldarvík er hún flutti alfarin norður árið 1974.

Ég held að það sé vægt til orða tekið að amma hafi bundist hugfóstri við þetta heimili. Þar vann hún í rúman áratug í fullu starfi og hafði þar fast herbergi til fjölda ára meðan að hún vann þar, enda var óreglulegur vinnutími þar hjá henni. Þess á milli bjó hún hjá foreldrum mínum í Þórunnarstrætinu og Norðurbyggð, allt þar til að hún hætti að vinna vegna aldurs árið 1983. Árið 1991 var svo komið hjá ömmu að hún varð að fara sjálf á elliheimili. Hún valdi sér búsetu í Skjaldarvík þegar að þar var komið sögu - þá kom ekkert annað til greina hjá henni. Hún bjó þar í sjö ár, allt þar til að heimilinu var lokað, en það var ákvörðun sem var mjög óvinsæl meðal vistmanna. Hún lét þó ekki bjóða sér að vera púttað í Kjarnalund heldur fluttist að eigin ákvörðun á Dalbæ á Dalvík og bjó þar til æviloka.

Ég gæti sjálfsagt skrifað mjög langa grein um þær skoðanir sem ég man eftir að vistmenn í Skjaldarvík höfðu á því að flytja búferlum frá þessu heimili sínu og halda í aðra átt en ég kýs að sleppa því. Ég hafði dvalið þarna til fjölda ára og fór nær daglega í Skjaldarvík héðan til að heimsækja ömmu og tel mig því þekkja vel staðinn og það góða andrúmsloft sem þar ríkti, ég þekkti líka vel þá sem þar bjuggu. Ég gladdist með það þegar að Akureyrarbær ákvað að elliheimili skyldi aftur verða í Skjaldarvík á síðasta kjörtímabili og vonaði innst inni að það væri varanleg ákvörðun, enda var tekið til hendinni þar og loksins farið í endurbætur sem bæjaryfirvöld trössuðu mjög lengi gagngert til að hafa tylliástæðu til að loka þar.

Það eru mikil vonbrigði að bæjaryfirvöld hafi enn einu sinni í hyggju að loka í Skjaldarvík. Það fólk sem þar dvelst hefur mótmælt þessari lokun og því að vera flutt í burtu með valdboði og skilað inn formlegu mótmælaskjali til starfandi bæjarstjóra. Ég stend svo sannarlega með þessu fólki í baráttunni og bind vonir við að bæjaryfirvöld hér hafi áfram elliheimili í Skjaldarvík og standi með því vörð um þann rekstur sem honum var gefinn á sínum tíma af athafnamanninum Stefáni Jónssyni. Það er ekki bæjaryfirvöldum til sóma verði þar lokað aftur með sama hætti og árið 1998.

Vangaveltur um fjölskylduhátíð á Akureyri

Ein með ölluAkureyri

Eins og flestir vita er framundan nú um næstu helgi verslunarmannahelgin, ein af stærstu ferðahelgum ársins. Er hún óvenjuseint núna en það hljóta þó allir að gleðjast yfir því að þetta lengir sumarið í annan endann að hafa verslunarmannahelgina aðeins seinni en venjulega. Eins og oft áður er haldin hér á Akureyri fjölskylduhátíð þar sem margt er skemmtilegt á dagskrá. Búast má við miklum mannfjölda í bænum og skemmtilegu andrúmslofti eins og fyrri ár. Í fyrra var fjölmennasta útihátíð ársins haldin hér í bænum og var virkilega gaman að fara um bæinn. Þá streymdi fólk í bæinn og voru vel yfir 15.000 gestir hér. Mikið blíðviðri var alla helgina og hátíðin að mestu leyti til fyrirmyndar.

Útihátíð hér um verslunarmannahelgi er að mínu mati hið besta mál. Það var hinsvegar ólíðandi að meginfrétt helgarinnar æ ofan í æ seinustu árin var óregla á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar var. Á því stóra vandamáli var tekið með breytingum á tjaldstæðinu í fyrra og er það gleðiefni að það var gert. Styð ég heilshugar allar þær breytingar sem gerðar voru þar. Þar bar hæst að nú mega þar aðeins vera fjölskyldufólk með fellihýsi, tjaldvagna og húsbíla. Var gott að tekið var á þeim málum og vonandi mun þessi ágalli, annars góðrar útihátíðar, heyra sögunni til nú og vonandi ganga eins vel og í fyrra. Góð breyting og ég fagna því t.d. sérstaklega að tjaldsvæðið sé lokað um 17. júní helgina og það sé til góða.

Enginn vafi er að Ein með öllu er mikil lyftistöng fyrir verslunar- og þjónustuaðila í bænum og mun hátíðin styrkja bæinn og stöðu hans til muna, eins og jafnan áður. Deilt hefur lengi verið um það hvort að bærinn eigi að standa að hátíðinni. Á fundi bæjarráðs sl. fimmtudag bókaði Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, að hún væri andvíg þeirri tillögu að bærinn styrkti hátíðina um 1,3 milljónir króna. Ella Magga hefur tjáð óhikað þær skoðanir sínar að ekki sé rétt að bærinn standi að slíkri hátíð og efasemdir séu uppi um hvort rétt sé að hana skuli halda með þeim hætti sem verið hefur í ljósi þess að mikil óregla sé á slíkri hátíð. Hún mun greinilega verða virkur talsmaður þeirra skoðana í bæjarstjórn og bæjarráði.

Það er svosem ekkert óeðlilegt að uppi séu skiptar skoðanir um hátíð af þessu tagi og sjálfsagt rétt að ræða hvort rétt sé að sveitarfélagið sem slíkt standi að henni með beinum hætti. Sem dæmi má nefna að bærinn greiðir allan aðkeyptan lögreglukostnað á tjaldsvæðin. Það er alveg ljóst að staða mála á þessari hátíð hefur farið batnandi ár frá ári og menn hafa með hverri hátíðinni færst nær því að hafa stjórn á drykkju og skemmtun fólks á öllum aldri, enda er það alkunn staðreynd að ekki eru það bara ungt fólk sem fær sér í glas á svona hátíð. Yfir allar hliðar hátíðarinnar er sjálfsagt og rétt að ræða og ég skil vel athugasemdir Ellu.

Ég vona að við öll Akureyringar eigum framundan góða og skemmtilega helgi og við fáum marga góða gesti hingað til okkar. Þetta er hátíð allra og hún á að vera fjölskylduhátíð fyrst og fremst - hátíð þar sem fólk kemur saman til að skemmta sér með þeim hætti sem hver og einn telur heppilegast. Við höfum sýnt það og sannað seinustu ár að hingað vill koma þessa helgi, njóta alls þess besta sem bærinn býður og hafa það gott í norðlenskri bongóblíðu. Það stefnir einmitt í besta veðrið hér og sannkallaða hitabylgju, sem er mikið gleðiefni

30 júlí 2006

Notaleg helgi - pólitísk skrif - klassamyndefni

Illugi Gunnarsson

Þetta hefur verið róleg og notaleg helgi. Fór í dag í listasafnið á sýningu á verkum listakonunnar Louisu Matthíasdóttur. Þetta var frábær listamaður og málverk hennar eru glæsileg. Louisa skipar veigamikinn sess í listasögu landsins og er ein fremsta listakonan í sögu landsins. Hafði ætlað mér lengi að fara á þessa sýningu og dreif loksins í því með vinafólki mínu sem er statt í bænum og átti leið um hér í dag. Eftir menningarreisuna fórum við svo auðvitað í kaffispjall í Bláu könnuna og settumst niður úti með kaffibolla og gæddum okkur á veglegum tertusneiðum. Í kvöld fór ég svo í klukkustundarlangan göngutúr í rigningunni í Kjarnaskógi - hressandi og gott eins og venjulega. Það var mjög notalegt að fá sér göngu í þessu veðri og eins og alltaf kemur maður mun hressari úr þessari útivist.

Í morgun fékk ég mér kaffibolla og renndi yfir dagblöðin tvö áður en horft var á hádegisfréttir og Pressuna á NFS. Í Fréttablaðinu bar hæst frábær pistill Illuga Gunnarssonar - nú sem ávallt fyrr er Illugi með áhugaverðar og góðar pólitískar pælingar sem gaman er að lesa. Fór hann þar yfir stefnuleysi og vandræðagang Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í viðtali Helga Seljan, frænda míns, á NFS um síðustu helgi. Hann segir þar eiginlega það sem mér bjó í brjósti þegar að ég horfði á viðtalið. Illugi á þarna sérstaklega góðan dag í skrifum og hittir naglann algjörlega á höfuðið hvað varðar áberandi stefnuleysi Samfylkingarinnar og formanns hennar. Þetta er grein sem vert er að mæla með og það má segja sem svo að þeir sem meti pólitík dagsins í dag mikils hafi lesið hana með áhuga yfir morgunkaffinu.

Illugi Gunnarsson er vaxandi pólitísk stjarna að mínu mati. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að Illugi sé efnilegt þingmannsefni fyrir flokkinn í komandi þingkosningum. Það yrði mikill fengur að því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann myndi gefa kost á sér fyrir væntanlegar alþingiskosningar og ég vona að hann muni gera það. Hann stóð sig virkilega vel sem pólitískur aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í forsætis- og utanríkisráðuneytinu og hefur verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni. Tel ég að svo fari að Illugi geti valið milli kjördæma til framboðs. Illugi er fæddur og uppalinn á Siglufirði. Helst vildi ég að Illugi myndi gefa kost á sér hér í Norðausturkjördæmi, enda veitir okkur ekki af uppstokkun í okkar hópi hér á þessum slóðum.

Stjórnarslit 1988

Var í gær að fara yfir gamalt myndefni í spólusafninu mínu. Ég hef alltaf verið þekktur fyrir að hafa áhuga á myndefni, sérstaklega fréttatengdu. Er ég einn þeirra sem hef gaman af að eiga efni, eins og t.d. fréttaannála og áramótaþætti og safna. Fann í gær í safninu mínu skemmtilegan umræðuþátt Elínar Hirst í aðdraganda forsetakosninganna 1996 þar sem Ólafur Ragnar Grímsson sat fyrir svörum, svo var það þátturinn frægi árið 1991 þar sem Steingrímur Hermannsson og Davíð Oddsson hnakkrifust í upphafi forsætisráðherraferils Davíðs um fortíðarvandann sem stjórn Steingríms skildi eftir sig. Svo var það auðvitað hin sígilda stund er Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson slitu í raun samstarfi flokka sinna við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar haustið 1988.

Fannst mér alveg virkilega áhugavert að horfa á þessa eina sterkustu stund íslenskrar sjónvarpssögu þegar að Steingrímur og Jón Baldvin eiginlega segja sig formlega frá stormasömu samstarfinu við Þorstein. Sólarhring eftir þáttinn hafði Þorsteinn sagt af sér og samstarfinu var lokið. Mörgum sjálfstæðismönnum sveið mjög að sjá flokk sinn missa stjórnarforystuna og töldu margir að Þorsteinn hefði átt að grípa til sinna ráða og segja flokkanna úr stjórninni og boða til kosninga. Slíkar kosningar á þeim tímapunkti hefðu slegið af Borgaraflokk Alberts Guðmundssonar og veikt stöðu Alþýðuflokksins til muna. Pólitísk saga landsins hefði þá væntanlega orðið önnur og Davíð komið síðar inn á vettvang landsmálanna. Það er endalaust hægt að spá í því hvað hefði gerst.

Datt svo í það að horfa á gömul skaup frá fyrri tíð. Rifjaði upp kynnin af skaupunum 1984, 1985, 1986 og 1989. Alveg stórfenglegt gamanefni, háklassískt. Sérstaklega er skaupið frá '86 alveg klassi - hægt að hlæja endalaust af húmornum vegna leiðtogafundarins fræga. Svo horfði ég á þátt sem er í hávegum hafður á mínu heimili en það er úrval hins allra besta úr skemmtiþættinum Á líðandi stundu sem var á dagskrá Sjónvarpsins fyrir tveim áratugum og var stýrður af Agnesi Braga, Sigmundi Erni og Ómari. Mikið er nú gott að vera ríkur af góðu klassaefni.

Eftir kvöldmatinn horfði ég á þátt Sigríðar Arnardóttur, Örlagadagurinn, á NFS. Að þessu sinni sagði Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, frá sínum örlagadegi í lífinu, þegar að hann lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum þar sem samstarfsfélagi hans og vinur lést. Ragnar og kona hans hafa búið sér notalegt heimili nú í Svarfaðardalnum og skipt um lífsstíl. Þetta var virkilega áhugaverður viðtalsþáttur. Sirrý á auðvelt með að ná hinu góða úr viðmælendum sínum.

Sit hér seint á sunnudagskvöldi heima í stofunni við fartölvuna í Þórunnarstrætinu og horfi á beina útsendingu Sjónvarpsins frá tónleikum SigurRósar á Klambratúni í Reykjavík. Frábær útsending og mögnuð tónlist. Yndislegt að fá þetta beint heim í stofu á þessu sumarkvöldi.

29 júlí 2006

Spjall um bæjarmálin á hásumri

Sigrún Björk og Baldvin

Á fimmtudaginn var NFS með útsendingar héðan úr miðbænum á Akureyri og voru þar mjög athyglisverð viðtöl og dagskrá fyrir utan kaffihúsið Bláu könnuna í Hafnarstræti (besta kaffihúsið í bænum). Voru þaðan send út t.d. hádegisviðtalið og Ísland í dag. Þar sem að ég var staddur í Reykjavík allan fimmtudaginn var áhugavert fyrir mig að horfa á þessi viðtöl þegar að heim til Akureyrar var komið í gær. Fyrst af öllu horfði ég á viðtal Björns Þorlákssonar við Jóhannes Jónsson, athafnamann og stofnanda Bónus. Fóru þeir yfir fjölda mála í um 15 mínútna löngu viðtali sem tekið var í blíðunni í göngugötunni. Jóhannes rekur nú einar fjórar matvöruverslanir hér á Akureyri og nýlega opnaði hann aðra 10-11 verslunina í bænum: í hinu sögufræga húsi Hamborg, eins og fyrr hefur verið nefnt hér á vefnum. Var þetta gott viðtal.

Ísland í dag var sent út að öllu leyti um kvöldið frá Bláu könnunni. Í upphafi þáttarins fóru spyrlarnir, Friðrika og Sindri, yfir bæjarmálin með Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, forseta bæjarstjórnar og starfandi bæjarstjóra, og Baldvini H. Sigurðssyni, leiðtoga VG í bæjarstjórn Akureyrar. Var þar að mestu leyti rætt um málefni íþróttavallarins og miðbæjarskipulagið. Var þetta frekar tilþrifalítil umræða og farið á nokkru hundavaði yfir hana að því er mér fannst og var eiginlega hissa á að ekki væri hægt að fá eiginlega meira kjöt á beinin. Baldvin hefur reyndar löngum verið frekar þekktur fyrir skondinn húmor sinn frekar en beina snilli sína í pólitísku innsæi eða töktum. Finnst hann enn vera í kosningagírnum þar sem fimmaurabrandararnir voru mjög áberandi. Þó var hann nokkuð lifandi í þessu viðtali og skaut frá sér í allar áttir.

Baldvin lét vaða og tók fyrir Háskólann á Akureyri og aðkomu menntamálaráðherra að honum og svo málefni björgunarþyrlanna en hann hefur einn bæjarfulltrúa bæjarstjórnar Akureyrar mótmælt með afgerandi hætti því að fyrir liggi drög að því að engin björgunarþyrla eigi að vera staðsett á Akureyri. Má sennilega segja að hann sé eini bæjarfulltrúinn sem hefur verið áberandi í umræðunni eftir kosningar, ef undan eru skildir þeir bæjarfulltrúar sem hafa verið staðgenglar bæjarstjóra í sumarleyfi hans. Lítið hefur heyrst til minnihlutans, ef undan er skilið fjölmiðlatal Baldvins og segja má að Framsóknarflokkurinn og Listi fólksins séu heillum horfnir í minnihluta, eftir verulegt fylgistap í kosningunum fyrir tveim mánuðum. Er alveg greinilegt að VG stefnir að því að verða akkeri hins lífvana minnihluta.

Sigrún Björk

Sigrún Björk Jakobsdóttir hefur verið starfandi bæjarstjóri hér á Akureyri seinustu vikurnar, í sumarfríi Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, og Hermanns Jóns Tómassonar, formanns bæjarráðs og leiðtoga Samfylkingarinnar. Sigrún Björk hefur setið í bæjarstjórn Akureyrar í fjögur ár og tók við af Þóru Ákadóttur sem forseti bæjarstjórnar við upphaf kjörtímabilsins í síðasta mánuði. Hún skipaði annað sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum og var sú eina utan Kristjáns Þórs Júlíussonar sem hlaut bindandi kosningu í frægu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í febrúar, þar sem ungliðum og hægrikrötum voru sendar frekar kaldar kveðjur frá flokksmönnum. Var það mjög athyglisvert prófkjör í öllu tilliti - sem og verður lengi í minnum haft.

Hefur Sigrún Björk verið áberandi í fjölmiðlum í gúrkutíðinni og farið yfir þau mál sem hæst standa. Annars verður að segja að rólegt hefur verið yfir bæjarmálunum seinustu vikur, enda var enginn bæjarstjórnarfundur haldinn nú í júlímánuði enda var ekkert til að fylla dagskrá og fara þar yfir. Var ég svolítið hissa að ekkert var í spjallinu við Bláu könnuna farið yfir væntanlegt kjörtímabil og t.d. forystumál innan meirihlutans í ljósi sífellt meiri orðróms um að bæjarstjóri hyggi á þingframboð í kosningum að vori. Fari það svo að orðrómurinn sé sannur um að bæjarstjóri hyggi á þingframboð verður fróðlegt að sjá hvað muni taka við innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og flestir vita er enda um það samið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bæjarstjórastólinn til sumarsins 2009.

Fari bæjarstjórinn í þingframboð verður hann varla bæjarstjóri alveg fram að alþingiskosningum í umboði Samfylkingarinnar, sem vantar svo sannarlega skotfæri í veikri stjórnarandstöðu sem víðast um allt land og þá væntanlega einmitt gegn Sjálfstæðisflokknum, hér í kjördæminu sem og annarsstaðar. Fari svo að uppstokkun verði hljóta stjórnmálaáhugamenn hér á Akureyri að velta vöngum yfir því hvernig sjálfstæðismenn velja í forystuembætti sín í ljósi bæjarstjóraskipta. Það eru aðalspurningar stjórnmálanna á Akureyri þessar sumarvikurnar að mínu mati og undarlegt að vanir spyrlar fari ekki neitt yfir þau mál, þó hásumar sé.

Reyndar bíða sennilega flestir fjölmiðlar eftir því að bæjarstjóri komi úr sumarfríi sínu nú eftir helgina og ljóst verði hvort hann stefni að því að verða bæjarstjóri til ársins 2009 og formaður bæjarráðs síðar meir eða söðla algjörlega um nú og yfirgefa forystu bæjarmálanna. Það er svo sannarlega nóg framundan í bæjarmálunum á Akureyri og ég spái því að nóg verði um að tala næstu vikurnar. Það er alltaf skemmtilegra að fylgjast með stjórnmálunum þegar að nóg er af tíðindum.

28 júlí 2006

Bongóblíða á Akureyri

Akureyri

Það var alveg yndislegt að koma aftur heim til Akureyrar í dag eftir stutta ferð suður í borgina. Var jafnvel að hugsa um að stoppa lengur um tíma en hætti við það. Ein af meginástæðunum er hiklaust sú mikla bongóblíða sem er hér í bænum núna. Hér er alltaf yndislegt að vera vissulega en sérstaklega notalegt í sumarblíðunni núna. Enda er bros á hverjum manni hér og skal engan undra. :D

Í dag var heitasti dagur sumarsins, til þessa, og hitinn fór í 25 stig. Það var því yndislegt að koma heim úr kuldatíð sumarsins í borginni og finna sumarið og sólina hérna á Akureyri. Var enda eitt mitt fyrsta verk að fara í Brynju og fá mér góðan og klassískan ís þar. Hann klikkar sko aldrei. Í kvöld fór ég svo í grillveislu hjá félaga mínum og þar var virkilega skemmtilegur andi og gaman að vera.

Það er yndislegt í sólinni þessa sumardaga á Akureyri og í kvöld var sérstaklega notalegt að vera úti í sólinni og njóta góða veðursins. Jafnast ekkert á við það að borða góðan mat og drekka rauðvín í góðu sumarveðri. Yndislegt :)

Stjórn SUS ályktar um framlagningu skattskráa

SUS

Var að koma heim frá Reykjavík. Var góð og ánægjuleg ferð sem ég fór þangað að þessu sinni. Veðrið var alveg ágætt og margt skemmtilegt sem gert var að þessu sinni fyrir sunnan. Í gærkvöldi hittist stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna í Valhöll til að fara yfir fjölda mála og ræða væntanleg verkefni, enda styttist óðum í upphaf spennandi kosningavetrar og í mörg horn að líta. Hjá okkur í SUS er nóg framundan og þétt og spennandi dagskrá sem er mjög áhugaverð. Á fundinum samþykktum við góða og kraftmikla ályktun, til birtingar í dag, þar sem við skorum á Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og alþingismenn alla að gera þegar í stað breytingar á lögum til að koma í veg fyrir framlagningar skattskráa.

Í dag birtist svo pistill minn á vef SUS þar sem ég fer yfir þetta mál og bendi á skoðun mína og okkar í stjórninni í þessum efnum. Nú sem fyrr minnir SUS á andstöðu sína við birtingu álagningarskránna með mjög áberandi hætti. Í dag fóru SUS-arar í afgreiðslu Skattstjórans í Reykjavík og stóðu fyrir aðgerðum sem miðuðu að því að vernda þessar viðkvæmu persónuupplýsingar sem yfirvöld heimta af almenningi, vinna síðan úr og leggja að lokum til sýnis fyrir alla landsmenn. Þetta er að okkar mati sannkallaður ósómi. Um er enda að ræða persónuupplýsingar sem snerta einkahagi fólksins í landinu.

Ályktun stjórnar SUS er svohljóðandi:

"Í dag, föstudaginn 28. júlí, munu skattstjórar í öllum skattumdæmum landsins leggja fram skattskrár hvers einasta framteljanda, beinlínis í þeim tilgangi að samborgararnir geti skoðað þær og gert athugasemdir. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skorar á fjármálaráðherra og alþingi að gera þegar í stað breytingar á lögum til að koma í veg fyrir þennan ósóma.

Ekki er nóg með að ríkisvaldið leggi á herðar þegnum sínum þá skyldu að gjalda því stóran hluta af tekjum sínum, heldur ber skattþegni einnig skylda til að láta skattyfirvöldum (ókeypis) í té upplýsingar um tekjur sínar og eignir. Það er sagt nauðsynlegt svo hægt sé að leggja á viðkomandi viðeigandi gjöld og álögur. Þegar ríkisvaldið hefur þannig í krafti valdheimilda sinna heimt þessar upplýsingar af einstaklingnum, má hann enn eiga von á átroðningi réttinda sinna. Í stað þess að gæta þessara upplýsinga, eins og flestra annarra persónulegra upplýsinga sem ríkisvaldið hefur í vörslu sinni, eru þær lagðar fram til sýnis fyrir Pétur og Pál í tvær vikur.

Fjárhagsmálefni eru einkamál hvers og eins, og meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Gildar ástæður þurfa að liggja til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valdheimilda og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um virkt skatteftirlit með þessum hætti geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar og átroðningi ríkisvaldsins á réttindum einstaklinga.

Allt frá árinu 1937 hafa skattayfirvöld afhent fjölmiðlum upplýsingar um gjöld hæstu gjaldenda samkvæmt álagningu hvers árs. Fram til 1979 voru einungis lagðar fram skattskrár og ekki gerður munur í lögum á álagningarskrám og skattskrám. Árið 1982 var farið leggja álagningarskrár fram og styðst sú framlagning við ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Með 8. gr. laga nr. 7/1984 var heimiluð opinber birting og útgáfa skattskráa.

Í tengslum við þá lagabreytingu sagði í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar neðri deildar Alþingis, að ótvírætt sé að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar í heild sé til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og gegni slík birting að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Framlagning álagningar- og skattskráa er þannig hugsuð sem þáttur í virku skatteftirliti og ætlað að koma í veg fyrir undanskot frá skatti.

Ef sú er raunin, væri eftirlitið þá ekki mun betra ef skrárnar lægju fyrir allan ársins hring, hjá öllum skattstjórum og á Netinu að auki? Ungir sjálfstæðismenn telja ofangreind rök hjóm og hjóm eitt og ekki standast grundvallarhugmyndir um friðhelgi einkalífsins og vernd fyrir yfirgangi ríkisvaldsins.

Gífurlegar umbætur hafa átt sér stað varðandi réttarstöðu einstaklinga síðastliðinn áratug. Flestir gera sér betur grein fyrir réttindum sínum og þeim takmörkum sem ríkisvaldinu eru sett gagnvart þeim. Þær upplýsingar sem lagðar verða fram á skattstofum um land allt í dag gefa í mörgum tilvikum glögga mynd af tekjum nafngreindra manna. Þessar upplýsingar er hægt að færa sér í nyt með margvíslegum hætti, þ.á m. í ágóðaskyni.

Þar að auki grefur aðgangur almennings að þeim undan trúnaðarsambandi vegna frjálsra vinnusamninga. Á flestum vinnustöðum eru launakjör starfsfólks trúnaðarmál en með framlagningu álagningar- og skattskráa gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu."

Hættum að snuðra í einkamál annarra

Snuðrað

Í dag fá landsmenn allir sendan heim til sín álagningarseðil, þar sem kemur fram álagning ársins og upplýsingar um skattaskuldir, eða endurgreiðslur, ef um þær er að ræða í þessum tilfellum. Geta allir farið á skattstofur frá og með deginum í dag gagngert til að kynna sér hvað annað fólk borgar í skatta og hnýsast með því í einkalíf fólks með þeim hætti. Auk þess getur það rýnt í tekjublað Frjálsrar verslunar sem kemur út samhliða þessu og er til sölu í búðum á meðan að heimilt er að birta álagningarskrárnar. Ef marka má mikla sölu á blaðinu seinustu árin finnst mörgum það sennilega kræsilegra að kaupa blaðið og svala því forvitninni heima í stofu frekar en að setjast á skattstofuna og fletta gögnunum þar.

Hefur það alltaf verið skoðun mín að þetta eigi ekki að vera með þessum hætti og ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega eða leyfa opinbera birtingu þessara gagna með þessum hætti. Það hefur verið afgerandi skoðun Sambands ungra sjálfstæðismanna. Nú sem fyrr minnir SUS á andstöðu sína við birtingu álagningarskránna með áberandi hætti. Í dag fóru SUS-arar í afgreiðslu Skattstjórans í Reykjavík og stóðu fyrir aðgerðum sem miðuðu að því að vernda þessar viðkvæmu persónuupplýsingar sem yfirvöld heimta af almenningi, vinna síðan úr og leggja að lokum til sýnis fyrir alla landsmenn. Þetta er að okkar mati sannkallaður ósómi. Um er enda að ræða persónuupplýsingar sem snerta einkahagi fólksins í landinu.

Sl. vetur var lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu fólst sérstaklega að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna skyldi með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður og fyrrum formaður SUS, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu voru fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Við í SUS höfum að sjálfsögðu verið mjög afgerandi stuðningsmenn þessa frumvarps og minnum því vel á skoðanir okkar í dag. Það er enda nauðsynlegt að afstaða okkar sé áberandi bæði í orði sem og í verki.

Rökin að baki þessari skoðun okkar í Sjálfstæðisflokknum og SUS að vilja breyta þessu eru allnokkrar en þó ber að sjálfsögðu helst að nefna þann veigamikla þátt birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Að mínu mati eru fjárhagsmálefni einstaklinga án nokkurs vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari. Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengst hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Það hefur lengi verið skondið að sjá hvernig að vinstrimenn hafa snúist til varnar þessu úrelta fyrirkomulagi, t.d. í þingumræðum. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn frumvarpi sjálfstæðisþingmannanna og skoðunum okkar SUS-ara og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík. Þessir gamaldags vinstrimenn ættu að taka af sér hofmóðugu gleraugun og horfa fram fyrir sig án þeirra. Það gæti orðið þeim gæfuleg ákvörðun. Ekki veitir þeim af að hugsa málið frá öðrum forsendum og frá öðrum grunni beint.

Það er enda svo að mínu mati og okkar ungliðanna að við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað maðurinn í næsta húsi eða fólk sem við sjáum jafnvel í Séð og heyrt eða í öðrum fjölmiðlum (fræga og ríka fólkið eins og það er oft kallað) eru með í laun. Það er því verðugt verkefni okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega okkar ungra sjálfstæðismanna, að benda á skoðanir okkar og það hefur tekist vel til að þessu sinni, sem og svo oftar áður.

Það á enda að mínu mati varla að koma fólki úti í bæ við hvað Jóhannes Jónsson, verkamaður á Eyrinni, nú eða Jóhannes Jónsson, athafnamaður og forstjóri á Brekkunni, er með í laun og borgar í skatta. Það á aðeins að vera málefni viðkomandi aðila. Eða hvað segirðu annars lesandi góður? Ertu ekki sammála mér?

Grein á vef SUS - 28. júlí 2006

26 júlí 2006

Prófkjör fari fram í Norðausturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn

Það eru innan við 10 mánuðir til alþingiskosninga. Þó að hásumar sé og menn víða í sumarfríum er farið að ræða með áberandi hætti um það hvernig standa skuli að vali frambjóðanda flokkanna fyrir næstu þingkosningar. Ákveðið hefur verið að boða til kjördæmisþings hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi um miðjan októbermánuð í Mývatnssveit - þar verður tekin afstaða til þess hvort stillt verði upp á lista eða ákveðið að boða til prófkjörs meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna. Við flestum blasir að í stærsta flokki landsins verði þess krafist í öllum kjördæmum að efnt verði til prófkjörs. Í gær birtist vönduð grein félaga míns, Arnars Þórs Stefánssonar, á Deiglunni þar sem hann hvetur til þess að prófkjör verði hjá flokknum í öllum kjördæmum. Tek ég undir hans skoðanir þar.

Ég er þeirrar skoðunar að boða eigi til prófkjörs til að velja frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir væntanlegar þingkosningar. Það er svo sannarlega kominn tími til að efna þar til prófkjörs. Fyrir síðustu alþingiskosningar var ákveðið að stilla upp á lista eftir mikla umræðu um framboðsmálin á kjördæmisþingi á Egilsstöðum í október 2002. Var það mjög fróðleg umræða sem sýndi mér mjög vel fylkingar þeirra sem vildu það ekki og hinsvegar þeirra sem börðust fyrir prófkjöri. Við í stjórn Varðar á þeim tíma vildum prófkjör og ályktuðum um það meira að segja. Það varð þó ekki raunin. Tel ég að það hafi verið mikil mistök og hafi skaðað flokkinn í kosningabaráttunni. Margir deildu um þá niðurstöðu sem varð við val framboðslistans sem var samþykktur síðar og deildar meiningar voru um hversu sterkur hann var.

Ekki hefur verið prófkjör meðal sjálfstæðismanna í landsmálum í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987. Í því prófkjöri var Halldór Blöndal fyrst kjörinn leiðtogi (hann varð leiðtogi listans sjálfkrafa við afsögn Lárusar Jónssonar árið 1984) og Tómas Ingi OIrich varð þá t.d. í þriðja sæti. Síðar færðist hann upp í annað sætið og var sú uppstilling viðhöfð um efstu tvö sætin í kosningunum 1991, 1995 og 1999, oftast með mjög góðum árangri. Þess ber enda að geta að Sjálfstæðisflokkurinn í NE vann sinn stærsta og glæsilegasta kosningasigur undir forystu Halldórs árið 1999 og þá varð Halldór fyrsti þingmaður kjördæmisins og Tómas var kjördæmakjörinn. Það var eftirminnilegur sigur, svo ekki sé fastar að orði kveðið - sigur sem sannar fyrir okkur öllum að við getum haft Framsókn undir hér.

Í aðdraganda seinustu kosninga var þó staðan breytt - nýtt og víðfeðmara kjördæmi komið til sögunnar og sameining flokksstofnana í NE og Austurlandskjördæmi tók við. Hún gekk að mörgu leyti vel en að öðru leyti ekki, eins og gengur og gerist. Það tekur allt tíma. Niðurstaðan var semsagt að stilla upp síðast. Halldór gaf kost á sér að nýju og var óumdeildur leiðtogi listans. Um annað sætið tókust Tómas Ingi (þá menntamálaráðherra) og Arnbjörg. Uppstillingarnefnd, kjörin á kjördæmisþinginu á Egilsstöðum, ákvað að stilla Tómasi upp í annað sætið. Kom upp tillaga á kjördæmisþingi á Akureyri í lok nóvember 2002 um að Arnbjörg fengi annað sætið. Kosið var á milli þeirra og vann Tómas afgerandi sigur. Arnbjörg skipaði þriðja sætið og Sigríður Ingvarsdóttir (þingmaður frá 2001) var í því fjórða.

Niðurstaðan varð sú að flokkurinn hlaut tvo þingmenn kjörna og Arnbjörg féll því af þingi. Hún kom inn á þing við afsögn Tómasar Inga af þingi í kjölfar þess að hann lét af ráðherraembætti í lok ársins 2003. Það blandast engum hugur um það að úrslit kosninganna 2003 voru vonbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn hér. Ég tel að það hafi verið mjög röng ákvörðun að efna ekki til prófkjörs þá í hinu nýja kjördæmi og stokka spilin upp. Óánægja var meðal Austfirðinga með stöðu Arnbjargar og margir vildu hafa Tómas Inga í öðru sæti vegna þess að hann var ráðherra. Um Halldór var mikil samstaða meðal þeirra sem voru í uppstillingarnefndinni og í forystu flokkskjarnans. Eðlilegast hefði verið að flokksmenn hefðu fengið valdið í sínar hendur - efnt til prófkjörs og jafnvel gefið fleirum tækifæri til að fara fram til forystu.

Ljóst er að margir vilja prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi nú. Það er eðlilegt. Eins og fyrr segir ekki verið prófkjör í norðurhlutanum (gamla NE) frá 1987 og í Austurlandi ekki verið prófkjör frá 1999. Nú er svo sannarlega orðið mjög mikilvægt að flokksmenn allir fái það vald í hendurnar að velja framboðslistann og efnt verði til prófkjörs. Eðlilegt er að uppi sé krafa nú um að fram fari prófkjör. Það kemur í mínum huga ekki annað til greina nú en að stokka verulega upp spilin og boða til prófkjörs til að velja þá sem leiða flokkinn í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum og starf flokksins í kjördæminu á næsta kjörtímabili.



Bogart í The Caine Mutiny

Hefur verið rólegt og gott seinustu dagana. Horfði í gærkvöldi á hina mögnuðu The Caine Mutiny, klassískt og sígilt réttardrama frá árinu 1954 byggt á handriti margfrægrar Pulitzer-verðlaunaskáldsögu Hermans Wouk. Segir frá því þegar tveir sjóliðsforingjar gera uppreisn gegn skipherra sínum, kapteini Quegg, og segja hann orðinn einráðan og andlega vanheilan til að stjórna skipinu. Sérlega vönduð og áhugaverð sviðsetning og stórkostlegur leikur aðalleikaranna er aðall þessarar klassamyndar.

Humphrey Bogart fer á kostum í hlutverki skipherrans, einu af bestu hlutverkum hans á glæsilegum ferli. Túlkun hans nær hámarki er Quegg er leiddur til vitnis í réttarsalnum, þar sýnir Bogart á ógleymanlegan hátt hið snúna og margbrotna sálarástand skipherrans. Þetta hlutverk er í raun síðasta stórhlutverk Bogarts, en hann lést tæpum þrem árum eftir gerð myndarinnar.

Ekki má heldur gleyma öðrum leikurum, en þeir Van Johnson, Robert Francis, Fred MacMurray, José Ferrer og Lee Marvin fara einnig á kostum í hlutverkum sínum. Sannkölluð eðalmynd, var orðið mjög langt síðan að ég sá hana og hún var góður yndisauki á sumarkvöldi.


Akureyri að sumri

Hefur verið yndislegt sumarveður hér seinustu dagana. Fór í morgun í sund og góðan hjóltúr að því loknu. Virkilega notalegt og gott - við njótum öll lífsins hér á fögrum sumardegi.

25 júlí 2006

Sögulegur fundur - vindhanasnúningur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í forsæti ríkisstjórnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, stýrði í morgun ríkisstjórnarfundi, fyrst kvenna í stjórnmálasögu landsins. Þorgerður stóð sig vel í dag og var eins og sannur öflugur stjórnmálaleiðtogi í tali og töktum að loknum ríkisstjórnarfundinum. Finnst Þorgerður Katrín hafa styrkst seinustu vikurnar í stjórnmálum. Það er öllum sjálfstæðismönnum gleðiefni að sjálfstæðiskona stýri fyrst kvenna ríkisstjórnarfundi.

Á fundinum í morgun var rætt um það að hægja á framkvæmdum við væntanlegt tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík eða fresta þeim eilítið til að slá á þenslu í efnahagslífinu. Er þetta mikil skynsemisákvörðun. Hafa stjórnvöld ákveðið að hægja ferðina í nokkrum málum, aðallega eru þau á landsbyggðinni. Með þessu ætti að vera vel ljóst að litið er ennfremur til þess að slá á hlutina á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og við er að búast notfærir minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur sér þetta mál til að slá sér upp í fjölmiðlum í hágúrkunni sem er svo áberandi í pólitíkinni núna. Sá viðtal við Dag B. Eggertsson þar sem hann gefur lítið fyrir þessa tillögu og segir greinilegt að allt sé sett undir fyrir stóriðjumálin. Það er skondið að heyra tal Samfylkingarinnar um stóriðjuna og má oft sjá glitta í andstöðukantinn í tali Samfylkingarforkólfa á tyllistundum um þau mál.

Ingibjörg Sólrún minnti mann á Ragnar Reykás í talinu um stóriðju í Pressuviðtalinu á NFS um helgina, talandi aðra stundina með krafti gegn stóriðju og svo allt í einu umpólast þegar talinu var víkið að Húsavík. Svo má ekki gleyma því að fleiri Samfylkingarþingmenn studdu álver og virkjun á Austurlandi en Framsóknarþingmenn. Tvískinningurinn er því alltaf fyndinn.

Enda ekki furða að formaður Samfylkingarinnar yrði undarleg þegar að henni var bent á það af Helga frænda mínum að bæði var hún stuðningsmaður virkjunar og álvers á Austurlandi í borgarstjórn og þingmenn flokksins svo á þingi. Fræg mynd af henni við Alcoa-skiltið í Reyðarfirði í aðdraganda kosninganna segir meira en mörg orð. Þetta er skondið. Bendi á fyrri skrif mín um mótsagnir Samfylkingarinnar.

24 júlí 2006

Eyðimörk vinstriafla - Sharon - klassaræma

AlþýðuflokkurinnAlþýðubandalagiðSamfylkingin

Það dylst engum að vinstriöflin í landinu hafa háð langa eyðimerkurgöngu í landsmálunum síðasta áratuginn. Kommar í pólitík hafa ekki verið í ríkisstjórn í 15 ár og kratarnir verið utan stjórnar í 11 ár. Það er langur tími og margir vinstrimennirnir orðnir verulega valdaþyrstir og tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir völd. Samt gengur þeim ekkert og eru í raun í sömu sporunum nú og við upphaf þessa kjörtímabils. Fremst í flokki valdasjúkra vinstrimanna er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Eins og ég minntist á hérna í gær var hún í viðtali við frænda minn, Helga Seljan, í Pressunni á NFS í gær. Um margt merkilegt viðtal svo sannarlega, einkum vegna þess að ekkert nýtt kom þar fram nema síendurtekinn málefnafátækt og stefnuflökt flokksins. Kostulegt alveg.

Í dag fer ég yfir eyðimerkurgöngu vinstriaflanna í ítarlegum pistli á vef SUS. Um margt merkileg saga. Það dylst engum sem yfir fer að örvænting vinstrimanna er orðin nokkur eftir að ná völdum og það hefur gengið á ýmsu í þeirra röðum. Þess vegna hlýtur það að teljast merkilegt að þau standi ekki betur að vígi en raun ber vitni. Mér fannst viðtalið við formann Samfylkingarinnar staðfesta vel hversu vond staða hennar er orðin í stjórnmálum. Stefnuflöktið fælir enda frá og margir spyrja sig fyrir hvað þessi flokksleiðtogi standi eiginlega - hver sé hennar pólitík. Mörgum er það hulið. Það er ekki undarlegt að Samfylkingarfólk sé eiginlega hætt að loka á Sjálfstæðisflokkinn sem samstarfsaðila að kosningunum loknum og telja það bestu leiðina til að hljóta einhver völd og áhrif í landsmálum.

Nú þegar styttist í næstu alþingiskosningar bendir flest til þess að vinstriflokkarnir þurfi að halda áfram eyðimerkurgöngunni. Það sést í hverri könnuninni á eftir annarri að almenningur treystir þeim ekki fyrir forystu í landsmálunum. Samfylkingin reynir að vinna tiltrú almennings með lítt áberandi hætti. Stefnuleysi flokksins kemur sífellt fram í tali fjölmiðlamanna við formanninn Ingibjörgu Sólrúnu og kristallaðist í viðtalinu við hana á NFS. Það verður athyglisvert að fylgjast með VG á væntanlegum kosningavetri og hvort flokkurinn muni ná að narta í Samfylkinguna og jafnvel standa á pari við hana að kosningum loknum. Ef marka má viðtalið er Samfylkingin og leiðtogi hennar einmitt mest hrædd við það. Allir órar um tvo turna er enda fjarstæða í dag og skal enga undra.


Ariel Sharon

Vargöldin í Beirút er væntanlega frétt ársins og ekkert er meira í fréttum þessa dagana, skiljanlega. Það er með ólíkindum að fylgjast með því sem þar gerist. Skalinn af þeirri frétt er svo mikill að ekkert annað kemst nærri. Það sem þar er um að ræða er auðvitað ekkert annað en styrjöld og sér ekki fyrir endann á henni. Þar sem maður er staddur fjarri þessum hörmungum er erfitt að setja sig í fótspor þeirra sem þeir upplifa. Fannst þó merkilegt að sjá viðtal við þá Íslendinga sem flúðu ófriðinn hingað í rólegheitina hér heima á Fróni. Merkilegar lýsingar og áhugavert að heyra þeirra sjónarhorn á stöðu mála. Reynt er að finna flöt í þetta mál þessa dagana með sáttaumleitunum og eru utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fleiri aðilar farnir í það verkefni. Verður að teljast ólíklegt að friðsamleg lausn finnist fljótlega, þó auðvitað voni það allir.

Mitt í þessum átökum tekur heilsu Ariel Sharon að hraka eftir langa sjúkralegu. Í hálft ár hefur þessi áhrifamikli og dómínerandi stjórnmálaleiðtogi Ísraela verið í dái en aðeins rúmir tveir mánuðir eru liðnir frá því að hann missti endanlega valdatitil sinn. Það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið harður af sér og hefur hann lifað lengur en margir töldu miðað hversu alvarlegt heilablóðfallið var sem hann fékk í ársbyrjun. En nú hefur hallað undan fæti og væntanlega styttist í að hann fari yfir móðuna miklu. Falli hann frá í skugga átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs sem nú standa verður fróðlegt að sjá hvernig staðið verði að útför hans. Lengi vel var honum kennt um harðlínustefnu stjórnvalda og talið breyst nokkuð nú.

Ehud Olmert virðist vera að taka á sig mynd sömu átaka á stjórnmálavettvangi í M-Austurlöndum og einkenndu áður Ariel Sharon, áður en hann varð friðardúfa á gamals aldri. Áhrifa Sharons gætir vissulega enn í ísraelskum stjórnmálum. Nánustu fylgismenn Sharons í hinum nýstofnaða flokki hans, Kadima, náðu völdum eftir þingkosningar fyrr á árinu og ráða lögum og lofum í landinu í stjórn með Verkamannaflokknum. Stefnan virðist herská og hefur enda heyrst á mörgum að friðardúfustimpillinn á Kadima hafi verið tálsýnin ein. Það er kaldhæðnislegt ef Sharon deyr í skugga þessara átaka og hlýtur að verða merkilegt að sjá hvernig þessi fyrrum áhrifamikli leiðtogi ísraelskra stjórnmála verði kvaddur í kastljósi stríðsvargaldar.


Burt Lancaster og Deborah Kerr í From Here to Eternity

Í gærkvöldi naut ég þess að horfa á hina klassísku og áhrifaríku óskarsverðlaunamynd From Here to Eternity, sem er gerð eftir skáldsögu James Jones, og telst ein af gullaldarklassíkum kvikmyndasögunnar. Hún lýsir með glæsibrag herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941, í seinni heimsstyrjöldinni. Segir að mestu sögu boxara er kemur nýr á staðinn örfáum vikum fyrir árásina. Hann neitar að boxa fyrir herdeildina, sökum óhapps sem hann lenti í á fyrri herstöðinni og orsakaði það að hann var fluttur þaðan til Hawaii. Flækjur verða í tengslum aðalsöguhetjanna og þær lenda með áhrifaríkum hætti í miðpunkti sögulegra átaka í Perluhöfn í kjölfar árása Japananna. Frábær mynd sem hrífur alla sanna kvikmyndaunnendur.

Mörg klassaatriði standa upp úr sem mikið hafa verið stæld, t.d. atriðið þegar Burt Lancaster og Deborah Kerr liggja í faðmlögum í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau og ótal önnur. Leikhópur myndarinnar var í hágæðaformi í myndinni og er myndin einna helst rómuð vegna góðs leiks. Lancaster og Kerr náðu hæstum hæðum á sínum litríku leikferlum í hlutverkum skötuhjúanna Wardens liðþjálfa og Karen Holmes. Montgomery Clift var í klassaformi í hlutverki hermannsins Prewitt og síðast en ekki síst glönsuðu Frank Sinatra og Donna Reed í óskarsverðlaunatúlkununum sínum í myndinni: hann sem hinn síkáti hermaður Maggio og hún sem Lorene, hin trygga unnusta Prewitts. Ekki má heldur gleyma þeim Ernest Borgnine, Jack Warden og Philip Ober.

Var virkilega áhugavert að rifja upp þessa góðu kvikmynd og horfa á hana enn einu sinni. Myndin var nosturslega stýrð af snillingnum Fred Zinnemann, sem hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína og hélt óaðfinnanlega utan um innra sem ytra útlit myndarinnar. Úr varð ein af bestu myndum síns tíma og hlaut myndin átta óskarsverðlaun og er margrómuð fyrir listilega frásögn og vandaða umgjörð: sérstaklega er kvikmyndatakan algjört augnakonfekt. Í gærkvöldi horfði ég ennfremur á Syriana og naut þeirrar frábæru stjórnmálaádeilu í botn. Í kvöld ætla ég að horfa á klassamyndina High Noon með Gary Cooper og Grace Kelly. Eðalklassi eins og hann gerist bestur.


10-11 í miðbænum

Lagði leið mína eftir kaffispjall með góðum félögum á Bláu könnunni í dag yfir í Hamborg og verslaði í fyrsta skiptið í nýrri verslun 10-11 þar. Líst ljómandi vel á þessa verslun. Góð þjónusta og notalegur andi í þessu sögufræga húsi. Verslaði mér góðgæti úr salatbarnum og ávaxtadrykk með. Tel það góð tíðindi fyrir miðbæinn að fá verslun á þessum stað, eins og fyrr hefur komið fram á vefnum. Tel þetta af hinu góða og óska eigendum og starfsfólki góðs í verkum sínum í þessu sögufræga húsi í miðbænum.


Halldór Blöndal

Að lokum vil ég benda á athyglisverðan pistil Arnljóts Bjarka Bergssonar á Íslendingi, vef flokksins í bænum, í dag. Það er svo sannarlega athyglisvert að lesa hann - bendi fólki á að lesa pistilinn.

23 júlí 2006

Sumarsæla í Aðaldal - eðalmyndir - stefnuleysi SF

Laxá í Aðaldal

Var að koma heim eftir yndislega helgi í bústað okkar í fjölskyldunni í Aðaldalnum. Það er alltaf frábært að halda í Núpakot. Þar er alltaf eðalblíða og frábært að vera. Ákvað að fara í gær ásamt fleira fólki til að sleikja sólina og hafa það gott. Það var sól og blíða allan tímann og yndislegt veður - fórum í gott sólbað við bústaðinn skömmu eftir komuna. Fórum svo í góðan göngutúr niður að ánni - ákváð nú ekkert að veiða í þetta skiptið, þó að eflaust hefði verið gott tækifæri til að veiða eitthvað í kvöldmatinn. Hefði verið gott að grilla silung eða lax, ef vel hefði fiskast. Eftir stutta ferð til Húsavíkur, þar sem ég fór að versla í kvöldmatinn, grilluðum við í góðu veðri við bústaðinn.

Var svo gott veður að við borðuðum að sjálfsögðu úti á palli. Grillaði ég svínahnakka og hafði með gott meðlæti. Veðurblíðan var yndisleg og alveg frábært að sitja á pallinum og borða góðan mat í geislum sólarinnar og góða veðursins. Seinna um kvöldið var nóg fjör í hópnum og við spjölluðum langt fram á nótt um ýmsa hluti. Sem betur fer voru stjórnmálin algjörlega geymd heima þessa helgina og lítið yfir þau farið, enda veðrið of gott fyrir stjórnmálatal. Var sofið vel út í morgun og eftir góðan hádegismat voru gestirnir kvaddir. Áður en haldið var heim til Akureyrar bar ég viðarolíu á pallinn, enda nauðsynlegt að leggja í það verkefni.

Þegar heim til Akureyrar var komið var þar þoka og lítið spennandi veður miðað við blíðuna austur í Aðaldal. Ég held að ég hafi gert rétt við það að halda austur í gær - þetta var yndisleg helgi. Maður kemur endurnærður heim úr rólegheitunum þar. :D


Audrey Hepburn í Roman Holiday

Eins og ég sagði á föstudag horfði ég á On the Waterfront það kvöldið. Eins og ég hafði minnst á var Roman Holiday með Audrey Hepburn og Gregory Peck sett í tækið þar á eftir. Alla þá tíð sem ég hef metið kvikmyndir hefur Roman Holiday verið hátt skrifuð hjá mér. Þar er um að ræða ljúflétta kvikmynd frá árinu 1953 sem segir sögu Ann prinsessu, sem er á ferð um nokkrar borgir Evrópu. Er hún er stödd í Róm hefur hún fengið nóg af skyldum sínum og þunganum sem fylgir á ferðinni og ákveður að halda út og kynna sér borgina eins og hún er í raun og veru, en ekki bara þeim hliðum sem hún sér í vel skipulagðri dagskrá. Kynnist hún blaðamanninum Joe Bradley og hann sýnir henni Róm eins og hún gerist best. Myndin sýnir Rómarborg þokkafyllri en nokkru sinni á ferð þeirra.

Audrey Hepburn hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Ann prinsessu. Var þetta fyrsta stórhlutverk hennar í Hollywood. Fór hún á kostum í myndinni ásamt Gregory Peck. Audrey hlaut óskarinn fyrir leik sinn sem var rómaður af gagnrýnendum um allan heim. Stjarna var þar með fædd. Á næstu áratugum lék Audrey í fjölda ógleymanlegra kvikmynda sem halda minningu hennar hátt á lofti. Hún lést úr krabbameini í janúar 1993, en skömmu fyrir lát sitt hafði hún helgað sig barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og var velgjörðarsendiherra í nafni þeirra víða um heim. Gregory Peck var einn af vinsælustu leikurum heims og hlaut óskarinn fyrir túlkun sína í To Kill a Mockingbird árið 1962. Hann lést árið 2003. Roman Holiday er yndisleg mynd í alla staði og alltaf notalegt að horfa á hana. Mæli með henni.

Í kvöld ætla ég að horfa á hina yndislegu From Here to Eternity með Burt Lancaster, Deborah Kerr, Montgomery Clift, Frank Sinatra, Donnu Reed og Jack Warden. Frábær leikarahópur í kvikmynd sem hlaut átta óskarsverðlaun og er enn í dag talin ein besta kvikmynd síns tíma. Talandi um Jack Warden. Sá frábæri leikari, sem setti svip sinn á fjölda ógleymanlegra kvikmynda, lést í vikunni, 85 ára að aldri. Warden var frábær leikari og enginn gleymir honum sem sá hann brillera í All the President´s Men, From Here to Eternity, Heaven Can Wait og Twelve Angry Men. Ætla að skrifa um hann á morgun. Ennfremur ætla ég að horfa á Syriana með George Clooney, en ég var að kaupa hana á DVD í dag. Frábær og spennandi mynd - Clooney hlaut óskarinn fyrr á árinu fyrir leik sinn í henni.


ISG

Skömmu eftir komuna heim til Akureyrar smellti ég mér inn á visir.is og horfði á þáttinn Pressuna sem var í hádeginu í dag á NFS. Sá þar athyglisvert spjall Borgars Þórs Einarssonar, Guðmundar Ólafssonar og Margrétar S. Björnsdóttur um mögulegt samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins. Horfði á af miklum áhuga. Fínasta spjall. Sá svo undir lok þáttarins merkilegt viðtal Helga Seljan, frænda míns, við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Farið yfir margt spennandi, enda hefur svosem nóg verið að gerast í sumar og alltaf eru næg pólitísk verkefni framundan. Kosningavetur er að fara að hefjast og ber allt tal stjórnmálanna keim af því þessar vikurnar.

Heldur fannst mér Ingibjörg Sólrún þó tafsast allverulega yfir stóriðjutalinu, einkum hvað varðar stóriðju við Húsavík. Talar aðra stundina gegn stóriðju en reynir svo að komast hjá því er talað er um Húsavík í stöðunni. Algjört stefnuleysi. Vil gjarnan fá að vita hvar Samfylkingin stendur í því máli - sem og reyndar svo mörgum öðrum málum þessar vikur, t.d. varnarmálunum en í utanríkismálum virðist Samfylkingin vera algjörlega stefnuflaktandi frá degi til dags.

Það verður að segjast eins og er að ISG talar úr og í um málin svo að margir standa gapandi hissa yfir tíðindalausu stefnublaðrinu. Það er ekki furða þó að Samfylkingin sé með allt niðrum sig þessar vikurnar á hásumri og eftir langa eyðimerkurgöngu í stjórnarandstöðu - svo mikið er nú algjörlega víst.

21 júlí 2006

Þorgerður - Hamborg - hátíð hafsins - Brando

Þorgerður Katrín

Ég sá nú síðdegis tilkynningu á fréttavefunum þess efnis að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, yrði starfandi forsætisráðherra í fjarveru Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, í leyfi hans í rúman hálfan mánuð frá og með mánudegi. Þetta er svo sannarlega sögulegt enda telst mér til að Þorgerður Katrín sé með þessu fyrsta konan hérlendis sem gegnir embætti forsætisráðherra í sögu landsins. Það hefur aldrei áður gerst að kona leysi forsætisráðherra af og eins og allir vita aldrei gerst að kona hafi tekið við embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi. Það er svo sannarlega ástæða til að óska Þorgerði Katrínu til hamingju með þetta og jafnframt konum almennt. Ég met Þorgerði Katrínu mikils og vona að henni gangi vel í sínum verkefnum þennan tíma.


10-11

Ég varð mjög glaður nýlega þegar að ég komst að því að í hinni gömlu góðu Hamborg, Hafnarstræti 94 í miðbænum, á nú að opna matvöruverslun undir merkjum 10-11. Hamborg er sögufrægt verslunarhús. Þar ríkir góður andi. Við sjálfstæðismenn vorum þar með flokksaðstöðu hluta vetrar og vorum þar í prófkjörsslagnum. Þegar að ég var yngri var þar Sportbúðin og ég þar reglulega fastagestur að versla. Þegar að mér sem formanni flokksfélags flokksins í bænum voru afhent lyklavöld að þessu sögufræga húsi, löngu eftir daga Sporthússins, varð ég því allt að því orðlaus, enda eflaust þótt það skondið er ég var að versla í Sportbúðinni í den að ég ætti eftir að fá lyklavöld þar. En það var mjög notalegur tími sem við áttum í Hamborg og mér líkaði vel við vistina þar og að hafa flokksaðstöðu í miðbænum. Það stóð þó alltof skamma stund.

Það hefur að mínu mati vantað matvöruverslun í miðbæinn. Það er gleðiefni fyrir mann eins og mig sem er mikið í miðbænum dagsdaglega að geta skellt sér skamman spöl í matvöruverslun og keypt eitthvað fljótlegt og gott í matinn. Þetta hús er merkilegt í sögu bæjarins. Það er skemmtilegt afturhvarf til fortíðarinnar að þar sé aftur að koma verslunarhús með matvæli. Sigmundur á heiður skilinn fyrir að hafa fært okkur Hamborg aftur með glæsibrag en húsið var orðið nokkuð hrörlegt fyrir viðgerðina. Framan af sumri var húsið mest í fréttum vegna þess að strætóskýlið rétt hjá því hvarf með allskjótum hætti. Reyndar sakna ég ekki skýlisins og græt það krókódílatárum í reynd, enda hvorki fagurt né eftirminnilegt, þó að vissulega hafi verið átök um það er það hvarf svo snögglega.

Hanna amma og Anton afi bjuggu í miðbænum, Brekkugötu 9, um árabil og þau ráku raftækjaverslun á jarðhæðinni þar til 1984. Kjörbúð var í innan við mínútufjarlægð í Brekkugötu 1. Oft labbaði ég þangað þá til að kaupa hitt og þetta fyrir ömmu á meðan hún bjó í Brekkugötunni til 1989. Man ég því vel eftir hverfisverslun þarna. Hún er löngu horfin og nú seinustu árin hefur miðbærinn drabbast, sem vonandi verður tekið á af krafti. Það er gleðiefni að loksins komi matvöruverslun aftur á svæðið. Ég vona að úr verði góð verslun fyrir alla þá sem vinna í miðbænum og eða eiga þar leið um dag hvern. Verður fróðlegt að sjá hvernig gengur með matvöruverslun þarna - er ég vart í vafa um það að fólki mun lítast vel á þá tilhögun mála.

Fiskidagurinn 2005

Sá á vef Fiskidagsins mikla nú í dag að allt er í góðum undirbúningi núna út á Dalvík fyrir fiskidaginn sem verður haldinn skv. góðri hefð aðra helgina í ágúst. Það verður mikið stuð þá. Ætla ég mér að fara í súpuveislu kvöldið áður og vera hjá góðvinum mínum útfrá alla helgina og njóta lífsins þar með góðu fólki sem ég met mikils. Fiskidagurinn er stærsti dagur ársins á Dalvík og það er yndislegt að geta verið útfrá og notið góðrar dagskrár og góðs matar, grillaðs sjávarfangs. Þetta er yndisleg hátíð hafsins útfrá og þeir sem hafa staðið að þessu öll þessi ár eiga mikið hrós skilið. Þessi hátíð hafsins hefur eflt samfélagið á Dalvík til muna. Það er alltaf jafn gott að koma til Dalvíkur þessa helgi og sjá hversu gott fólk býr þar.


Brando

Ætla annars í kvöld að fá mér popp og kók blandað notalegu andrúmslofti á fallegu sumarkvöldi og horfa á hina yndislegu kvikmynd On the Waterfront með meistara Marlon Brando. Brando var einn snillinganna í Hollywood og eiginlega er hann ásamt Bogart uppáhaldsleikarinn minn. Hann gat túlkað svipbrigði með mikilli snilld. Í mínum huga var hann alltaf bestur sem hinn voldugi fjölskyldufaðir Don Vito í Guðföðurnum og svo sem Terry Malloy í On the Waterfront. Ég á erfitt með að velja milli þessara hlutverka. Það er eitthvað í hjartanu sem fær mig til að geta ekki valið, enda bæði hlutverkin stórgóð og voru margverðlaunuð.

Vito var sá slyngi en Terry sá mildi inn við beinið. Mér fannst reyndar hann ná alveg ótrúlega vel þeim standard á Vito að vera maður valdsins - þar réð úrslitum valdsmannslegt útlit Brando og hversu sterkur karakter hann var. Enn betra var að sjá svo De Niro leika Vito ungan og allt að því leika Brando. Marlon var svo góður leikari að hann gat fetað öll stigin og þeir sem sjá hann í Apocalypse Now undrast að sami leikarinn sé í öllum þrem, nú eða þá Paul í The Last Tango in Paris. Eftir þetta gæti vel verið að ég skellti mér í að horfa á hina ljúfléttu Roman Holiday með Audrey Hepburn. Audrey og Rómarborg voru aldrei sætari en í þeirri mynd.

Skrifa meira um það á morgun jafnvel ásamt pólitískum pælingum af ýmsu tagi.

Tími nornarinnar

Tími nornarinnar

Seinustu daga hef ég fylgst af miklum áhuga með útvarpsleikritinu kl. 13:00 á Rás 1. Þar hefur verið flutt alveg hreint stórfengleg útvarpsuppfærsla af hinni frábæru skáldsögu Árna Þórarinssonar, Tíma nornarinnar. Þessi vel skrifaða bók hitti mig alveg í hjartastað þegar að ég las hana í ársbyrjun. Þar segir Árni sögu Einars blaðamanns sem nú hefur vikið af braut drykkju og óreglu og haldið norður til Akureyrar til að vinna sem blaðamaður Síðdegisblaðsins á staðnum. Ekki hefur liðið langur tími frá komu hans norður þar til að hann lendir í miðpunkti spennandi og áhugaverðrar atburðarásar sem hann fjallar um af áhuga í fréttaskrifum og hugsar um mikið þess fyrir utan. Spennandi saga með litríkum persónum.

Tími nornarinnar er áhugaverð og vel rituð saga hjá Árna. Þetta er skemmtilegur krimmi frá sjónarhóli blaðamannsins. Sögusvið bókarinnar er eins og fyrr segir sjálfur höfuðstaður Norðurlands, Vor Akureyri. Hló mikið og skemmti mér yfir lestrinum þegar að ég fór fyrst yfir bókina. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu vel Árni hafði sett sig inn í "akureysk" málefni. Hann er með alla staðhætti á hreinu og talar málið eins og hann væri á staðnum. Sérstaklega fannst mér alveg hreint frábært að heyra hann tala um vandamálin á staðnum og eiginlega eru brandararnir svo kaldhæðnir og lúmskir að erfitt er annað en að hafa gaman af lestrinum og fylgjast með af miklum áhuga.

Útvarpsuppfærslan er mjög vel gerð. Hjálmar Hjálmarsson leikur blaðamanninn Einar með sannkölluðum glæsibrag og nær að túlka gamansemi hans mjög vel. Hjálmar gerði sjálfur leikgerðina eftir sögunni og leikstýrir ásamt Guðmundi Inga Þorvaldssyni. Ennfremur fer Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, algjörlega á kostum í hlutverki fréttastjórans Trausta, sem er eins og Einar segir svo skondið slitinn gúmmítöffari af skjánum sem misst hefur sjarmann og er orðinn fréttastjóri í skjóli ritstjórans. Þórhallur túlkar fréttastjórann frábærlega og minnir á góða leiktakta sína í gamla daga, áður en að hann varð sjónvarpsmaður. Svo er ekki hægt að segja annað en að Örn Árnason sé frábær sem Ásbjörn, fréttastjórnandinn á Akureyri.

Þetta er góð saga hjá Árna sem ég hvet alla áhugamenn um spennusögur til að hlusta á þessa dagana á Rás 1. Skemmtilegar tengingar og spennandi atburðarás sem fléttist vel saman undir lokin. Hvet alla sem ekki hafa hlustað til að smella sér inn á ruv.is og hlusta á þetta magnaða útvarpsleikrit. Hef hlegið mikið af útvarpsleikgerðinni - svo sannarlega vel gert hjá Hjálmari og hans fólki. Frábær saga í glæsilegum búningi útvarpsleikhússins.

20 júlí 2006

Framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í NA

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Um þessar mundir eru tíu mánuðir til alþingiskosninga. Spenna er því tekin að aukast vegna þess hvernig framboðslistar verða skipaðir í kjördæmunum að vori. Víða er því velt fyrir sér hvaða þingmenn muni gefa kost á sér til endurkjörs og hverjir muni taka þá ákvörðun að hætta. Það má fyrirfram búast við nokkrum breytingum á flestum framboðslistum hér í Norðausturkjördæmi. Er það ætlun mín að fara yfir framboðsmál þeirra stjórnmálaflokka sem eiga þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi næstu vikurnar. Er eflaust rétt að líta fyrst á framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi hlaut 5.544 atkvæði, eða 23,5%, í alþingiskosningunum þann 10. maí 2003 og tvo menn kjörna. Óhætt er að segja að úrslitin hafi valdið flokksmönnum í kjördæminu miklum vonbrigðum og útkoman verulega undir væntingum. Í sex efstu sætum framboðslistans í kosningunum árið 2003 voru Halldór Blöndal, Tómas Ingi Olrich, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson og Þorvaldur Ingvarsson. Halldór og Tómas Ingi hlutu því kjör en Arnbjörg Sveinsdóttir féll af þingi eftir átta ára þingsetu. Í aðdraganda kosninganna höfðu Tómas Ingi og Arnbjörg tekist á um að skipa annað sætið. Uppstillingarnefnd gerði tillögu um Tómas í annað sætið en við það sættu Austfirðingar sig ekki og kosið var á milli þeirra á þinginu og sigraði Tómas með yfirburðum.

Í aðdraganda þingkosninganna 2003 hafði Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi mikil áhrif í forystu flokksins, enda var Halldór forseti Alþingis og Tómas Ingi var menntamálaráðherra og hafði gegnt því embætti frá afsögn Björns Bjarnasonar í marsbyrjun 2002. Kosningabaráttan var erfið og rétt eins og hjá mörgum flokkum gekk ekki sem skyldi að sameina kjördæmahlutana og ekki bætti átök um annað sætið á kjördæmisþinginu úr skák. Úrslitin ollu sem fyrr segir miklum vonbrigðum og var mikið rætt að kosningum loknum um útkomuna. Það olli flokksmönnum í kjördæminu verulegum vonbrigðum þegar að forysta flokksins ákvað við myndun ríkisstjórnar að Tómas léti af ráðherraembætti við árslok 2003 og Halldór af forsetaembætti þingsins við upphaf þinghalds haustið 2005.

Halldór Blöndal

Halldór Blöndal hefur verið lykilmaður í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hér á Norðurlandi allt frá námsárum sínum í MA og hefur setið þingflokksfundi nær samfleytt frá árinu 1961, sem starfsmaður flokksins og þingfréttaritari Morgunblaðsins áður. Halldór hefur verið alþingismaður frá desemberkosningunum sögufrægu árið 1979 og varð leiðtogi flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra við afsögn Lárusar Jónssonar af þingi árið 1984. Hann sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1987 og hefur síðan verið óskoraður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í þeim kjördæmum sem hann hefur verið í stjórnmálaforystu í, Norðurlandi eystra og Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999.

Halldór varð forseti Alþingis sumarið 1999 og gegndi því embætti í sex ár, allt til haustsins 2005 eins og fyrr hefur verið sagt frá. Síðan hefur hann verið formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Nú þegar að Halldór hefur setið á Alþingi í tæpa þrjá áratugi og nálgast sjötugt eru uppi miklar vangaveltur um hvort að hann muni draga sig í hlé eða gefa kost á sér að nýju. Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur verið ákveðið dagana 14. og 15. október nk. Þar mun verða formlega ákveðið hvort framboðslistinn verði valinn með prófkjöri eða uppstillingu. Þar mun Halldór væntanlega tilkynna hvort að hann hyggi á framboð í væntanlegum kosningum. Þrátt fyrir að Halldór hafi ekki tilkynnt ákvörðun sína eru margar kjaftasögur í gangi varðandi framboðsmálin.

Kristján Þór

Alla tíð frá alþingiskosningunum 2003 hefur verið uppi þrálátur orðrómur um að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, muni gefa kost á sér í alþingiskosningum að ári. Hann hefur verið forystumaður sveitarfélaga nær samfleytt í tvo áratugi og hefur verið bæjarstjóri á Akureyri allt frá árinu 1998. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor var um fátt meira spurt en hvort að Kristján Þór ætlaði í þingframboð. Sigmundur Ernir Rúnarsson og Eyrún Magnúsdóttir þráspurðu bæjarstjórann um þingframboð í kosningabaráttunni og fræg var rimma Kristjáns og Eyrúnar í Kastljósþætti örfáum dögum fyrir kosningarnar í maí. Í þeim þætti gaf Kristján Þór út þá yfirlýsingu að hann myndi verða bæjarstjóri næstu fjögur árin veittu bæjarbúar honum umboð til þess. Sendi hann öllum bæjarbúum póstkort daginn fyrir kjördag með þeim skilaboðum.

Úrslit kosninganna voru nokkur vonbrigði fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri, en örfáum atkvæðum munaði að flokkurinn missti fjórða mann sinn í ellefu manna bæjarstjórn. Þó mátti væntanlega túlka úrslitin sem varnarsigur fyrir flokkinn miðað við skoðanakönnun birta nokkrum dögum fyrir kjördag sem benti til afhroðs flokksins og að hann fengi aðeins þrjá menn kjörna. Í kjölfar kosninganna lauk meirihlutaviðræðum með þeim hætti að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu meirihluta. Þar lá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi bæjarstjórann í þrjú fyrstu ár kjörtímabilsins en Samfylkingin hið fjórða. Með því varð strax ljóst að Kristján Þór yrði ekki bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins. Allt frá þeim tíma hefur Kristján Þór talað mun óskýrar um pólitíska framtíð sína og lokar engum dyrum á þingframboð.

Hávær orðrómur hefur verið uppi um það á Akureyri að þrír bæjarstjórar verði hér í bæ á þessum fjórum árum. Væntanlega er það rétt, nú þegar að flestallt bendir til þess að Kristján Þór fari í þingframboð. Mikið hefur verið talað um að Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, sem nú er starfandi bæjarstjóri í sumarleyfi Kristjáns verði eftirmaður hans og sitji í embættinu til ársins 2009 er Hermann Jón Tómasson verður bæjarstjóri. Ennfremur er hávær orðrómur um það í bænum að skammt sé í það að formleg bæjarstjóraskipti verði. Vænta má líklega niðurstöðu í þessar vangaveltur innan skamms, en bæjarstjórinn íhugar næstu skref sín nú í sumarleyfi. Telja má allar líkur á að Kristján Þór gefi kost á sér í fyrsta sæti framboðslista flokksins í kjördæminu, sem muni leiða til bæjarstjóraskipta innan skamms.

Arnbjörg Sveinsdóttir

Miklar vangaveltur eru uppi um pólitíska framtíð Arnbjargar Sveinsdóttur. Hún missti, eins og fyrr segir, þingsæti sitt í alþingiskosningunum 2003 en tók sæti að nýju á Alþingi þann 1. janúar 2004 er Tómas Ingi Olrich sagði af sér þingmennsku í kjölfar þess að hann lét af embætti menntamálaráðherra og varð sendiherra. Arnbjörg var lítið áberandi fyrstu mánuðina eftir að hún tók sæti á þingi að nýju. Hún varð varaformaður þingflokksins haustið 2004 er Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir varð ráðherra. Við hrókeringar innan Sjálfstæðisflokksins við lok stjórnmálaferils Davíðs ári síðar varð Arnbjörg þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og samhliða því mun meira áberandi í fjölmiðlaumræðunni.

Pólitísk staða Arnbjargar er nokkuð óljós. Má þó telja mjög líklegt að hún vilji færast ofar á framboðslistann og muni sækjast eftir því að leiða listann eða skipa annað sætið. Fullyrða má að hún njóti nokkuð óskoraðs stuðnings Austfirðinga til forystu. Staða hennar sem stjórnmálamanns veiktist mjög við að falla af þingi fyrir þrem árum en hefur styrkst nokkuð eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Það var til marks um álit Davíðs Oddssonar á Arnbjörgu að hún skyldi vera valin til að vera varaformaður þingflokksins fyrir tveim árum og svo valin þingflokksformaður að tillögu Davíðs skömmu áður en hann lét af trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í forystu hans fyrir tæpu ári. Arnbjörg hefur mikið verið áberandi fyrir norðan seinustu mánuði sem bendir til þess að hún muni sækjast eftir forystu á framboðslistanum.


Varaþingmenn flokksins í kjördæminu nú eru Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, og Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður. Hefur Sigríður verið lítið áberandi í kjördæmastarfi flokksins frá seinustu þingkosningum og því talið ólíklegt að hún gefi kost á sér í kjördæminu í væntanlegum kosningum. Hilmar hefur verið áberandi í sínum verkum fyrir austan og jafnframt fróðlegt að sjá hvort að hann gefur kost á sér í ljósi mikilla anna í öðrum verkefnum. Nú þegar hefur Þorvaldur Ingvarsson, læknir, sem skipaði sjötta sæti listans síðast, tilkynnt um framboð sitt í væntanlegum kosningum. Það gerði hann í viðtali við blaðið Vikudag hér á Akureyri í júníbyrjun. Sagðist hann þar stefna á 1. - 3. sæti listans og taldi ólíklegt að það myndi skipta máli þó að Kristján Þór Júlíusson gæfi kost á sér.

Það er því ljóst að margir eru komnir í startholurnar, hafa annaðhvort þegar ákveðið framboð eða hugleiða það þessar vikurnar. Auk þeirra sem fyrr eru nefnd heyrast hér nöfn Davíðs Stefánssonar, fyrrum formanns Varðar og SUS, sem lengi var áberandi í stjórnmálum hér á svæðinu, Illuga Gunnarssonar, sem fæddur er og uppalinn á Siglufirði og hefur verið áberandi í pólitískum verkum fyrir og eftir að hann var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, Soffíu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði, og margra fleiri. Staðan mun væntanlega skýrast fyrr en seinna hvað varðar framboðsmál almennt.

Jafnframt verður væntanlega horft til þess hvort ungliðar gefi kost á sér til verka með áberandi hætti. Eins og flestir vita hlutu ungliðar mikinn skell í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrr á þessu ári og hlýtur niðurstaða þess, í stærsta sveitarfélagi kjördæmisins, að vera ungliðum og eldri flokksmönnum mikilvægt veganesti til þeirra verkefna sem framundan eru, enda skiptir máli eigi flokkurinn að ná árangri að geta höfðað með góðum hætti til allra aldurshópa. Enginn vafi leikur á að staða flokksins á Akureyri hefði verið sterkari í kosningunum í vor hefði ungliðum verið treyst til verka.


Vangaveltur um gengi einstakra frambjóðenda ræðst mjög af því hvort að um prófkjör eða uppstillingu verði að ræða. Bendir flest til þess að prófkjör verði ofan á, enda eðlilegast í stöðunni. Prófkjör hefur ekki verið í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 er Halldór Blöndal varð leiðtogi í NE. Prófkjör var reyndar í Austurlandskjördæmi fyrir kosningarnar 1999, sem Arnbjörg Sveinsdóttir sigraði, en með því varð hún fyrsta konan sem leiddi framboðslista flokksins á landsvísu. Ákveðið var að hafa ekki prófkjör í aðdraganda kosninganna 2003, sem eftir á að hyggja hefði verið eðlilegast í stöðunni og hefði styrkt flokkinn í nýju kjördæmi.

Það verður eins og fyrr segir ákveðið á kjördæmisþingi í október hvert skuli stefna við val á framboðslistanum. Þá munu væntanlega línur hafa skýrst verulega um það hverjir gefi kost á sér til verka: annaðhvort þau sem fyrr eru nefnd eða aðrir sem ekki hafa verið áberandi í umræðunni né voru í framboði síðast. Verði efnt til prófkjörs má væntanlega búast við hressilegum og kraftmiklum átökum um forystusess flokksins í Norðausturkjördæmi.

Helga Jónsdóttir ráðin bæjarstjóri í Fjarðabyggð

Helga Jónsdóttir

Helga Jónsdóttir, borgarritari í Reykjavík, hefur nú verið ráðin bæjarstjóri í Fjarðabyggð, úr hópi 20 umsækjenda um stöðuna. Helga mun taka við bæjarstjóraembættinu af Guðmundi Bjarnasyni þann 1. september nk. Guðmundur hefur verið bæjarstjóri á Austfjörðum í tæp sextán ár. Hann tók við bæjarstjóraembættinu í Neskaupstað í desember 1990 er Ásgeir Magnússon flutti hingað til Akureyrar og varð framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Guðmundur var bæjarstjóri í Neskaupstað til ársins 1998 er sveitarfélagið sameinaðist Reyðarfirði og Eskifirði í Fjarðabyggð og varð hann þá fyrsti bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Í aðdraganda kosninganna í vor sameinaðist gamla Fjarðabyggð, Mjóafirði og Austurbyggð. Hlaut sveitarfélagið nafnið Fjarðabyggð, eins og eitt hið eldra.

Enginn vafi lék á því að Helga var hæfasti umsækjandinn um bæjarstjóraembættið í Fjarðabyggð og ég tel að það sé sterkur leikur fyrir meirihlutann í sveitarfélaginu að ráða hana til starfa. Helga er vissulega mjög reyndur kandidat og hefur á að skipa löngum starfsferli hjá hinu opinbera. Helga hefur verið borgarritari í Reykjavík frá árinu 1995 og verið sviðsstjóri Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar frá árinu 2005. Áður en Helga varð borgarritari var hún aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar sem utanríkis- og forsætisráðherra og um skeið skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Hún hefur auk þess verið varafastafulltrúi hjá Alþjóðabankanum og varð fyrsta kvenna stjórnarformaður Landsvirkjunar.

Það er eflaust hægt að telja lengi upp verk Helgu Jónsdóttur. Það er þó alveg ljóst að það markar mikil tíðindi að hún hafi sótt um bæjarstjóraembættið fyrir austan og verið svo valin til starfans. Með því losnar valdamikið embætti í Ráðhúsinu, embætti borgarritara og forstöðumanns stjórnsýslusviðs borgarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hver verður valinn í hennar stað í Ráðhúsinu.

19 júlí 2006

Yndislegar kvikmyndir

Marlon Brando í Apocalypse Now

Seinustu dagana hef ég notið þess að horfa á góðar og yndislegar kvikmyndir. Pólitíkin hefur verið sett aðeins til hliðar, enda gott að gleyma henni aðeins á heitum og fögrum sumardögum. Ég hef verið að horfa aftur á gamlar stórmyndir, sem ég hafði ekki lengi horft á, og svo að horfa á þessar sígildu og góðu sem alltaf eru eftirminnilegar í kvikmyndasögunni. Hef ég haft gaman af að horfa á Apocalypse Now í Redux útgáfunni aftur. Ég hef lengi verið mikill unnandi þessarar stórmyndar Francis Ford Coppola og sérstaklega notið þess hversu yndislega hrá og svört hún er í innra sem ytra laginu. Coppola vann að myndinni í rúm fimm ár og var hans erfiðasta og dýpsta verk á ferlinum. Brando fékk metupphæð fyrir leik sinn í hlutverki ofurstans, sem myndin snýst öll um en sést aðeins í enda myndarinnar. Viljirðu sjá hráa eðalmynd er þetta toppurinn.

Marlon Brando í The Godfather

Svo hef ég verið að rifja upp kynnin af Guðföðurnum. Þetta er reyndar þrílógía sem ég horfi á að minnsta kosti þrisvar á hverju ári. Þríleikurinn um Corleone-fjölskylduna er slíkt kvikmyndastórvirki að annað eins hefur ekki sést að mínu mati. Allt frá stærstu atriðum til hinna mikilvægu smáatriða kemst til skila í þessum myndum með sannkölluðum glæsibrag. Ég fékk mér um daginn DVD-safnið af myndaröðinni. Það er eiginlega óviðjafnanlegt að horfa á myndirnar undir leiðsögn Francis Ford Coppola sjálfs og heyra þar allt frá a-ö við gerð myndanna og þeirra sem að þeim komu. Coppola segir reyndar á einum stað að það eina sem hann hefði gert hefði verið að leiða saman úrvalsfólk, hvert í sínum geira, til að gera þetta stórvirki. Hlutur hans er náttúrulega stærstur en hann kom þessu glæsilega kvikmyndaverki á hvíta tjaldið. Ég mun á næstu dögum fjalla ítarlega um Guðföðurmyndirnar þrjár, hverja í sínu lagi.

Anne Baxter, Bette Davis, Marilyn Monroe og George Sanders í All About Eve

Nýlega horfði ég svo enn eina ferðina á hið ógleymanlega meistaraverk Joseph L. Mankiewicz, All About Eve. Þetta er náttúrulega rjóminn í kvikmyndagerð síns tíma. Sagan af Eve Harrington og hvernig henni tekst að komast í miðpunkt ævi stórleikkonunnar Margo Channing er enn í dag sannkallaður eðall í kvikmyndasögunni. Það hefur ekki liðið langt á myndina þegar að öllum verður ljóst að Eve er ekki öll þar sem hún er séð. Stórfenglegur leikarahópur fer þarna á kostum: Bette Davis átti leik ferilsins í hlutverki Margo, Anne Baxter er yndislega klók sem Eve, Thelma Ritter er yndislega fyndin sem Birdie, George Sanders skemmtilega illkvittinn sem leiklistargagnrýnandinn Addison, Celeste Holm yndislega fögur sem hin saklausa Karen og Marilyn Monroe skaust upp á stjörnuhimininn þarna í fyrsta skiptið sem saklausa og ljúflétta ljóska. Gullaldarklassík sem skartaði dýnamísku handriti.

Al Pacino og Russell Crowe í The Insider

Rifjaði svo upp kynnin af The Insider - ádeilunni frægu á tóbaksiðnaðinn bandaríska og einkum hinn ábyrgðarlausa fréttaflutning í Bandaríkjunum. Segir magnþrungna sögu dr. Wigand sem er rekinn sem sérfræðingur tóbaksfyrirtækisins Brown & Williamson, einu af þeim stærstu, og sætir miklu harðræði eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Saga hans og þessa fræga máls er diktuð upp af 60 mínútum og það leiðir til mikils uppgjörs. Mér finnst þessi mynd alltaf jafn rosalega vel gerð - eiginlega engu síður en þegar að ég sá hana fyrst í bíó fyrir sex árum. Besta fréttastúdían síðan að All the President´s Men var gerð árið 1976. Russell Crowe og Al Pacino eru stórkostlegir í aðalhlutverkunum. Crowe getur leikið hvað sem er og Al Pacino er einn besti karakterleikari sögunnar og getur leikið allan skalann í karakterleik með glans.

All the President´s Men

Talandi um All the President´s Men. Þetta er mynd sem ég get séð aftur og aftur. Rifjaði hana upp enn og aftur í vikunni. Eins og flestir vita segir hún söguna af því hvernig tveim blaðamönnum The Washington Post tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons í Watergate-málinu fræga, sem leiddi til afsagnar Nixons sumarið 1974. Að mínu mati er þetta besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd. Óviðjafnanlegt að hlusta á DVD-versíón myndarinnar þar sem Robert Redford coverar gerð myndarinnar.

Orson Welles í Citizen KaneCitizen Kane

Í gærkvöldi rifjaði ég svo upp kynnin af hinni frábæru Citizen Kane. Þessi klassíska stórmynd er oft sett fremst á lista yfir bestu myndir kvikmyndasögunnar enda olli hún mjög miklum straumhvörfum í frásagnaraðferð og myndatöku. Hún er feikilega áhrifarík enn í dag og það er hreint ótrúlegt að hugsa til þess að undrabarnið Orson Welles hafi einungis verið 25 ára gamall þegar hann skrifaði hana ásamt Herman J. Mankiewicz, og leikstýrði henni og ennfremur að hún skuli bæði hafa verið hans fyrsta kvikmynd og handrit á ferlinum. Frábærlega coveruð saga blaðakóngs og auðkýfings sem er lauslega byggð á ævi blaðakóngsins William Randolph Hearst. Um fáar aðra myndir hefur verið rætt meira og ritað og endalaust er hægt að rífast um hver var raunverulegur hlutur Orson Welles í heildarmyndinni. Það sem ég veit þó er að þessi mynd er einstök og ég naut hverrar mínútu yfir henni. Þetta er gullmoli.

George C. Scott í hlutverki Pattons

Í kvöld var það svo hin einstaka Patton. Þetta er náttúrulega kvikmyndaupplifun fyrir alla sem njóta kvikmynda - lýsir á mikilfenglegan og stórbrotinn hátt reisn og falli hershöfðingjans umdeilda George S. Patton, en hann var einn af allra snjöllustu herarkitektum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í myndinni er fylgst með herdeild hans og stórum sigrum allt frá innrásinni í Norður-Afríku, Sikiley og Ítalíu uns hann féll loks í ónáð fyrir augnabliksbræði. Stríðsmyndir gerast ekki mikið betri - ein þeirra bestu, hvað varðar gæði og söguígildið. Leikstjórn Franklins Schaffner er í engu ábótavant, hvort heldur sem um er að ræða miklar sögulegar stríðssenur eða svipmiklar nærmyndir af persónu Pattons sem George C. Scott túlkar með bravúr og fékk óskarinn fyrir. Kvikmyndatakan er snilld, allt frá einu af sterkustu upphafsatriðum kvikmyndasögunnar, einræðunni frægu og svipmiklu, allt til loka ferils Pattons.

Kvikmyndir eru stórfenglegar - ég gæti svo sannarlega ekki lifað án þeirra. Talandi um fleiri myndir: ég ætla mér að rifja upp fleiri eðalmyndir sem ég á. Nægir þar að nefna: Reds, From Here to Eternity, It Happened One Night, On the Waterfront, The Grapes of Wrath, A Letter to Three Wives, Viva Zapata!, The Talk of the Town, The Caine Mutiny, Cool Hand Luke, Lavender Hill Mob, City Lights, High Noon, The Deer Hunter, Magnolia, Five Easy Pieces, Missing, Four Weddings and a Funeral, Back to the Future og Die Hard - svo nokkuð sé nefnt. Það er endalaust hægt að njóta kvikmynda. Kvikmyndir eru jú yndisleg ástríða :)

18 júlí 2006

Skipað í stöður bæjarstjóra

Siglufjörður

Í dag var gengið frá ráðningu Þóris K. Þórissonar í embætti bæjarstjóra í Fjallabyggð, nýju sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Frétt um ráðningu hans lak út áður en hún var formlega samþykkt í bæjarstjórn. Þórir er ekki þekktur maður í pólitíkinni hér norðan heiða og verður fróðlegt að fylgjast með verkum hans. Það blasa mörg stór verkefni við Þóri sem nýjum bæjarstjóra í Fjallabyggð. Að auki hefur nú nýlega verið gengið frá ráðningu Sigbjörns Gunnarssonar, fyrrum alþingismanns og sveitarstjóra í Mývatnssveit, sem sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Sigbjörn sat á þingi árin 1991-1995 og var sveitarstjóri í Mývatnssveit 1997-2005. Sigbjörn skipaði eins og flestir vita væntanlega sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Í dag var tilkynnt hverjir hefðu sótt um bæjarstjórastarfið í Norðurþingi, sameinuðu sveitarfélagi í N-Þingeyjarsýslu. Þar sóttu tólf um. Meðal þeirra sem sækja um embættið eru Friðfinnur Hermannsson framkvæmdastjóri, Róbert Trausti Árnason fyrrum sendiherra, og Sigríður Hrönn Elíasdóttir fyrrum sveitarstjóri. Sýnist mér á öllu líklegast að Friðfinnur Hermannsson verði ráðinn bæjarstjóri. Hann er öllum hnútum kunnugur í sveitarfélaginu og var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Húsavík á liðnu kjörtímabili. Það er alveg ljóst á umsækjendum að vart koma nema þrír til fjórir til greina og væntanlega stendur Friðfinnur þar sterkast að vígi. Hann hlýtur altént að teljast langsterkastur af þessum tólf ásamt Róberti Trausta.

Framundan er að ganga frá ráðningu bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Ef marka má lista 20 umsækjenda er Helga Jónsdóttir, borgarritari, væntanlega hæfasti umsækjandinn. Það verður fróðlegt að sjá hver verður ráðinn til starfa. Sögusagnir hafa gengið um að Björn S. Lárusson sé talinn líklegastur, enda greinilega vel tengdur inn í flokkskjarna framsóknarmanna í sveitarfélaginu. Varla koma margir til greina úr þessum hópi umsækjenda. Verður fróðlegast að sjá hvort að Samfylkingin eða Framsóknarflokkurinn fær bæjarstjórann og hvor aðilinn fær nýstofnað embætti sérlegs aðstoðarmanns bæjarstjórans. Þar liggja væntanlega skiptingarnar í bitlingaskiptunum í Fjarðabyggð.

Ályktun stjórnar SUS

SUS

Við í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna höfum sent frá okkur ályktun þar sem fagnað er þeim sjónarmiðum sem fram koma í nýútkominni skýrslu formanns matvælaverðsnefndar forsætisráðherra. Er þetta svo sannarlega öflug og góð ályktun sem ég bendi hérmeð á.

Ályktunin er svohljóðandi:

"Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar þeim sjónarmiðum sem fram koma í nýútkominni skýrslu formanns matvælanefndar forsætisráðherra um að afnám tolla og annarra innflutningshafta sé besta leiðin til að lækka matvælaverð hér á landi. SUS harmar hins vegar að samstaða um þær tillögur hafi ekki náðst í nefndinni vegna andstöðu forræðis- og forsjárhyggjuafla sem þar áttu fulltrúa sína.

Þær tillögur sem fram koma í skýrslu formanns nefndarinnar eru skref í rétta átt en ganga þó alltof skammt að mati ungra sjálfstæðismanna. Frjáls verslun og afnám viðskiptahafta eru þau úrræði sem duga best til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Sjálfsagt er að jafnræðis sé gætt í skattlagningu matvæla og það er síður en svo hlutverk ríkisins að ástunda neyslustýringu með slíkri skattlagningu líkt og einstakir stjórnmálamenn virðast aðhyllast. SUS tekur undir sjónarmið þess efnis í áðurnefndri skýrslu að allar matvörur verði látnar bera sama virðisaukaskatt. Stefna ber að því að sú skattheimta verði í lágmarki.

Samband ungra sjálfstæðismenn skorar á ríkisstjórnina að fylgja vinnu nefndarinnar eftir með niðurfellingu á tollum og öðrum innflutningshöftum sem enn hvíla á innfluttri matvöru. Samhliða þarf að gera grundvallarbreytingar á íslensku landsbúnaðarkerfi og skapa íslenskum bændum svigrúm til að keppa á frjálsum markaði. Ríkisafskipti hafa aldrei haft jákvæð áhrif á neina atvinnugrein og það á ekki síst við um íslenskan landbúnað.

Tímabært er að forræðishyggju og opinberum afskiptum af íslenskum landbúnaði linni svo að framtakssemi og hugvit íslenskra bænda fái notið sín í frjálsri samkeppni."

17 júlí 2006

Gúrkutíð í pólitíkinni á Akureyri

Ráðhúsið við Geislagötu

Það er ekki hægt að segja annað en að rólegt sé yfir stjórnmálunum þessa dagana. Tekist er þó vissulega á um matvælaverð í kjölfar skýrslu nefndar sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, skipaði í ársbyrjun. Tillögur í skýrslu nefndarinnar komu sem athyglisverður blær inn í umræðuna og ljóst að taka þarf pólitíska afstöðu til málsins enda eru tillögur nefndarinnar með þeim hætti að þær skilja eftir sig umhugsun fyrir bæði almenning og stjórnmálamenn. Það er nú stjórnmálamanna að taka afstöðu til þessara tillagna, vonandi með skynsömum og áberandi hætti. Samtímis þessu hækkar bensínverðið upp úr öllu valdi og liggur við að það sé orðinn hreinn og klár munaður að rúnta hringinn um landið þessar vikurnar á hásumri. Svo má auðvitað ekki gleyma Framsókn þar sem menn leita að nýrri forystu eftir að Halldór gufaði upp pólitískt og fór til fjalla.

Það virðist vera mjög rólegt yfir bæjarmálunum hér á Akureyri í kjölfar bæjarstjórnarkosninganna fyrir tæpum tveim mánuðum. Fundur bæjarstjórnar í júlí, sem vera átti nú á morgun, þriðjudag, hefur verið felldur niður vegna skorts á umræðuefnum. Vekur þetta vissulega athygli í þessu stóra sveitarfélagi. Fyrir tveim árum var hið sama upp á teningnum og þá ritaði Jón Ingi Cæsarsson, núv. varabæjarfulltrúi, á vef Samfylkingarinnar hér í bæ: "Það virðist sem hið nýja andlýðræðislega fyrirkomulag meirihlutans sé að létta bæjarfulltrúum, kjörnum fulltrúum Akureyringa, lífið léttara hvað varðar bæjarstjórnafundi." Síðar segir: "Kannski eiga sum vandamál rætur að rekja til þessa tímabils doða og aðgerðaleysis. Mörg mál mega og geta beðið en er það gott að láta alla stjórnsýslu liggja í dvala vikum og jafnvel mánuðum saman?".

Það þarf varla að taka það fram að enga slíka gagnrýni er að finna nú á vef Samfylkingarinnar hér á Akureyri þessar sumarvikurnar. Þessar vikurnar er Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, í sumarleyfi. Í fjarveru hans hafa þau Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs og leiðtogi Samfylkingarinnar, og Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, skipt bróðurlega og í fullum kærleika með sér því verkefni að leysa hann af. Seinustu vikur hefur Hermann Jón einn gegnt embættinu en ef marka má fréttir Svæðisútvarpsins í gær hefur Sigrún Björk nú tekið við bæjarstjóraembættinu, allavega í einhverjar vikur. Væntanlega mun bæjarstjóri snúa aftur til sinna starfa í byrjun næsta mánaðar. Ekki er óeðlilegt að forystumenn stjórnmála haldi í sumarleyfi - hefð hefur verið fyrir því frá 1998 að pólitískir samstarfsleiðtogar leysi hér bæjarstjóra af í fríinu hans í gúrkutíðinni.

Það vakti athygli mína fyrir nokkrum vikum að heyra í fréttahelsti Sjónvarpsins talað um að bæjarstjórinn á Akureyri væri að tjá sig um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skera niður af ýmsu tagi. Svosem eðlilegt að leitað væri viðbragða frá þeim bænum - vissi reyndar að hann væri þá fjarri sínum störfum og í fríi einhversstaðar fjarri bænum. En þá birtist Hermann Jón Tómasson í viðtali hjá Karli Eskil - ekki aðeins var hann titlaður bæjarstjóri (ekki starfandi bæjarstjóri sem eðlilegast hefði verið) og þar að auki var hann þá staddur greinilega á skrifstofu bæjarstjóra í Ráðhúsinu við Geislagötu og greinilega sinnir hann sínum verkum frá henni í fjarveru bæjarstjórans. Fannst mér merkilegt að sjá þetta viðtal þar sem ég var þá staddur í sumarleyfi austur á fjörðum og hugleiddi ég þá hversu merkilegt þetta væri.

En það er greinilega mikil gúrkutíð í pólitíkinni hér á Akureyri í ljósi þess að ekkert er til að fylla dagskrá á bæjarstjórnarfundi og fátt almennt um að tala á þeim vettvangnum - eflaust er eðlilegast og ráðlegast að halda út í sólina og hugsa um eitthvað annað en gúrkutíðina næstu vikurnar í þeim bransanum. Það er reyndar svo sannarlega hið mesta lán fyrir okkur að til sé þó fólk sem getur staðið vaktina á bæjarskútunni í þessari miklu pólitísku lognmollu sem uppi er.

Stokkum upp landbúnaðarkerfið

Guðni Ágústsson

Ég var að enda við að horfa á þáttinn Pressuna á Netinu nú eftir miðnættið. Í dag sá náfrændi minn, Helgi Seljan, um þáttinn. Meðal þess helsta í þættinum að þessu sinni var merkilegt viðtal við Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra. Fara Guðni og Helgi þar yfir helstu málefni stjórnmálanna þessar sumarvikur. Rétt eins og viðtalið við Jón Sigurðsson fyrir rúmri viku er um að ræða áhugavert viðtal sem vekur athygli þeirra sem áhuga hafa á stjórnmálum. Eins og gefur að skilja er meginefni viðtalsins yfirferð yfir forystukapalinn í Framsóknarflokknum. Guðni hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformennsku áfram en fer ekki í formannsslag við Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í viðtalinu fer Guðni nánar yfir ástæður þeirrar ákvörðunar sinnar og aðra tengda þætti. Greinilegt er t.d. að Guðni er lítið hrifinn af hugmyndum um að einkavæða Landsvirkjun.

Ég verð að viðurkenna að merkilegast fannst mér að sjá þá fara yfir stóriðjumálin og stöðu mála á Austfjörðum. Frægar eru skoðanir Helga, frænda míns, á stóriðjumálunum fyrir austan allt frá því að stofnaði Biðlistann fyrir kosningarnar 2002 og fram að frægum pistli hans á Talstöðinni sálugu fyrir tæpu ári. Móðurbróðir minn, Helgi Seljan eldri, fyrrum alþingismaður, var lengi virkur stóriðjuandstæðingur í pólitískum verkefnum, enda alþingismaður að hálfu Alþýðubandalagsins til fjölda ára. Allir sem fara austur á firði þessar vikurnar og seinustu árin hafa orðið var við miklar breytingar á Austfjörðum í kjölfar framkvæmda við Kárahnjúka og á Reyðarfirði. Tek ég undir með Guðna og skoðunum hans í þessu viðtali að mjög ánægjulegt er að sjá Austfirðina blómstra í kjölfar þessara framkvæmda. Allir sem fara til Reyðarfjarðar sjá allavega mikinn mun á staðnum seinustu árin.

Eitt af helstu málefnum viðtalsins voru svo auðvitað landbúnaðarmálin, málaflokkur Guðna í ríkisstjórn. Um þessar mundir hefur hann setið á stóli landbúnaðarráðherra í rúm sjö ár og Framsóknarflokkurinn haft málaflokkinn á sinni könnu í rúm 11 ár, allt frá vorinu 1995. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ráðherrar flokksins hafa í þennan áratug verið talsmenn sífellt meiri ríkisafskipta á flestöllum sviðum landbúnaðarmála. Ennfremur voru þeir algjörlega á móti allri hagkvæmni í landbúnaði. Guðni Ágústsson er t.d. enn á því að mjólkurframleiðsla landsmanna eigi að vera byggð upp á litlum og notalegum fjölskyldubúum sem voru blómleg hérna í eldgamla daga. Hann telur aftur á móti stærri bú og vélvæðingu af hinu illa. Með því vill hann setja bændum takmarkanir til að ráðstafa eigum sínum og koma í veg fyrir að þeir selji öðrum bændum, sem leiði til þess að aðrir stækki og eigi hagkvæmari bú.

Það hefur greinilega verið framtíðarsýn framsóknarráðherranna í landbúnaðarráðuneytinu allt frá árinu 1995 að bændur skuli búa áfram á sínum litlu og notalegu fjölskyldubúum, hvað svo sem tautar og raular. Skítt með alla framtíðarsýn. Og eins og geta má nærri á almenningur að styrkja áfram með ríkulegum hætti allt heila báknið, enda gengi sennilega ekkert annað upp. Breytingar og ferskur hugsunarháttur með tilliti til nútímans í landbúnaðarmálum eru bannorð í hugsunargangi núverandi ráðherra sem virðist því miður vera pikkfastur í sama hjólfarinu. Finnst mér það mikill ljóður á hans ráði. Það er hverjum manni ljóst sem lítur á verk núverandi landbúnaðarráðherra og framtíðarsýn hans og ekki síður nefndafargan ráðuneytis hans í landbúnaðarmálum að hann telur rétt að ríkisafskipti dafni og ríkið eigi allsstaðar að vera sá sem hugsar en ekki einstaklingurinn sjálfur.

Gott dæmi í þessum efnum sást í spjalli Helga og Guðna um landbúnaðarmálin í kjölfar skýrslu matarverðsnefndarinnar sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, skipaði í ársbyrju og var undir forsæti Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra. Mér leist virkilega vel á skýrslu nefndarinnar og megintillögur hennar. Tel ég mikilvægt að þær verði að veruleika. Séu þær settar upp sem raunveruleiki blasir við að matarreikningur hinnar venjulegu fjölskyldu í landinu getið lækkað um allt að 50.000 krónum á ári, sé miðað við lægri mörk, en allt að 130.000 sé miðað við hærri mörkin. Þetta eru það mikilvægar tillögur að það er einsýnt í mínum huga að þær verði að vera að veruleika. Matarverð hér á landi er alltof hátt og mikilvægt að leita allra leiða til að lækka það.

Sérstaklega finnst mér mikilvægt að leggja til atlögu við landbúnaðarkerfið og stokka það verulega upp. Það er enda ekki eftir neinu að bíða. Mín skoðun er hiklaust sú að breyta eigi lögum með þeim hætti að draga verulega úr innflutningshömlum í formi tolla á landbúnaðarvörur, það verður að auka samkeppni milli innlends og innflutts landbúnaðarafurða og stokka upp stöðuna á þeim markaði. Fyrst og fremst þarf að lækka matarverð hérlendis - það er svo sannarlega hægt sé farið eftir þessum megintillögum sem fyrr eru nefndar. Ég tel að meirihluti sé á Alþingi fyrir slíkum tillögum og jafnvel allir flokkar nema Framsóknarflokkurinn séu tilbúnir til að styðja slíkar breytingar.

Eins og vel kom fram í þessu viðtali er Guðni Ágústsson algjörlega andsnúinn tillögu um að afnema innflutningstolla, þó jafnvel í áföngum væri. Hann brást hinn versti við er á slíkt var minnst og langt því frá sáttur við tilhugsunina eina - hvað þá að láta það fara í framkvæmd - þó það væri gert í skömmtum. Framsóknarflokkurinn er enn við sama heygarðshornið í sveitinni heima og vill engu breyta - halda skal í skaddað og úrelt kerfi svo lengi sem mögulegt má vera, þó það skaði hagsmuni hins almenna neytanda í landinu. Svo er Framsóknarflokkurinn hissa á því að hann sé allt að því að þurrkast út í þéttbýlinu með þessa stefnu uppi og þennan landbúnaðarráðherra við völd talandi fyrir þessum skoðunum í kjölfar fyrrnefndrar skýrslu sem skannar vel vandann.

Er löngu ekki kominn tími til að stokka upp þennan hugsunarhátt og reyna að hugsa í takt við nútímann? Gott dæmi um afdalahugsunarhátt núverandi ráðherra að auki því sem fyrr er nefnt er að hann vill áfram að ríkið ákveði mjólkurverð og taki endanlegar ákvarðanir um hvað skattborgarar borga fyrir mjólk. Það á ekki að láta hinn frjálsa markað verðleggja þá nauðsynjavöru sjálfa eins og flest annað. Það eru endalausar nefndir og ráð sem ákveða svo fyrir aðra, almenning, hvernig hagað er skipulagi í landbúnaðarmálum. Það er fyrir löngu kominn tími til að fara af þessari vegferð til glötunar og stokka landbúnaðarkerfið allt algjörlega upp, með tilliti til nútímans.

Því fyrr, því betra fyrir allan almenning.