Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 október 2002

Athyglisverður áfangi - meiri einkavæðingu - góður pistill Björns
Í dag urðu mikil tímamót í íslensku viðskiptalífi. Ríkið hefur selt ráðandi hlut sinn í Landsbankanum. Ennfremur er stefnt að því að selja hlut ríkisins í Búnaðarbankanum fyrir lok þessa árs. Þetta sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Þessu ber að fagna, enda hef ég persónulega lengi verið mikill stuðningsmaður einkavæðingar. Ég settist niður seinnipart dags og skrifaði pistil um þessi miklu tíðindi og einkavæðingu almennt. Þessar pælingar mínar birtust á Íslendingi, heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Í kvöld birtist á heimasíðu Björns Bjarnasonar ítarlegur pistill um Íraksdeiluna og málefni Línu.Nets og vinnubrögð R-listans í því máli. Athyglisverður pistill sem ég mæli með. Horfði á Gísla Martein í kvöld og góðan þátt hans. Þar var athyglisvert viðtal við Ingólf Margeirsson þar sem hann ræddi opinskátt veikindi sín. Einnig voru hjá honum Vala Matt og Bubbi Morthens. Bubbi söng lag af nýju plötunni sinni, sem ég tel að sé hans besta. Ég var búinn að fá leið á hinum pólitísku einstefnulögum hans, en verð að viðurkenna að þessi nýja plata er algjör gæðasmíð, er búinn að kaupa hana. Einnig tóku Selma og Hansa lagið, en þær eru einnig nýbúnar að senda frá sér disk. Spaugstofumenn voru beinskeyttir í kvöld og gerðu létt grín að landsliðinu og óförum þess gegn Skotum, hvalveiðum, rjúpnaskyttum og mörgu fleiru. Gert var létt grín af Kastljósviðtalinu við formenn stjórnmálaflokkanna. Það verður að segjast enn og aftur að Örn Árnason er sannkallaður snillingur. Hann fer á kostum í hlutverki Davíðs og enginn sem nær honum betur.

Veturinn handan við hornið - góður pistill Björns um SÞ
Veturinn er farinn að minna hressilega á að hann sé handan við hornið. Hér á Akureyri er farið að sjást glögglega hvaða árstími er að taka við. Hvít jörð og að verða nokkuð vetrarlegt. Sumarið hér fyrir norðan var afskaplega slappt en haustið hefur verið nokkuð gott og haldist gott nokkuð lengi allt þar til nú. Vonandi verður veturinn góður og snjóléttur, segi ég. Í kuldanum er gaman að lesa blöðin, sérstaklega fannst mér gaman að lesa Vettvangspistil Björns Bjarnasonar alþingismanns og borgarfulltrúa, um öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og mögulega þátttöku Íslands í því starfi á komandi árum í Morgunblaðinu í dag, en Ísland sækist nú eftir því að fá þar sæti. Björn hefur seinustu tvær vikur verið í New York og setið allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og því kynnst þessum málum glögglega af eigin raun. Pistlar Björns eru ávallt fræðandi og málefnalegir og skemmtilegir til lestrar. Flott hvernig borgarstjórnarflokkurinn hefur starfað seinustu vikurnar og tekið á R-listanum, t.d. í Línu.Nets-málinu á vettvangi borgarstjórnar og í stjórn Orkuveitunnar. Björn stjórnar flokknum rétta leið - á málefnalegan hátt.

Frábær spennutryllir - ógleymanlegur Möltufálki
Fór í gærkvöldi í bíó og sá spennumyndina Red Dragon þar sem sagt er frá fyrsta kaflanum í sögunni af mannætunni Hannibal Lecter. Þessi mynd gerist því á undan óskarsverðlaunamyndinni The Silence of the Lambs og Hannibal. Þessi mynd er bæði æsispennandi og frábærlega leikin af sannkölluðum leiksnillingum. Fremstur í flokki þeirra er að sjálfsögðu Anthony Hopkins sem hlaut óskarinn fyrir leik sinn í TSOTL. Hann er frábær leikari og túlkar brenglun Lecter óaðfinnanlega og ósmekklega matarsiði. Ég mæli með því að allir skelli sér í bíó og kíki á þessa úrvalsmynd. Skömmu eftir að heim var komið var svo farið að horfa á imbann og bar vel í veiði. Í ríkiskassanum var eðalræman Thirteen Days þar sem segir frá Kúbudeilunni 1962. Góð mynd og vel leikin, mjög góð sagnfræðilega séð og skemmtileg áhorfs og fræðandi. Á sunnudaginn ber svo vel í veiði en þá verður ein af mínum uppáhaldsmyndum sýnd hjá RÚV. The Maltese Falcon er sannkölluð klassamynd frá 1941 og skartar eilífðartöffaranum Humphrey Bogart í aðalhlutverki. Ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla. Þar sem ég er einn slíkur er garenterað að ég sitji fyrir framan imbann á sunnudagskvöldið með popp og kók, hvað annað!