Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 október 2002

Gróskumikið menningarlíf á gömlu góðu Akureyri
Menningarlífið hér á Akureyri er í miklum blóma nú á haustdögum. Í lok september var Hamlet frumsýndur hjá Leikfélagi Akureyrar. Er þar um að ræða vandaða og góða sýningu sem vert er að mæla með. Leikhópurinn fer allur á kostum og Sveinn Einarsson hefur enn og aftur sannað yfirburði sína sem einn fremsti leikstjóri landsins. Ég fór að sjá sýninguna um frumsýningarhelgina og hafði mjög gaman af. Ógleymanleg kvöldstund bíður allra þeirra sem fara að sjá sýninguna í Samkomuhúsinu. En það eru fleiri stórviðburðir á Akureyri í menningarlífinu. Nýlega var opnuð í Listasafni Akureyrar sýningin Rembrandt og samtíðarmenn hans. Það er unaðslegt að drekka í sig listina á þessari sýningu og hefur hún svo sannarlega hitt beint í mark og slegið öll aðsóknarmet. Sýningin stendur til 27. október, það má enginn missa af þessum stórviðburðum hér á Akureyri; Hamlet og Rembrandt. Hægt er að fræðast meira um þessa viðburði með því að fara á Menningarvef Akureyrarbæjar þar sem allar upplýsingar eru fyrir hendi. Er þar um að ræða yfirgripsmikinn og fræðandi vef sem er stýrt af Helga Vilberg skólastjóra Myndlistaskólans á Akureyri. Það er því óhætt að segja að Akureyri standi undir nafni sem fyrsta flokks menningarbær.

Flugsögu Íslands gerð góð skil í mögnuðum þáttum
Seinustu þrjú sunnudagskvöld hefur flugsögu Íslendinga verið gerð góð skil á RÚV í frábærri heimildarþáttaröð Sögu Film. Næsta sunnudagskvöld er komið að fjórða og seinasta þættinum. Það sem einkennir þættina eru hressileg og skemmtileg efnistök umfram allt. Mikið af spennandi myndefni er í boði og skemmtileg viðtöl við þá sem komu nærri flugfélögunum á árum áður. Allt skapar þetta ógleymanlega heimildarþáttaröð sem ég hef persónulega haft mjög mikinn áhuga á að fylgjast með og er í senn bæði fræðandi og skemmtileg. Alltaf gaman að sjá íslenskt úrvalsefni hjá sjónvarpsstöð allra landsmanna, mætti vera meira af svona úrvalsefni á dagskránni.