Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 október 2002

Spennandi prófkjör framundan
Framundan eru mörg spennandi prófkjör hjá flokkunum þar sem valið verður á framboðslista þeirra fyrir komandi kosningar. Óhætt er að segja að spennan magnist dag frá degi. Á fimmtudaginn rennur út framboðsfrestur í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum sem verður 22. og 23. nóvember nk. Þegar er ljóst að margir sækjast eftir góðu sæti á listum flokksins. Ennfremur má búast við að nýliðar sæki að þingmönnum flokksins. Ég fjalla nánar um prófkjörið í borginni þegar fyrir liggur hverjir munu taka þátt í því. Í Norðvesturkjördæmi verður prófkjör hjá flokknum 9. nóvember og verður þá kosið á milli 10 einstaklinga sem gáfu kost á sér. Er ljóst að slagurinn um leiðtogastólinn snúist á milli Sturlu Böðvarssonar, Einars K. Guðfinnssonar og Vilhjálms Egilssonar. Þarna slást fimm þingmenn um færri örugg sæti og ljóst að slagurinn verður harður. Hjá Samfylkingunni verða spennandi prófkjör sama dag í Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum. Ljóst er að þrír þingmenn berjist um leiðtogastólana í borginni; Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Bryndís Hlöðversdóttir. Heyrst hefur að Össur, Bryndís og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, hafi gert samkomulag sín á milli til að losna við Jóhönnu vegna skoðana hennar á Evrópumálum, en eins og flestir vita er hún á móti ESB-aðild, en það þykir ekki passa á þeim bænum. Í Suðvesturkjördæmi berjast Rannveig Guðmundsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson um forystuna en í Suðurkjördæmi, þau Margrét Frímannsdóttir og Lúðvík Bergvinsson. Framundan er því gósentími fyrir áhugamenn um pólitík og skemmtilegar spekúleringar fyrir prófkjörin.

Skemmtileg kvikmyndaplott - gamlar perlur
Gaman var að sjá The Maltese Falcon síðasta sunnudagskvöld, alltaf sama perlan. Plottið er svolítið flókið þegar maður sér myndina fyrsta sinni, þetta er ein af þessum myndum sem verður að horfa oftar en einu sinni á. Gott dæmi um slíkar myndir er nýlegt meistaraverk The Sixth Sense með Haley Joel Osment og Bruce Willis. Endirinn á myndinni varð þess valdandi að flestum brá (allavega mér) og þurftu því að sjá myndina aftur til að skilja plottið til fulls. Annars skilst mér að Sjónvarpið muni hafa klassískar úrvalsmyndir kvikmyndasögunnar á boðstólum reglulega á næstunni. Veislan hófst fyrir rúmri viku með High Noon, klassískum vestra með Gary Cooper og Grace Kelly, og heldur áfram næsta sunnudagskvöld með úrvalsmyndinni Casablanca frá 1942. Í henni fara þau Humphrey Bogart og Ingrid Bergman á kostum.

Tveir mætir félagar fara í prófkjörsslag
Félagi minn, Ingvi Hrafn Óskarsson formaður SUS, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, 22. og 23. nóvember nk. Ég er ánægður með þessa ákvörðun Ingva og vona að hann nái góðum árangri í þessum slag, það er nauðsynlegt að ungliðahreyfingin eigi fulltrúa á þingi og ég treysti Ingva til góðra verka. Einnig hefur Birgir Ármannsson tilkynnt um framboð sitt. Ég hvet félaga mína í ungliðahreyfingunni í borginni til að fylkja sér um þá og tryggja að þeir nái góðum árangri í prófkjörinu. Það er mjög mikilvægt að svo verði.

Heimasíða Fjölnis - ógleymanleg helgi á Hellu
Fjölnir, félag ungra sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu, hefur opnað heimasíðu á Netinu. Þar er umfjöllun um félagið og starfsemi þess og ýmsar upplýsingar. Þar er einnig að finna myndir sem teknar voru helgina 13. - 15. september sl. en þá var málefnaþing SUS á Hellu. Þessar myndir sanna glögglega að góð stemning var á staðnum. Allir skemmtu sér konunglega og hópurinn staðráðinn í að hafa bæði gagn og gaman af þessu. Ég skellti mér til Hellu og hafði virkilega gaman af þessu, athygli mína vakti hversu margir höfðu lesið pistlana mína og vissu almennt af tilvist minni, það var mér mikið ánægjuefni að fleiri en ég hafa gaman af þessum pælingum mínum um pólitíkina. Þegar ég skoðaði myndirnar fann ég mynd af mér (í bláu skyrtunni) og félaga mínum, Arnljóti Bjarka. Þessi mynd er tekin snemma föstudagskvölds, en það kvöld endaði í sumarbústað á bökkum Rangár þar sem Gísli Marteinn sjónvarpsstjarna og félagi minn, stjórnaði spurningaleik eins og honum einum var lagið í heita pottinum. Þetta var skemmtileg helgi og ógleymanleg.