Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 nóvember 2002

9 mánuðir frá opnun heimasíðu - 20.000 heimsóknir
Í dag, 19. nóvember 2002, eru 9 mánuðir liðnir frá því að ég opnaði heimasíðu á Netinu. Ég ákvað eftir mikla umhugsun að réttast væri að ég setti pistlana mína saman á einn stað, það væri athyglisvert að geyma þá alla á sama staðnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á stjórnmálum og pólitískri umræðu og fannst þá tilvalið að ég kæmi fram með mínar skoðanir og gerði það á minn hátt. Ég hef frá upphafi engan leynt að ég er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og er málsvari hugsjóna þeirra sem flokkurinn hefur kennt sig við og er dyggur stuðningsmaður flokksins og forystumanna hans. Þegar ég tók þá ákvörðun að setja upp mína eigin síðu renndi ég eiginlega blint í sjóinn með það, ég vissi ekki hvaða viðtökur ég myndi fá og hvort fólk myndi yfir höfuð hafa áhuga á síðunni sem slíkri. Fyrst í stað var því ekki hægt að sjá hversu margir litu á hana. Með því að setja upp teljara hef ég fylgst með fjölda gesta hér og 24. ágúst 2002 náði sá fjöldi yfir 10.000 heimsóknir. Í dag, á afmælisdegi síðunnar, náði fjöldi heimsókna í 20.000. Í kjölfar þess að ég opnaði bloggsíðuna fyrir rúmum mánuði, hefur fjöldinn aukist mjög og ljóst að margir hafa áhuga á að lesa þær pælingar mínar og greinar eftir mig. Þeir sem líta á síðurnar mínar eru alls ekki allt einstaklingar sem eru sammála mér í stjórnmálum. Ég er mjög ánægður með að pistlarnir vekja áhuga fólks úr ýmsum flokkum og eru lesnir af fólki með mjög ólíkar stjórnmálaskoðanir. Ég hef fengið marga tölvupósta þar sem fólk tjáir sig um síðuna og um sínar skoðanir, ég er ánægður með þessi viðbrögð, og þakka kærlega fyrir þau.

Nýtt útlit heimasíðu Björns - Björn í þriðja sætið
Fyrir tæpum átta árum varð Björn Bjarnason fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem opnaði heimasíðu á Netinu. Í dag eru flestir þeirra sem hasla sér völl í stjórnmálum komnir með slíkar síður og birta þar skoðanir sínar og vangaveltur. Björn var því frumkvöðull á þessu sviði hérlendis. Á heimasíðu sinni hefur hann birt ítarlega pistla vikulega, birtir þar allar greinar og ræður sínar og birtir þar dagbók sína og uppfærir hana reglulega. Í dag breyttist heimasíða Björns og tók á sig nýja og ferskari mynd. Í prófkjörinu um helgina sækist Björn eftir þriðja sætinu. Ég skora alla sjálfstæðismenn í Reykjavík að kjósa hann í það sæti. Það er nauðsynlegt að Björn verði í forystusveit flokksins í borginni og verði fulltrúi borgarbúa bæði á vettvangi borgarstjórnar og Alþingis. Það er mikilvægt að flokkurinn njóti krafta hans og gríðarlegrar reynslu af stjórnmálum í komandi kosningabaráttu.

Heimasíða Gulla Þórs - Solla (geð)stirða á fjölskyldudeginum
Fyrir tæpri viku opnaði Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi og frambjóðandi í prófkjöri flokksins, heimasíðu sína. Er þar margt athyglisvert efni og t.d. segir þar frá fjölskyldudegi á kosningaskrifstofu hans við Vegmúla og að mikið af fólki hafi mætt með börn sín eða barnabörn og allir hafi skemmt sér konunglega. Segir á heimasíðunni að Solla stirða og töframaðurinn Lalli hafi vakið mikla lukku hjá smáfólkinu og mikið hafi verið skrafað um stjórnmálin. Gísli Marteinn Baldursson leiðtogi fjölskyldudagsins, átti hug og hjarta viðstaddra eins og venjulega. Hann fór fögrum orðum um frambjóðandann Guðlaug Þór og útskýrði fyrir viðstöddum að aðalskemmtiatriðið væri Solla stirða úr Latabæ en ekki Solla geðstirða úr Ráðhúsinu. Vakti sú athugasemd að vonum kátínu en Gísli taldi að helsta ástæðan fyrir geðstirðni Sollu væri öflug stjórnarandstaða Guðlaugs Þórs. Gott komment hjá Gísla. Ég vona að Gulli nái góðum árangri í prófkjörinu um helgina.