Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 nóvember 2002

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Í dag er fyrri dagur prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Var skynsöm ákvörðun hjá fulltrúaráðinu í borginni að hafa kjördagana tvo og tel ég að um það séu almennt allir sammála. Seinustu vikurnar hafa pólitískir samherjar barist á heiðarlegan og yfirvegaðan hátt um stuðning flokkssystkina sinna í prófkjörsslagnum, og ekki yfirkeyrt baráttuna með auglýsingaflaumi, svipuðum þeim sem sumir frambjóðendur hafa farið flatt á . Að loknu þessu prófkjöri munu Sjálfstæðismenn í borginni sameinast um þá sem valdir verða. Mikilvægt er að flokkurinn sé samhentur í borginni og takmarkið er að flokkurinn eigi að minnsta kosti helming þingmanna borgarkjördæmanna. Það tekst með því að bjóða sterka lista með góðu fólki. Ég efast ekki um að það takist.

Skrifað til stuðnings Birni
Ég hef fylgst með prófkjörsslagnum úr fjarlægð en ekki farið leynt með hverja ég styð í þessum slag. Ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þar lýsi ég yfir stuðningi mínum við Björn Bjarnason alþingismann og leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, í þriðja sæti listans. Ég veit með vissu af kynnum mínum af honum að hann sé traustsins verður og mikilvægt að hann verði í forystusveit flokksins í borginni við þessar kosningar. Reynsla hans af stjórnmálum er mikilvæg og enginn er fróðari en hann um utanríkis- og menntamál í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hann er gríðarlega vinnusamur og kynnir sér málin til fulls, hann hefur ótrúlega starfsorku og hefur sannað að hann er kraftmikill forystumaður. Á morgun birtist í Morgunblaðinu grein til stuðnings félögum mínum úr SUS, þeim Sigurði Kára Kristjánssyni og Ingva Hrafni Óskarssyni.

Frábærir þættir Jóns Ólafssonar
Á Edduverðlaunahátíðinni fyrr í þessum mánuði var þáttur Jóns Ólafssonar tónlistarmanns, Af fingrum fram á RÚV valinn besti sjónvarpsþáttur ársins 2002. Var sá heiður verðskuldaður, enda þættirnir mjög áhugaverðir og skemmtilegir. Þar ræðir Jón við þekkta tónlistarmenn um feril þeirra og ævi. Eru þættirnir á ljúfu nótunum og óformlegir. Hef horft á alla þættina og tel þá vera með því besta sem í boði er í Sjónvarpinu. Jón stendur sig vel með þessa þætti og á mikið hrós skilið fyrir þá. Skemmtilegt sjónvarpsefni í skammdeginu.