Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 nóvember 2002

Söguleg úrslit - athyglisverð fréttaskýring
Eins og við var að búast hafa spekingar frá vinstrivæng stjórnmálanna reynt að gera sem allra minnst úr helstu úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Þar unnu 3 ungliðar glæsta sigri og tryggðu sér örugg þingsæti. Orð vinstrimanna breyta ekki því að um helgina varð kynslóðabylting innan flokksins í kjölfar prófkjörsins. Það hefur aldrei gerst fyrr í prófkjöri að þrír menn sem tilheyra ungliðahreyfingunum nái samtímis öruggu þingsæti, aldrei! Sigurður Kári hefur t.d. gríðarlega mikið fylgi meðal ungs fólks, eins og sannaðist í þessum slag og sama má segja um hina tvo. Ég skil vel að vinstrimenn geri lítið úr því að 29 ára gamall sjálfstæðismaður setjist á þing næsta vor, staðreyndirnar tala þó sínu máli. Þetta eru söguleg úrslit, fólk vildi endurnýjun og hleypir ungu mönnunum að. Þeir eru fulltrúar nýrrar kynslóðar sjálfstæðismanna í forystunni í Reykjavík, á því leikur enginn vafi og þingflokkurinn mun yngjast verulega upp vegna þessara úrslita. Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að fá 11-12 menn kjörna í borginni, það er mikilvægt að sterkar og öflugar þingkonur verða í baráttusætunum og markmiðið að koma allavega annarri þeirra að. Í gær birtist í DV athyglisverð fréttaskýring Ólafs Teits Guðnasonar um prófkjörið og úrslit þess, og ætti að vera athyglisverð fyrir alla áhugamenn um stjórnmál.

Ótrúleg veðurblíða - mánuður til jóla
Mikil veðurblíða hefur verið hér fyrir norðan seinustu dagana, vissulega rignt en er alveg snjólaust. Er ótrúlegt að mánuður sé til jóla ef marka má veðurfarið. Ef skammdegið væri ekki skollið á mætti helst álíta að vor væri, svo gott hefur veðrið verið. Um miðjan október snjóaði nokkuð hérna og var jafnvel álitið að veturinn yrði harður, en seinustu vikurnar hefur veðrið verið gott og ekki hægt að ímynda sér hvaða árstími er af veðurfarinu. Eins og fyrr segir er tæpur mánuður til jóla og því fer jólaundirbúningurinn að hefjast á fullu. Pólitíkin hefur verið ansi fyrirferðarmikil í skrifum mínum seinustu vikurnar, enda mikið verið um prófkjör og framboðslistar víðsvegar að komast á hreint. Nú má hinsvegar búast við að jólaannir taki við af pólitíkinni. Er þegar búinn að skrifa öll jólakort og sendi þau eftir ca. tvær vikur, er alltaf snemma í því. Einnig búinn að kaupa allar jólagjafirnar. Hreint óþolandi að gera þetta á síðustu stundu. Ég vona að veðrið verði jafngott áfram, enda ég lítið fyrir snjó. Vil helst hafa rauð jól og snjólaust yfir hátíðirnar. Ég mun skrifa einhverja pistla í desember en það má búast að þeir verði færri en aðra mánuði vegna annarra anna, þó mun ég alltaf koma fram með skoðanir mínar á málefnum dagsins í dag hér.