Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 nóvember 2002

Styttist í úrslitin - unga hugsjónamenn á þing
Í dag er seinni dagur prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kjörsókn virðist hafa verið mjög góð í gær og höfðu þá rúmlega 2.200 flokksmenn greitt atkvæði. Spennandi verður að fylgjast með því hversu margir kjósa samanlagt báða þessa daga. Von er á fyrstu tölum um sexleytið í kvöld og svo reglulega eftir það og úrslitin eiga að liggja fyrir um miðnættið. Verður athyglisvert að sjá hverjir muni verða í fararbroddi á framboðslistum flokksins í borgarkjördæmunum tveim. Það er mikilvægt að valið verði gott og frambærilegt fólk á listana og með því tryggt að sigur flokksins í borginni í vor verði glæsilegur. Ég skrifa í dag grein í Morgunblaðið til stuðnings félögum mínum úr SUS, þeim Sigurði Kára og Ingva Hrafni. Það er von mín að ungt fólk nái góðum árangri í þessum prófkjörsslag og tel rétt að styðja þá félaga mína sem ég bæði treysti og vil sjá í eldlínu stjórnmálanna á komandi árum.

Frábær grein Halldórs í Mogganum
Í gær skrifaði Halldór Blöndal forseti Alþingis, frábæra grein um dóminn yfir sjávarútvegsráðherranum í Héraðsdómi Reykjaness og pælir í málinu á skemmtilegan hátt. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa grein Halldórs, það verður enginn svikinn af því að lesa hana. Allavega hafði ég mikið gaman af því að lesa hana. Halldór fer þarna á kostum.