Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 desember 2002

Ingibjörgu Sólrúnu ekki hlíft - barist um eftirmann ISG
Ljóst er nú orðið að borgarstjóri nýtur ekki lengur stuðnings meirihluta borgarstjórnar til að gegna því embætti. Hún heldur fast við þingframboð og því augljóst að til uppgjörs mun koma innan R-listans. Borgarstjóri bauðst til að taka sér frí frá störfum í kosningabaráttunni og láta borgarritara eftir stjórn borgarinnar. Það er þó ljóst svo getur ekki verið, enda vilja framsóknarmenn ekki slíkt og vilja ekki veita borgarstjóra slíkt frí og ljóst að þeir vilja ráða nýjan til starfans og ISG láti jafnframt af störfum fljótlega á nýju ári. Það er ekki valkostur að hún sitji áfram í skjóli þeirra að óbreyttu. Borgarritari býr í Kópavogi og því augljóst að menn vilja hana ekki til starfans. Málið er í algjörum hnút og ljóst að annaðhvort muni borgarstjóri verða neydd til afsagnar í kjölfar vantrauststillögu eða hættir sjálfviljug. Framundan er jólahátíðin, trúarhátíð kristinna manna. Það er þó ljóst að ekki verður jólafríið langt í borgarstjórn og gefið mál að til harkalegs uppgjörs komi á næstu dögum innan R-listans. Andrúmsloftið er eldfimt í skugga jólanna, svo mikið er víst. Ég fer yfir málið allt í ítarlegum pistli á frelsi.is í dag.

Hátíð ljóss og friðar - jólakveðja á Íslendingi
Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærri. Fæstir nýta desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri og búðarrápi, svo eitthvað sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með. Jólahátíðin er gleðitími okkar allra. Í dag birtast á Íslendingi, jólapælingar mínar, er jafnframt um að ræða jólakveðju mína til sjálfstæðismanna á Akureyri og í öllu Norðausturkjördæmi.