Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 janúar 2003

Vilhjálmur hættir þingmennsku - prófkjörsmálin í NV
Þegar þingmenn mæta aftur til starfa að loknu jólafríi verður kominn á þing nýr maður í þingflokk Sjálfstæðisflokksins, Adolf H. Berndsen. Hann mun taka sæti Vilhjálms Egilssonar á þingi. Ég harma að Vilhjálmur Egilsson hættir í stjórnmálum og lætur af þingmennsku. Það er mín skoðun að hann hefði átt að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu við komandi kosningar, enda hefur hann staðið sig vel á þingi seinustu 12 árin og leitt t.d. efnahags- og viðskiptanefnd þingsins seinasta áratuginn. Í prófkjöri flokksins í nóvember mynduðu vissir aðilar blokk gegn Vilhjálmi og einsettu sér það að fella hann af þingi, það tókst með klækjum og brögðum. Það er skoðun mín að þetta prófkjör eigi að ógilda og endurtaka. Annað hugnast mér ekki, hef aldrei farið leynt með það, sagði það fyrst á vefsíðu minni í nóvember. Ég er sammála Vilhjálmi að pólitík er ekki upphaf lífsins og ekki heldur endalok þess. Það er margt annað til í lífinu sem vert er að lifa fyrir, lykilatriði er að eiga góða fjölskyldu og ættingja og síðast en ekki síst góða vini, það má aldrei vanmeta. Það er þó erfitt eflaust að víkja af þessum vettvangi eftir að hafa verið beittum brögðum á þann hátt sem var í tilfelli Vilhjálms. Hann er þó þeirrar gerðar að hann finnur sér annan vettvang til að starfa á. Það er von mín að kærumál hans verði ekki til lykta leitt nema fram fari ítarleg umræða á vettvangi kjördæmisráðs og flokksstjórna um prófkjörið og það verði ógilt þó VE verði ekki í framboði. Mér finnst ekkert annað boðlegt vera í sögunni. VE er ekki lengur þátttakandi í þessu máli en eftir stendur að brögð voru í tafli í prófkjörinu. Þetta mun allt ráðast á kjördæmisþingi í þessum mánuði, þar verða þessi mál til lykta leidd. Það er flokksmanna í þessu kjördæmi að ráða hver niðurstaðan verður, þetta er þeirra ákvörðun þegar á hólminn er komið.

Áramótaávarp bæjarstjóra
Á nýársdag flutti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, áramótaávarp til Akureyringa á sjónvarpsstöðinni Aksjón, hér á Akureyri. Þar ræðir hann um bæinn og stöðu hans, úrslit seinustu sveitarstjórnarkosninga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann góðan sigur eftir fjögurra ára forystu flokksins í bæjarmálunum, fjölgun bæjarbúa og ýmislegt fleira. Gott ávarp hjá Kristjáni, hvet fólk til að lesa það.