Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 febrúar 2003

Athyglisverð könnun á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi
Samkvæmt könnun sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru með mest fylgi í Norðausturkjördæmi. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengju þrjá þingmenn, hvor flokkur, Samfylkingin tvo og Vinstrihreyfingin-grænt framboð einn kjördæmakjörinn mann. Samkvæmt könnuninni fengju Vinstri grænir jöfnunarsætið og samtals því tvo þingmenn. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist í könnuninni 28,1%, fylgi Framsóknarflokks 27,8%, fylgi Samfylkingar 24,1%, fylgi VG 17,8% og fylgi Frjálslynda flokksins mælist 2,4%. Fylgi Framsóknarflokksins er minnst á Eyjafjarðarsvæðinu eða 19% en langmest á Austurlandi þar sem það mælist 45%. Fylgið við Framsóknarflokkinn á norðausturhorninu er 29%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var svipað um allt kjördæmið. Það mældist mest í Eyjafirði eða 29%, 27% á Austurlandi og 25% á norðausturhorninu. Fylgi Samfylkingarinnar var minnst á Austurlandi,19%, en mest í Eyjafirði, 27%. Á norðausturhorninu mældist fylgið 21%. Fylgi VG mældist aðeins 7% á Austurlandi en 22-23% í Eyjafirði og á norðausturhorninu. Fylgi Frjálslynda flokksins var 2-3% á öllu svæðinu. Könnunin var gerð í gegnum síma 29. janúar til 12. febrúar og var úrtakið 1.000 manns á aldrinum 18 til 80 ára. Endanlegt úrtak var 900 manns og svör fengust frá 635 eða 71% úrtaksins. Samtals voru 30% þátttakenda óákveðnir eða neituðu að svara og 6% sögðust ekki ætla að kjósa. Ef þessar tölur yrðu úrslit kosninga yrðu þessir einstaklingar þingmenn kjördæmisins.

Borgarstjóri viðurkennir svikin loforð R-listans
Ítarlegar umræður fóru fram í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. Þar var farið yfir svör Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, við fyrirspurn borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um skuldastöðu borgarinnar í valdatíð R-listans. Fór Björn Bjarnason yfir svör borgarstjóra í ítarlegri ræðu í borgarstjórn og sagði m.a.: "Í svörum borgarstjóra við fyrirspurn sjálfstæðismanna er allt það staðfest, sem sjálfstæðismenn hafa sagt um þróun fjármála borgarinnar og ekki hnekkt neinu af því, sem fram hefur komið í máli þeirra. Með svari borgarstjóra er enn hið sama staðfest og talsmenn R-listans viðurkenndu á síðasta fundi borgarstjórnar, að skuldir Reykjavíkurborgar hafa margfaldast frá því að þeir tóku við fjármálastjórn borgarinnar. Verður í raun sífellt sérkennilegra að heyra útskýringar fulltrúa meirihlutans um fjármálastöðu borgarinnar, einkum í ljósi þess, að þeir hafa hvað eftir annað lofað borgarbúum að lækka skuldir þeirra. Nú er staðan hins vegar orðin sú, að skuldabagginn á mann er þyngstur í Reykjavík, þegar borið er saman við stóru sveitarfélögin í landinu, það er 733 þúsund krónur. Það að verja vondan málstað með innantómum slagorðum breytir ekki þeirri staðreynd, að Reykvíkingar verða fyrr eða síðar að greiða þessar skuldir. Er sorglegt að verða vitni að því, þegar talsmenn R-listans fagna því að hafa kastað þessum byrðum á komandi kynslóðir og telja sér það til sérstaks hróss. Það er ljóst að það nægir ekki að líta á fegraðan borgarsjóð, þegar rætt er um skuldir Reykvíkinga – það verður að líta á skuldir Reykjavíkursamstæðunnar. Aðeins með því fáum við rétta mynd af þeim skuldum, sem hvíla á Reykvíkingum fyrir tilverknað R-listans. Enn segist R-listinn vilja minnka skuldir, þótt þær vaxi ár frá ári og um 30% umfram áætlun á árinu 2002. Er það af ótta við, að það stefni í sömu átt á árinu 2003, að borgarstjóri treystir sér ekki til að miða við fjárhagsáætlun þess árs í svari sínu?".