Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 mars 2003

Zoran Djindjic myrtur í Belgrad
Í dag lést Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, á sjúkrahúsi í Belgrad eftir banatilræði sem átti sér stað fyrir framan stjórnarráðsbyggingu í hádeginu. Djindjic var skotinn með tveimur stórum riffilkúlum af nokkru færi. Tveir menn voru handteknir í kjölfar skotárásarinnar og annar þeirra særðist í átökum. Í kvöld sendi serbneska ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Milorad Lukovic, fyrrum yfirmaður í serbnesku öryggislögreglunni, hafi verið einn af um 20 leiðtogum hóps sem skipulagði morðið á forsætisráðherranum. Hafi hópurinn það að markmiði að stöðva baráttu serbneskra stjórnvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi og reyna að valda ringulreið og ótta í Serbíu með því að myrða Djindjic. "Undir yfirskyni föðurlandsástar reyndu þeir að fá stuðning ákveðinna stjórnmálaafla", sagði í yfirlýsingunni án þess að nöfn þeirra stjórnmálaafla væru nefnd. En ýmsir stjórnmálahópar, hliðhollir Slobodan Milosevic fyrrv. forseta Júgóslavíu, eru enn starfandi í Serbíu, þótt um þrjú ár séu nú liðin frá því hann hrökklaðist frá völdum. Lukovic fór fyrir sérsveit lögreglu sem neitaði að hlýða skipun Milosevic í október árið 2000 um að brjóta aðgerðir stjórnarandstæðinga á bak aftur. En eftir að Milosevic var framseldur til stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag árið 2001 samkvæmt skipun Djindjics lýstu Lukovic og fleiri félagar í öryggissveitum lögreglu andstöðu við þá ákvörðun. Fjölmiðlar í Belgrad hafa oft bendlað Lukovic við ýmis myrkraverk en hann hefur aldrei verið ákærður. Í yfirlýsingu stjórnvalda segir að Lukuvic gengist svonefndum Zemun-hópi, sem heitir eftir úthverfi í Belgrad. Í þessum hópi séu um 200 manns sem hafi samtals fengið yfir 300 ákærur fyrir glæpi. Hópurinn sé talinn hafa staðið fyrir fleiri tilræðum gegn Djindjic og einnig gegn stjórnmálamanninum Vuk Draskovic og tengist yfir 50 morðum í Belgrad á síðustu árum auk mannrána. Grunur lék á því í febrúar að Djindjic, hefði verið sýnt banatilræði þegar flutningabíll beygði skyndilega í veg fyrir bílalest forsætisráðherrans í Belgrad. Naumlega tókst að afstýra árekstri og Djindjic gerði lítið úr málinu síðar og sagði að ekkert myndi stöðva lýðræðisumbætur í landinu. Taldi hann líklegt að málið tengdist tilraunum stjórnvalda til að uppræta skipulagða glæpastarfsemi sem þreifst vel undir stjórn Milosevic fyrrv. forseta. Ökumaður flutningabílsins var handtekinn en honum var síðar sleppt.

Merkur stjórnmálaleiðtogi fellur í valinn
Morðið á serbneska forsætisráðherranum er verulegt áfall fyrir lýðræðisumbætur í Serbíu. Með morðinu á Zoran Djindjic fellur í valinn merkur stjórnmálaleiðtogi sem markaði spor í heimssöguna. Hann er fyrsti þjóðarleiðtogi Evrópu sem fellur fyrir morðingjahendi á 21. öldinni, ekki hefur slíkt gerst síðan Olof Palme fyrrv. forsætisráðherra Svíþjóðar, var myrtur 28. febrúar 1986. Djindjic fæddist í Bosníu, 1. ágúst 1952. Hann var fyrrverandi borgarstjóri Belgrad og í forystusveit stjórnarandstæðinga undir lok valdatíma Milosevic og studdi Vojislav Kostunica í forsetakosningunum í Júgóslavíu árið 2000 sem leiddu til þess að Milosevic hrökklaðist frá völdum. Þá Djindjic og Kostunica greindi þó mjög á um hvernig best skyldi haldið á málum Serbíu og Júgóslavíu og olli ágreiningur þeirra því að umbætur í efnahags- og félagsmálum hafa gengið hægt. Kostunica sagði af sér sem forseti Júgóslavíu fyrr í þessum mánuði eftir að nýtt ríki, Serbía og Svartfjallaland, var stofnað á grunni Sambandslýðveldisins Júgóslavíu. Margir í Júgóslavíu höfðu horn í síðu Djindjic en hann var ákafur talsmaður umbóta og samstarfs við Vesturlönd. Hann leit svo á að Serbía verði að taka upp náin tengsl við vestræn ríki og vildi sýna stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna samvinnu. Hann beitti sér m.a. fyrir því að Milosevic var handtekinn og síðan framseldur til Haag þar sem hann er nú fyrir rétti ákærður um glæpi gegn mannkyninu. Margir urðu til að gagnrýna Djindjic fyrir þetta, þar á meðal Kostunica. Djindjic var menntaður í Þýskalandi og þótti hafa til að bera aga, stjórnunarstíl og sýn sem gæti fært Serbíu inn í raðir evrópskra lýðræðisríkja. Þjóðernisdeilur, sem kommúnistastjórnin hélt niðri, leiddu til þess að gamla Júgóslavía liðaðist í sundur en serbnesk stjórnvöld hafa sagt að skipulögð glæpastarfsemi sé nú mesta ógnin við stöðugleika og lýðræðisþróun í landinu. Við fráfall hans skapast mikið tómarúm í serbneskum stjórnmálum sem gæti leitt til gríðarlegra hörmunga og óeirða í landinu.