Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 maí 2003

Ný ríkisstjórn um miðja næstu viku
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli í þingkosningunum 10. maí sl. Hefur hún fimm sæta meirihluta á þingi. Á þriðjudag hófust stjórnarmyndunarviðræður stjórnarflokkanna eftir að þingflokkarnir samþykktu að veita formönnum flokkanna umboð til að ræða endurnýjað samstarf. Sitja formenn og varaformenn flokkanna í viðræðunefnd um stjórnarmyndun. Undanfarna daga hefur gagnasöfnun farið fram og líklegt að vinnu við stjórnarsáttmála ljúki í byrjun næstu viku. Verður þá farið að ræða skiptingu ráðuneyta og lokafrágangi málsins. Skv. þessu munu æðstu stofnanir flokkanna ræða stjórnarmyndun um miðja næstu viku og ný stjórn taka við á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku. Líklegast er að Davíð Oddsson verði áfram forsætisráðherra í stjórninni. Um mitt kjörtímabilið er líklegt að hann hætti afskiptum af stjórnmálum og taki þá Halldór Ásgrímsson við embætti hans. Því blasir við að uppstokkun á ráðuneytum fari fram þá en ekki nú. Ef svo verður að Framsóknarflokkurinn fái embætti forsætisráðherra um mitt kjörtímabilið mun Sjálfstæðisflokkurinn fá bæði fjármála- og utanríkisráðuneyti þá og jafnframt sjö ráðherra af 12, svipaða skiptingu og var síðast þegar framsóknarmaður leiddi slíkt samstarf 1983-1987 þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra. Eiginleg uppstokkun mun þá fara fram um mitt kjörtímabil en ekki núna, því verður engin teljandi breyting á ráðuneytaskipan fyrr en þá.