Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 júní 2003

Varnarmálin - bréf Bandaríkjaforseta til íslenskra stjórnvalda
Á fundi Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með Elizabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum í dag, var lagt fram bréf frá George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Ekki hefur verið gert opinbert nákvæmlega um efni bréfsins. Fyrir lá áður en fundurinn hófst að hann væri talinn marka upphaf viðræðna um framtíð varnarsamningsins við Bandaríkin. Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum hófust árið 1993. Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 hafa formlegar viðræður um endurnýjun bókunarinnar enn ekki hafist. Óformlegar þreifingar um framhald málsins hafa hins vegar átt sér stað milli embættismanna og stjórnmálamanna ríkjanna undanfarin misseri. Dvöl ráðherrans var stutt en hún hélt af landi brott í dag.

Framtíð varnarsamningsins
Fyrir lá að loknum fundi utanríkismálanefndar undir forsæti Sólveigar Pétursdóttur formanns nefndarinnar, seinnipartinn að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að finna nýjar leiðir til að tryggja varnir Íslands. Sagði utanríkisráðherra að loknum fundinum að Íslendingar hafi jafnan talið nauðsynlegt að hafa hér loftvarnir. Það kæmi ekkert fram í bréfi forsetans sem benti til þess að þeir væru á öðru máli í þeim efnum. Sagði ráðherrann að íslensk stjórnvöld myndu svara bréfi forsetans fljótlega og segja þar vel frá því hvernig Íslendingar vilji fara í þær viðræður sem eru framundan væru um þessi mál. Það væri ljóst að málið væri viðkvæmt og alvarlegt og ekki ljóst um lyktir viðræðnanna. Sagði Halldór að Bandaríkjamenn vildu greinilega draga úr herstyrknum hér á landi. Ekki væri þó ljóst hver væri nákvæmur vilji þeirra. Það hefði verið talað um það að hér væru t.d. ekki loftvarnir og hefði verið vísað til þess að slíkar loftvarnir væru í Bandaríkjunum og Bretlandi eða annars staðar. Sagði utanríkisráðherra að það væri fullkomlega ljóst að það gæfi ekki sömu tryggingu og ef þessar varnir væru hér á landi. Framundan eru því athyglisverðar viðræður um framtíð varnarsamningsins. Mikilvægt er að tryggja varnir landsins á komandi árum, vonandi mun nást farsæl lending í þessu máli.