Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 ágúst 2003

Ríkisvaldið gæti verið miklu minna
Í hátt á þriðja áratug hefur Adam Smith stofnunin í Bretlandi verið leiðandi í baráttu hægrimanna fyrir aukinni einkavæðingu og einkaframkvæmd þar í landi og veitti stofnunin Margaret Thatcher fv. forsætisráðherra Bretlands, innblástur og leiðsögn í tíð hennar sem þjóðarleiðtoga og foringja hægrimanna í landinu. Dr. Eamonn Butler, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, var staddur hér á landi fyrir skömmu, í boði Verslunarráðs Íslands og hélt hann meðal annars fyrirlestur á Grand Hotel Reykjavík. Í tilefni af komu hans lagði Jón Hákon Halldórsson ritstjóri frelsi.is, fyrir hann nokkrar spurningar og útkoman prýðisgott netviðtal á vef Heimdallar.

Einokunarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur
Jón Hákon Halldórsson ritaði fyrir skömmu góða grein um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og nýlegar verðhækkanir fyrirtækisins. Í grein sinni segir Jón Hákon: "Á samkeppnismarkaði er almenna reglan sú að þegar dregur úr spurn eftir vöru eða þjónustu sem tiltekin fyrirtæki bjóða fram þá lækki fyrirtæki verðskrár. Í þessu tilfelli er niðurstaðan þvert á eðlileg markaðslögmál og afleiðingin fyrir neytendur er sú að þeir geta ekki sparað í heimilisrekstrinum með því að draga úr notkun rafmagns og heits vatns. Ástæðan fyrir þessum undarlegu viðbrögðum við tekjurýrnun Orkuveitu Reykjavíkur, sem stjórnendur fyrirtækisins hafa tekið, er sú að það telst til einokunarfyrirtækja og hefur því óþægilegt tangarhald á neytendum. Við þurfum að hafa í huga að einokun opinberra fyrirtækja er í mörgum tilfellum síst skárri en einokun frjálsra fyrirtækja."

Valdimar Agnar kjörinn formaður Gjafa
Um síðustu helgi var haldinn aðalfundur í Gjafa, félagi ungra sjálfstæðismanna í Grundarfirði. Fundurinn var ágætlega sóttur og fór vel á með ungu sjálfstæðisfólki. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf þ.e. tekin fyrir skýrsla fráfarandi stjórnar, kjör nýrrar stjórnar, reikningar teknir fyrir, lagabreytingar og ályktanir. Kjörnir voru fulltrúar félagsins á 37. þing SUS sem haldið verður í Borgarnesi 12.-14. september næstkomandi. Félagi minn, Valdimar Agnar Valdimarsson var kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn Valdís Ásgeirsdóttir, Rósa Guðmundsdóttir, Þórarinn Kristjánsson, Runólfur Viðar Guðmundsson, Ragnar Smári Guðmundsson og Friðfinnur Níelsson.