Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Í gær var haldið kjördæmisráðsþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þar voru líflegar umræður og farið yfir stöðu stjórnmála í kjördæminu og mikilvægustu málin sem snúa að okkur hér um þessar stundir. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, var kvaddur sem ráðherra, enda lætur hann af ráðherraembætti eftir tvo mánuði og væntanlega þingmennsku á næsta ári og tekur sennilega við sendiherraembætti í Frakklandi. Það er okkur mikið áfall að missa ráðherrastólinn á þessum tímapunkti. Gunnar Ragnars var endurkjörinn formaður kjördæmisráðsins og ný stjórn kjörin undir hans forsæti. Ennfremur var kosið í nefndir kjördæmisráðsins og í flokksráð. Sjálfstæðismenn í kjördæminu horfa fram á veginn, niðurstaða seinustu kosninga var okkur hér mikil lexía og mikilvægt að undirbúa vel næstu skref og hefja strax markvissa sókn sem mun vonandi ljúka með góðum sigri í kjördæminu í næstu þingkosningum, sem verða í síðasta lagi árið 2007. Hvet alla til að lesa góðan pistil Björns á vefnum, hann fer þar vel yfir málefni kirkjunnar og blaður í R-lista- og Samfylkingarliðinu.

Sunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um framtíð sambúðar ríkis og kirkju – mikið hefur verið rætt um hvort skilja skuli þar á milli og fer ég yfir afstöður biskups og ráðherra í málinu og að sjálfsögðu tjái ég mína skoðun. Að mínu mati er mjög mikilvægt að rjúfa á tengslin þarna á milli, kirkjan mun að mínu mati styrkjast við að stokka þetta upp. Fjalla um forsetaembættið – Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið á forsetastóli í 7 ár og öðru kjörtímabili hans lýkur senn og tel ég mikilvægt að tjá mig um stöðu embættisins nú. Hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að leggja eigi embættið niður og ítreka afstöðu mína og SUS sem samþykkti ályktun þessa efnis á þinginu í Borgarnesi. Að lokum tjái ég mig um niðurskurðartillögur Heimdallar sem afhentar voru fjárlaganefnd Alþingis í vikunni – er þar mjög margt athyglisvert sem fram kemur.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Í gærkvöldi var venju samkvæmt horft á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þar var fjöldi góðra gesta. Flosi Ólafsson leikari, kom ásamt Lilju konu sinni og talaði um lífið í ellinni og nýja bók sína um sambúð þeirra hjóna í hálfa öld. Flosi fór sem fyrr alveg á kostum. Færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir kom í létt spjall og söng eitt lag af nýrri plötu sinni. Eivör syngur alveg virkilega vel, hafði ég mjög gaman af að fara á tónleika með henni í sumar í kirkjunni í heimabæ hennar, Götu í Færeyjum, í Færeyjaferð minni í júní sl. Óskar Pétursson tenór og einn Álftagerðisbræðra kom og tók eitt lag af nýrri plötu sinni, Aldrei einn á ferð. Tóku þeir Flosi lagið saman. Að lokum söng Bubbi eitt lag af nýrri plötu sinni. Í gærkvöld var horft á aðra Indiana Jones myndina, og að því loknu á Matrix, sem er alltaf pottþétt skemmtun. Að lokum var horft á klassíkerinn The Big Sleep með Humphrey Bogart og Lauren Bacall. Það er ekki hægt að enda kvöldið betur en með þeirri stórmynd.

Vefur dagsins
Í dag vil ég sérstaklega benda öllum fastagestum á blogginu á góðan vef frænku minnar, Svanhildar Hólm Valsdóttur. Svansí sem skrifar undir nafninu Fjölmiðlalæðan, er óhrædd við að tjá skoðanir sínar og ræðir hispurslaust málin. Hvet alla til að skella sér í heimsókn til hennar nú þegar.

Snjallyrði dagsins
Ég hef haft þá meginreglu að stökkva yfir lækinn þegar ég kem að honum. Ég hef séð fólk stökkva yfir lækinn nokkrum metrum áður en komið er að honum - það er ofboðslega hlægilegt
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.