Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Í gær var tilkynnt að Samfylkingin hefði eytt 81 milljón króna í kosningabaráttu sína fyrir seinustu alþingiskosningar. Af því eru tæplega 40 milljónir einvörðungu í auglýsingar. Þetta er 10 milljónum meira en t.d. Framsóknarflokkurinn borgaði fyrir sinn heildarpakka. Mikið auglýst - en árangurinn vart sá sem að var stefnt. Enn er verið að ræða dóm Hæstaréttar í öryrkjamálinu í seinustu viku. Eiríkur Tómasson kom fram í byrjun viku og sagði að öryrkjar yrðu aftur að höfða mál til að fá úr skorið um sín mál. Undarleg afstaða, tel þetta liggja vel fyrir. Úthlutun byggðakvóta til Akureyrar hefur komið forsvarsmönnum Akureyrarbæjar á óvart. Eins og flestir vita er bærinn eitt kvótahæsta sveitarfélag landsins og fékk í sinn hlut 5,4 þorskígildistonn, meira en t.d. Grímsey fékk. Enn fjalla netmiðlar á borð við Deigluna um Heimdallarslaginn með stórundarlegum hætti, reyndar gerist þetta (ótrúlegt en satt!) þrem vikum eftir að honum lauk. Deiglunnar var sárt saknað fyrir 1. október í umræðunni um þetta. Einhverra hluta vegna þögnuðu menn þar og tjáðu sig lítt um málið. Nú er hinsvegar lítið fjallað um annað en þetta á vefnum. Allskondið svo ekki sé fastar að orði kveðið í haustblíðunni.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Kristinn Már athyglisverðan pistil á frelsinu um frumvarp sem liggur fyrir þinginu um lækkun áfengiskaupaaldurs úr 20 árum niður í 18. Að baki frumvarpinu standa þingmenn úr öllum flokkum, þar af þrír sjálfstæðisþingmenn; Drífa Hjartardóttir, Bjarni Benediktsson og Einar Kristinn Guðfinnsson. Við ungt hægrifólk tökum að sjálfsögðu vel í það að þessar breytingar liggi fyrir og líklegt sé að þessu sé breytt. Tek ég undir með Kristni að á þá gleði fellur sá skuggi að aðeins sé gert ráð fyrir að 18 ára fólk megi kaupa áfengi sem er undir 22% vínandamörkum. Þetta er auðvitað fáránlegt og enn fáránlegra að 18 ára fólk sem er sjálfráða samkvæmt lögum (fullorðið fólk) megi ekki kaupa áfengi ef það vill. Þessi forræðishyggja hefur alla tíð verið fáránleg og enn vitlausara að setja svo svona mörk á. Engin mörk - fullorðið fólk á að fá að ráða sjálft sínum málum! Það er pointið á frelsinu í dag!

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var rætt í Kastljósi um þjónustugjöldin í bönkunum og allt sem þeim fylgir. Svansí fékk til sín þá Guðjón Rúnarsson, Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Bjarnason til að ræða þessi mál. Við sem eigum greiðslukort vitum auðvitað vel að þjónustugjöldin eru mörg og endalaust er þeim dengt á fleiri staði og hækkuð eftir dúk og disk. Er nú svo komið að þjónustugjöldin eru hærri en sem nemur öllum launakostnaði tveggja stærstu banka landsins en slagar hátt í það hjá hinum þriðja. Guðjón átti í mesta basli að verjast enda sóttu Gylfi og Vilhjálmur hart að honum. Komu þeir fram með allskyns beitt og góð rök en Guðjón stóð eftir varnarlaus enda fátt til svara, annað en að bankarnir hækka gjöldin og þeim fjölgar stöðugt. Vilhjálmur sem var beittur í umræðunni um Eimskip á dögunum kom sterkur til leiks.

Kvikmyndir - tónlist
Í gærkvöldi eftir að hafa glápað á Kastljósið og þreytulegan bæjarstjórnarfund á Aksjón (þar sem Doddi og Oktavía áttu eina snerru) skellti ég mér í bíó á myndina Kill Bill. Virkilega góð hasarmynd að hætti meistara Quentin Tarantino. Hafði ég mjög gaman að henni, enda hasar alltaf líflegur á haustkvöldi, ekki satt?? Er heim var komið var litið á netið og haldið áfram að lesa á þeim bókum sem ég hef nefnt að verið er að lesa af miklum áhuga. Keypti mér í vikunni nýja diskinn hans Bubba, virkilega góður og skemmtilegur. Sannkallað eyrnakonfekt fyrir alla sanna Bubbaáhugamenn. Skráði mig í gær svo á vefinn tonlist.is þar sem hægt er að sækja lög af netinu og hafa í tölvunni, spennandi kostur fyrir alla þá sem vilja hafa góða íslenska tónlist í lagasafninu í tölvunni.

Vefur dagsins
Í dag vil ég sérstaklega benda öllum fastagestum á blogginu á góðan vef félaga míns og nafna, Stefáns Einars Stefánssonar. Hann er óhræddur við að tjá skoðanir sínar og ræðir hispurslaust um menn og málefni. Hvet alla til að skella sér í heimsókn til hans nú þegar - ef ekki hefur þegar verið litið á vefinn hans.

Snjallyrði dagsins
Þar eru menn frjálsir þar sem þeim er óhætt að afla sér óvinsælda
Adlai Stevenson sendiherra og forsetaframbj. demókrata 1952 og 1956.