Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 janúar 2004

Úr vinnslusal ÚA á AkureyriHeitast í umræðunni
Í gær hætti Kaupfélag Eyfirðinga öllum viðskiptum við Landsbanka Íslands og færði innistæðu sína í bankanum yfir í Sparisjóð Norðlendinga. Það var táknræn stund að sjá í sjónvarpi, Andra Teitsson framkvæmdastjóra KEA, fara í Landsbankann og loka reikningi sínum í bankanum og taka út innistæðuna og fara svo á fund Jóns Björnssonar sparisjóðsstjóra, og stofna reikning þar í nafni KEA. Með þessu lauk rúmlega 100 ára viðskiptasögu KEA við Landsbankann. Eru það mikil tíðindi. Heyrst hefur að bæjarbúar séu farnir að hugsa sér til hreyfings með viðskipti sín við bankann í ljósi atburða seinustu daga. Vel er fjallað um þetta mál allt í leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem leiðarahöfundur fer vel yfir loforð Landsbankamanna í lok seinasta árs og svo efndir nú í byrjun hins nýja árs. Jafnframt er þar ítarleg umfjöllun um sölumálið. Er enginn vafi á því að atburðarás þessa máls og eftirmálar hafa rýrt mjög traust bæjarbúa á Landsbankanum. Hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum með framkomu þeirra í ljósi ummæla stjórnarformanns bankans er bankinn fagnaði starfsafmæli sínu á Akureyri undir lok seinasta árs. Þau eru alveg innistæðulaus.

Carol Moseley BraunForsetaframbjóðendum Demókrataflokksins fækkaði um einn í gær er Carol Moseley Braun ákvað að hætta við framboð sitt og lýsa yfir stuðningi við framboð Howards Dean. Eftir eru nú í framboði fyrir flokkinn alls átta frambjóðendur, Wesley Clark, Howard Dean, John Edwards, Dick Gephardt, John Kerry, Dennis Kucinich, Joe Lieberman og Al Sharpton. Framundan eru forkosningar innan flokksins í fylkjunum. Það fyrsta verður á mánudag. Útlit er fyrir harðan slag í Iowa og samkvæmt könnunum eru þeir Dean, Edwards, Gephardt og Kerry hnífjafnir þar. Gephardt þarf á sigri þarna að halda til að framboð hans haldi dampi, hann sigraði í þessu fylki 1988 er hann barðist um útnefninguna við Michael Dukakis en tapaði slagnum síðar meir. Sama gildir vissulega einnig um Kerry og Edwards sem með sigri þarna geta náð að blása verulegu lífi í kosningabaráttu sína.

Anna Lindh (1957-2003)Réttarhöld yfir Mijalo Mijailovic, morðingja Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, hafa staðið yfir í þessari viku. Bar hann vitni á miðvikudag og tjáði þar að hann hefði ráðist á ráðherrann vegna þess að innri raddir hefðu skipað honum það. Hefði hann ekki getað hugsað neitt fyrr en að lokinni árásinni. Sagðist hann hafa séð eftir þessu og vonað að hún myndi lifa árásina af um kvöldið. Ennfremur bar vitni Eva Franchell vinkona og blaðafulltrúi Önnu, en hún var með henni í NK vöruhúsinu þann 10. september 2003 er ráðist var að henni. Lýsti hún árásinni á ráðherrann í smáatriðum. Var með ólíkindum að heyra lýsingar á þessum verknaði í fréttum í gærkvöldi, vitnisburð Evu. Greinilegt er að morðinginn neitar að svara spurningum sem koma honum illa um morðið og fer í vörn, hann vildi t.a.m. ekki að vitnisburði sínum yrði útvarpað. Réttarhöldum yfir Mijailovic lýkur á mánudag. Verður farið fram á lífstíðardóm að hálfu saksóknara. Úrskurður mun falla eftir að morðinginn hefur farið í geðrannsókn.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu ítarleg umfjöllun um hádegisverðarfund Heimdallar í gær. Ennfremur birtist hressilegur pistill Stefáns Ottó. Þar segir hann orðrétt: "Varasamt er að setja lög sem myndu t.d. banna vissa markaðshlutdeild þar sem fyrirtæki þurfa alls ekki að misnota stöðu sína þó hún sé góð. Það er ástæða fyrir því að fyrirtæki skara fram úr og hún er sú að þau hafa náð ákveðinni hagkvæmni í rekstri sem gerir þeim kleift að bjóða þjónustu umfram keppinauta sína. Vinstri menn skilgreina græðgi sem eitthvað slæmt, eins og maður ásælist eitthvað sem aðrir eiga. Eðlilegra er að líta á græðgi sem löngunina eftir fjárhagslegum ávinningi, gróða. Hvað er þá gróði? Vinstri menn skilgreina hann einnig sem eitthvað slæmt og vilja að menn beri "hóflegan” ávinning úr bítum! En hvað er hóflegt, hver á að skilgreina það? Eigum við að refsa fólki fyrir að hagnast meira en “hóflegt” er? Fáránleikinn í þessu er augljós, auk þess sem slík lagasetning myndi skerða séreignarrétt fólks. Græðgi er góð!".

Jón Sigurðsson, Anna Katrín Guðbrandsdóttir og Karl Bjarni GuðmundssonDægurmálaspjallið
Í Íslandi í dag, í gærkvöld var rætt um það sem allir eru að ræða um, hvort sem er í heimahúsum, vinnustöðum eða annarsstaðar: Idolið. Úrslit eru í keppninni í kvöld og keppa þar Anna Katrín Guðbrandsdóttir, Jón Sigurðsson og Karl Bjarni Guðmundsson. Til að ræða um úrslitakvöldið komu Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson formaður Idol dómnefndarinnar, Þórunn Lárusdóttir leik- og söngkona, og Jón Ólafsson tónlistarmaður. Í kvöld munu keppendurnir syngja tvö lög hvert. Annað þeirra er valið af þeim sjálfum en hitt syngja öll, það er nýtt lag eftir Stefán Hilmarsson og Jón Ólafsson. Anna Katrín mun syngja Lennonlagið Imagine, Kalli Bjarni syngja Commitmentsslagarann Mustang Sally og Jónsi Bee Gees smellinn Words. Framundan er spennandi úrslitakvöld. Hver verður fyrsti sigurvegarinn í Idol - Stjörnuleit?

To Catch a ThiefKvikmyndir
Í gærkvöldi horfði ég á kvikmynd Sir Alfred Hitchcock, To Catch a Thief. Gerð árið 1955 og skartaði í aðalhlutverki Cary Grant og Grace Kelly, þetta var þriðja mynd hennar með leikstjóranum á rúmlega árstímabili. Að þessu sinni er spennumynd meistara spennunnar með gamansömu ívafi. Fjallar um dementarán á frönsku ríveríunni og tilraunir þekkts demantaræningja sem er saklaus til að reyna að finna hinn seka en hann er undir grun. Grace Kelly, fallegasta kona sögunnar, glansar í hlutverki Frances Stevens. Var hún aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og engin spurning að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar. Leikstjórinn var heillaður af Kelly og harmaði mjög þegar hún tók þá ákvörðun um miðjan sjötta áratuginn að hætta kvikmyndaleik og giftast Rainier fursta af Mónakó, sem hún kynntist við tökur á myndinni. Allt til loka reyndi Hitchcock að fá Kelly aftur á hvíta tjaldið en án árangurs. Mögnuð úrvalsmynd sem stenst tímanst tönn, ávallt unun á að horfa.

Vefur dagsins
Kvikmyndin Cold Mountain hefur vakið mikla athygli seinustu vikur og almennt talað um að hún verði tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta mynd ársins 2003. Í dag bendi ég á heimasíðu myndarinnar.

Snjallyrði dagsins
Hvernig er hægt að stjórna landi, þar sem völ er á 246 ostategundum?
Charles De Gaulle forseti Frakklands (1890-1970)