Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 mars 2004

Ólafur Ragnar GrímssonHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, tilkynnti formlega á blaðamannafundi á Bessastöðum seinnipartinn í gær, að hann hefði tekið þá ákvörðun að gefa kost á sér til embættis forseta Íslenska lýðveldisins til næstu fjögurra ára, kjörtímabilið 2004-2008. Hann hefur setið á forsetastóli tvö kjörtímabil, frá 1. ágúst 1996. Forsetinn sagði að ákvörðun um framboð þriðja sinni til setu á forsetastóli væri ekki sjálfgefin en hann hefði tekið hana eftir mikla umhugsun. Fram kom á fundi forsetans með blaðamönnum skoðun forseta þess efnis að forsetinn taki virkari þátt en áður í umræðu um stöðu og framtíð þjóðarinnar. Boðar hann að fjölmiðlar muni hafa greiðari aðgang að embættinu. Hann telur eðlilegt að forseti svari fyrir sig þegar embættið sé gagnrýnt. Leggur Ólafur áherslu á, að verði hann endurkjörinn muni hann leggja áherslu á virkari þátt forsetans í opinberri umræðu um stöðu og framtíð þjóðarinnar og í kosningabaráttunni sem framundan væri yrði kærkomið tækifæri til að ræða um stöðu forsetaembættisins. Hann telur ekki rétt að forseti taki þátt í pólitískri umræðu. Undarlegt var að heyra yfirlýsingar forseta Íslands. Hann hefur eins og fyrr er vikið að setið í embætti í átta ár og því komin góð reynsla á störf hans. Undarlegt er ef hann hyggst ef hann nær endurkjöri, beita sér með öðrum hætti en verið hefur. Gott er að forseti hefur loks tekið af skarið með hvað hann hyggst fyrir. Tveir mánuðir eru eftir af framboðsfresti og hafa auk Ólafs, þeir Ástþór Magnússon og Snorri Ásmundsson kynnt framboð til embættis forseta Íslands. Forsetakosningar verða þann 26. júní nk.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÁ sömu stund og forseti Íslands tilkynnti blaðamönnum um framboð sitt í komandi forsetakosningum, mælti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framboð og kjör forseta Íslands. Kom fram í máli ráðherra að sparnaður muni nást, verði það að lögum, enda þurfi ekki að ráðast í gerð kjörskrár ef aðeins einn maður sé í kjöri til forsetaembættisins. Lagðar eru til þær breytingar að kjörskrár notaðar við forsetakjör miðist við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag í stað fimm og að mörk kjördæma verði þau sömu og í alþingiskosningunum 10. maí 2003. Í umræðum um frumvarpið eftir ræðu ráðherra, lagði Margrét Frímannsdóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar, til að ræddar yrðu breytingar á því hve marga meðmælendur þyrfti með forsetaframbjóðanda, taldi hún þörf á að fjölga þeim úr 1.500 í 5.000 til 6.000. Tek ég heilshugar undir þessa tillögu Margrétar. Mjög mikilvægt er að fá umræðu um þetta og nauðsynlegt að mínu mati að fjölga meðmælendum. Það er óviðunandi að frambjóðandi til forsetaembættis skili inn jafnmörgum meðmælendum og nauðsynlegt var í kosningunum 1952. Þessu þarf að breyta fyrir komandi kosningar.

Bush vs. KerryAthygli vakti er John Kerry forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, sagði á fjáröflunarsamkomu í Flórída í síðustu viku að nokkrir erlendir leiðtogar hefðu sagt sér að þeir vildu að hann yrði næsti forseti Bandaríkjanna. Ítrekaði Kerry þetta síðar og gaf í skyn að fjöldi þjóðarleiðtoganna væri nokkur sem hefði haft samband við sig. Í dag hvatti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Kerry til að nefna á nafn þá erlendu leiðtoga sem hann vísar til. Forsetinn hefur sagt nauðsynlegt að Kerry klári málið með að nefna nöfn. Það sé eðlilegt fyrst hann tók sjálfur upp á því að nefna þessi mál. Það er enginn vafi á því að Kerry hefur flækt sér í eitthvað sem hann hafði ekki hugsað út í áður en hann tjáði sig. Hann ætti að eiga auðvelt með að nefna leiðtoga, fyrst þeir eru nokkuð margir.

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag fjallar Snorri um rök Mises gegn áætlunarbúskap, í góðum pistli á frelsinu. Orðrétt segir hann: "Áríð 1922 kom út rit Ludwigs von Mises Gemeinwirtschaft (sameignarstefnan). Í bókinni gagnrýndi Mises sameignarstefnuna sem þá var nokkuð vinsæl á Vesturlöndum. Beitti Mises fimm rökum gegn sameignarstefnunni sem öll koma fram í bókinni. Þegar Mises talar um sameignarskipulag á hann í raun við hvers konar skipulag sem ekki lýtur lögmálum markaðarins. Rökin eiga því við um ríkisfyrirtæki dagsins í dag eins og um altækan áætlunarbúskap af því tagi sem var um stutt skeið í Ráðstjórnarríkjnum." Nefnir Snorri fimm rök Mises og fjallar ítarlega um þær. Hafði gaman af að lesa þennan fína pistil. Ennfremur eru á frelsinu tvær góðar fréttir á frelsinu um ESB. Í þeirri fyrri er fjallað um þýðingar á lögum ESB og í þeirri seinni um ummæli formanns Samfylkingarinnar á þingi. Þar sagðist hann vera sannfærður um að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu í dag auki fullveldi okkar Íslendinga. Þessi ummæli eru með eindæmum, en það ber að geta þess að formaður Samfylkingarinnar er þekktur fyrir flest annað en að vera marktækur.

BæjarmálBæjarmál - bókalestur
Í Kastljósinu og Íslandi í dag tókust þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á um utanríkismál í ljósi hryðjuverka á Spáni og sigurs sósíalista sem íslamskir öfgamenn færðu þeim í spænsku þingkosningunum. Sólveig P. og Einar K. stóðu sig vel og komu sínum skoðunum mjög vel að. Einkum fannst mér formaður utanríkismálanefndar svara vel fyrir sig í Íslandi í dag. Eftir dægurmálaþættina fór ég upp í Kaupang á bæjarmálafund. Þar voru bæjarmálin rædd ásamt bæjarstjóra og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Nóg var um að ræða og hófst fundurinn á ræðu Laufeyjar Petreu Magnúsdóttur um skólamál. Laufey situr í skólanefnd af hálfu flokksins og er varabæjarfulltrúi. Helsta umræðuefni fundarins var málefni leikskólans Klappa. Foreldrar barna á leikskólanum fjölmenntu á fundinn og spurðu bæjarstjóra margra spurninga um framtíð hans og um leikskóla við Helgamagrastræti sem opna mun fyrri hluta árs 2006. Svaraði bæjarstjóri spurningum ítarlega og fór vel yfir leikskólamálin. Að því loknu var rætt um skipulagsmál og tillögur Deloitte um árangursmiðaða stefnumótun fyrir bæinn. Nóg um að vera í bæjarmálunum. Eftir að heim kom fór ég að lesa í bókinni Grand Old Party: A History of the Republicans. Skemmtileg lesning.

Dagurinn í dag
* 1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar biskups góða Arasonar
* 1657 Miklir jarðskjálftar á Suðurlandi - hús féllu víða, einkum í Fljótshlíð
* 1942 Til átaka kom á götum Siglufjarðar milli heimamanna og breskra hermanna
* 1976 Harold Wilson tilkynnti afsögn sína sem forsætisráðherra Bretlands
* 1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af ríkinu - endurbótum þar lauk 1988

Snjallyrði dagsins
There ain't no man better than me.
Ruby Thewes í Cold Mountain