Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 mars 2004

Peter Jackson hlaut loks óskarinn fyrir leikstjórnÓskarinn 2004
Óskarsverðlaunin voru afhent í Los Angeles í nótt í 76. skipti. Eins og venjulega var athyglisvert og ekki síður skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum. Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King sem byggð er á ævintýrasögu J.R.R. Tolkien, hlaut óskarinn sem besta kvikmynd ársins, eins og búist hafði verið við. Myndin komst í sögubækurnar er hún hlaut 11 óskarsverðlaun og jafnaði þarmeð met Ben-Hur og Titanic sem einnig hlutu 11 óskara, 1959 og 1997. Sögulegt var ennfremur að myndin, sem tilnefnd var til 11 verðlauna, vann í öllum flokkum. Það er nýtt met í sögu verðlaunanna, en kvikmyndin Gigi átti hið eldra, vann í öllum þeim 9 flokkum sem hún var tilnefnd til árið 1958. Myndin hlaut Óskar sem besta kvikmynd ársins 2003, fyrir leikstjórn Peter Jackson, sjónræn áhrifsatriði, leikmynd, búninga, förðun, besta handrit unnið úr skáldsögu, tónlist, tónlistarvinnslu, hljóð og klippingu. Enginn vafi leikur á að með þessu var bandaríska kvikmyndaakademían að verðlauna allar þrjár myndirnar sem gerðar hafa verið eftir Hringadróttinssögu. Saman mynda þær eina heild og hafa notið gríðarlegra vinsælda um allan heim. Sigurstund Hringadróttinssögu var löngu tímabær og áttu flestir von á að loks myndi akademían viðurkenna snilli Jacksons sem færði þessa mögnuðu sögu í kvikmyndabúning.

Sean Penn vann óskarinn fyrir leik sinn í Mystic RiverSean Penn hlaut Óskarinn sem leikari í aðalhlutverki fyrir magnaða túlkun sína á Jimmy Markum í Mystic River. Það var kominn tími til að Penn hlyti verðlaunin, en hann hafði tapað slagnum þrisvar í röð. Þetta var einfaldlega árið hans Penn og akademían heiðraði hann fyrir óviðjafnanlega frammistöðu í góðri kvikmynd. Hann mætti í fyrsta skipti á óskarsverðlaunahátíð og hélt flotta ræðu. Verðskuldaður sigur hjá góðum leikara. Charlize Theron vann eins og flestir áttu von á Óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki, fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Monster. Hún var óþekkjanleg í hlutverki fjöldamorðingjans Aileen Carol Wuornos í myndinni. Charlize er stórfengleg leikkona og hefur með þessum sigri endanlega fengið farmiða í flokk fremstu leikkvenna Hollywood í dag. Hún geislaði á sviðinu er hún tók við verðlaunum sínum. Tim Robbins vann óskarinn eins og við mátti búast sem leikari í aukahlutverki fyrir magnaðan leik á Dave Boyle í Mystic River. Stórkostlegur leikari sem á þetta svo sannarlega skilið. Renée Zellweger var valin leikkona í aukahlutverki fyrir stórfenglega túlkun sína á Ruby Thewes í Cold Mountain. Fyrir átta árum kom þessi leikkona fyrst á sjónarsviðið sem stelpan sem Jerry Maguire féll fyrir. Nú var komið að Óskar að falla fyrir Renée. Magnaðir leikarar sem áttu Óskarinn skilið.

Óskarsverðlaunaleikkonurnar Charlize Theron og Renée ZellwegerÞetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Að mínu mati voru hápunktarnir (utan við sigurstund Hringadróttinssögu) þegar minnst var tveggja einstaklinga sem settu mikið mark á sögu Óskarsins. Óskarsverðlaunaleikkonan Julia Roberts, kynnti heiðursvott akademíunnar við leikkonu 20. aldarinnar, Katharine Hepburn. Hún lést í júní 2003 og til að heiðra hennar mikla framlag til kvikmynda á öldinni var 4 mínútna myndbrot sýnt af einstökum ferli hennar. Enn þann dag í dag er hún sá leikari sem flest leikverðlaun hefur hlotið. Á 60 ára leikferli hlaut hún óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki 4 sinnum. Einstök leikkona. Ennfremur var minnst leikarans Bob Hope sem var kynnir hátíðarinnar 18 sinnum og hlaut heiðursóskar oftar en einu sinni. Leikstjórinn Blake Edwards fór á kostum er hann tók við heiðursóskarnum, að venju var bætt mögnuðu gríni inn í hjá honum. Magnaður leikstjóri sem hefur aldrei hlotið heiðurssess hjá akademíunni, hafði aðeins einu sinni unnið verðlaunin. Loks var hans stund komin.

Billy Crystal fór á kostum venju samkvæmtBilly Crystal mætti aftur sem kynnir hátíðarinnar, og í fantagóðu formi. Þetta var í áttunda skiptið sem hann var kynnir á Óskarsverðlaunahátíð og hann er orðinn að mínu mati sjálfsagður kostur í þetta hlutverk. Ekkert hefur hann gert betur að mínu mati. Upphafskynning hans var með því besta í seinni tíð. Feðginin Francis Ford Coppola og Sofia Coppola fóru á kostum er þau afhentu saman óskar fyrir handrit er Francis gerði orð Don Vito Corleone í magnaðri mynd hans, að sínum. Sofia vann síðar um kvöldið óskar fyrir handritið að hinni frábæru Lost in Translation. Annie Lennox vann óskar fyrir magnað lag í Hringadróttinssögu. Þessi magnaða söngkona sem á að baki glæsilegan tónlistarferil átti skilið að fá óskarsstyttuna. En eftir stendur að oft er ekkert öruggt þegar Óskarinn er annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst. Þetta árið voru engir óvæntir hlutir. Óhætt er að segja að akademían hafi sett Hringadróttinssögu í sögubækur Óskarsverðlaunanna í gærkvöldi. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!

Umfjöllun SFS um Óskarinn 2004

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag, 1. mars, eru 15 ár liðin frá því að sala á sterkum bjór, var leyfð á Íslandi. Innflutningur og sala á bjór var bönnuð með lögum árið 1915, bannið var því í gildi í 74 ár. Ég fjalla um 15 ára afmæli bjórsins í ítarlegum pistli á frelsinu. Þar fjalla ég um tilraunir þingmanna til að reyna að stöðva framgang þeirra eðlilegu mannréttinda að fólk fái að drekka það sem það vill. Þessu fólki tókst sem betur fer ekki að tefja það lengur en til níunda áratugar 20. aldarinnar að leyfa bjórinn. Frumvarp um afnám bjórbannsins var samþykkt á Alþingi að kvöldi 9. maí 1988. Oft hafði fram að því verið lagðar fram tillögur á þingi um afnám bannsins en alltaf tókst andstæðingum þess, að sala á áfengu öli yrði heimiluð að nýju, að stöðva framgang breytinganna. Loks tókst að ná þingmeirihluta um málið í kjölfar þingkosninganna 1987 og frumvarpið varð að lögum eins og fyrr segir vorið 1988. Hrakspár þeirra sem helst börðust gegn því að bjórinn skyldi leyfður á ný hafa ekki ræst. Það hefur ekkert á þessum tíma breyst til hins verra. Það eina sem breyttist var að fólk hafði frelsi til að velja fyrir sjálft sig. Það sem í gangi var fram til 1. mars 1989 í málefnum bjórsins var forræðishyggja í sinni bestu mynd. Enda sást vel að fólk kunni vel að meta frelsið sem því var veitt. Það á að vera almennings að ákveða hvað það borðar og ekki síður drekkur. Það hefur aldrei lukkast vel að ríkið taki ákvarðanir fyrir aðra. Reyndar er það með ólíkindum að aðeins 15 ár skuli liðin frá því að bjórbannið leið loks undir lok. Það er varla vafi á því í hugum almennings að rétt skref var stigið við samþykkt frumvarps um afnám bannsins árið 1988. Enginn vill stíga skrefið til baka. Nú sem fyrr á það að vera fólksins að hafa frelsi til að velja.

American BeautyÓskarsbíó
Í gærkvöldi var Óskarskvöld og fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk er þetta aðalkvöld ársins. Venju samkvæmt horfði ég á eldri óskarsverðlaunamynd um kvöldið. Að þessu sinni ákváðum við að horfa á hina einstöku American Beauty. Sannkölluð tímamótamynd sem hlaut fimm óskarsverðlaun árið 1999, sem besta kvikmynd ársins, fyrir besta leikara í aðalhlutverki (Kevin Spacey), fyrir stórfenglega leikstjórn Sam Mendes, óviðjafnanlegt handrit Alan Ball og fyrir vandaða myndatöku Conrad Hall. Þekur allan tilfinningaskalann og er í senn kómísk gamanmynd og tragísk ádeila og lýsir ennfremur hnignun amerískrar kjarnafjölskyldu er virðist á yfirborðinu hið fullkomnasta fyrirbæri en er í sannleika sagt rotið í gegn undir niðri. Eftir því sem áhorfandinn kemst nær kjarna Burnham-fjölskyldunnar kemur það æ betur í ljós að líf þeirra er innantómt og ómögulegt og að hjónin (sem bæði feta framabrautina í lífsgæðakapphlaupinu) hnakkrífast fram og aftur. Fjölskyldan er í raun full af hatri og fyrirlitningu fyrir hverju öðru. Dóttirin þolir ekki foreldrana og hjónin Lester og Carolyn Burnham lifa í gersamlega ástlausu hjónabandi og finna ekki til nokkurrar einustu gleði þegar þau umgangast hvort annað. Eiginmaðurinn fellur í framhaldi af því fyrir vinkonu dóttur sinnar (sannkölluðu lambakjöti) og eiginkonan finnur sér einnig viðhald. Lester reynir að endurheimta eitthvað af þeim töpuðu og mannlegu tilfinningum sem honum finnst að lífið fela með sér. Þetta mun reynast fjölskyldunni örlagaríkt og gjörbreyta lífi þeirra allra. Svört kómedía sem er í einu orði sagt stórfengleg. Ógleymanleg kvikmynd öllum þeim sem hana sjá. Hún er ein af þessum myndum sem verða táknmyndir síns tíma og verða að lokum ódauðlegir gullmolar.

Dagurinn í dag
* 1964 Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, lést á Akureyri, 69 ára gamall
* 1970 Ísland gerðist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA
* 1988 Skylt varð að aka með ljósum allan sólarhringinn, samkvæmt nýjum umferðarlögum
* 1989 Bjórdagurinn. Framleiðsla og sala á áfengu öli var leyfð eftir 74 ára hlé
* 1991 Göngin gegnum Ólafsfjarðarmúla voru formlega opnuð - mikil samgöngubót

Snjallyrði dagsins
Right now it feels like I can do it all over again. It was absolutely worth it although it was the hardest thing I have ever done in my life.
Peter Jackson - eftir að hafa hlotið óskarsverðlaun fyrir leikstjórn, 29. febrúar 2004