Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 maí 2004

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Mikil óánægja er innan Sjálfstæðisflokksins vegna þess að ekki náðist samkomulag við samstarfsflokk okkar í ríkisstjórn um að leggja fram skattatillögur stjórnarinnar, sem lofað var fyrir seinustu kosningar og sagt var í stjórnarsáttmálanum að yrðu kynntar eftir að samið hefði verið við verkalýðshreyfinguna. Er framkoma samstarfsflokks okkar með öllu óásættanleg. Í pistli dagsins á frelsinu fjalla ég um þetta mál. Pistillinn endar með þessum orðum: "Styttist nú óðum í að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, taki við af Davíð Oddssyni sem forsætisráðherra. Það skyldi þó ekki vera að Halldór vilji tefja málið sem mest einmitt á þeim forsendum. Þessi töf er með öllu óásættanleg og mun veikja stjórnarsamstarfið, enda er ólíðandi að framsóknarmenn gangi á bak loforða sinna og komi í veg fyrir að skattatillögur beggja stjórnarflokkanna séu kynntar. Framsóknarflokkurinn ber því alla ábyrgð á stöðu mála og verður að axla ábyrgðina á því að þetta kosningaloforð sé ekki efnt á tilsettum tíma. Framkoma forystumanna Framsóknarflokksins eru hrein og klár svik við kjósendur Sjálfstæðisflokksins og verður vart liðin. Ólíklegt er að samstarf flokkanna verði jafn traust framvegis og verið hefur ef framhald verður á svona vinnubrögðum af hálfu framsóknarmanna." Ef efndir koma ekki fram á þessu kosningaloforði í sumar og staðið að fullu við þau fyrir forsætisráðherraskipti í haust, tel ég útilokað að stjórnarsamstarfið geti gengið lengur, en það er framsóknarmanna að ráða hvort þeir standa við loforðin eður ei. Sjálfstæðismenn geta ekki með góðu unnið með þessum flokki áfram ef þetta loforð verður ekki efnt fljótlega.

Dagurinn í dag
1884 John Harvey Kellogg kynnir kornflögur - varð vinsælasti morgunmatur sögunnar
1952 Dwight D. Eisenhower lætur af störfum í hernum - varð forseti landsins ári síðar
1973 Richard M. Nixon forseti Bandaríkjanna, og Georges Pompidou forseti Frakklands, hittust á leiðtogafundi í Reykjavík og ræddu heimsmálin á Kjarvalsstöðum. Báðir voru komnir að lokum valdaferils síns, Pompidou lést úr krabbameini 2. apríl 1974 og Nixon varð að segja af sér embætti, fyrstur forseta Bandaríkjanna, 9. ágúst 1974 vegna Watergate-hneykslisins
1991 Alþingi kom saman í fyrsta skipti eftir að deildaskipting hafði verið afnumin - starfaði í tveim málstofum, efri og neðri í 116 ár. Fyrsti forseti Alþingis varð Salome Þorkelsdóttir
1997 Ísland lenti í fimmta sæti á HM í handbolta í Japan - besti árangur okkar á HM
2003 Seinasta flug Concorde þotu - söguleg stund í sögu flugsins

Snjallyrði dagsins
Only those who dare to fail greatly can ever achieve greatly.
Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður (1925-1968)

Breytingar verða á blogginu frá morgundeginum, færslurnar verða styttri í sumar en verið hefur í vetur og smá breytingar verða á föstum flokkum. Í dag birtist flokkurinn "Svona er frelsið í dag" í síðasta sinn. Hér eftir munu pistlar af frelsinu verða efst í nýjum flokki sem hefst á morgun og inniheldur 15-20 tengla, sem ég vil benda á í færslunum. Bloggfærslur verða ekki á laugardögum í sumar og á sunnudögum verður einungis fjallað um sunnudagspistil minn auk sögu dagsins og snjallyrðisins, sem er fastur endir á hverri færslu. Þessar breytingar koma vel fram á næstu dögum.