Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 júní 2004

Ólafur R. GrímssonForsetakjör 2004
Úrslit forsetakosninganna 2004 lágu fyrir á sjöunda tímanum í morgun er lokatölur komu úr Norðvesturkjördæmi. Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn forseti Íslands, hann hlaut 67,9% greiddra atkvæða, Baldur Ágústsson hlaut 9,9% og Ástþór Magnússon 1,5%. Á kjörfundi í gær kusu 133.616 kjósendur, eða 62,56%. Hefur kjörsókn ekki verið lélegri í kosningum í 60 ára sögu lýðveldisins, en rúmlega 80.000 kjósendur mættu ekki á kjörstað. Auðir seðlar voru 27.627 eða 20,7% atkvæða. Séu úrslit kosninganna einungis reiknuð sem hlutfall af kjósendum á kjörskrá hlaut Ólafur Ragnar Grímsson atkvæði 42,5% kjósenda, Baldur 6,2% og Ástþór 0,9%. Í þremur stærstu kjördæmunum var þetta hlutfall Ólafs Ragnars minna eða 40,4%. Þegar litið er á úrslit kosninganna vekur óneitanlega mikla athygli hversu mjög Ólafur Ragnar fær veikt umboð frá þjóðinni til setu á forsetastóli næstu fjögur ár. Meirihluti kjósenda kýs annan frambjóðanda í kosningunum, skilar auðu eða situr heima, vegna áhugaleysis um kosningarnar. Úrslit kosninganna endurspegla vilja almennings að tjá óánægju með embættisverk forseta Íslands. Þetta kemur skýrast fram í því að rúmur fimmtungur þjóðarinnar mætir á kjörstað og skilar auðu. Fyrir þessu eru engin fordæmi í sögu kosninga á Íslandi. Auðu seðlana er vart hægt að túlka öðruvísi en sem óánægju með forsetann og nýlega ákvörðun hans.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um úrslit forsetakosninganna 2004 og túlka þau. Óneitanlega vekur athygli að aðeins minnihluti kjósenda hafi kosið Ólaf Ragnar Grímsson í kosningunum, mjög merkilegt er að forsetinn reyni að beina sjónum að öðrum þáttum en framgöngu sinni að undanförnu þegar kemur að því að túlka úrslit kosninganna. Sú atburðarás sem leiddi til þess að þjóðin sundraðist og ákvað að skipa sér í fylkingar með og á móti forsetanum í pólitískri deilu hófst á Bessastöðum þann 2. júní sl. er forsetinn synjaði lagafrumvarpi staðfestingar. Þar eru ræturnar að því að þjóðin ákvað að mótmæla forsetanum og skila auðu eða hreinlega sitja heima og taka ekki afstöðu í kosningunum. Forseti ætti að líta í eigin barm áður en hann túlkar úrslitin með því að kenna öðrum en sjálfum sér um stöðu mála er úrslitin liggja fyrir, í kosningum þar sem almenningur sýndi andúð sína á forsetanum. Framtíð forsetaembættisins virkar mjög óljós að loknum þessum kosningum, enda stendur embættið ótraustum fótum og er berskjaldað fyrir pólitískri gagnrýni vegna ákvarðana forsetans. Að lokum fjalla ég um sameiningarkosninguna sem fram fór samhliða forsetakjörinu, á Akureyri og í Hrísey, en hún var samþykkt með afgerandi hætti.

Dagurinn í dag
1905 Uppreisn á flotaskipinu Potempkin hefst formlega
1950 Bandaríkin ákveða að senda herlið til Kóreu í svokallað Kóreustríð
1979 Muhammad Ali hættir keppni í hnefaleikum - var einn litríkasti boxari 20. aldarinnar
1991 Júgóslavneski herinn ræðst inn í Slóveníu eftir sjálfstæðisyfirlýsingu landsins
2001 Óskarsverðlaunaleikarinn Jack Lemmon deyr, 76 ára að aldri. Hann var einn af þekktustu leikurum Bandaríkjanna á 20. öld og þótti jafnvígur á dramatískan og gamansaman leik

Snjallyrði dagsins
There are worse things in life than death. Have you ever spent an evening with an insurance salesman?
Woody Allen leikstjóri og leikari