Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 júlí 2004

Saddam HusseinHeitast í umræðunni
Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, kom fyrir dómara í Írak í dag. Var það í fyrsta skipti sem hann birtist umheiminum opinberlega frá því að hann var handtekinn 13. desember 2003. Saddam var nokkuð ögrandi í framkomu sinni við dómarann og sveiflaði vísifingri oft að honum til að leggja áherslu á orð sín. Sagði hann réttarhöldin vera sýndarmennsku í takt við farsa og að Bush forseti, væri hinn raunverulegi stríðsglæpamaður. Er hann var spurður til nafns horfði hann snöggt upp og sagði með áherslusvip: "Ég er Saddam Hussein, forseti Íraks". Við réttarhöldin neitaði Saddam að viðurkenna að hafa ráðist inn í Kuwait í ágúst 1990 og spurði dómarann hvernig hann gæti sem Íraki, talað um innrás þegar vitað væri sem staðreynd að Kuwait væri að eilífu hluti af Írak. Sjónvarpsstöðvar um allan heim sýndu upptöku af þessum merka viðburði í dag, mesta athygli vöktu myndirnar í Írak, enda er það óneitanlega viðbrigði fyrir almenning þar að sjá einræðisherrann fallna í hlutverki sakbornings í réttarhöldum. Í 24 ár var Saddam Hussein meðhöndlaður sem Guð í Írak og hafði slíka stöðu að orð hans voru aldrei véfengd. Það hljóta að vera viðbrigði fyrir slíkan mann að vera kominn í stöðu hins grunaða og þurfa loks að svara til saka fyrir þá glæpi sem hann fyrirskipaði og stóð fyrir á einræðisferli sínum.

Saddam HusseinFormleg réttarhöld yfir hinum fallna einræðisherra hefjast síðar á þessu ári. Samhliða því að ákæruliðir voru kynntir honum, komu 11 sakborningar fyrir dóminn, flestir þeirra valdamiklir forystumenn einræðisstjórnar Baath-flokksins, sem sat við völd í Írak í marga áratugi og voru nánir samverkamenn Saddams á valdaferli hans. Þessara manna allra bíða löng réttarhöld þar sem lið fyrir lið verður farið yfir stríðsglæpi þeirra og viðurstyggilega glæpi gegn almenningi í Írak en mikill fjöldi landsmanna hvarf sporlaust í valdatíð Saddams og hafa viðkomandi aðilar aldrei þurft að svara til saka fyrir kerfisbundin dráp á stjórnarandstæðingum og baráttumönnum mannréttinda og frelsis í kúguðu einræðislandi Baath-flokksins. Það er löngu kominn tími til að tekið verði á þeim mannréttindabrotum sem áttu sér stað á þessum áratugum Saddam stjórnarinnar. Þegar talað er um refsingu til handa Hussein kemur vart nema tvennt til greina: dauðadómur eða lífstíðarfangelsi. Ég hef jafnan verið mjög andsnúinn dauðarefsingu og talið ekkert réttlæta beitingu hennar nema um væri að ræða fjöldamorðingja eða einræðisherra sem hafa kúgað og svívirt þjóð og misnotað hana. Saddam Hussein ætti að passa vel í þessum flokki, enginn deilir um eðli viðurstyggilegra glæpaverka hans og stjórnarinnar sem hann leiddi. Það er því ómögulegt að útiloka dauðarefsingu til handa Saddam, algjörlega útilokað.

Primary ColorsPólitískt bíó - Primary Colors
Myndir með pólitísku ívafi eru alltaf augnakonfekt. Á fimmtudögum í sumar ætla ég að rifja upp nokkrar þeirra hérna á blogginu. Þessa dagana er mikið fjallað um nýja ævisögu Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna. Það er því upplagt að horfa á kvikmyndina Primary Colors með John Travolta og Emmu Thompson í aðalhlutverkum. Í henni er sögð sagan af forsetaframbjóðandanum Jack Stanton og hinni framagjörnu eiginkonu hans. Löstur hans er hinsvegar sá að hann er kvennaflagari hinn mesti, sem brátt kemur honum í koll í baráttu sinni fyrir forsetaembættinu. Samhliða væri góðráð að sjá heimildarmyndina The War Room. Ekki þarf að horfa lengi á þessar myndir til að sjá að þær lýsa sömu kosningabaráttu, enda ætti flestum að vera ljóst að fyrirmyndin að Stanton er Clinton forseti og verið er að lýsa kosningabaráttunni 1992. Myndin sýnir á nokkuð snjallan hátt hvernig hægt er að koma manni í áhrifastöðu sem er bæði gegnumspilltur og vonlaus. Travolta er alveg hreint sláandi líkur Clinton forseta og sýnir besta leik sinn síðan í Pulp Fiction. Sú sem stelur hinsvegar senunni er ótvírætt Kathy Bates, sem brilleraði í hlutverki Libby Holden, áróðursmeistara Stantons. Var mikil synd að hún hlaut ekki óskarinn fyrir sinn stórleik. Þetta er kvikmynd sem allir stjórnmálaáhugamenn ættu að hafa sannkallað gaman að.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Lágmarksþátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu - pistill Jóns Hákons Halldórssonar
Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, kemur fyrir dómara í Bagdad
Saddam ögrar umheiminum og gerir grín að ásökunum á hendur honum
Táknrænar og vissulega sögulegar myndir af Saddam í írökskum réttarsal
Davíð Oddsson ræðir um væntanlegan fund sinn og Bush forseta - umfjöllun
Þarf að setja leikreglur um atkvæðagreiðslu til frambúðar - Davíð Oddsson
Halldór Ásgrímsson telur að setja þurfi almennar reglur um atkvæðagreiðslu
Hægrimaðurinn Horst Koehler tekinn við forsetaembættinu í Þýskalandi
Richard May, sem var aðaldómari í máli Slobodans Milosevic í Haag, látinn
Vladimir Spidla forsætisráðherra Tékklands, segir af sér embætti - Gross tekur við
Kröfur grunnskólakennara mjög óábyrgar að mati Samtaka atvinnulífsins
Sá tími liðinn að forseti Íslands sé friðhelgur - Gunnar Helgi Kristinsson
Þúsundir fara að gröf Ronalds Reagans forseta, í Simi-dal í Kaliforníu
Pælingar um varaforsetaefni John Kerry - valið væntanlega tilkynnt í næstu viku
7 ár liðin í dag frá valdatöku Kína í Hong Kong - barist fyrir lýðræði þar
Nýr ríkisstjóri, M. Jodi Rell, tekur við völdum í Connecticut af spilltum forvera sínum
Marlon Brando í skuldasúpu - með handrukkara og ráðskonu á hælunum
Hnefaleikakappinn Mike Tyson á hausnum - fátt eftir af fornri frægð kappans
Portúgalar vinna verðskuldaðan sigur á Hollendingum á EM - áttu stórleik
Allt um EM í fótbolta 2004 - Grikkir mæta Tékkum í spennandi leik í kvöld

Dagurinn í dag
1986 Guðrún Erlendsdóttir skipuð í embætti hæstaréttardómara, fyrst kvenna á Íslandi
1994 Yasser Arafat snýr aftur heim til Palestínu, eftir 27 ár í útlegð frá landinu
1997 Kína tekur við yfirráðum í Hong Kong, eftir 150 ára stjórn Englands þar
2000 Kristnihátíð hefst á Þingvöllum - minnst 1000 ára afmæli kristni á Íslandi
2000 Óskarsverðlaunaleikarinn Walter Matthau deyr í Santa Monica í Kaliforníu

Snjallyrði dagsins
I cannot and will not cut my conscience to fit this year's fashions.
Lillian Hellman skáldkona