Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 júlí 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í upphafi þessa sunnudagspistils sendi ég góðar kveðjur til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, sem nú dvelst á sjúkrahúsi eftir aðgerð í vikunni. Ennfremur fjalla ég um umræðu vikunnar í fjölmiðlamálinu á þingi, en stjórnarandstaðan verður nú að koma fram með efnislega afstöðu sína hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum og er þegar ljóst að hún er klofin, enda hafa forystumenn tveggja flokka ljáð máls á lagasetningu en formaður Samfylkingarinnar er augljóslega á móti öllum hugmyndum í þá átt. Að lokum fjalla ég um heimsókn Denis MacShane Evrópumálaráðherra Bretlands í vikunni, en hann náði þar loks að sannfæra varaformann Samfylkingarinnar um mikilvægar staðreyndir Evrópumála, er það verkefni sem engum hefur tekist fyrr. Það er gott að heyra að Ingibjörg skilur orðið grunnatriði málsins. Kannski ættu forsvarsmenn ESB að koma hingað oftar, en Samfylkingarmenn hafa varla gleymt heimsókn Franz Fischlers fyrir tæpu ári, þar sem hann sagði að Ísland fengi aldrei undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB. Það virðist hafa góð áhrif á Ingibjörgu og fleiri forystumenn Samfylkingarinnar að fá talsmenn ESB og forsvarsmenn Evrópumála í nágrannalöndum okkar í heimsókn. Það virðist vera þeim heppileg lexía að heyra staðreyndir málsins frá kunnáttumönnum á þeirra væng stjórnmála, ekki hlusta þau á staðreyndir málsins sem komið hafa fram á undanförnum árum m.a. hjá Heimssýn og þessir erlendu spekingar taka undir í öllum meginatriðum.

Halldór Blöndal forseti AlþingisRæða Halldórs
Halldór Blöndal forseti Alþingis, flutti ítarlega ræðu á Alþingi, miðvikudaginn 21. júlí sl. þar sem hann kom Alþingi til varnar í kjölfar umræðu seinustu vikna eftir synjun forseta Íslands á lagafrumvarpi sem réttkjörinn meirihluti þingmanna hafði samþykkt. Ræðan birtist í dag á vef mínum, tel ég rétt að hafa þessa góðu ræðu aðgengilega á vef mínum, enda er um að ræða ítarlega og yfirgripsmikla ræðu, flutta af manni sem hefur yfirburðaþekkingu á sögu málsins. Í ræðu sinni sagði Halldór orðrétt: “Við getum velt því fyrir okkur, þegar Alþingi er búið að vinna dag og nótt í fimm vikur í umdeildu frumvarpi: Er þá eðlilegt, miðað við það sem fyrir liggur, að herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, hefði a.m.k. einni eða tveimur vikum áður en þeim umræðum lyki uppi efasemdir um hvort hann mundi skrifa undir? Enginn í þessum þingsal hefur velt upp þeirri spurningu hvort rétt hefði verið að forseti lýðveldisins lýsti áhyggjum sínum við ríkisstjórn eða forseta Alþingis yfir þessum málum. Það hefur enginn talað um það.” Eðlilegt er að fá fram þetta sjónarhorn á málið, enginn hefur leitt hugann að því hvort forseti hefði átt af virðingu við þingið að koma skoðun sinni að, en sem kunnugt er gerði forsetinn aldrei ríkisstjórn eða þinginu beint kunnugt um afstöðu sína, þó hann væri á landinu megnið af annarri og þriðju umræðu málsins í maímánuði. Hvet ég alla til að lesa ræðuna.

Dagurinn í dag
1912 Hannes Hafstein varð ráðherra Íslands, öðru sinni - sat í rúm tvö ár
1929 Van Rossum kardináli, vígði Martein Meulenberg biskup kaþólskra á Íslandi - tæplega 400 árum eftir að Jón Arason seinasti kaþólski biskupinn á Íslandi, var tekinn af lífi
1943 Benito Mussolini einræðisherra á Ítalíu, missir völd sín - hann var drepinn 1945
1946 Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Sameinuðu þjóðunum - tók gildi sama ár
2000 Concorde þota ferst í flugtaki við De Gaulle flugvöll í París - 113 létust í slysinu

Snjallyrði dagsins
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Einar Benediktsson skáld (1864-1940)