Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 ágúst 2004

Dick Cheney og George W. BushHeitast í umræðunni
Flokksþing Repúblikanaflokksins hefst í Madison Square Garden í New York í kvöld og stendur það í fjóra daga. Gríðarlegar öryggisráðstafanir, meiri en áður hafa sést, verða gerðar vegna flokksþingsins, en um er að ræða fyrstu stóru flokkssamkomuna í New York, frá hryðjuverkunum í borginni fyrir þrem árum, 11. september 2001. Mikil öryggisgæsla er við þingstaðinn. Götum við þingstaðinn hefur verið lokað og lögreglumenn íklæddir óeirðagalla með leitarhunda og sprengjuleitartæki gæta þeirra. Leitað er á öllum þingfulltrúum við komuna á þingstað en á bannlista eru t.d. hnífar, byssur, flugeldar og sprengiefni. Um er ennfremur að ræða fyrsta flokksþing repúblikana í borginni, en demókratar hafa fimm sinnum hist þar og haldið flokksþing sitt. Hefur New York lengi þótt eitt traustasta vígi demókrata, og því kemur staðsetningin á óvart út frá pólitískum forsendum. Hundruð þúsunda tóku þátt í mótmælum gegn Íraksstríðinu og stefnu Bush forseta, í borginni í gær og búist er við fleiri mótmælum þegar líður á vikuna. Rúmlega 60 ræðumenn munu taka til máls á flokksþinginu, t.d. þingmenn og forystumenn flokksins í stórborgum, eiginkonur og börn frambjóðenda flokksins nú og að lokum George W. Bush forseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi flokksins og Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, en þeir verða formlega útnefndir í lok þingsins á fimmtudag. Meðal þeirra sem taka til máls í dag, á fyrsta degi þingsins, eru Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóri New York, Michael Bloomberg núverandi borgarstjóri, og John McCain öldungadeildarþingmaður og mótframbjóðandi forsetans um útnefningu repúblikana í forsetakosningunum árið 2000. Stuðningsmenn Bush segja fundarstaðinn táknrænan þar sem hryðjuverkin í New York hafi komið af stað stríði Bush gegn hryðjuverkum. Demókratar segja að forsetinn ætli sér að notfæra harmleikinn í kosningabaráttunni. Skv. nýrri skoðanakönnun sem birt var í morgun hefur fylgi forsetans aukist undanfarna daga og mælist hann nú með marktækt forskot á keppinaut sinn, John Kerry.

AkureyriSamhliða Akureyrarvöku um helgina, voru tilkynntar formlega niðurstöður dómnefndar í hönnunarsamkeppni um menningarhús á Akureyri. Dómnefnd skipuðu Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu, sem var formaður, bæjarfulltrúarnir Sigrún Björk Jakobsdóttir og Oddur Helgi Halldórsson, sem voru tilnefnd af Akureyrarbæ, og arkitektarnir Guðrún Ingvarsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson, er voru tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands. Dómnefndin raðaði þremur frambærilegustu tillögunum til verðlaunasæta í annað og þriðja sæti. Jafnframt var ákveðið að beina þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að ganga til samningaviðræðna við höfunda tillögu í 2. sæti með það í huga að orðið geti að framkvæmd hennar fyrir kostnaðaráætlun sem er innan viðmiðunarmarka keppnislýsingar. Það voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, afhentu verðlaunin. Ein tillaga hlaut önnur verðlaun og var það tillaga frá arkitektastofunum Arkþingi ehf. og Arkitema í Danmörku. Tvær tillögur hlutu þriðju verðlaun. Að annarri stendur arkitektastofan Andersen & Sigurðsson í Danmörku. Höfundar hinnar eru arkitektastofan HAUSS - Architectur + Graphik, en sú stofa er starfrækt í Þýskalandi og Austurríki. Í keppnislýsingu var jafnframt kveðið á um að miðað skyldi við að eiginlegur framkvæmdakostnaður væri 800 m.kr., og að tillögur sem vikju frá þeirri fjárhæð um meira en 25% kæmu ekki til greina til útfærslu. Þegar niðurstöður úr kostnaðarmati voru kynntar kom í ljós að allar tillögurnar sem voru kostnaðarreiknaðar voru yfir því kostnaðarviðmiði sem fram kemur í keppnislýsingu. Í sumum tilvikum var ekki um mikið frávik að ræða, en engu að síður nægjanlegt til að tillögurnar teldust ekki uppfylla skilyrði keppnislýsingar. Niðurstaða dómnefndar varð því sú að nefndinni væri óheimilt að veita 1. verðlaun, enda fæli veiting þeirra í sér skuldbindingu um framkvæmd viðkomandi tillögu.

Gunnar G. Schram (1931-2004)Gunnar G. Schram (1931-2004)
Gunnar G. Schram lagaprófessor og fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, er látinn, 73 ára að aldri. Hann fæddist á Akureyri 20. febrúar 1931, en foreldrar hans voru Gunnar Schram og Jónína Jónsdóttir Schram. Gunnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1950 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1956. Hann stundaði framhaldsnám í þjóðarétti við Max Planck-stofnunina í Heidelberg í Þýskalandi og háskólanum þar 1957-1958 og við háskólann í Cambridge í Englandi, Sidney Sussex College 1958-60. Hann lauk doktorsprófi í þjóðarrétti við skólann árið 1961. Gunnar var blaðamaður á Morgunblaðinu á háskólaárunum og 1956-1957. Hann var ritstjóri Vísis 1961-1966. Gunnar réðst til starfa í utanríkisráðuneytinu 1966 þar sem hann var deildarstjóri ásamt því að vera ráðunautur í þjóðarétti. Gunnar var lektor við lagadeild Háskóla Íslands 1970, en árið 1974 var hann skipaður prófessor við skólann. Því starfi gegndi hann til ársloka 2001. Hann var ráðunautur stjórnarskrárnefndar 1975-1983. Gunnar átti sæti í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 1953-1957 og var á þeim tíma bæði varaformaður og ritari sambandsins. Gunnar var til fjölda ára virkur í starfi flokksins. Hann var kjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjaneskjördæmi í alþingiskosningunum 1983 og sat á þingi til ársins 1987. Hann var varaþingmaður flokksins í kjördæminu, kjörtímabilið 1987-1991. Gunnar kvæntist Elísu Steinunni Jónsdóttur og eignuðust þau fjögur börn, en fyrir átti Gunnar eina dóttur. Með Gunnari er fallinn í valinn einn af fremstu lagasérfræðingum þjóðarinnar á 20. öld.

Áhugavert á Netinu
Gróska háskóla spor í rétta átt - pistill Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur
Batnandi staða og örvænting varaþingmanns - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Samkeppni og viðkvæmni sáttasemjarans - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Harkaleg kosningabarátta í Bandaríkjunum - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Sjö sóttu um stöðu dómara við Hæstarétt Íslands - Pétur hættir 1. október
Tekjuskattur lækkaður um 1% - veikluleg byrjun á efndum loforðanna
Cherie Booth Blair kom til landsins og flutti erindi og opnaði listsýningu
Rússnesku farþegaflugvélunum var grandað af téténskum múslímum
Flokksþing Repúblikanaflokksins hefst í Madison Square Garden í NY í dag
Dætur forsetaframbjóðandanna bandarísku fá kraftmikil viðbrögð á MTV
George W. Bush forseti, mælist með meira fylgi nú í Flórída en John Kerry
Líflegt starf ungra sjálfstæðismanna á Bifröst - ályktun SUS um borgarmál
R-listinn loks reiðubúinn að selja borgarfyrirtæki í samkeppnisrekstri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir siglir gámaskipi í nýjum siglingahermi
Mjög umdeild skipan Ragnhildar Arnljótsdóttur sem ráðuneytisstjóra
Dularfullur samsöngur Bjarkar Guðmundsdóttur og Kelis á laginu Oceania
Darkness valdir besta hljómsveitin á Kerrang tónlistarverðlaunahátíðinni
Scarlett Johansson valin nýtt andlit Calvin Klein snyrtivörufyrirtækisins

Dagurinn í dag
1720 Jón Vídalín biskup, lést á leið norður Kaldadal - staðurinn hefur síðan heitið Biskupsbrekka
1779 Hið íslenska lærdómsfélag var stofnað í Kaupmannahöfn - var loks lagt niður árið 1796
1935 Íslenska ríkið eignaðist Geysi í Haukadal - svæðið hafði þá verið í eigu útlendinga í tíu ár
1967 Borgarskálabruninn - vöruskemmur Eimskips við Borgartún brunnu, en í skemmunum voru þúsundir tonna af vörum. Um var að ræða mesta eignartjón í eldsvoða hérlendis, fram að þeim tíma
1967 Thurgood Marshall verður hæstaréttardómari í Bandaríkjunum - fyrstur þeldökkra manna

Snjallyrði dagsins
If only God would give me some clear sign! Like making a large deposit in my name in a Swiss bank.
Woody Allen leikari og leikstjóri