Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 október 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
17 dagar eru þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og kjósa um hvort John Kerry öldungadeildarþingmaður, eða George W. Bush forseti Bandaríkjanna, muni sitja á forsetastóli næstu fjögur árin, kjörtímabilið 2005-2009. Kappræðurnar eru að baki og frambjóðendurnir keppast því við að ferðast um landið og kynna sig og stefnu sína betur fyrir kjósendum. Einn af hverjum fimm kjósendum, tæp 20%, í Bandaríkjunum er óákveðinn um það hvern skuli kjósa, ef marka má kannanir. Núna þegar lokaspretturinn er hafinn beina frambjóðendur mest sjónum sínum að þeim fylkjum þar sem baráttan er jöfnust samkvæmt könnunum. 2000 vann Bush sigur í 30 ríkjum og hlaut 271 kjörmann. Má segja að baráttan núna standi mest um átta ríki núna, sem hafa um 100 kjörmenn. Sá sem nær þeim verður næsti húsráðandi í Hvíta húsinu. Um er að ræða Florída, Ohio, Pennsylvaniu, Wisconsin, Iowa, Nevada, New Hampshire og New Mexico. Skoðanakannanir sýna að í þessum fylkjum er annaðhvort munur milli þeirra innan skekkjumarka eða hnífjafnir. Eins og staðan er nú hefur Bush öruggt forskot í 26 ríkjum, en Kerry er öruggur í 16. Sem dæmi má nefna hafa bara Florída, Ohio og Pennsylvania 68 kjörmenn. Er almennt talið að sá sem taki tvö af þessum þrem muni hrósa sigri þann 2. nóvember. Eitt ljón gæti orðið á vegi Kerrys umfram annað. Neytendafrömuðurinn og sjálfstæði forsetaframbjóðandinn Ralph Nader gæti eyðilagt vonir hans um að ná kjöri. Nader hefur tekist að komast á kjörseðil í 30 ríkjum. Spurning er hvort versta martröð demókrata, Ralph Nader, hefur áhrif á úrslit kosninganna. Allavega er það eitt ljóst að æsispennandi lokasprettur er framundan í Bandaríkjunum.

Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, sakaði í dag Sjálfstæðisflokkinn um að nýta sér kennaraverkfallið til að ýta undir hugmyndir um einkavæðingu skólakerfisins, í ræðu sem hann flutti á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Hann segir framámenn í sjálfstæðisflokknum nýta tækifærið til að setja fram kröfur um annað rekstrarform sem sé ekkert annað en krafa um einkavæðingu. Aðspurður nefndi hann sérstaklega Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Ekki þarf Össur að undrast að menn velti upp nýjum kostum, nýjum hugmyndum og nýrri framtíðarsýn í skólakerfinu, við þær aðstæður sem uppi eru í verkfalli grunnskólakennara. Hvernig má annað vera en að leitað sé nýrra leiða eða málin hugsuð með hliðsjón af raunveruleikanum. Reyndar var fyndið að formaðurinn þurfti að taka sérstaklega fram að hann væri ekki með ræðu sinni að skrifa upp á allar kröfur kennara, menn verði auðvitað að mætast á miðri leið í samningum. Það er þó gott að vita það að smá raunsæisglampi skín úr augum formannsins þó að öðru leyti einkennist málflutningur hans af örvæntingu. Hvaða tími en akkúrat núna er réttur til að ræða möguleikann á nýjum rekstri í skólamálum? Það er einmitt hárrétt að taka stöðuna nú og mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að fara yfir kostina. Mikilvægt er að fá fram meiri umræðu um möguleikann á einkarekstri í skólakerfi grunnskóla. Reyndar væri nær fyrir samninganefndirnar sem nú karpa um málin á meðan nemendur sitja heima að hefja umræðu um mat á hæfni og dugnaði hvers og eins kennara, sem er mun vænlegra til árangurs en karp um kennsluskyldu og frítíma.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraFundur með Birni
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður hans, voru í gærkvöldi gestir á fundi með stjórn Varðar og almennum félagsmönnum í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, í Kaupangi. Á fundinum var notalegt spjall um stöðu mála í stjórnmálaheiminum, farið yfir heitustu málin í umræðunni og t.d. mikið rætt um bandarísku forsetakosningarnar. Félagsmenn voru duglegir að spyrja Björn um málin og hann svaraði þeim spurningum vel og ítarlega. Var gaman að ræða við hann og Þorstein og kvöldstundin því góð og gagnleg fyrir okkur hér. Fyrr um daginn hafði Björn opnað nýja varastöð fyrir Almannavarnir, Neyðarlínuna og Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar á lögreglustöðinni hérna í bænum, en þar verður stjórnstöð sem þjónar landinu öllu. Einnig er þar vaktstöð siglinga og stjórnstöð leitar og björgunar auk þess sem stjórnstöð Almannavarnanefndar Eyjafjarðar verður þar að auki. Varastöðinni mun verða ætlað að taka við hlutverki stjórnstöðvarinnar í Skógarhlíð í Reykjavík ef hún af einhverjum ástæðum verður óvirk og eins verður hægt að reka stöðvarnar samhliða. Jafnframt opnaði Björn lögreglustöðina eftir gagngerar endurbætur. Er starfsaðstaða lögreglunnar mun betri nú en áður, lögreglustöð hefur verið hér við Þórunnarstræti frá því hún var vígð á afmælisdegi bæjarins, 29. ágúst 1968. Björn flutti ræðu við vígslu varastöðvarinnar í gær.

Dagurinn í dag
1890 Magnús Stephensen landshöfðingi, tók formlega í notkun síma sem lagður var á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar - um var að ræða fyrstu málþráðarlagningu sem lögð var hérlendis
1902 Landakotsspítali í Reykjavík var formlega tekinn í notkun - var reistur af St. Jósepssystrum
1952 Írafossstöðin við Sog var vígð - um var að ræða eitt mesta mannvirki hérlendis til þess tíma
1978 Pólski kardinálinn Karol Józef Wojtyla kjörinn páfi - hann tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi II. Hann hefur setið á páfastóli síðan, í 26 ár. Aðeins þrír hafa setið lengur á þeim stóli í sögunni
1984 Desmond Tutu hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni

Snjallyrði dagsins
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)