Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 október 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, mættust í síðasta skipti til að ræða málefni kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum í þriðju og seinustu kappræðum sínum í háskólanum í Tempe í Arizona í nótt. Kappræðurnar voru eins uppbyggðar og þær fyrstu, þann 30. september. Spyrill var Bob Schieffer fréttamaður á CBS. Kappræðurnar stóðu eins og hinar tvær í 90 mínútur og lauk með tveggja mínútna lokaorðum. Umræðuefni kvöldsins voru innanríkismál, allt frá efnahagsmálum til þjóðfélagsmálefna. Tókust forsetaefnin eins og áður harkalega á um ólíkar stefnur og aðferðir til að ná settu marki. Sem fyrr voru öryggismálin umdeildust sem lykilmál þessarar kosningabaráttu eins og hefur blasað við nokkurn tíma að yrði raunin. Athygli vakti þegar talið barst að samkynhneigð að Kerry ákvað að gera málefni dóttur Cheney varaforseta að umræðuefni, sem er í hæsta máta óeðlilegt og undarlegt til að slá pólitískar keilur. Lynne Cheney varaforsetafrú, réðist harkalega að Kerry eftir kappræðurnar vegna þessa og kallaði hann tækifærissinna og mannleysu. Bush og Kerry stóðu sig báðir vel í þessum lokahluta kappræðnanna. Að mínu mati var Bush kraftmeiri og öflugri og var betri. Hann benti á glufurnar í málstað Kerrys og réðist óhikað að honum og tók frumkvæðið alveg hiklaust. Það varð sífellt augljósara í kvöld að Kerry hefur enga framtíðarsýn nema gamla frasa og orðaleppa. Bush sýndi með því að rifja upp feril keppinautar síns í öldungadeildinni hvernig hann hefur tekið afstöðu til mikilvægra málefna áður fyrr. Munu niðurstöður nýrra skoðanakannana og spin-mennskan sem í gang fer nú hafa mikið um að segja hvernig slagurinn muni fara að lokum. Nú þegar kappræðurnar eru að baki, er seinasti hluti kosningabaráttunnar kominn af stað og segja má að seinustu stórtækifæri forsetaframbjóðendanna til að ná til kjósenda í sjónvarpi séu ekki lengur fyrir hendi. Á þeim 19 dögum sem eru til kjördags, þriðjudaginn 2. nóvember, munu frambjóðendur ferðast um landið og reyna að ná beint til kjósendanna til að biðla til þeirra um að kjósa sig. Verður fróðlegt að sjá hvernig lokahnykkurinn verði og hvort og þá hvaða sveiflur verði á fylgi forsetaframbjóðendanna.

Upptaka af þriðju kappræðum George W. Bush og John Kerry
Kappræður George W. Bush og John Kerry - endurrit af umræðunum
Hápunktar í þriðju kappræðum George W. Bush og John Kerry
Ummæli forsetaframbjóðendanna í þriðju kappræðum sínum
Umfjöllun um kappræður George W. Bush og John Kerry

DalvíkÓlga er í bæjarmálum í Dalvíkurbyggð þessa dagana, eins og fram hefur komið í fréttum Ríkisútvarpsins. Logar allt stafna í milli hjá Framsóknarflokknum, sem er stærsti flokkurinn í bæjarstjórninni og hefur 4 fulltrúa í bæjarstjórn af 9 og hefur verið í meirihluta bæjarstjórnar á Dalvík í áratug, frá 2002 í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Deilurnar snúast um að meirihluti bæjarstjórnar hefur í hyggju að loka sveitaskólanum á Húsabakka í Svarfaðardal. Dalurinn og Árskógsströnd sameinuðust Dalvík í sveitarfélagið Dalvíkurbyggð árið 1998. Frá þeim tíma hafa skólar verið á öllum þremur stöðunum en seinustu ár hefur skólinn á Dalvík sífellt verið styrktur með hliðsjón af því að hagkvæmara sé að reka skóla þar. Nýleg úttekt á skólunum staðfestir svo ekki sé um villst að óhagkvæmt er að reka skóla í Svarfaðardal. Nú hefur það gerst að allt sýður upp úr í Framsóknarflokknum í Svarfaðardal og hefur fyrrum bæjarfulltrúi flokksins þaðan sagt sig úr flokknum og neitar að styðja lengur ákvarðanir flokksins. Það hefur gerst sem fáa óraði fyrir að myndi gerast. Framsóknarflokkurinn í Dalvíkurbyggð hefur klofnað. Grunnlína í þessu máli er að fólk þarf að horfast í augu við staðreyndir um rekstur skólanna í Dalvíkurbyggð, en getur ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það eru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal, svo einfalt er það. Það er von mín að meirihlutinn í Dalvíkurbyggð láti ekki tilfinningaleg rök stjórna ferðinni í þessu máli heldur skynsemina, sem er augljós þegar litið er á tölur í þessu máli.

Washington DCPistill um Washingtonferðina
Í ítarlegum pistli á vef mínum fjalla ég um för mína til Washington í síðustu viku. Í pistlinum segir til dæmis svo: "Það er draumur hvers áhugamanns um stjórnmál og mannkynssöguna að fara til Washington DC, höfuðborgar Bandaríkjanna. Borgin er táknmynd fyrir stjórnmálasögu Bandaríkjanna og sögu heimsins. Þar hafa örlög heimsins jafnan ráðist, þar situr valdamesti maður heims á valdastóli og stjórnar öflugasta ríki samtímans. Það jafnast fátt á við að fara til Bandaríkjanna, og fyrir stjórnmálaáhugamann var auðvitað einstakt tækifæri að fara þangað innan við fjórum vikum fyrir forsetakosningar í landinu. Ég hafði lengi viljað fara til Washington, segja má að ég sem þyki vera frekar mikill áhugamaður um stjórnmál og söguna hafi lengi beðið færis á að heimsækja þessa borg borganna. Að mínu mati var Washington áður en ég lagði af stað þangað á miðvikudag fyrir viku, táknmynd alls þess sem ég stend fyrir í stjórnmálum: frelsisins í allri sinni mögulegu mynd í heiminum. Óhætt er að segja að borgin hafi staðið undir væntingum mínum og gott betur. Það var sannkölluð upplifun að fara þangað og þetta skynja allir þeir sem hafa farið til borgarinnar og munu skynja þegar þeir fara þangað fyrsta sinni. Bandaríkin hafa alltaf heillað mig og ég hafði farið þangað áður og kynnst öllum kostum þess, en Washington er perla landsins, þangað verða allir að fara að minnsta kosti einu sinni á ævigöngu sinni." Að því loknu fer ég yfir það helsta sem gert var í ferðinni, og hvað fyrir augu bar í þessari fyrstu ferð minni til Washington. Hvet ég alla til að lesa pistilinn sem vilja lesa meira um þessa ferð.

Dagurinn í dag
1863 Fjórir þingeyingar komu til Rio de Janeiro eftir þriggja mánaða ferð frá Akureyri, með viðkomu í Danmörku. Þetta var upphaf ferða til Brasilíu en þær leiddu til hinna frægu vesturferða til Kanada
1964 Blökkumannaleiðtoginn Dr. Martin Luther King hlýtur friðarverðlaun Nóbels fyrir mikilsvert framlag sitt til mannréttindabaráttu blökkumanna - Dr. King var myrtur í Tennessee árið 1968
1964 Nikita Khrushchev steypt af valdastóli í Sovétríkjunum - Leonid Brezhnev tók við völdum
1990 Tónskáldið Leonard Bernstein lést í New York, 72 ára að aldri. Hann var eitt frægasta tónskáld Bandaríkjanna á 20. öld og er einna þekktastur fyrir tónlist sína í söngleiknum West Side Story
1994 Yitzhak Rabin, Yasser Arafat og Shimon Peres hljóta friðarverðlaun Nóbels fyrir framlag sitt til friðarsamningsins í Mið-Austurlöndum árið 1993. Þótti söguleg stund þegar þeir tóku við verðlaununum 10. desember 1994. Rabin var myrtur tæpu ári síðar og leiddi morðið á honum til valdaglundroða í Ísrael sem varð að lokum til þess að friðarferlið fór að fullu út af sporinu

Snjallyrði dagsins
Þó fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól
geta ekki fönnin og frostið
falið Álfahól.

Yfir hann skeflir aldrei
þó allt sé af gaddi hvítt,
því eldur brennur þar inni,
sem ísinn getur þítt.

Þar á ég höfði að halla,
þó hríðin byrgi sól,
fjúki í fornar slóðir
og fenni í gömul skjól.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) (Álfahóll)