Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 febrúar 2005

SjónHeitast í umræðunni
Tilkynnt var formlega í Helsinki í morgun að rithöfundurinn Sjón, Sigurjón Birgir Sigurðsson, myndi að þessu sinni hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, fyrir bók sína Skugga-Baldur. Í umsögn dómnefndar, þar sem þetta val er tilkynnt, segir að Skugga-Baldur dansi á línunni milli bundins og óbundins máls. Í skáldsögunni séu í bland íslenskar þjóðsögur, rómantísk frásagnarlist og töfrandi saga tvinnuð saman í vandaða heildarmynd og tekist á við siðferðisleg og mannleg vandamál. Skugga-Baldur er fimmta skáldsagan sem Sjón ritar. Sjón er sjötti Íslendingurinn sem hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Ólafur Jóhann Sigurðsson hlaut þau fyrstur Íslendinga, árið 1976, fyrir bækur sínar, Að laufferjum og Að brunnum. 1981 hlaut Snorri Hjartarson verðlaunin fyrir bók sína, Hauströkkrið yfir mér. 1988 hlaut Thor Vilhjálmsson þau fyrir skáldsögu sína, Grámosinn glóir. Fjórum árum síðar, 1992, hlaut Fríða Á. Sigurðardóttir bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína, Meðan nóttin líður. 10 ár eru liðin frá því að Íslendingur hlaut verðlaunin síðast, 1995 hlaut Einar Már Guðmundsson þau fyrir skáldsögu sína, Englar alheimsins.

Sjón er elsti sonur Sigurðar Geirdal fyrrum bæjarstjóra í Kópavogi, en hann lést fyrir nokkrum mánuðum. Sjón hefur verið lengi mjög virkur í íslensku bókmenntalífi og gefið út eins og fyrr segir fimm skáldsögur og ennfremur fjölmargar ljóðabækur og að auki skrifað leikrit og smásögur. Hann hóf feril sinn sem ljóðskáld á unglingsárum, hann var aðeins 16 ára gamall er fyrsta bók hans, Sýnir, kom út árið 1978. Hann hefur til fjölda ára verið áberandi í lista- og menningarlífi. Hann var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu, hefur tekið þátt í myndlistasýningum, tónlistaviðburðum og menningarhátíðum. Hann stofnaði ásamt vinahópi sínum útgáfufélagið Smekkleysu árið 1987. Hann samdi texta fyrir Sykurmolana, sem í voru fjöldi vina hans og samstarfsmanna til fjölda ára og söng eitt lag með hljómsveitinni, smellinn Luftgítar. Hann hefur unnið til fjölda ára með aðalsöngkonu Sykurmolanna, Björk Guðmundsdóttur. Hefur hann samið marga af hennar frægustu textum og tónverkum. Þau sömdu t.d. saman tónlistina í Dancer in the Dark, kvikmynd danska leikstjórans Lars Von Trier árið 2000, en Björk lék aðalhlutverkið í myndinni. Sjón og Björk voru tilnefnd til óskarsverðlauna árið 2001, fyrir eitt af aðallögunum í myndinni, I´ve Seen It All. Saman sömdu Sjón og Björk ennfremur lagið Oceania, en Björk söng það á opnunarhátíð Olympíuleikanna í september 2004, og sló lagið í gegn. Sjón fær í viðurkenningarskyni fyrir að hljóta verðlaunin 350.000 danskar krónur í verðlaun, sem nema 3,8 milljónum íslenskra króna. Verðlaunin verða afhent á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið verður hér á Íslandi, í októbermánuði. Ég óska Sjón innilega til hamingju með þessi verðlaun. Hann á þau svo sannarlega skilið.

Elísabet EnglandsdrottningTilkynnt var í gærkvöldi að Elísabet Englandsdrottning, og Filippus hertogi af Edinborg, myndu ekki verða viðstödd brúðkaup sonar síns, Karls prins af Wales, og unnustu hans, Camillu Parker Bowles, þann 8. apríl nk. Um er að ræða sögulega ákvörðun, enda hefur það ekki gerst í 142 ár að breskur konungur eða drottning á lífi hafi ekki verið viðstödd brúðkaup barna sinna. Svo virðist vera sem að drottningin telji ekki henta sér eða brúðhjónunum að vera viðstödd giftinguna, sem mun verða mjög lágstemmd og að mestu fjölskylduathöfn, fyrir brúðhjónin og börn þeirra. Bendir margt til þess að brúðkaupið ætli að verða einn allsherjar skrípaleikur fyrir konungsfjölskylduna. Blasir við margir sérfræðingar um bresku krúnuna telja að þessi ákvörðun sé lítilsvirðing við brúðhjónin og mjög táknræn að öllu leyti. Hvert áfallið rekur annað við undirbúning þessa brúðkaups og tala sérfræðingar um mjög áberandi PR-mistök, sem eigi fáa sína líka á seinni árum, þó saga konungsfjölskyldunnar seinustu 15 árin sé næstum því ein samfelld sorgarsaga.

Gott dæmi um það er að í upphafi átti athöfnin að fara fram í viðhafnarsal í Windsor-kastala. Þótti það merki um að athöfnin ætti að fá vissan viðhafnarbrag, þó auðvitað væri um borgaralega giftingu að ræða. Var fyrst því gert ráð fyrir að drottningin mætti og flestallir í nánustu fjölskyldu brúðhjónanna. En þá kom babb í bátinn. Í ljós kom að lög heimiluðu ekki að athöfnin færi fram utan skrifstofu borgardómara. Því breyttist allt planið og formlegheitin við athöfnina minnkuðu enn. Ljóst er að drottningin taldi ekki viðeigandi að vera viðstödd slíka athöfn í ráðhúsinu. Mun drottningin og hertoginn af Edinborg hinsvegar verða viðstödd athöfn eftir giftinguna í Windsor-kastala, þar sem brúðhjónin hljóta kirkjulega blessun. En þetta þykja mikil þáttaskil að þjóðhöfðingi Englands sé ekki viðstödd giftingu ríkisarfans. Þótti staða mála lítið breytast við fyrrnefndar yfirlýsingar krúnunnar í dag um takmarkaða þátttöku drottningar í athöfninni. Mikið er að auki deilt um lögmæti þess að ríkisarfinn og væntanlegur verndari kirkjunnar giftist með borgaralegum hætti, en lagaspekingar hafa nú sagt að það standist lög. Í heildina þykir þó öll staða mála og málefni tengd athöfninni hið mesta klúður og niðurlæging fyrir brúðhjónin.

Punktar dagsins
Hillary Rodham ClintonDr. Condoleezza Rice

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Bandaríkjunum telja rúmlega 60% kjósenda í landinu að Bandaríkin séu tilbúin fyrir kvenforseta. Stuðningur við konu í embættið hefur aldrei mælst meiri, í sambærilegum könnunum á seinustu árum. Sögðu 81% aðspurðra einnig að þeir gætu hugsað sér að kjósa konu í embættið. Þetta eru ansi merkilegar niðurstöður og hljóta að vera ánægjuefni fyrir bandarískar konur í stjórnmálum. Það hefur aldrei gerst í sögu landsins að kona hafi verið forsetaefni stóru flokkanna: Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins. Aðeins hefur einu sinni gerst að kona hafi verið varaforsetaefni í kosningum: árið 1984 var Geraldine Ferraro varaforsetaefni demókrata í forsetaframboði Walter Mondale. Framboð hennar hafði lítil áhrif. Mondale og Ferraro biðu sögulegan ósigur fyrir Ronald Reagan og George H. W. Bush. 53% demókrata telja að Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, ætti að fara í forsetaframboð 2008. 42% repúblikana vilja að dr. Condoleezza Rice utanríkisráðherra, gefi kost á sér í embættið og 33% nefndu Elizabeth Dole öldungadeildarþingmann. Ef marka má umræðuna núna er mikið rætt um möguleg forsetaframboð Hillary og Condi árið 2008 og líkurnar á því að þær fari fram þá. Það er alveg ljóst að kosningabarátta með þessum tveim kjarnakonum yrði mjög kraftmikil og yrði vægast sagt mjög lífleg, svo maður tali nú ekki um söguleg.

George W. Bush og Gerhard Schröder

Evrópuför George W. Bush forseta Bandaríkjanna, heldur áfram af krafti. Í gær var forsetinn á leiðtogafundi NATO í Brussel og átti þar ítarlegt spjall við þjóðarleiðtoga fjölda ríkja. Greina má mikinn sáttatón milli leiðtoganna núna og greinileg þáttaskil að eiga sér stað í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu. Samskiptin versnuðu til muna fyrir tveim árum vegna Íraksstríðsins og náðu t.d. samskipti Bandaríkjanna við Þýskaland og Frakkland algjöru frostmarki. Sáttaumleitanir hafa staðið seinustu mánuði, eftir endurkjör forsetans og ljóst að staðan hefur gjörbreyst. Í dag hélt forsetinn til Þýskalands í fyrstu opinberu heimsókn sína þangað í rúm þrjú ár. Átti hann viðræður við Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, á fundi í Meinz. Fór vel á með þeim, eftir átök seinustu ára og greinilegt að stríðsöxin hefur verið grafin með áberandi hætti. Sögðust þeir sammála um framtíðarfyrirkomulag mála í Írak og stöðuna þar eftir kosningarnar nýlega. Eins og búist hafði verið við og ég hafði sagt frá hér á vefnum á mánudag ræddi leiðtogarnir að mestu um málefni Írans og stöðuna í málum Líbanons, einkum hvað víkur að Sýrlandi. Eins og við mátti búast mótmæltu margir för Bush til Þýskalands og voru nokkrar óeirðir á fundarstaðnum þar sem leiðtogarnir hittust. Greinilegt er að leiðtogarnir í Evrópu og Bandaríkjunum, sem tekist höfðu á, hafa samið frið og horfa samhentir til framtíðar. Því ber að fagna!

Tony Blair

Ef marka má nýjustu skoðanakönnunina á fylgi flokkanna í Bretlandi hefur dregið mjög saman með stærstu flokkunum, Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum. Staðfestir könnunin einnig sífellt minnkandi persónufylgi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Könnunin, sem gerð var af ICM fyrir Guardian, sýnir mjög breytta stöðu frá sambærilegri könnun í desember. Þá hafði Verkamannaflokkurinn 7-8% forskot. Að þessu sinni er munurinn aðeins tæp 3%. 37% styðja Verkamannaflokkinn en 34% Íhaldsflokkinn. Frjálslyndir demókratar eru eins og áður í þriðja sætinu, og mælast með 21% fylgi. Þessi niðurstaða kemur mjög á óvart, enda er skipulagsþing Verkamannaflokksins nýlega lokið og þar var blásið til sóknar fyrir kosningarnar, sem væntanlega verða í maíbyrjun. Ljóst er af þessum tölum að Blair hefur ekki tekist að ná trausti kjósenda. Ljóst er að breskir kjósendur eru orðnir mjög þreyttir á Blair og forystu Verkamannaflokksins, sem nú hefur leitt landsstjórnina í tæpan áratug. Við blasir að forsætisráðherrann er orðinn mjög pólitískt skaddaður. Ef þessar tölur eru réttar blasir við að spenna verður í kosningabaráttunni og alls óvíst um útkomu þeirra.

Wonder Boys

Horfði í gærkvöldi á Ísland í dag þar sem alþingismennirnir Hjálmar Árnason og Helgi Hjörvar ræddu um málefni Landsvirkjunar. Blasir við að pólitískar deilur eru innan Framsóknarflokksins og R-listans um málið og tekist á um stöðu þess, eins og ég benti á í gær. Var athyglisvert að sjá skoðanaskipti þeirra. Horfði ennfremur á úrvalsmyndina Wonder Boys. Alveg frábær mynd sem segir frá rithöfundinum og prófessornum Grady Tripp. Hann þjáist í sögubyrjun af svæsinni ritstíflu og lifir í raun á fornri frægð þar sem 7 ár eru liðin frá útgáfu síðustu bókar hans. Útgefandi hans, hinn léttgeggjaði Terry Crabtree, hefur áhyggjur af þessu og boðar heimsókn sína til hans yfir helgi. Og þessi helgi á eftir að verða afdrifarík fyrir Grady og líf hans. Eiginkonan er farin frá honum, kona yfirmanns hans er ólétt eftir hann, nemandi sem leigir hjá honum girnist hann og annar nemandi hans er stelsjúkur snillingur sem efast um kynhneigð sína. Saman mynda þessar ólíku persónur einhvern kostulegasta hóp sem sést hefur saman á hvíta tjaldinu og áður en helgin er á enda hafa þær allar flækt sig í kostulegar aðstæður sem seint líða úr minni áhorfenda.

Snilldarlegt handrit með stórkostlegum leikurum og óaðfinnanlegri leikstjórn eru aðall þessarar mögnuðu myndar. Michael Douglas skilar hér einni af sínum bestu leikframmistöðum. Hann túlkar hinn seinheppna prófessor hreint meistaralega, hann hefur ekki verið betri síðan í óskarsverðlaunahlutverki sínu í Wall Street árið 1987 þar sem hann lék vægðarlausan verðbréfasala (sem minnir mig á að ég þarf að fara að líta á þá mynd aftur, enda orðið langt frá því ég sá hana síðast). Þetta er já mynd Douglas alveg í gegn og hann er alveg frábær í þessu hlutverki. Frances MacDormand er einnig stórfín í hlutverki Söru Gaskell og er óborganleg að vanda, enda frábær leikkona. Robert Downey Jr. er einnig fínn í hlutverki Crabtree og það sama má segja um Tobey Maguire í hlutverki James Leer (það er alveg brilliant móment þegar Leer fer yfir sjálfsmorð stjarnanna, hehe). Wonder Boys hlaut óskarinn árið 2000 fyrir frábært lag meistara Bob Dylan, Things Have Changed, magnað lag sem sest djúpt í sálina. En já: mögnuð kvikmynd sem skartar flottu handriti, stórgóðum leik, góðri tónlist og óaðfinnanlegri leikstjórn. Pottþétt skemmtun!

Saga dagsins
1927 Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson lést - hann bjó lengst af í Edinborg. Sveinbjörn samdi þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng (Ó, Guð vors lands) er samið var við ljóð Matthíasar Jochumssonar
1940 Fyrsta teiknimynd Walt Disney, Pinocchio, var frumsýnd í Bandaríkjunum - myndin varð mjög vinsæl og markaði upphaf frægðarferils Disney og fyrirtækis hans í framleiðslu og gerð teiknimynda
1981 Uppreisn gerð á Spáni - valdarán uppreisnaraflanna stóð ekki nema í 22 klukkustundir og lauk með friðsamlegum hætti í kjölfar þess að Juan Carlos Spánarkonungur, tók afstöðu með stjórninni
1987 Konur urðu í fyrsta skipti fulltrúar á Búnaðarþingi, frá stofnun 1899 - tvær konur sátu þá þingið
2005 Rithöfundurinn Sjón, Sigurjón Birgir Sigurðsson, hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsögu sína, Skugga-Baldur. Sjón varð sjötti Íslendingurinn til að hljóta verðlaunin, frá 1976

Snjallyrðið
Would you know my name if I saw you in heaven?
Would it be the same if I saw you in heaven?
I must be strong and carry on,
Cause I know I don't belong
here in heaven.

Would you hold my hand if I saw you in heaven?
Would you help me stand if I saw you in heaven?
I'll find my way through night and day,
Cause I know I just can't stay
here in heaven.

Beyond the door there's peace I'm sure,
And I know there'll be no more
tears in heaven.
Eric Clapton tónlistarmaður (Tears In Heaven)