Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 apríl 2005

10 ára afmæli ríkisstjórnar
Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks


Ríkisstjórnin - 23. apríl 1995

Áratugur er í dag liðinn frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það var sunnudaginn 23. apríl 1995 sem ráðherraefni flokkanna komu saman á Bessastöðum á ríkisráðsfundi undir forsæti Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og tóku við embættum sínum. Stjórnin hafði verið mynduð eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði að völdum í 4 ár, hafði slitnað með miklum hvelli. Í þingkosningunum sem fram höfðu farið þann 8. apríl 1995 hafði Sjálfstæðisflokkur misst eitt þingsæti frá þingkosningunum 1991, hlotið 25 í stað 26 en Alþýðuflokkurinn misst þrjá, farið úr 10 í 7. Meirihluti flokkanna var því naumur, aðeins 1 þingsæti. Flokkarnir höfðu 32 þingmenn en þáverandi stjórnarandstaða 31 þingsæti.

Munaði Alþýðuflokknum mjög um sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum félagsmálaráðherra og varaformanns flokksins, sem hafði farið úr ríkisstjórn og klofið sig frá flokknum sumarið 1994, eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni þáverandi utanríkisráðherra, í harðvítugu formannskjöri á flokksþingi Alþýðuflokksins. Með því voru gerðar upp valdaerjur þeirra sem staðið höfðu í nokkur ár. Stofnaði hún flokkinn Þjóðvaka sem bauð fram í öllum kjördæmum í kosningunum 1995 en hlaut mun minna fylgi en búist hafði verið við. Segja má að klofningurinn hafi verið afdrifaríkur þegar á hólminn fyrir bæði Jón Baldvin og Jóhönnu. Bæði misstu þau með honum ráðherrastóla sína og pólitísk áhrif í ríkisstjórn. Tími Jóhönnu sem hún skírskotaði til í frægri ræðu sinni við tapið 1994 hefur ekki enn komið. Klofningur Alþýðuflokksins skaðaði bæði Jón Baldvin og Jóhönnu og þau misstu valdasess sinn.

Í kjölfar kosninganna 1995 tóku við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Fljótt varð ljóst að grunnurinn var brostinn og meirihlutinn of naumur til að leggja í ferðalag til fjögurra ára með aðeins eins sætis meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn sleit því viðræðunum um páskahelgina 1995 og Davíð sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1995. Við tóku stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, hittust sömu helgi og handsöluðu samkomulag um stjórnarmyndunarviðræður. Eftir nokkurra daga viðræður var samkomulag flokkanna um samstarf staðfest af æðstu stofnunum þeirra. Að því loknu voru ráðherrar flokkanna valdir og tóku þeir við embættum sínum á fyrrnefndum fundi að Bessastöðum á þessum apríldegi í vorsólinni á Álftanesi.

Allir þekkja söguna sem fylgir í kjölfarið. Samstarfið stendur enn og er það til marks um hversu farsællega ríkisstjórn flokkanna hefur starfað og leitt farsæl mál til lykta með mikla samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur aðeins viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, setið lengur. Hún sat í 12 ár, á tímabilinu 1959-1971. Það er því ljóst að starfi stjórnin til loka kjörtímabilsins, í maí 2007, mun hún slá met viðreisnarinnar. Upphaflega var fjöldi ráðherra í stjórninni 10. Að loknum þingkosningunum 1999 var ákveðið að fjölga ráðherrunum í 12 og hefur svo verið síðan. Á þessum áratug hafa 22 setið í stjórninni, 12 frá Sjálfstæðisflokki en 10 frá Framsóknarflokki. Formenn stjórnarflokkanna eru þeir einu sem setið hafa í stjórninni allan tímann. Björn Bjarnason var menntamálaráðherra 1995-2002 en kom svo aftur í stjórnina ári síðar og hefur setið þar síðan.

Stjórnin hefur gengið í gegnum tvennar kosningar, árin 1999 og 2003, og hefur þingmeirihluti stjórnarinnar veikst í báðum kosningunum. Við stofnun hafði stjórnin 40 þingsæti af 63. Sjálfstæðisflokkur hafði 25 þingsæti en Framsóknarflokkurinn 15. Eftir þingkosningarnar 1999 tapaði stjórnin tveim þingsætum í heildina. Framsóknarflokkur missti þrjú þingsæti, hlaut 12 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og hlaut 26 í stað 25 áður. Í þingkosningunum 2003 veiktist þingmeirihlutinn nokkuð. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti, hlaut 22 í stað 26, en Framsóknarflokkurinn hélt sínum 12. Því er staðan nú eftir 10 ára samstarf flokkanna að ríkisstjórnin hefur 34 þingsæti en stjórnarandstaðan 29. Flokkarnir hafa í báðum kosningunum gengið óbundnir til kosninga en framlengt samstarfið og litið á samstarf sem besta kostinn.

Davíð Oddsson hafði verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og var það áfram við upphaf samstarfs flokkanna vorið 1995. Hann sat á forsætisráðherrastóli allt til 15. september 2004. Sömdu flokkarnir um það við upphaf núverandi kjörtímabils að forsætisráðuneytið færðist þá formlega yfir til Halldórs en þess í stað myndi Sjálfstæðisflokkurinn hljóta 7 ráðherra af 12. Davíð varð utanríkisráðherra er Halldór varð forsætisráðherra. Við þessar hrókeringar á síðasta ári hafði Davíð setið lengur í forsæti ríkisstjórnar landsins en nokkur annar, þrem árum lengur en sá sem næstlengst sat, Hermann Jónasson. Davíð sat í embætti forsætisráðherra í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Hann sat á þessum tíma í forsæti fjögurra ríkisstjórna og stýrði á sama tíma alls 960 ríkisstjórnarfundum. Ferill hans er því stórglæsilegur.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum áratug eru eftirtaldir:

Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson (frá 1991)
Björn Bjarnason (1995-2002 og frá 2003)
Friðrik Sophusson (1991-1998)
Halldór Blöndal (1991-1999)
Þorsteinn Pálsson (1991-1999)
Geir H. Haarde (frá 1998)
Árni M. Mathiesen (frá 1999)
Sturla Böðvarsson (frá 1999)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Tómas Ingi Olrich (2002-2003)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (frá 2004)

Framsóknarflokkur
Halldór Ásgrímsson (frá 1995)
Páll Pétursson (1995-2003)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Finnur Ingólfsson (1995-1999)
Guðmundur Bjarnason (1995-1999)
Guðni Ágústsson (frá 1999)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004)
Jón Kristjánsson (frá 2001)
Árni Magnússon (frá 2003)

Ríkisstjórnin - 31. desember 2004

Áratugur er ekki langur tími í sögu íslensku þjóðarinnar: segja má að sá tími sé eins og örskotsstund á langri vegferð. Hinsvegar leikur enginn vafi á því að það er sögulegt og mikil tíðindi að tveir flokkar hafi setið í forystu ríkisstjórnar landsins svo lengi sem raun ber vitni og unnið saman að forystu stjórnmála landsins. Þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs og Halldórs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun þeirra verða minnst fyrst og fremst fyrir glæsilegan árangur á vettvangi efnahagsmála. Í tíð ríkisstjórna þessara tveggja flokka, á þessu tímabili, unnu þeir að því að tryggja glæsilegan grundvöll að margvíslegum framfaramálum á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk staða ríkisfjármála á þessu tímabili hefur leitt í senn til hagsældar einstaklinga og fjölskyldna og styrkt stoðir atvinnulífsins okkar.

Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu þessara tveggja flokka. Uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðing frjálsra fjármagnshreyfinga sköpuðu nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins. Þessar breytingar, ásamt aðild að EES hafa verið veigamikill hluti þess að tekist hefur auka hagvöxt umfram það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.

Til fjölda ára höfðu íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Nú er staðan sú að erlend stórfyrirtæki í iðngeiranum bíða í röðum hreinlega eftir því að setja hér upp verksmiðjur sínar. Nú er unnið á Austurlandi að byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álveri við Reyðarfjörð. Undir farsælli forystu stjórnarflokkanna var málið leitt til lykta með farsælum hætti. Fyrir lok kjörtímabilsins mun álver Alcoa verða orðið að veruleika. Stjórnarflokkarnir unnu samhentir að því að tryggja það að þetta mætti verða að veruleika meðan stjórnarandstaðan var með mótbárur og reyndi með ýmsum hætti að bregða fæti fyrir verkefnið. Þegar það var orðið að veruleika skipti viss hluti stjórnarandstöðunnar, sem kenndur er við vindhana, um kúrs svo lítill sómi var að fyrir þá. En fólk á Austurlandi veit hver tryggði þessar framfarir og uppbyggingu fyrir austan - það voru stjórnarflokkarnir. Að lokum mun þetta skila sér í aukinni atvinnu- og verðmætasköpun hérlendis og auknum skatttekjum.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Skoðum nokkrar grunntölur málsins undir lokin:

* Hagvöxtur hefur aukist um 51%
* Kaupmáttur heimilanna hefur aukist um 55%
* Hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað um meira en helming
- úr 330 milljörðum árið 1995 í 150 milljarða árið 2005
* Heildarverðmæti landsframleiðslu hefur meira en tvöfaldast
* Tekjuskattur verður tæp 22% árið 2008 en var 33% árið 1995
* Atvinnuleysi minnkað um helming, úr 5% árið 1995 í 2,5% 2005
* Afkoma ríkissjóðs farið úr 25 milljarða halla 1995 í 10 milljarða afgang 2005
* Sérstakur tekjuskattur mun verða afnuminn sem og allir eignaskattar til ríkisins

Það er því margt sem stjórnarflokkarnir geta verið stoltir af þegar saga ríkisstjórna flokkanna árin 1995-2005 og síðar verður skoðuð í sögulegu ljósi af komandi kynslóðum. Um er að ræða eitt mesta og áþreifanlegasta framfaraskeið í sögu íslensku þjóðarinnar, tímabil sem við öllum getum verið stolt af um ókomin ár. Um það verður vart deilt þegar þessi áratugur er gerður upp, og árangur hans er skoðaður í sögulegu ljósi, að samfélagið hefur bæði styrkst og þroskast mjög. Það samfélag sem við þekktum fyrir áratug hefur tekið miklum stakkaskiptum, til hins betra. Það sem er ánægjulegast er að tækifærin eru sífellt fleiri framundan og það eru sóknarfæri um allt. Með bjartsýni og gleði getum við farið yfir áratuginn okkar við stjórnvölinn og leyft okkur að horfa með enn meiri bjartsýni til framtíðarinnar sem framundan er.

Saga dagsins
1902 Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur, fæðist í Reykjavík. Hann gaf út fyrstu skáldsögu sína, Barn náttúrunnar, árið 1919. Hann nam erlendis, fyrst hjá Benediktsmunkum í Lúxemborg 1922-23 og síðan í Kristmunkaskóla í London 1923-24. Hann dvaldist langdvölum erlendis, en átti fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945. Halldór hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955, en hlaut margar aðrar viðurkenningar og verðlaun. Eftir hann liggur mjög mikill fjöldi skáldverka og rita, auk þýðinga. Halldór lést þann 8. febrúar 1998. Minningarsafn um Laxness er staðsett að Gljúfrasteini
1903 Sigfús Blöndal hóf söfnun í orðabók sína - gefin út árið 1920 og hefur komið út þrisvar síðan
1995 Annað ráðuneyti undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum - sat til loka kjörtímabilsins 1999. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið samfellt við völd í heilan áratug
1997 Páll Skúlason heimspekiprófessor, kjörinn rektor Háskóla Íslands - mun láta af störfum í sumar
2001 Fréttablaðið kom út í fyrsta skipti - hefur á stuttum tíma orðið útbreiddasta dagblað landsins

Snjallyrðið
Good humor is the health of the soul, sadness is its poison.
Chesterfield lávarður skáld (1694-1773)