Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 október 2005

Harriet Miers

Í gær tilkynnti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, í yfirlýsingu til fjölmiðla að Harriet Miers hefði afþakkað útnefningu hans í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Leystist með því eitt stærsta vandamál forsetans - enda hafði blasað við að skipun Miers væri strönduð og hún myndi ekki hljóta staðfestingu þingsins í því ferli sem brátt myndi hefjast í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Engu að síður markar brotthvarf Miers frá ferlinu vandræði fyrir forsetann. Það er alltaf vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið. Fyrst í stað áttu flestir von á að forsetinn myndi ná að berja saman stuðning við Miers. Miers átti enga dómarasetu að baki og var óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira. Íhaldssamir voru mjög í vafa um að hún væri sá íhaldssami lagasérfræðingur sem Bush forseti, sagði að hún væri. Tóku hægrisinnuðustu repúblikanarnir hana í raun aldrei í sátt og því fór sem fór. Hún varð að bakka frá draumastarfinu - sem dómarasæti í Hæstarétti Bandaríkjanna er í raun.

Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fjalla ég um þessi tíðindi - jafnframt um vandræðin sem steðja nú að Bush forseta. Um þessar mundir er ár liðið frá því að hann var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann bar þá sigurorð af John Kerry öldungadeildarþingmanni frá Massachusetts, í jöfnum og spennandi kosningaslag. Tókst honum þá að hljóta meira en helming greiddra atkvæða og 286 kjörmenn - en 270 kjörmenn þarf til að hljóta lyklavöldin í Hvíta húsinu. Það hafði þá ekki gerst í 16 ár, eða síðan faðir forsetans vann sigur í forsetakosningunum 1988, að frambjóðandi hlyti meira en helming greiddra atkvæða. Bush var fyrst kjörinn í embættið árið 2000, þá mjög naumlega. Hann hefur því sigrað í tvennum forsetakosningum og getur ekki boðið sig fram aftur. Bush hefur jafnan tekist að koma öflugur úr erfiðleikum og staðið af sér allar árásir andstæðinga sinna. Það er alveg óhætt að fullyrða að Bush forseti sé nú þessa októberdaga að glíma við mestu erfiðleika á forsetaferli sínum. Ekki aðeins mælist persónulegt fylgi forsetans hið lægsta á forsetaferli hans heldur hafa nánir samstarfsmenn hans flækst í hneykslismál og rannsókn á því hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA.

Við hafa svo bæst erfiðleikarnir vegna skipunar forsetans á Miers sem dómara við hæstarétt. Skipun Miers í réttinn var vissulega nokkuð söguleg - enda var hún aðeins þriðja konan sem skipuð hafði verið til setu í réttinum. Fyrst í stað benti flest til þess að hún yrði skrautfjöður fyrir forsetann - en andstaða hægriarms Repúblikanaflokksins gerði forsetanum erfitt fyrir. Nú er hún hinsvegar hætt við tilnefninguna og þáttaskil hafa orðið hjá henni. Eins og flestir vita er hæstiréttur Bandaríkjanna stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu. Þann stuðning vantaði í tilfelli Miers og því strandaði ferlið. Hið merkilega var undir lokin að demókratar vörðu Miers en hægrisinnaðir repúblikanar vildu hana ekki. Í fyrrnefndum pistli fjalla ég meira um persónu Miers og bakgrunn hennar - það sem mikilvægt er að fara yfir í málinu.

Nú blasir við Bush forseta að velja nýtt dómaraefni. Væntanlega mun hann hugsa sig vel um áður en hann velur einhvern til setu í réttinum. Hann virðist hafa misreiknað sig svakalega þegar hann valdi Miers - talið að hún myndi verða staðfest þrátt fyrir allt og myndi kannski fá vægari meðferð vegna þess að hún væri kona. Endalok þessarar skipunar í réttinn hefur vissulega skaðað hann og varla verður anað að vali nýs dómara, sem leysa mun af Söndru Day'O Connor, fyrstu konuna sem tók sæti í réttinum, árið 1981. Mun Bush væntanlega skipa tryggan íhaldsmann til setu nú og tekur engar áhættur. Horfir hann þar væntanlega til þess stöðugleika sem einkenndi allt ferlið við skipun John G. Roberts í réttinn, en hann vakti athygli fyrir öfluga og virðulega framkomu fyrir dómsmálanefndinni. Varð andstaða lítil við skipun hans í forsetastól réttarins, en hann tók við forystu hans af William H. Rehnquist, sem lést í haust. Brotthvarf Harriet Ellan Miers frá strönduðu staðfestingarferli vegna sætis í hæstarétt Bandaríkjanna markar allavega súrsæt þáttaskil hjá forsetanum. Væntanlega er honum létt að þessu hitamáli sé lokið, en jafnframt hugsi yfir framtíðinni.

Auður Auðuns

Í byrjun vikunnar minntu íslenskar konur á stöðu sína í samfélaginu með fjölmennum útifundi í miðborg Reykjavíkur – rétt eins og þær gerðu sama dag þrem áratugum áður. Fundurinn sendi nokkuð sterk skilaboð – framlag kvenna til samfélagsins skiptir máli. Án þess framlags fúnkerar samfélagið ekki. Þau skilaboð voru jafnvel enn sterkari nú en á sama degi þrem áratugum áður. Mikið hefur verið rætt og ritað um mikilvægi kvennafrídags. Í pistli á vef SUS í vikunni þótti mér rétt að minna á framlag sjálfstæðiskvenna í jafnréttisbaráttu í pólitík. Eins og flestir vita sitja tvær sjálfstæðiskonur í ríkisstjórn nú. Alls hafa fimm sjálfstæðiskonur setið í ríkisstjórn á þeim 35 árum sem liðið hafa frá því að Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórn, fyrst kvenna. Í pistlinum fjallaði ég sérstaklega um Auði. Hún var ein af fyrstu konunum sem mörkuðu sér sess í stjórnmálasöguna fyrir stjórnmálaþáttöku á vettvangi borgarstjórnar og þings, og hlaut hún ævarandi sess í stjórnmálasögu landsins fyrir að verða fyrsta konan sem varð borgarstjóri og ráðherra. Í pistlinum bar ég fram spurningu til þeirra kvenna sem tala fyrir því að heiðra framlag kvenna í stjórnmálastarfi - hvenær ætla þær að hefja baráttu fyrir því að til sögunnar komi stytta af Auði í miðbæ Reykjavíkur?

(Ég vil þakka vefnum akureyri.net fyrir að birta þennan pistil minn á vef sínum.)

Gregory Peck í To Kill a Mockingbird

Það hefur verið nóg um að vera í vikunni. Var veikur meginpart hennar. Hinsvegar gat maður lítið pásað sig og nóg að gera. Stjórnmálanámskeiðið er byrjað og í mörg horn að líta vegna þess. Það hefur gengið alveg mjög vel þar. Eftir að hafa verið allt gærkvöldið þar kom ég heim og horfði, enn einu sinni, á kvikmyndina To Kill a Mockingbird. Enn í dag hrífur leikarinn Gregory Peck áhorfendur í óskarsverðlaunahlutverki sínu sem lögmaðurinn Atticus Finch í þessu meistaraverki frá árinu 1962. Þetta er glæsilega sögð saga um hugrekki, hugsjón og persónulega sannfæringu lögmanns sem tekur að sér málsvörn blökkumanns sem ákærður er fyrir að hafa misþyrmt hvítri konu í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í myndinni, sem byggð er á verðlaunaskáldsögu Harpers Lee frá árinu 1960, leikur Brock Peters, verkamanninn Tom Robinson, hinn meinta glæpamann. Í fyrstu lítur út fyrir að málsvörn hans sé með öllu vonlaus enda eru fordómar samfélagsins réttlætinu yfirsterkara. En Atticus trúir statt og stöðugt á sakleysi skjólstæðings síns og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að sanna mál sitt um leið og hann þarf að vernda fjölskyldu sína fyrir andstæðingum sínum. Háklassískt meistaraverk - heilsteypt saga um mannréttindi, lífsvirðingu og síðast en ekki síst réttlæti.

Gísli Marteinn BaldurssonVilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Það hefur varla farið framhjá neinum að prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni verður eftir viku. Flestallir frambjóðendur búnir að opna vefi og eða kosningaskrifstofur og kynna þar sig og sín málefni. Hef ég fylgst með þessu prófkjöri úr nokkrum fjarska og haft gaman af að fylgjast með prófkjörsslagnum. Hafa lítil átök svosem bein verið - enda eru flokksfélagar að takast á í góðu um sæti og áhrif í gegnum það. Aðalátökin eru enda borgarstjórnarkosningarnar - þar verða menn að vinna saman að því að vinna meirihluta í borgarstjórn. Sérstaklega hef ég talað máli yngri frambjóðendanna. Það er alveg klárt í mínum huga að frambjóðendur á Heimdallar aldri verða að koma þar vel út. Sérstaklega hef ég ekki farið leynt með að ég vil að Gísli Marteinn vinni - en hann er öflugur og góður maður sem ég hef þekkt nokkurn tíma og ég styð áfram til að leiða flokkinn - inn í nýja tíma. Báðir eru hann og Vilhjálmur Þ. mætir menn og tryggt að flokknum verður vel stýrt sama hvor vinnur. En ég vil að unga fólkinu sé treyst fyrir forystunni og því er ég hiklaust þeirrar skoðunar að Gísli Marteinni eigi að fá tækifærið til að leiða flokkinn - og vonandi munu sem flestir á ungliðaaldri ná öruggu sæti á framboðslista.

Kastljós

Þess var minnst bæði í Kastljósi og Íslandi í dag á miðvikudagskvöld að áratugur væri liðinn frá snjóflóðinu á Flateyri. Var fjallað um málið með næmum og tilfinningaríkum hætti á báðum stöðvum. Sérstaklega var mjög áhrifaríkt að horfa á Kastljós, en þar var viðtal við Eirík Guðmundsson og Rögnu Óladóttur. Í flóðinu lést eldri dóttir þeirra, Svana Eiríksdóttir, en yngri dóttir þeirra, Sóley, fannst lifandi í rústum hússins átta tímum eftir að flóðið féll. Þau misstu allar sínar veraldlegu eigur í flóðinu. Var eins og fyrr segir mjög áhrifaríkt að horfa á viðtalið og heyra lýsingar þeirra á þessum degi og sorginni sem þau urðu fyrir og hvernig þau horfðust í augu við hana. Kannast ég örlítið við þessa fjölskyldu, en sonur þeirra, Óli Örn, er góðvinur minn. Er aðdáunarvert hversu heilsteypt þau hafa horfst í augu við framtíðina eftir þetta mikla áfall sem þau urðu fyrir. Mjög áhrifaríkt var svo að fylgjast með stemmningunni fyrir vestan á minningarathöfninni og eins og fyrr vann frú Vigdís hug og hjarta allra landsmanna með framkomu sinni á þessum degi.

Saga dagsins
1780 Reynistaðarbræður lögðu af stað úr Árnessýslu norður Kjöl við fimmta mann, með 180 kindur og 16 hesta - þeir fórust í aftakaveðri í Kjalhrauni. Almennar sögur segja að andi þeirra sé þar enn.
1848 Dómkirkjan í Reykjavík var endurvígð eftir endurbætur - höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar.
1886 Grover Cleveland forseti Bandaríkjanna, vígir frelsisstyttuna í New York - hún var gjöf Frakka.
1962 Kúbudeilunni lýkur - John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, tilkynnir að hættuástandið sé liðið hjá og að Sovétmenn hafi látið undan og hörfað frá Kúbu. Hættuástand var í deilunni í 13 daga.
1987 Spjallþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, var í fyrsta skipti á dagskrá Ríkissjónvarpsins - varð langvinsælasti spjallþáttur íslenskrar sjónvarpssögu og var á dagskrá Sjónvarpsins í tæpan áratug.

Snjallyrðið
Og því var allt svo hljótt við helför þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta harmi lostið
sem hugsar til þín alla daga sína.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna
sem horfðu eftir þér í sárum trega
þá blómgast enn og blómgast ævinlega
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Hið bjarta vor)

Fallegt ljóð borgarskáldsins Tómasar - í þessu ljóði er næm taug og falleg sál.