Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 október 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um nýlegan landsfund VG. Fer ég yfir niðurstöður fundarins hvað varðar vinstriáherslur flokksins, rússneska endurkosningu forystu flokksins og það hvernig formaður flokksins biðlaði til Samfylkingarinnar um pólitísk samstarf á komandi árum. Steingrímur J. allt að því öskraði fimm slagorð byggð á heiti fundarins: NÚNA vil ég fara að fá að ráða einhverju - NÚNA er komið að mér að fá að plotta - NÚNA er komið að okkur að stjórna en ekki Framsókn - NÚNA vil ég að við Samfylking byrjum saman - NÚNA verðum við að beygja til vinstri. Örvænting Steingríms J. var allavega greinileg og það var óneitanlega skondið að fylgjast með fréttum af þessum fundi öllum. Skiljanlegt er að Steingrímur J. sé orðinn hundleiður á stjórnarandstöðuverunni - eftir að hafa dvalið þar 19 af 22 árum sínum á þingi. Hann má þó ekki gleyma þeirri gullnu staðreynd að það eru kjósendur sem hafa barið hann niður í það hlutskipti. Kannski er það vegna þess að kjósendum hugnast ekki vinstriáherslurnar og ruglið sem kommúnískur afdalaflokkur frá fortíðinni býður upp á, á okkar tímum.

- í öðru lagi fjalla ég um kvennafrídaginn, sem haldinn var í byrjun vikunnar. Hátt í 50.000 manns, mest konur eins og fyrir þrjátíu árum, komu saman í miðborg Reykjavíkur til að minnast tímamótanna, en 30 árum áður höfðu konur komið saman af sama tilefni. Þarna var að finna, rétt eins og 1975, fólk af öllum aldri og af öllum stéttum. Íslenskar konur lögðu niður vinnu klukkan 14:08 þann dag. Sú tímasetning var vissulega táknræn - enda höfðu konur þá unnið fyrir launum sínum ef litið er til þess að þær munu hafa um 64% af launum karla. Vinnudegi kvenna var þá lokið sé litið til launamunar kynjanna. Konur þessa lands eiga það skilið að vinnuframlag þeirra í sambærilegum störfum og karla sé metið jafnt. Jafnrétti verður að standa undir nafni - með viðeigandi aðgerðum. Kynbundinn launamunur er og verður óeðlilegur.

- í þriðja lagi fjalla ég um nýtt og spennandi tímarit sem ber heitið Þjóðmál og hefur vakið athygli fyrir áhugaverð skrif um stjórnmál. Hvet ég alla lesendur til að fá sér ritið og lesa það. Allir þeir sem áhuga hafa á þjóðmálum - stjórnmálum samtíma og fortíðar hafa gaman af þessu riti. Hlakkar mér til að lesa næsta tímarit af Þjóðmálum.


Kleifarvatn

Kleifarvatn

Las í vikunni aftur bestu skáldsögu ársins 2004 - Kleifarvatn eftir meistara íslenskra spennusagna, Arnald Indriðason. Hún var ennfremur söluhæsta bókin fyrir seinustu jól - seldist í metupplagi. Rúmlega 30.000 eintök hafa selst af Kleifarvatni - er hún söluhæsta skáldsaga Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Hefur engin bók selst betur síðan farið var að halda utan um sölu á bókum hérlendis með þeim hætti sem nú er, fyrir nokkrum áratugum. Kom þessi góði árangur engum á óvart sem las bókina. Las ég hana tvisvar í fyrra, um leið og hún kom út og svo aftur yfir sjálf jólin. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við. Þetta er svo sannarlega spennusagnabók á heimsmælikvarða. Að mínu mati er þetta besta bók Arnaldar.

Sem jafnan fyrr er aðalsöguhetjan, Erlendur Sveinsson lögreglumaður, og samstarfsfólk hans, Elínborg og Sigurður Óli, sem áður hafa komið við sögu t.d. í Mýrinni, Grafarþögn og Röddinni. Segir frá því að þegar vatnsborð Kleifarvatns lækkar í kjölfar jarðskjálfta finnst beinagrind af manni í sandinum sem vatnið hafði áður hulið. Rannsaka Erlendur og aðstoðarmenn hans málið og leiðir sú rannsókn þau nokkra áratugi aftur í tímann, til þess tíma er hugsjónaeldur brann í brjósti fólks sem var slökktur í viðjum kalda stríðsins. Söguþráðurinn er eins og jafnan fyrr hjá Arnaldi meistaralega spunninn og æsispennandi. Hefur það verið alveg virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig. Sem spennusagnahöfundur er Arnaldur á heimsmælikvarða og hefur hann hlotið alþjóðlega frægð og hlotið Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn.

Var Arnaldur tilnefndur loks til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, fyrir þessa bók. Slæmt var að hann fékk þau ekki - enda var Kleifarvatn langbesta skáldsaga ársins 2004, að mínu mati og margra fleiri. Hefur hann verið sniðgenginn seinustu ár, þrátt fyrir hvert meistaraverkið á eftir öðru. Á þriðjudag kemur út næsta bók Arnaldar - Vetrarborgin. Ætla ég að kaupa mér hana í vikunni og lesa hana fyrir helgina - af sama áhuga og aðrar bækur þessa góða meistara okkar í spennusagnaritun. Skrifa ég um bókina þegar ég hef lokið lestrinum.

Saga dagsins
1796 Dómkirkjan í Reykjavík var tekin formlega í notkun - hún er höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar.
1934 Fyrri hluti skáldsögunnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness, kom út. Síðari hlutinn kom út ári síðar. Sjálfstætt fólk er meistaralega vel rituð bók - hún var valin bók 20. aldarinnar árið 1999.
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, rekur Elliot Richardson dómsmálaráðherra, og William Ruckelshaus aðstoðardómsmálaráðherra, úr embættum sínum því að þeir höfðu þá neitað að reka Archibald Cox sérstakan saksóknara í Watergate-málinu, en hann hafði þá gengið nærri forsetanum með því að krefja hann um upptökur af leynifundum hans með helstu ráðgjöfum sínum. Nixon skipaði Robert Bork sem dómsmálaráðherra, og það var hann sem að lokum rak Cox. Framgangur rannsóknar á hneykslismálinu var þó ekki stöðvuð úr þessu og síðar komu í dómsmálunum loks fram upptökurnar frægu sem sönnuðu að Nixon forseti hafði fulla vitneskju, allt frá því í júnímánuði 1972, um innbrotið í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingunni. Leiddi Watergate-málið loks til afsagnar Nixons.
1974 Muhammad Ali endurheimtir heimsmeistaratitil sinn í boxi með því að veita George Foreman þáverandi heimsmeistara, allþungt rothögg í heimsfrægum boxbardaga kappanna í Kinshasa í Zaire.
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, setur friðarráðstefnu ríkjanna í M-Austurlöndum í Madrid með ræðu þar sem hann hvatti bæði Araba og Ísraeli til að horfa til framtíðar en ekki fortíðar þegar þeir settust að samningaborðinu. Um var að ræða mjög sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu þá saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló milli deiluaðila árið 1993.

Snjallyrðið
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Ferðalok)

Að mínu mati eitt af allra fallegustu ljóðum íslenskrar bókmenntasögu. Falleg frásögn og næm tilfinning einkenna þetta meistaraverk Jónasar - stök snilld.