Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 október 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um þýsk stjórnmál, en stóru flokkarnir í landinu hafa samið um stjórnarsamstarf sín á milli, svonefnda stóru samsteypu. Verður Angela Merkel kanslari, í stað Gerhard Schröder sem hefur verið í því embætti í rúm sjö ár. Blasa mörg vandamál við nýrri stjórn og umfangsmikil úrlausnarefni. Við hafði blasað að ekkert annað stjórnarmynstur gat gengið við breyttar aðstæður í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar 18. september þar sem hvorug valdablokkin náði starfhæfum meirihluta. Hefur stjórn af þessu tagi ekki verið mynduð síðan á miðjum sjöunda áratug, en hún sat árin 1966-1969. Það eru því óneitanlega þáttaskil nú þegar samkomulag milli stóru flokkanna blasir við. Brotthvarf Schröders úr miðpunkti þýskra stjórnmála markar þáttaskil - hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Verður merkilegt að sjá hvernig Merkel muni ganga í embætti.

- í öðru lagi fjalla ég um skipan Bush forseta á Harriet Miers sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, sem virðist ætla að verða umdeild mjög. Heldur koma þó deilurnar upp á skondnum stað að margra mati. Jú, það eru einmitt íhaldssömustu stuðningsmenn forsetans sem skora nú á hann að draga skipun Miers til baka og velja annað dómaraefni. Margir spyrja sig eflaust af hverju þeir láti til skarar skríða gegn Miers og vali hennar í réttinn. Jú, þeir eru hræddir um að hún verði andstæða þess sem menn telja að hún sé er hún er komin í réttinn. Miers á ekki neina dómarasetu að baki og er óskrifað blað í mörgum helstu lykilmálum seinustu ára: t.d. hvað varðar samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira. Er andstaðan svo langt gengin að Bush hefur orðið að verja valið.

- í þriðja lagi fjalla ég um kostulegar tillögur Arnar Sigurðssonar arkitekts á landsfundi fyrir viku, og snerust að mestu um andstöðuna við Reykjavíkurflugvöll. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir nefndarmanna í samgöngunefnd á landsfundi um tilvist vallarins náðist samstaða um orðalag í ályktunina í endalögum drögum sem fyrir fundinn fóru á sunnudeginum. Var það ánægjuleg niðurstaða - mikið gleðiefni að svo skyldi vera. Það virtist á fundunum nefndarinnar svo að Örn tæki undir málamiðlun í málinu og lagði hann ekki fram neinar tillögur beint í aðra átt þar inni. Það kom því mjög á óvart að sjá tillögur hans - sem voru felldar á landsfundinum, sem er mikið gleðiefni.

Að lokum fjalla ég um styrk Eddu Heiðrúnar Backman, sem berst nú við MND-sjúkdóminn. Dáðist ég að þeim styrk hennar sem sást í tveim sjónvarpsviðtölum nýlega. Er ekki annað hægt en að skrifa um þau viðtöl - en ég, eins og margir fleiri, hrifust af því hvernig Edda Heiðrún horfist í augu við sjúkdóminn, baráttu lífs síns.


Þjóðmál

Þjóðmál

Nýlega kom út athyglisvert tímarit að nafni Þjóðmál, í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Þar er að finna fróðlegar og góðar greinar sem fjalla um ýmislegt merkilegt, jafnt í stjórnmálum sem þjóðmálum. Í þessu fyrsta riti Þjóðmáls, sem ætlað er að koma út fjórum sinnum á ári, er að finna fjölbreyttar greinar. Þarna er að finna ítarlega grein eftir Magnús Þór Gylfason um pólitíska sögu R-listans, sem eins og flestir vita hefur nú geispað golunni, og þar er að sjálfsögðu rakin sagan af valdatímanum sem hefur einkennst af ævintýrafjárfestingum og stöðnun umfram allt. Jóhannes Nordal, fyrrum seðlabankastjóri, ritar merkilega grein um sögu Stjórnarráðs Íslands.

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, ritar í tímaritið grein um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar, sem nú hefur vikið af hinu pólitíska sviði og tekið við embætti seðlabankastjóra, eftir að hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár, þar af forsætisráðherra Íslands samfellt í 13 ár af þessum 14. Er ekki ofsögum sagt að skrif Páls um Davíð séu merkileg. Eins og flestir vita er Páll ritari Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Auk Páls rita Jónas H. Haralz, fyrrum bankastjóri Landsbankans, og Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, greinar um Davíð. Af öðru efni má nefna fróðlega grein Glúms Jóns Björnssonar um Samfylkinguna. Þar er t.d. að finna margar skondnar lýsingar á þessum flokki, sem vert er að mæla með.

Ennfremur má vekja athygli á grein Þorbjörns Broddasonar, prófessors, þar sem hann dæmir bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004. Eins og flestir vita er Þorbjörn fyrrum borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins og því auðvitað fjarri því samherji höfundar bókarinnar í stjórnmálum. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skrifar vettvangsgrein um stjórnmálin í ritið og víkur þar auðvitað að þeim stórtíðindum sem urðu með brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Ásta Möller, alþingismaður, sem tók sæti á þingi í stað Davíðs, ritar í Þjóðmál ennfremur mjög merkilega grein um ráðherraábyrgð.

Er vel þess virði fyrir áhugamenn um stjórnmál og góð og vel ígrunduð skrif um stjórnmál og málefni samtímans, sem og sagnfræðilegar pælingar að líta á Þjóðmál.

Saga dagsins
1956 Þúsundir ungverja mótmæla kommúnistastjórn landsins og krefjast almennra mannréttinda - stjórn landsins barði niður mótmælin með harðri hendi með beitingu valds nokkrum dögum síðar.
1973 Richard Nixon forseti, samþykkir að afhenda dómstólum hljóðritanir á trúnaðarsamtölum úr forsetaskrifstofunni vegna Watergate-málsins. Hæstiréttur landsins hafði áður skipað honum að afhenda segulböndin. Aðeins var birtur hluti spólanna á þessum tímapunkti, höfða þurfti fleiri mál til að fá öll gögnin. Birting þeirra sumarið 1974 leiddi í ljós að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 á innbrotinu í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið til afsagnar Nixons forseta, 9. ágúst 1974. Hann varð fyrstur af forsetum landsins til að segja af sér embætti.
1976 Nýr flugvöllur við Sauðárkrók tekinn í notkun - nefndur eftir Alexander Jóhannessyni rektor.
2002 Téténskir uppreisnarmenn taka rúmlega 700 manneskjur í gíslingu í þjóðleikhúsinu í Moskvu - gíslatökunni lauk tveim sólarhringum síðar þegar yfirvöld réðust inn í leikhúsið og sprautuðu gasi þar inn. Allir uppreisnarmennirnir voru drepnir í innrás hersins í húsið, auk þeirra létust um 120 gíslar.
2003 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpar ástralska þingið - neyddist til að gera hlé á ræðunni vegna hrópa frá þingmönnum græningja sem mótmæltu mjög, einkum vegna Íraksstríðsins.

Snjallyrðið
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.

Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Sunnan af heiðum koma vorsins vindar
og vilja, að ár og lækir með þeim syngi.
Þá leysir ísa, fuglar koma og kvaka.
Á kvöldin roðna björgin og taka undir.
Nóttina birtir, villtir vængir blaka.
Veturinn kveður og býður góðar stundir.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)

Ein af perlunum hans Davíðs frá Fagraskógi - hér er ort um bæinn fagra við fjörðinn norðan heiða. Sætt og heilsteypt ljóð sem lýsir vel hinum fagra Eyjafirði.