Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 nóvember 2005

Angela Merkel og Gerhard Schröder

Angela Merkel leiðtogi Kristilega Demókrataflokksins (CDU) í Þýskalandi, var kjörin kanslari Þýskalands í kosningu í þýska sambandsþinginu í Berlín í morgun. 397 þingmenn kusu hana en 202 greiddu atkvæði gegn henni. Er hún áttundi stjórnmálamaðurinn sem er kanslari frá stríðslokum. Hún er þriðji kanslari sameinaðs Þýskalands. Það sem er auðvitað sögulegast við valdatöku hennar er sú að hún er fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands og jafnframt fyrsti A-Þjóðverjinn sem tekur við embættinu. Það er því enginn vafi á því að söguleg þáttaskil verða með því að hún tekur við æðsta valdaembættinu í landinu. Með valdatöku hennar hverfur Gerhard Schröder af hinu pólitíska sviði. Það gerði hann með táknrænum hætti. Er tilkynnt hafði verið um kjör Merkel í embættið labbaði hann til hennar og óskaði henni til hamingju með kjörið. Að því loknu labbaði hann út úr þingsalnum og að því loknu yfirgaf hann þinghúsið og settist upp í bíl sem flutti hann í kanslarabústaðinn þar sem hann sótti fjölskyldu sína. Að því loknu flugu þau til heimilis síns í Hanover. Með þessu yfirgaf hinn 61 árs gamli Schröder sviðsljósið. Margir vilja eflaust vita hvað hann taki sér fyrir hendur nú. Hann hefur gegnt stjórnmálastörfum lengi en þarf nú að halda í aðrar áttir.

Síðar í dag tók hin stóra samsteypa hægri- og vinstriaflanna formlega við völdum. Hefur stjórn af því tagi ekki setið í landinu frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, eða 1966-1969. Það verða því óneitanlega gríðarleg þáttaskil með valdatöku hennar. Við Angelu Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni. Merkel tókst að landa stjórnarsamstarfinu - með miklum fórnum tókst henni að binda hnútana saman. Fá hægrimenn sex ráðherrastóla en kratarnir alls átta. Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Það að kona verði kanslari í Þýskalandi eru stórfréttir, ánægjulegar fréttir í jafnréttisbaráttu kvenna. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í hinum verðandi kanslara og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík. Hún komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans.

Angela Merkel er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus – er því með ímynd framakonunnar sem leggur allt í sölurnar fyrir frama á sínum vettvangi. Kaldhæðnislegt er að Angela Merkel skuli taka við embætti í dag. Fimmtán ár eru nú liðin frá því að eitt helsta átrúnaðargoð hennar í stjórnmálum, járnfrúin Thatcher, baðst lausnar frá forsætisráðherraembættinu í Bretlandi. Nú mun reyna á Merkel sem stjórnmálamann er hún tekur við forystu þýskra stjórnmála - hún tekur á sig mikla ábyrgð og bundnar eru miklar vonir við þennan fyrsta kvenkanslara Þýskalands. Getur Merkel glaðst yfir þeim áfanga að ná kanslarastólnum, fyrst kvenna. Mörg verkefni blasa við nýrri stjórn og ráðherrum hennar. Stuðningsmenn hennar binda vonir við að hún standi sig vel og sanni að hún sé öflugur stjórnmálamaður sem ráði við erfið verkefni og áskoranir - andstæðingarnir vona auðvitað að hún misstígi sig. Eitt er víst: vel verður fylgst með verkum hennar og stjórnarinnar fyrstu 100 dagana - hætt er þó við að fjölmiðlar veiti stóru samsteypu fáa hveitibrauðsdaga.

Margaret Thatcher

Í dag eru 15 ár liðin frá því Margaret Thatcher baðst lausnar sem forsætisráðherra Bretlands, eftir að hafa gegnt embættinu í 11 ár. Það blandast engum hugur um að hún yfirgaf ekki stjórnmálaforystu með glöðu geði - enda beið hún ósigur í harðvítugum valdaslag innan flokks síns. Thatcher hafði á valdaferli sínum mikil áhrif á stjórnmálasögu Bretlands og sat lengur en nokkur stjórnmálamaður á forsætisráðherrastóli í Bretlandi á 20. öld. Hún varð leiðtogi breska Íhaldsflokksins árið 1975, en hún hafði setið á þingi af hálfu flokksins fyrir Finchley-kjördæmi frá árinu 1959. Thatcher varð forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga í Bretlandi þann 3. maí 1979. Íhaldsflokkurinn vann þá afgerandi sigur og hlaut 43 sæta meirihluta á breska þinginu. Kjör hennar í embætti forsætisráðherra landsins markaði mikil þáttaskil. Vann hún af krafti að breytingum á bresku þjóðlífi frá fyrsta degi í embætti. Umskipti urðu, staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja.

Thatcher tók ennfremur á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Er ráðist var að henni vegna verka sinna og hún varð umdeild vegna framgöngu sinnar, spurði hún hvort þeir ætluðu að víkja af leið framfara. Hún myndi hvergi hvika. Fleyg urðu ummæli hennar á flokksþingi Íhaldsflokksins 1980. Járnfrúin, eins og hún var kölluð vegna staðfestu sinnar, fékk sínu framgengt. Þáttaskil höfðu orðið í breskum stjórnmálaheimi og ekkert varð samt aftur. Hún vann stórsigur í þingkosningunum 1983 og jók þingmeirihluta sinn og vann þriðja kosningasigurinn 1987 og þann táknrænasta í sínum huga, enda var með því sýnt fram á að forgangsverkefni hennar nutu stuðnings almennings. Í kjölfar þriðja kosningasigursins tók hún á sig óvinsæl málefni, kom á frægum og óvinsælum nefskatti sem leiddi til þess að persónulegt fylgi hennar minnkaði verulega. Thatcher, sem fram að því hafði verið óumdeild að mestu innan flokksins, fékk á sig mótspyrnu frá andstæðum öflum sem setið höfðu á sér lengi vel. Andstæðingarnir lögðu til atlögu.

Fer ég nánar yfir upphaf endaloka valdaferils Thatchers í umfjöllun á vef SUS í dag. Fyrir rúmum mánuði varð þessi sigursæli leiðtogi breskra hægrimanna á 20. öld áttræð. Í tilefni þess ritaði ég ítarlegan pistil um ævi hennar og litríkan stjórnmálaferil. Ég bendi þeim á þann pistil sem vilja kynna sér nánar ævi þessarar kraftmiklu konu.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stjórnarfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 19. nóvember sl., samþykkti eftirfarandi ályktun: "Samband ungra sjálfstæðismanna fer fram á að íslensk stjórnvöld krefji bandarísk stjórnvöld skýrra svara um hvort fangar, sem sætt hafa pyntingum og ómannúðlegri meðferð, hafi verið fluttir með flugvélum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, eða annarra aðila á vegum Bandaríkjastjórnar, um íslenska lögsögu. Afar mikilvægt er að öll tvímæli verði tekin af um þetta mál. Ef í ljós kemur að slíkir fangaflutningar hafi átt sér stað um íslenska lögsögu ber íslenskum stjórnvöldum að fordæma slíkt og fá fyrir því fullvissu hjá bandarískum stjórnvöldum að slíkt muni ekki endurtaka sig." Þetta er góð og öflug ályktun - þótti mér og öðrum í stjórn mikilvægt að tjá okkur um þessi mál af hálfu SUS, en þetta hefur verið hitamál í umræðunni nú um nokkurn tíma.

Skopmynd frá Guardian

Óhætt er að segja að Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, hafi komið af stað pólitískum jarðskjálfta í gær með því að biðjast lausnar og segja skilið við Likud-bandalagið. Bendir nú flest til þess að kosningar muni fara fram þann 6. mars nk. Skv. nýrri skoðanakönnun myndi hinn nýji miðjuflokkur forsætisráðherrans verða sigurvegari yrðu kosningar haldnar ný. Myndi flokkurinn fá á bilinu 30-35 þingsæti á þinginu sem telur alls 120 þingsæti. Ef marka má nýjustu könnunina myndi Likud gjalda afhroð og hljóta aðeins um 12-16 þingsæti. Verkamannaflokkurinn myndi ekki bæta miklu við sig frá seinustu kosningum, þar sem hann galt afhroð. Það stefnir því að óbreyttu við að Sharon takist að gjörbreyta stjórnmálalitrófi landsins með ákvörðun sinni. Skopmyndateiknarar Guardian eiga auðvelt með að gera grín að fréttum nútímans - eins og sést hér að ofan.

Elín Hirst

Á sunnudag horfði ég á tvo þætti Elínar Hirst fréttastjóra Sjónvarpsins, um Spænsku veikina - þá gerði hún skömmu fyrir aldamótin. Er þar ítarleg umfjöllun um það ástand sem skapaðist hérlendis með komu veikinnar árið 1918. Fjöldi fólks féll í valinn vegna veikinnar og setti hún sorglegan svip á fullveldisstofnunina þann 1. desember 1918. Í gær sé ég svo tilkynningu um það að Elín hafi gert viðbótarþátt vegna umræðunnar um fuglaflensuna. Er þátturinn í kvöld kl. 21:25. Ég hvet alla til að sjá þáttinn - ennfremur er mikilvægt að fólk sjái eldri þætti Elínar um málið. Eru þetta mjög vandaðir og góðir þættir.

Saga dagsins
1907 Giftar konur í Reykjavík fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna. Alþingi féllst ekki á að allar konur fengju þennan rétt fyrr en tveimur árum seinna. Fullt kjörgengi kvenna tók gildi 1915.
1907 Vegalög staðfest - vinstri umferð tók gildi. Ekki var svo skipt í hægri umferð fyrr en í maí 1968.
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, myrtur í Dallas í Texas í opinberri heimsókn sinni. Hann var þá 46 ára að aldri. Fráfall hans var gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Miklar vonir voru bundnar við forsetann sem tákn nýrra tíma og andlát hans var því mikið reiðarslag. Lyndon Baines Johnson varaforseti, tók svo formlega við embætti sem 36. forseti Bandaríkjanna, um borð í forsetaflugvélinni.
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti. Hún hafði setið í forsæti ríkisstjórnar Bretlands í ellefu ár - varð að víkja vegna ágreinings um störf hennar innan eigin flokks.
1997 Kristinn Björnsson, frá Ólafsfirði, sem þá var 25 ára, varð í öðru sæti á heimsbikarmóti í svigi í Park City í Utah-fylki. Um var þá að ræða besta árangur Íslendings í skíðaíþróttum fram að þeim tíma.

Snjallyrðið
Being prime minister is a lonely job... you cannot lead from the crowd.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)