Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Hef fengið góð viðbrögð á skrifin og umfjöllunina hér seinustu daga - mjög ánægjulegt að heyra góðar óskir og kveðjur af þessu tagi. Met það mjög mikils. Þakka góð orð um myndirnar líka - þær voru teknar í Vaðlaheiði í síðustu viku og tryggja góðan bakgrunn - Akureyrina okkar gömlu og góðu. :)

Í gærkvöldi var Sigbjörn Gunnarsson fyrrum krataþingmaður og sveitarstjóri, í viðtali við fréttastofu NFS. Þar var hann galopinn á bæði sveitarstjórnarpólitík og útilokaði meira að segja ekki landsmálaþátttöku fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er merkilegt að fylgjast með þessu. Hann hefur nú verið í flokknum í eitthvað um tvær vikur en er þegar kominn með ambisjónir í að komast á þing í prófkjörsbaráttu fyrir sveitarstjórnarpólitík. Það er ekki nema von að fólk úti í bæ sé ráðvillt yfir þessum yfirlýsingum í fjölmiðlum frá kratanum fyrrverandi. Það er ágætt að hafa metnað fyrir sjálfu sér vissulega en það er ekki fjarri því að fólk sem hefur verið að vinna fyrir flokkinn til fjölda ára og verið mjög öflugt í innra starfinu mjög lengi finnist fátt til þessara fjölmiðlayfirlýsinga Sigbjörns koma. Kannski fer Oktavía að bætast við á næstu dögum og tala um þingframboð? Ja, hver veit. Maður á orðið von á öllu frá landflótta krötunum hérna.

Má til með að skrifa eilítið um sjónvarpsmyndina Allir litir hafsins eru kaldir, sem sýnd er nú á sunnudagskvöldum í Sjónvarpinu. Fyrsti þátturinn var seinasta sunnudag. Þessir þættir lofa góðu. Þeir eru allt í senn flott myndunnir, vel leiknir og leikstýrðir - svo er greinilegt að nostrað hefur verið við ytra útlit myndrammans. Þetta er allt fyrsta flokks. Þarna fer Marta Nordal að mínu mati algjörlega á kostum sem lögreglukonan Jara - það er ekki eins og hún sé að leika og sé bara hún sjálf. Selma Björns átti flotta innkomu sem kærasta lögmannsins. Svo fannst mér Þórunn Lárusdóttir standa sig vel og hún náði að skapa allt annan karakter en hún hefur áður túlkað. Hilmir Snær stendur sig vel sem lögmaðurinn. Svo var gaman að sjá gömlu brýnin Helgu Jóns og Pétur Einars fara á kostum í smáum en góðum rullum föður lögmannsins og konu hans. Þetta lofar góðu - ég hef alltaf haft gaman af krimmasögum og þetta er því eitthvað sem ég hef mjög gaman af.

Í dag var Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri og fyrrum alþingismaður, ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í stað Ara Edwald sem tekur við sem forstjóri 365-miðla frá og með næstu mánaðarmótum. Vilhjálmur er ekki ókunnur þessum geira en hann vann lengi hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, forvera SA, og var framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands í 15 ár, 1987-2003. Hann var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2003 og ráðuneytisstjóri frá árinu 2004. Vilhjálmur stóð sig vel á þingi þann tíma sem hann var þar og var öflugur talsmaður flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd. Fannst mér illa komið fram við hann í prófkjöri flokksins í Norðvestri árið 2002 og taldi að hann hefði átt að fá sæti á lista flokksins. Reyndar munaði mjög litlu að hann hefði leitt listann.

Steingrímur J. hélt blaðamannafund í dag af sjúkrasæng á Landsspítalanum. Er ánægjulegt að sjá hversu hress hann er miðað við allar aðstæður. Vonandi er að hann nái sem fyrst fullum bata og komist aftur í stjórnmálaumræðuna. Satt best að segja er þingumræðan ekki nema svipur hjá sjón án Steingríms J.