Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Tíðindi dagsins úr pólitíkinni hér á Akureyri í dag er klárlega yfirlýsing Jakobs Björnssonar formanns bæjarráðs og leiðtoga Framsóknarflokksins í bæjarstjórn, þess efnis að gefa ekki kost á sér í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Jakob hefur setið í bæjarstjórn samfellt í sextán ár og leitt framsóknarmenn frá árinu 1994. Hann var bæjarstjóri á Akureyri árin 1994-1998 eða þar til að Kristján Þór Júlíusson tók við er nýr meirihluti tók við völdum. Á þeim tíma leiddi Jakob meirihluta Framsóknarflokks og Alþýðuflokksins. Hann féll í kosningunum 1998 enda bauð Alþýðuflokkurinn þá ekki fram. Jakob leiddi bæjarstjórnarminnihlutann 1998-2002 en frá 2002 hefur hann verið formaður bæjarráðs í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Jakob er nú starfsaldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar.


Líst vel á prófkjörsbaráttuna okkar. Allir að komast á fullt sýnist mér. Auglýsing með okkur öllum var í Dagskránni í gær og heppnaðist vel. Ég á grein í Vikudegi í dag og á degi.net og fleiri greinar eru framundan um málefni kosningabaráttunnar. Ég er farinn að auglýsa á Aksjón, enda er bæjarsjónvarpsstöðin okkar alveg virkilega góð og nær til almennings. Er okkur mjög nauðsynleg. Er t.d. mjög notalegt að geta þar horft á bæjarstjórnarfundi og fylgst með umræðunni um bæjarmálin. Það færir bæjarbúum hið gullna tækifæri til að fylgjast með forystumönnum sínum og vega og meta verk þeirra. Með þessu er líka tryggt að fólkið heima geti séð umræður um þau mál sem mestu skipta. Svo er fréttaþjónusta Aksjón alveg fyrsta flokks og mjög vel gerð.

Nú er svo orðið opið í Hamborg að Hafnarstræti 94 alla virka daga á milli kl. 17:00 og 19:00 fram að prófkjörinu 11. febrúar. Allir sem vilja ræða við mig eða aðra frambjóðendur eru eindregið hvattir til að koma og rabba. Það er alltaf gott að fá sér kaffisopa og ræða um málefni dagsins í dag. Svo er upplagt að ræða hitamálin og eða prófkjörsbaráttuna. Allavega mun ég verða alla virka daga fram að prófkjöri á þessum tíma og væri gaman að hitta þig og rabba á þessum tíma hafirðu áhuga á spjalli.


Í gær fór ég með góðum vini í bíó og sáum við myndina The Fog. Mikil spenna og skemmtilegt. Hitti þar mætan félaga sem nýlega er genginn í flokkinn og kominn til liðs við okkur í Verði sem vildi ræða um pólitík í hléinu. Áttum við mjög gott spjall. Fannst mjög gott að geta þar rætt um skoðanir mínar á skólamálum við hann, enda er hann nemi í tíunda bekk í Brekkuskóla og vildi heyra hvar ég væri staddur í þessum málum. Lykilorðið mitt í þeim málaflokki er stutt og laggott: "Valfrelsi í skólamálum". Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi! Frelsið er alltaf af hinu góða.


Stjórn Varðar hittist í vikunni og samþykkti eftirfarandi ályktun: "Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir ánægju sinni með þau tíðindi að Iceland Express hafi í hyggju að hefja beint flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar nú í sumar. Jafnframt fagnar félagið tilkomu skipafélagsins Byrs, sem mun veita reglubundna þjónustu milli Akureyrar og hafna víðsvegar í Evrópu. Mun félagið hafa jákvæð áhrif á fyrirtæki á Norðurlandi sem standa í útflutningi og leiða til minni umferðar á stórum bílum á þjóðvegi 1. Stjórnin óskar aðstandendum Byrs og Iceland Express góðs gengis."


Má að lokum til með að hrósa Sjóvá fyrir góða og vel gerða auglýsingu sem birst hefur nýlega. Þar hljómar smellurinn God Only Knows með The Beach Boys. Vel gerð og fagmannleg auglýsing. God Only Knows er annars eitt af mínum uppáhaldslögum. Í júní 2005 valdi ég það sem eitt af tíu bestu í mínum huga. Umsögnin var þessi: "alltaf heillandi og hugljúft".


Á sunnudaginn mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands halda tónleika í Glerárkirkju klukkan 16:00. Dagskráin er mjög ljúf en það verða spilaðir Konsert í C dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart (250 ár eru á morgun liðin frá fæðingu hans) og Sinfónía nr. 1 eftir Johannes Brahms. Líst vel á þetta og er að hugsa um að fara og hlusta á þessi fögru tónverk.

stebbifr@simnet.is