Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 febrúar 2006

Stjórnarseta í SARK - aðskilnaður ríkis og kirkju

Stefán Friðrik

Á laugardaginn var haldinn aðalfundur SARK, Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju. Var ég stofnfélagi í samtökunum og hef starfað þar til baka um langan tíma. Nú ætla ég að leggja þeim lið í fremstu víglínu og gaf kost á mér til stjórnar. Hlaut ég kjör. Vil ég þakka það traust sem mér var sýnt með kjörinu í stjórn. Með mér í stjórn sitja Edda Hrönn Atladóttir, séra Hjörtur Magni Jóhannsson, Kári Páll Óskarsson, Sigurður Hólm Gunnarsson, Sóley Gréta Sveinsdóttir og Stefán Friðriksson. Kemur þetta fólk úr mjög ólíkum áttum. Þarna eru bæði efasemdarfólk í trúarmálum og ennfremur fólk sem er mjög trúað, er ég þeirra á meðal. Hef ég lengi verið mjög trúaður en haft þó ákveðnar skoðanir í þessum efnum. Hlakkar mér til að vinna í stjórn þessara samtaka og met mikils það traust sem mér er sýnt með því að taka þar sæti. Er ég sennilega fyrsti sjálfstæðismaðurinn sem þar starfar af krafti innan stjórnar. Er það vel.

Nokkuð lengi hefur verið áberandi hér á landi umræða þess efnis hvort slíta skuli á tengsl milli ríkisins og kirkjunnar. Frá árinu 1000 hafa Íslendingar verið kristnir, frá 1550 hefur lúterstrú verið aðaltrú landsmanna, það ár átti sér stað siðaskipti og kaþólsk trú aflögð sem þjóðtrú. Á seinustu árum hefur komið fram í skoðanakönnunum mikill vilji almennings til að stokka þetta upp og binda enda á tengsl ríkis og kirkju. Til dæmis birtist sumarið 2003 skoðanakönnun Gallups sem sýndi þær niðurstöður að rúmlega 70% landsmanna vildu breyta þessu með þeim hætti að slíta á tengslin - hefur sú þróun haldið sér. Það er því ekki óeðlilegt að þessi umræða hefur verið í samfélaginu og hefur borist t.d. inn í kirkjuþing, þar sem lærðir og leiknir hittast til skrafs og ráðagerða. Eins og vel hefur komið fram í þeirri umræðu er það mat forystu kirkjunnar að hún vill ekki slíkan aðskilnað og mun ekki fara fram á hann. Hefur Karl Sigurbjörnsson biskup, margoft tjáð þá skoðun sína að hann væri ekki hlynntur aðskilnaði.

Í máli biskups hefur komið fram sú athyglisverða skoðun hans að auka skuli enn frekar frelsi þjóðkirkjunnar með því að rýmka almennt ramma kirkjulaga, og ljúka samningum milli ríkis og kirkju til að tryggja enn betur tekjustofna hennar svo hún geti brugðist við kröfum tímans og sinnt betur skyldum sínum við þjóðina, sem biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja. Jafnframt hefur Karl Sigurbjörnsson og forysta kirkjunnar sagt margoft að kirkjan þyrfti að vera viðbúin því að stjórnvöld myndu vilja stokka þetta upp. Fyrir fjórum árum sagði Karl biskup á kirkjuþingi að búa þyrfti kirkjuna undir lögskilnað við ríkið en hefur verið mun hófstemmdari í yfirlýsingum sínum síðan. Í ræðu og riti hefur Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra, lýst þeirri skoðun sinni að ekki skyldi rjúfa tengsl milli ríkis og kirkju. Sérstaklega hefur verið rætt um það hvort að taka eigi þessa umræðu inn í stjórnarskrárvinnuna. Er ég sammála og var samþykkt á aðalfundinum ályktun þess efnis.

Mín skoðun í þessu máli hefur lengi verið sú að rjúfa skuli á tengslin milli ríkis og kirkju. Það er ekki sagt vegna þess að ég sé trúlaus eða hafi ekki tekið þátt í starfi kirkjunnar eða sýnt því áhugaleysi. Mín fjölskylda hefur alla tíð verið mjög trúuð, báðar ömmur mínar voru alla tíð mjög virkar í kristnu starfi og kristin trú eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. Fór ég í sunnudagaskóla hjá KFUM og K, enda amma virk þar í fjölda áratuga í innra starfinu. Kristin trú hefur alla tíð verið í mínum huga eitthvað sem hverri manneskju er nauðsynleg. Það hefur alla tíð verið mín sannfæring að trúin hafi oft hjálpað mínu fólki og haft mikið að segja. Það er hverri manneskju að ég tel mikilvægt að vera trúuð og sækja kirkju og taka þátt í kristnu starfi. En það er þó ekki þarmeð sagt að ríkið eigi að reka kirkju eða taka þátt í þessu með þeim hætti sem verið hefur. Það er mikilvægt að skilja þarna á milli.

Það er engin þörf á að boða kristna trú í nafni ríkisins. Þó svo fari að breytingar verði á kirkjunni með þeim hætti sem um ræðir, halda landsmenn fast við sína trú og fara í kirkju til að heyra guðsorð eða taka þátt í starfi innan sinnar trúhreyfingar. Þrátt fyrir að ég sé kristinn er það mín sannfæring að mikilvægt sé að öll trúfélög standi jöfn að þessu leyti. Það er á okkar dögum gríðarlega mikilvægt. Með því er í mínum huga hægt að vinna að því að efla enn frekar trúna og trúarbrögð í nafni þeirrar trúar sem viðkomandi einstaklingu velur sér. Það ætti að mínu mati að vera forgangsverkefni kirkjunnar að taka á þessum málum og leita eftir því við ríkið að hafinn verði undirbúningur að þessum breytingum og uppstokkun með viðeigandi hætti. Kristin trú getur alveg staðið jafnfætis öðrum trúarbrögðum og engin þörf á að ríkið sé áfram í þessu með þessum hætti.

stebbifr@simnet.is