Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 mars 2006

Bubbi vinnur sögulegan sigur í héraðsdómi

Bubbi Morthens

Það er óhætt að segja að sögulegur dómur hafi fallið í gær í héraðsrétti Reykjavíkur. Þá var dæmt í frægu máli Bubba Morthens gegn tímaritinu Hér og nú. Eins og flestir vita birti tímaritið forsíðumynd í blaði sínu í júní sl. með flennifyrirsögninni Bubbi fallinn! Á myndinni sást Bubbi með sígarettu í munnvikinu sitjandi í bíl sínum talandi í farsíma. Bubbi krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrðu dæmdar 20 miljónir króna í miskabætur. Svo fór að ummælin voru dæmd dauð og ómerk og var ritstjóri blaðsins á þeim tíma dæmdur til að greiða Bubba 700.000 krónur í miskabætur. Ennfremur er tekið sérstaklega fram í dómnum að myndataka af manni í bifreið sinni sé með öllu óheimil á sama hátt og um væri að ræða myndatöku að heimili hans.

Um er að ræða mikinn tímamótadóm og mjög merkilegt hversu dómurinn er afgerandi í málinu og talar sérstaklega um myndbirtingu gegn vilja viðkomandi. Þetta er enda í senn bæði rothögg og vandræðalegt fyrir bæði Hér og nú og DV og þá stefnu sem þessi rit fara eftir í fjölmiðlun sinni. Í niðurstöðu dómsins segir með afgerandi hætti að Bubbi sé landsþekktur maður og hafi verið í fjölda ára og fólki sé kunnugt um fíkniefnavandamál hans. Fyrirsögnin sé mjög óvarleg í því samhengi og beri varla að skilja hana öðruvísi en að hann sé farinn að neyta fíkniefna að nýju. Tek ég undir þetta mat. Man ég vel þegar að ég sá þetta tiltekna blað í fyrrasumar. Fyrsta hugsun mín og fleiri væri að nú væri Bubbi aftur kominn í dópið. Allavega er ljóst að fyrirsögnin býður heim misskilningi og dómurinn skiljanlegur.

Það er gott að það liggi fyrir dómur sem tekur í vonandi eitt skipti fyrir öll á sorpblaðamennsku blaða á borð við DV og Hér og nú. Bubba Morthens vil ég óska til hamingju með sigur sinn í málinu. Sá sigur er í senn bæði afgerandi og sögulegur.