Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 mars 2006

Snilld leikstjórans Woody Allen

Woody Allen

Í fjóra áratugi hefur verið deilt um það í heimi kvikmyndanna hvort að Allan Konigsberg, betur þekktur undir listamannsnafninu Woody Allen, sé góður kvikmyndagerðarmaður og leikari. Fáir deila þó um áhrif hans í kvikmyndamenningu 20. aldarinnar. Fáum tókst betur á öldinni að vekja athygli, jafnt vegna verka sína í geiranum og einkalífs síns. Þegar að ég tala við félaga mína á fræðilegum og mátulega háalvarlegum nótum um kvikmyndir kemur ansi fljótt að spurningunni: fílarðu Woody Allen? Þetta er klassaspurning, enda eru sérfræðingar og að ég tala ekki um sófaspekúlantar um kvikmyndir mjög á öndverðri skoðun um hversu góður Allen hefur verið á litríkum og stormasömum ferli sínum. Ég svara alltaf með þeim hætti að ég telji Allen með bestu kvikmyndagerðarmönnum seinustu áratuga. Hann hefur markað mikil áhrif og hefur allavega heillað mig með stíl sínum.

Woody Allen er að segja má náttúrutalent í kvikmyndagerð. Það er aðeins til eitt eintak af honum og hann er ekki að þykjast vera neitt nema hann sjálfur og hefur búið til ógleymanlegt íkon í kvikmyndasöguna. Allen hóf ungur að selja brandara sína í slúðurmáladálkana. Eftir að hafa í mörg ár samið brandara fyrir aðra uppistandara ákvað hann árið 1961 að hefja sinn eigin feril sem uppistandari í New York. Hann notaði feimni sína til að auka á húmorinn og markaði sinn eigin stíl. Hann kom fram með einnar línu brandara sína sem hittu beint í mark og hefur jafnan síðan orðið þekktur fyrir hnyttna brandara og skemmtileg tilsvör sín. Skópu þeir höfuðþættir þá frægð sem honum hlotnaðist í kjölfarið. Hann skrifaði sitt fyrsta kvikmyndahandrit árið 1965, What´s New Pussycat og lék sjálfur í myndinni. Það hlutverk gerði hann að stjörnu á einni nóttu. Eftirleikinn þekkja allir spekúlantar um kvikmyndir.

Allen hefur verið jafnvígur á gamanleik og tilfinningu í kvikmyndum. Þó að hann sé leiftrandi af húmor og léttleika (skemmtilega pirrandi léttleika) hefur hann snert í streng kvikmyndaunnenda. Til dæmis er ein af uppáhaldsmyndunum mínum ein af hans eðalmyndum. Kvikmyndin Annie Hall er ein af þeim allra bestu. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Bæði hlutu þau óskarinn fyrir hana, Allen fyrir leikstjórn sína og Keaton fyrir að leika hina svipmiklu Annie Hall. Myndin var forsmekkur þess sem hefur verið meginpunktur höfundaeinkenna Allens í kvikmyndum: full af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir.

Aðrar flottar myndir hans eru Manhattan (eftirminnileg súrsæt rómantísk kómedía sem sýnir New York í svarthvítum tón og undir hljómar tónlist Gershwin bræðra), Zelig (þessi mynd er gott dæmi um snilli Allens sem leikara en túlkun hans á Leonard Zelig varð hans besta á ferlinum), Broadway Danny Rose, The Purple Rose of Cairo (báðar myndir þar sem Mia Farrow sýnir einn besta leik ferils síns), Hannah and Her Sisters (þroskuð og notalega góð sem besta rauðvín), Crimes and Misdemeanors (flott blanda af glæpasögu og kómíker sem fléttast óaðfinnanlega og óvænt í blálokin), Husbands and Wives (gerð rétt fyrir fræg sambandsslit hans og Miu Farrow og sýnir í raun söguna af endalokum sambands þeirra með þeim sjálfum í aðalhlutverkunum - ógleymanlegt meistaraverk), Manhattan Murder Mystery (undurlétt glæpakómedía þar sem Allen og Keaton léku saman loksins aftur) og Bullets Over Broadway (undurljúf og heillandi - skemmtilega gamaldags).

Ég get talið upp endalaust þær myndir sem hafa heillað mig og Allen á heiðurinn af. Toppnum að mörgu leyti fannst mér hann ná árið 1996 þegar að hann setti upp söngleik í formi myndarinnar Everyone Says I Love You og fékk meira að segja leikara á borð við Alan Alda, Edward Norton og Goldie Hawn til að syngja og það bara ansi flott. Hápunkturinn var þegar að meira að segja leikstjórinn sjálfur tók lagið með snilldarbrag við undrun allra kvikmyndaunnenda en fram að því höfðu enda flestir talið hann með öllu laglausan. Allen er kómískur en undir yfirborðinu er hann talinn mjög fjarlægur og sjálfsgagnrýninn. Að margra mati er hann einmitt að leika sjálfan sig að svo mörgu leyti oft. Oft setur hann sig og aðstæður sínar í meginpuntk kvikmyndar. Bestu dæmin um þetta eru Annie Hall og Husbands and Wives. Hann hefur oftar en ekki sótt einmitt efni mynda sinna í eigið einkalíf og prívatkrísur tilverunnar sinnar, oftast nær með snilldarhætti.

Skilnaður Allens við leikkonuna Miu Farrow í upphafi tíunda áratugarins varð stormasamur. Þau voru eitt af lykilpörum kvikmyndaheimsins á níunda áratugnum og léku saman í um tíu kvikmyndum. Sambandinu lauk með hvelli árið 1992, skömmu áður en Husbands and Wives, sem með kostulegum hætti lýsti aðstæðum þeirra með þeim í aðalhlutverkum, var frumsýnd. Fjallaði hann ítarlega um sambandsslitin við Miu Farrow í sjálfsævisögu sinni The Unruly Life of Woody Allen sem er snilldarvel skrifuð og segir þar á athyglisverðan hátt frá þessu máli. Er þessi bók alveg mögnuð og gaman að lesa að hana, þar segir hann frá málaferlunum, skilnaðinum, fjölmiðlafárinu, persónu sinni og skoðunum á lífinu og tilverunni almennt.

Woody Allen er hiklaust einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna. Hann hefur gert heimaborg sína, New York, að umgjörð bestu kvikmynda sinna og sýnir henni mikla tryggð - svo fallega og undurljúft að athygli hefur vakið. Allen stendur framarlega í flokki helstu snillinga kvikmyndaheimsins á seinustu áratugum. Engum hefur sennilega tekist öðrum fremur að fanga athygli kvikmyndaunnenda, annaðhvort með því að heilla þá eða valda hneykslan þeirra og ná ennfremur fram því allra besta frá leikurum sínum, oftar en ekki hafa leikarar í myndum hans hlotið óskarsverðlaunatilnefningar. Hann er sannkallaður meistari kvikmyndaheimsins í byrjun nýrrar aldar.

Umfjöllun SFS um feril Woody Allen (2003)

Saga dagsins
1949 Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á Alþingi - mikil mótmæli urðu vegna þess við Alþingishúsið við Austurvöll og í fyrsta skipti í sögu landsins var táragasi beitt á mannfjölda á útifundi.
1955 Leikkonan Grace Kelly hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Georgie Elgin í The Country Girl - hún var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum. Hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún kvæntist Rainier III fursta af Mónakó, 1956. Eftirsjá þótti af henni af hvíta tjaldinu. Grace fórst í bílslysi í Mónakó í september 1982, 53 ára að aldri.
1981 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, særðist lífshættulega í skotárás fyrir utan Hilton hótelið í Washington. Geðbilaður maður, John Hinckley, skaut sex skotum að forsetanum og lífvörðum hans er forsetinn var að yfirgefa hótelið eftir að hafa flutt ræðu. Skaut hann blaðafulltrúa forsetans, James Brady, í höfuðið og slapp hann naumlega lifandi frá skotárásinni. Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington-spítala til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu í skurðaðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvöl. Bush varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu landsins þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans - sat á forsetastóli til 1989 og lést 2004.
1992 Leikararnir Sir Anthony Hopkins og Jodie Foster hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á mannætunni Hannibal Lecter og alríkislögreglukonunni Clarice Starling í myndinni The Silence of the Lambs. Hopkins er einn af bestu leikurum Breta og hefur átt stórleik í fjölda kvikmynda á löngum ferli og verið öflugur sviðsleikari ennfremur. Foster er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og átt margar glæsilegar leikframmistöður og hlaut óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í The Accused.
2002 Elísabet drottningarmóðir, ekkja George VI Englandskonungs og móðir Elísabetar II drottningar, lést í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri. Eiginmaður hennar, George VI, var konungur Englands í 16 ár, frá 1936 til dauðadags 1952. Frá þeim tíma var drottningin titluð drottningamóðir af hálfu krúnunnar. Á þeim fimm áratugum sem hún lifði eiginmann sinn var Elísabet einn öflugasti fulltrúi krúnunnar og var vinsælust af meðlimum konungsfjölskyldunnar. Hún sinnti mörgum verkefnum þá rúmu átta áratugi sem hún var fulltrúi fjölskyldunnar.

Snjallyrðið
Money is better than poverty, if only for financial reasons.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)