Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 apríl 2006

Elísabet II Englandsdrottning áttræð

Akureyri

Elísabet II Englandsdrottning er áttræð í dag. Enginn vafi leikur á því að hún sé ein valdamesta konan í sögu mannkyns og sú kona sem mestan svip hefur sett á mannlífið á 20. öld um víða veröld. Margt hefur verið rætt og ritað um þessa merku konu og valdaferil hennar. Ungri var henni falið það lykilverkefni að leiða enska heimsveldið og tók við bresku krúnunni við erfiðar aðstæður, aðeins 25 ára gömul. Til fjölda ára hefur hún leitt England af krafti og verið táknmynd landsins og fulltrúi þeirra. Á þeim tíma hefur verið deilt um konungsveldið og hvort það sé á fallanda fæti eða hafi styrkst í tíð hennar. Um það deilir þó enginn að drottningin hefur helgað ævi sinni í verk í þágu lands síns og lagt mikla elju í að leiða þjóðina af krafti, enda hefur hún notið virðingar hennar og stuðnings í öllu því sem skekið hefur fjölskyldu hennar.

Elizabeth II Englandsdrottning fæddist þann 21. apríl 1926. Þá hefði fáum órað fyrir að hún ætti eftir að verða drottning Englands. Föðurbróðir hennar, Edward, var enda ríkisarfi og þótti allt stefna í að ekki kæmi til þess að Albert bróðir hans og afkomendur hans tækju við krúnunni. Er Elísabet var tíu ára að aldri lést afi hennar, George konungur, og Edward varð konungur í hans stað. Áður en árið 1936 var liðið hafði hann beðist lausnar frá krúnunni. Hann gat ekki gifst konunni sem hann vildi, hinni tvífráskildu Wallis Warfield Simpson, og haldið embættinu um leið. Hann valdi Wallis við mikla gremju móður hans og nánustu ættingja. Í desember 1936 varð því Albert bróðir hans konungur í hans stað og Elizabeth varð krónprinsessa Englands. Albert tók sér titilinn George eins og faðir hans og tók við krúnunni með eiginkonu sína, Elizabeth Bowes-Lyon (sem hann giftist árið 1923), sér við hlið.

George og Elizabeth öðluðust virðingu allrar þjóðarinnar með framgöngu sinni í seinni heimsstyrjöldinni og samhent fjölskyldulíf þeirra og dætra þeirra, Elizabeth og Margaret, var virt af öllum landsmönnum. Hinsvegar voru Edward og kona hans Wallis hötuð af landsmönnum og þeim var að mestu úthýst í fjölskyldunni meðan bæði lifðu, þó svo að þau yrðu bæði grafin í Windsor er yfir lauk. Langt um aldur fram brast heilsa George konungs og hann greindist með krabbamein (sem var haldið leyndu allt þar til yfir lauk og lengur en það í raun). Svo fór undir lok ársins 1951 að hann var allverulega farinn að láta á sjá og ekki varð lengur dulið heilsuleysi hans. Fráfall hans kom þó fyrr en mörgum óraði fyrir. Hann varð bráðkvaddur í Sandringham-höll í janúar 1952. Þá voru Elizabeth og maður hennar, Philip hertogi (sem hún giftist árið 1947) stödd í opinberri heimsókn í Kenía.

25 ára gömul varð Elizabeth drottning Englands og tókst á við hið áhrifamikla embætti með sínum hætti. Þau hjón eignuðust fjögur börn: Charles, Anne, Andrew og Edward. Hún hefur nú setið á valdastóli á Englandi í 54 ár og vantar aðeins 10 ár upp á að slá valdamet formóður sinnar, Victoriu drottningar, sem ríkti í 64 ár og var það tímabil nefnt Viktoríutíminn. Þeim fer auðvitað fækkandi þeim Bretum sem muna aðra tíma en þá að drottning sé handhafi krúnunnar og hennar valdatímabil er auðvitað fyrir löngu orðið sögulegt. Krúnan hefur breyst mikið á valdatímabilinu en að mörgu leyti ennfremur orðið litríkari. Tíðarandinn er enda allt annar nú en þegar að hin 25 ára gamla drottning tók við völdum árið 1952. Drottningin hefur þó erft góða heilsu móður sinnar, er lifði í hálfa öld lengur en eiginmaður hennar, sem lést í marsmánuði 2002.

Til fjölda ára hefur verið rætt um það opinberlega á Bretlandseyjum hvenær að drottningin myndi láta af embætti og Karl sonur hennar taka við krúnunni. Ef marka má stöðu mála er það ekki að fara að gerast strax að Karl verði konungur Englands. Sumir hafa þó leitt líkum að því að William sonur hans verði konungur er amma hans víkur af valdastóli. Svo er það auðvitað inni í myndinni að drottningin sitji til dauðadags. Ef marka má góða heilsu móður hennar og hversu ern drottningin er á áttræðisafmælinu blasir við að hún ríki í Englandi lengi enn og muni því jafnvel verða við völd í meira en sex áratugi.

Umfjöllun BBC um afmæli drottningar