Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 apríl 2006

Hu Jintao og stjórn hans mótmælt í Washington

Hu Jintao

Hu Jintao forseti Kína, leiðtogi einræðisstjórnarinnar í Peking, er nú í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Bandaríkjunum. Á fimmtudaginn tók George W. Bush forseti Bandaríkjanna, á móti Jintao við athöfn á suðurflöt Hvíta hússins. Til tíðinda dró þar vegna mótmælaaðgerða fólks sem þar var komið til að mótmæla mannréttindabrotum yfirvalda í Kína. Hæst náðu þau er kona að nafni Wang Wenyi sem var í hópi fréttaljósmyndara, og að auki félagi í samtökum Falun Gong, gerði hróp að Hu. Kallaði Wang upphátt svo vel heyrðist að Falun Dafa væri góð. Wenyi var með fréttapassa fyrir Epoch Times, blað sem Falun Gong stofnaði í Bandaríkjunum. Hún er meinafræðingur að mennt og hefur t.d. rannsakað fullyrðingar Falun Gong um að þúsundir félaga í samtökunum hafi látið lífið í fangabúðum í Kína og líffæri úr þeim hafi verið seld - kínversk stjórnvöld vísa því á bug.

Er mikið gleðiefni að þessi rödd hafi komið fram í þessari heimsókn leiðtoga einræðisaflanna í Kína til Bandaríkjanna. Það er enda mikilvægt að talað sé máli mannréttinda og sérstaklega á það við hvað varðar Kína þar sem mannréttindi eru virt að vettugi æ ofan í æ. Það var einmitt það sem við ungliðar í öllum flokkum gerðum fyrir nokkrum árum þegar að leiðtogar þessarar stjórnar mætti hingað til landsins. Það var nauðsynlegt að láta rödd mannréttinda heyrast er bæði Li Peng og Jiang Zemin komu hingað. Það voru kraftmikil mótmæli sem eftir var tekið. Það er enda ekki óeðlilegt þó að mannréttindasinnar láti hug sinn á verkum kommúnistastjórnarinnar í Peking í ljós. Fyrst og fremst vorum við að tjá andstöðu okkar á þessum mönnum vegna þess hvernig komið var fram þann 4. júní 1989 þegar að kommúnistastjórnin í Peking murkaði lífið úr stúdentum.

Við metum öll að ég tel mikils að njóta mannréttinda og vildum mótmæla þeim sem slátruðu stúdentunum þennan júnídag - fólk á okkar aldri sem var að berjast fyrir mannréttindum og frelsi. Það vildi eflaust eins og við öll hafa kosningarétt - rétt á því að segja skoðanir sínar. Það ákall þeirra var barið niður. Við vorum fyrst og fremst að tala gegn meðferð þessara einræðisherra á ungu fólki í Peking árið 1989. Ég hef alltaf fundið til með því fólki sem var drepið þennan júnídag fyrir sautján árum. Það er ekki annað hægt. Þetta var ungt fólk sem vildi hafa kosningarétt - rétt til að segja sínar skoðanir og vera frjálst. Það frelsistal þeirra og ákall á breytingar var barið niður - traðkað á þeim með skriðdrekum. Persónulega met ég kosningaréttinn allra hluta mest í tilverunni. Með honum getum við haft svo gríðarleg áhrif. Ég skil vel afstöðu stúdentanna í Kína og ég held að við öllum skiljum fyrir hverju þau voru að berjast.

Hvernig það ákall þeirra var barið niður er okkur öllum umhugsunarefni. Það er enda engin tilviljun að ungt áhugafólk um stjórnmál og frjáls skoðanaskipti tjáði andstöðu gegn bæði Peng og Zemin. Við sem tilheyrum ólíkum flokkum sýndum samstöðu í að tala gegn þessum einræðisherrum frá Kína og fórum samhent í mótmæli í Reykjavík gegn þeim. Ég er fyrst og fremst að mótmæla því auðvitað að það er ekki kosningaréttur í Kína - þar er ekki skoðanafrelsi. Fólk er barið niður sýni það vilja til að tjá sínar skoðanir. Staðan í Kína er auðvitað skelfileg og hefur því miður ekki mikið batnað frá árinu 1989. Það er skylda okkar að tala gegn þeim sem traðka á sjálfsögðum kosningarétti fólks. Þar sem ekki er kosningaréttur er einræði. Gegn því var ég auðvitað að tala og við öll sem mótmæltum fyrir sex og fjórum árum svo eftir var tekið.

Ég er talsmaður skoðanafrelsis. Við sem tilheyrum ólíkum flokkum sýndum samstöðu í að tala gegn þessum einræðisherrum frá Kína - það var styrkleikamerki fyrir okkur öll. Með þessu sýndum við enda vel þessum leiðtogum hver hugur ungra Íslendinga var á þeim og stjórninni sem þeir tilheyrðu - stjórn sem drap stúdenta fyrir það eitt að kalla á sjálfsagðan kosningarétt og frelsi til að tjá eigin skoðanir. Því er auðvitað ekki annað hægt en að fagna því að sama rödd sé Jintao sýnileg í Bandaríkjaför hans.