Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 apríl 2006

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins á Akureyri kynnt

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Á blaðamannafundi í Kaupangi kl. 15:00 í dag kynntum við sjálfstæðismenn á Akureyri helstu stefnumál okkar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Efstu sex frambjóðendur listans kynntu helstu punkta stefnuskrár okkar og svöruðu spurningum fjölmiðlamanna að því loknu. Eftir fréttamannafundinn sendi ég út eftirfarandi fréttatilkynningu til fjölmiðla, sem birtist ennfremur samhliða á vef okkar, www.islendingur.is:


Mjög sterk málefnastaða og metnaðarfull stefnuskrá

Kjörorð okkar sjálfstæðismanna á Akureyri í komandi kosningabaráttu er eitt - og aðeins eitt: ÁFRAM! Þetta er sennilega þekktasta hvatningarorð íslenskrar tungu og engin tilviljun að það varð fyrir valinu. Fyrir 8 árum hétum við Sjálfstæðismenn því að rjúfa þá kyrrstöðu, sem ríkt hafði á Akureyri um langt skeið, ef kjósendur veittu okkur umboð til þess. Það umboð fengum við og höfum síðan látið verkin tala. Forysta okkar í málefnum sveitarfélagsins hefur ekki einungis verið farsæl heldur jafnframt sókndjörf og hefur skilað Akureyrarkaupstað í úrvalsdeild sveitarfélaga.

Stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna fyrir næsta kjörtímabil er mjög metnaðarfull og þar er að finna mikinn fjölda góðra verkefna sem við hyggjumst hrinda í framkvæmd næstu fjögur árin.

Meðal nokkurra af helstu stefnumálum okkar má nefna:

· Verndum unga fólkið! Ítarleg stefnuskrá um aukið forvarnastarf.
· Eflum skólana - Þróunarstarf og nýbreytni í skólastarfi.
· Beinskeyttar aðgerðir í atvinnumálum: Skattalækkun á fyrirtæki - rannsóknasjóður og nýsköpunarsjóður.
· Lægstu leikskólagjöldin á landinu.
· Auknar niðurgreiðslur til foreldra barna í íþrótta- og tómstundastarfi

· Frítt í strætó frá og með árinu 2007.
· Efla ferðaþjónustuna og fjölga afþreyingarmöguleikum fyrir íbúa og gesti bæjarins: Fjölskyldugarður - Kláfur í Hlíðarfjall - Glerárlaug opin allt árið - Ný skíðalyfta ofan við Fjarkann í Hlíðarfjalli - Fimleikahús - Reiðhöll.
· Uppbygging miðbæjarins.
· Eyjafjörður verði miðstöð Norðaustur siglingaleiðarinnar.
· Lenging flugbrautar Akureyrarflugvallar og stækkun flugstöðvarinnar - Miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Reykjavík.

· Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist árið 2007.
· Fjölbreytt rekstrarform bæjarstofnana.
· Forræði öldrunarmála alfarið frá ríkinu yfir til sveitarfélagsins.
· Tryggja fjölbreyttari búsetukosti fyrir 60+
· Aukið íbúalýðræði.
· Háskólinn á Akureyri efldur með auknum stuðningi við Þekkingarvörður ehf og skóla endurnýjanlegra orkugjafa.

Þetta eru einungis örfá af þeim verkefnum sem við munum vinna á komandi kjörtímabili, ef við fáum til þess umboð kjósenda. Við höfum sýnt það í verki að við látum okkur ekki nægja að gefa "kosningaloforð" heldur efnum við þau líka! Við göngum því bjartsýn til kosninga og óskum eftir að fá ÁFRAM umboð kjósenda til þess að veita bæjarstjórn Akureyrar forystu. Við segjum: Höldum ÁFRAM að gera góðan bæ enn betri.


Fréttatilkynning frá D-lista Sjálfstæðisflokks fimmtudaginn 27. apríl 2006.