Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 júní 2006

George H. W. Bush kemur til Íslands

George H. W. Bush

Ef marka má fréttir nú síðdegis er George Herbert Walker Bush, 41. forseti Bandaríkjanna, að koma til Íslands í heimsókn dagana 4. - 7. júlí nk. í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. George H. W. Bush er 82 ára að aldri - hann var forseti Bandaríkjanna árin 1989-1993 og var eftirmaður Ronald Reagan á forsetastóli. Bush var varaforseti í forsetatíð Reagans árin 1981-1989. Hann varð fyrsti sitjandi varaforseti Bandaríkjanna í rúm 150 ár sem var kjörinn forseti og sá eini síðan reyndar. Hann kom í opinbera heimsókn til Íslands vorið 1983, þá sem varaforseti.

George H. W. Bush kom aldrei til Íslands í forsetatíð sinni. Frá því að Ronald Reagan kom hingað til lands á leiðtogafund stórveldanna haustið 1986 hefur aðeins einn kjörinn forseti Bandaríkjanna komið til landsins en það var Bill Clinton, sem kom hingað í eftirminnilega heimsókn í ágústmánuði 2004. Sú ferð var mjög merkileg fyrir margra hluta sakir, einkum vegna þess að Clinton lét allar ráðleggingar um mikla öryggisvernd sem vind um eyrun þjóta og labbaði um miðbæinn, fékk sér pylsu, fór í bókabúðir og handverksverslun svo fátt eitt sé nefnt. Sérstaklega kynnti hann sér sögu Þingvalla með ferð þangað. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áherslu Bush eldri leggur í ferð sinni.

Ef marka má fréttatilkynningu um komu hans mun hann ætla að sitja kvöldverðarborð forseta Íslands á Bessastöðum að kvöldi þjóðhátíðardags Bandaríkjanna þann 4. júlí og fara víða til að kynna sér land og þjóð. Með honum í för verða nokkrir vinir hans, þar á meðal Sig Rogich sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í forsetatíð hans. Bush hyggst sérstaklega ætla að halda til laxveiða í boði Orra Vigfússonar formanns Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF). Bush hefur lengi verið eindreginn stuðningsmaður stuðningsmaður slíkrar verndar.