Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 júlí 2006

Spjall um bæjarmálin á hásumri

Sigrún Björk og Baldvin

Á fimmtudaginn var NFS með útsendingar héðan úr miðbænum á Akureyri og voru þar mjög athyglisverð viðtöl og dagskrá fyrir utan kaffihúsið Bláu könnuna í Hafnarstræti (besta kaffihúsið í bænum). Voru þaðan send út t.d. hádegisviðtalið og Ísland í dag. Þar sem að ég var staddur í Reykjavík allan fimmtudaginn var áhugavert fyrir mig að horfa á þessi viðtöl þegar að heim til Akureyrar var komið í gær. Fyrst af öllu horfði ég á viðtal Björns Þorlákssonar við Jóhannes Jónsson, athafnamann og stofnanda Bónus. Fóru þeir yfir fjölda mála í um 15 mínútna löngu viðtali sem tekið var í blíðunni í göngugötunni. Jóhannes rekur nú einar fjórar matvöruverslanir hér á Akureyri og nýlega opnaði hann aðra 10-11 verslunina í bænum: í hinu sögufræga húsi Hamborg, eins og fyrr hefur verið nefnt hér á vefnum. Var þetta gott viðtal.

Ísland í dag var sent út að öllu leyti um kvöldið frá Bláu könnunni. Í upphafi þáttarins fóru spyrlarnir, Friðrika og Sindri, yfir bæjarmálin með Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, forseta bæjarstjórnar og starfandi bæjarstjóra, og Baldvini H. Sigurðssyni, leiðtoga VG í bæjarstjórn Akureyrar. Var þar að mestu leyti rætt um málefni íþróttavallarins og miðbæjarskipulagið. Var þetta frekar tilþrifalítil umræða og farið á nokkru hundavaði yfir hana að því er mér fannst og var eiginlega hissa á að ekki væri hægt að fá eiginlega meira kjöt á beinin. Baldvin hefur reyndar löngum verið frekar þekktur fyrir skondinn húmor sinn frekar en beina snilli sína í pólitísku innsæi eða töktum. Finnst hann enn vera í kosningagírnum þar sem fimmaurabrandararnir voru mjög áberandi. Þó var hann nokkuð lifandi í þessu viðtali og skaut frá sér í allar áttir.

Baldvin lét vaða og tók fyrir Háskólann á Akureyri og aðkomu menntamálaráðherra að honum og svo málefni björgunarþyrlanna en hann hefur einn bæjarfulltrúa bæjarstjórnar Akureyrar mótmælt með afgerandi hætti því að fyrir liggi drög að því að engin björgunarþyrla eigi að vera staðsett á Akureyri. Má sennilega segja að hann sé eini bæjarfulltrúinn sem hefur verið áberandi í umræðunni eftir kosningar, ef undan eru skildir þeir bæjarfulltrúar sem hafa verið staðgenglar bæjarstjóra í sumarleyfi hans. Lítið hefur heyrst til minnihlutans, ef undan er skilið fjölmiðlatal Baldvins og segja má að Framsóknarflokkurinn og Listi fólksins séu heillum horfnir í minnihluta, eftir verulegt fylgistap í kosningunum fyrir tveim mánuðum. Er alveg greinilegt að VG stefnir að því að verða akkeri hins lífvana minnihluta.

Sigrún Björk

Sigrún Björk Jakobsdóttir hefur verið starfandi bæjarstjóri hér á Akureyri seinustu vikurnar, í sumarfríi Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, og Hermanns Jóns Tómassonar, formanns bæjarráðs og leiðtoga Samfylkingarinnar. Sigrún Björk hefur setið í bæjarstjórn Akureyrar í fjögur ár og tók við af Þóru Ákadóttur sem forseti bæjarstjórnar við upphaf kjörtímabilsins í síðasta mánuði. Hún skipaði annað sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum og var sú eina utan Kristjáns Þórs Júlíussonar sem hlaut bindandi kosningu í frægu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í febrúar, þar sem ungliðum og hægrikrötum voru sendar frekar kaldar kveðjur frá flokksmönnum. Var það mjög athyglisvert prófkjör í öllu tilliti - sem og verður lengi í minnum haft.

Hefur Sigrún Björk verið áberandi í fjölmiðlum í gúrkutíðinni og farið yfir þau mál sem hæst standa. Annars verður að segja að rólegt hefur verið yfir bæjarmálunum seinustu vikur, enda var enginn bæjarstjórnarfundur haldinn nú í júlímánuði enda var ekkert til að fylla dagskrá og fara þar yfir. Var ég svolítið hissa að ekkert var í spjallinu við Bláu könnuna farið yfir væntanlegt kjörtímabil og t.d. forystumál innan meirihlutans í ljósi sífellt meiri orðróms um að bæjarstjóri hyggi á þingframboð í kosningum að vori. Fari það svo að orðrómurinn sé sannur um að bæjarstjóri hyggi á þingframboð verður fróðlegt að sjá hvað muni taka við innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og flestir vita er enda um það samið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bæjarstjórastólinn til sumarsins 2009.

Fari bæjarstjórinn í þingframboð verður hann varla bæjarstjóri alveg fram að alþingiskosningum í umboði Samfylkingarinnar, sem vantar svo sannarlega skotfæri í veikri stjórnarandstöðu sem víðast um allt land og þá væntanlega einmitt gegn Sjálfstæðisflokknum, hér í kjördæminu sem og annarsstaðar. Fari svo að uppstokkun verði hljóta stjórnmálaáhugamenn hér á Akureyri að velta vöngum yfir því hvernig sjálfstæðismenn velja í forystuembætti sín í ljósi bæjarstjóraskipta. Það eru aðalspurningar stjórnmálanna á Akureyri þessar sumarvikurnar að mínu mati og undarlegt að vanir spyrlar fari ekki neitt yfir þau mál, þó hásumar sé.

Reyndar bíða sennilega flestir fjölmiðlar eftir því að bæjarstjóri komi úr sumarfríi sínu nú eftir helgina og ljóst verði hvort hann stefni að því að verða bæjarstjóri til ársins 2009 og formaður bæjarráðs síðar meir eða söðla algjörlega um nú og yfirgefa forystu bæjarmálanna. Það er svo sannarlega nóg framundan í bæjarmálunum á Akureyri og ég spái því að nóg verði um að tala næstu vikurnar. Það er alltaf skemmtilegra að fylgjast með stjórnmálunum þegar að nóg er af tíðindum.